16.05.1949
Neðri deild: 110. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (1041)

184. mál, hlutatryggingarsjóður bátaútvegsins

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Eins og hv. þm. Ísaf. tók fram, þá vorum við þrír nm. í sjútvn. sammála um að afgreiða þetta frv., enda hafði hæstv. ríkisstj. lofað, að lög skyldu sett, er tryggt gætu að einhverju leyti hag bátaútvegsins í framtíðinni. Ég sá mér þó ekki annað fært en að bera fram brtt. við frv., eins og það nú kemur frá hv. Ed., og er þá fyrst að geta þess, að ég legg áherzlu á, að tekjuöflunin skv. 9. gr. verði færð í hið upphaflega horf, eða 1% af óskiptum afla. Nú er hins vegar gert ráð fyrir að taka 1/2% af útflutningsverðmæti aflans og svo framlag ríkissjóðs til jafns á móti. Með þessu er sýnt, að tekjuöflunin til sjóðsins er stórlega skert, og verða tekjurnar miðað við vertíðina s.l. sumar ekki nema 2 millj. kr., en skv. brtt. mínum yrðu þær yfir 3 millj. kr. Hins vegar má segja, að það sé einnig ekki nógu mikið, því að talið er, að árleg tekjuöflun sjóðsins megi ekki vera undir 4 millj. kr. Varðandi það, sem hv. þm. Ísaf. sagði, að ef brtt. mínar yrðu samþ., þá yrði innheimtan allt of erfið, þá sé ég ekki, að það hafi við svo mikil rök að styðjast. Aflinn er annaðhvort hraðfrystur eða verkaður sem saltfiskur, og ef hann er hraðfrystur, þá geta hraðfrystihúsin haldið eftir hinum ákveðna hundraðshluta, en ef hann er saltaður, þá má í gegnum S.Í.F. innheimta gjaldið, eins og nú eru innheimt ýmis gjöld, er á útgerðinni hvíla. Því held ég, að ekkert það hafi fram komið, sem telja megi ástæðu til þess, að brtt. mínar verði felldar. Um brtt. hv. þm. Siglf. fjölyrði ég ekki, en get ekki fallizt á þær. Hvað það snertir að afla sjóðnum tekna með álagi á verzlunarstéttina, þá tel ég það fjarstæðu. Sá tími er liðinn, að þessi atvinnugrein sé svo arðsöm, að ekki megi vel á halda, ef hún á að ganga hallalítið eða hallalaust. Og ég tel ekkert réttlæti í að rökstyðja þetta með því, að verzlunarstéttin fái þann gjaldeyri, sem sjómennirnir afla. Það mætti þá færa þetta gjald yfir á neytendur almennt, því að þeirra vegna er gjaldeyrinum eytt. Till. hv. þm. Siglf. er því hreinasta fjarstæða, hvernig sem á hana er litið. Eins og frv. er nú, með 1/2% gjaldi af afla bátaflotans, þá verður útkoman sú, að tekjur af því verða ekki nema um 1 milljón og með jöfnu framlagi ríkissjóðs um 2 milljónir. Með svo litlu fé kemur sjóðurinn ekki til með að geta rækt sitt hlutverk. Hins vegar mundi hann ná tilgangi sínum, ef till. mín væri samþ.

Hin till. á þskj. 769 er minna virði. Brtt. við 10. gr. er meira leiðrétting. Ég geng út frá, að átt hafi að miða við verðmæti meðalafla, þegar um uppbót úr sjóðnum væri að ræða. Það er allt annað t.d., hvort veiddur er koli eða annar fiskur, sem ekki er nærri jafnverðmætur. Ég legg því til, að í staðinn fyrir orðið „meðalafla“ í 10. gr. komi „verðmæti meðalafla“. Skal ég svo ekki orðlengja þetta frekar. Ég hef enga tilhneigingu til málþófs um þetta efni, þar sem fáir dagar eru nú þar til þingi skal slíta og ég veit, að hæstv. ríkisstj. vill hraða þessu máli af þeim ástæðum.