16.05.1949
Neðri deild: 110. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (1042)

184. mál, hlutatryggingarsjóður bátaútvegsins

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég vil þakka n. afgreiðslu þessa máls og vil taka undir það með hv. frsm. og 2. þm. N-M., að ríkisstj. er það mikið í mun, að málið nái fram að ganga, og vildi mega vænta þess, að brtt., sem ætla mætti, að illa yrði tekið í Ed., yrðu ekki samþ. í þessari hv. deild. Það er hart að vísu, að mæla á móti 1. brtt. hv. þm. N-M., því að það, sem hún fjallar um, var einmitt orðað þannig í frv. eins og ég lagði það fyrir Alþ. En hætt er við, að brtt. yrði ekki vel tekið í Ed. Ég fellst á ýmislegt af rökum hv. þm. NM. í hans mjög svo skynsamlegu ræðu. Og að því er snertir hina brtt. hans, þá tel ég hana nauðsynlega. — Að öðru leyti vil ég ekki blanda mér inn í deilur um málið, en tel nauðsynlegt, að frv. verði staðfest af Alþ. nú; og það er eins og hv. þm. Ísaf. sagði, að hvernig sem frv. yrði afgreitt, er ósköp líklegt, að það mundi ekki líða á löngu, unz um það þyrfti að bæta að nýju hvort sem væri.

Sigurður Kristjánsson: Herra forseti. Ég get tekið undir það, sem hv. frsm. sagði í upphafi, að mál þetta hlýtur að fara til endurskoðunar mjög fljótlega. Það er venjulega svo, þegar um alger nýmæli er að ræða. Hins vegar get ég ekki stillt mig um að láta í ljós þá skoðun mína, sem án alls vafa er rétt, að frv. þetta hefur ekki neina þýðingu til bjargar útveginum. Ég er ekki svo mikið barn, að ég láti mér detta í hug, að þetta tryggi aflahlutinn. Ég veit ekki betur en við höfum alltaf verið að baksa við þetta og hæstv. ríkisstj. hlaupið undir bagga með að bjarga lágum hlutum sjómannanna og aldrei mælt í minni upphæðum en 5 – 7 – 10 millj. króna. Og svo á að fara að stofna hér sjóð í þessu skyni upp á 2 millj.! Ég man, að fyrir mörgum árum — í gamla stríðinu — kom maður að máli við mig og sagði mér, að hann ætlaði til útlanda að kaupa skip, og bað mig um eina krónu. Mér finnst þetta hliðstætt. Eins og ég sagði, þá hefur aldrei þurft að verja minna fé í þessu skyni en 5 millj., en nú eiga allt í einu að duga 2 millj. Ég verð að segja, að mig alveg undrar þetta. Er ekki betra að láta þetta kyrrt liggja heldur en að gera sig að undri með slíkum samþykktum?

Þegar hæstv. fjmrh. var að undirbúa þetta frv., var ég kallaður til ásamt öðrum, og gerðum við þá ráð fyrir 6 millj. Við vorum ekki í neinum vafa um, að það væri helzt til lágt, og heyrðum það líka frá útvegsmönnum, að þeir mundu blása á það og telja það einskis virði. Nú er sem sagt gert ráð fyrir 2 millj. En það er þó kannske ekki aðalatriðið, heldur hitt, að það er komið út af tryggingagrundvellinum og yfir á styrkjagrundvöllinn. Menn eru nú orðnir svo ruglaðir af styrkjapólitíkinni, sem rekin er á öllum sviðum, að menn gera ekki lengur neinn mun á þessu tvennu.

Ég hef nú haft kynni af þessu máli áður. Fyrir rúmum 10 árum flutti ég frv. um aflatryggingar á 3–4 þingum, en þeim var alltaf komið fyrir kattarnef með undirhyggju, enda þótt vinsamlega væri á þeim tekið. Hér voru þá flokkar á þingi, sem ekki báru hlýjan hug til útvegsins, og galt frv. þess. Nú þýðir ekki að sakast um orðinn hlut, en ef Alþ. hefði þá litið ópólitískt á þetta mál, þá væri nú til sjóður í þessu skyni, sem næmi sjálfsagt meiru en 10 millj. kr. Þessi frv. mín voru byggð á tryggingagrundvellinum, og ég heyrði því aldrei hnekkt af neinum, að það væri rétt og eðlilegt, en hugsunin er þar sú, að þeir, sem tryggðir eru, leggi sjálfir eitthvað af mörkum. Þegar nú á að afla teknanna frá allt öðrum en þeim, sem á að tryggja, er komið yfir á styrkjagrundvöllinn, og yfir á hann á að fara hér nú. Það er árangurinn af hugsunarhætti, sem Alþ. hefur mjög stuðlað að, að skapa, að stéttirnar eigi ekki að tryggja sig sjálfar, heldur eigi aðrir að sjá fyrir þeim. Það hefur verið unnið fast og skipulega að því að drepa áhuga manna fyrir því að bjargast upp á eigin spýtur. Það er ekkert sérstakt fyrir útgerðina, það er svo alls staðar.

Þegar ríkisstj. tók ábyrgð á sölu sjávarafurða og tryggði mönnum hærra verð en vonir stóðu til, að þær yrðu seldar fyrir, þá var numinn burtu allur áhugi hjá þeim, sem sjóinn stunduðu, til þess að ná hærra verði. Áður var það aðaláhugamál útgerðarmanna og skipshafnar, hvaða verð yrði unnt að fá fyrir vöruna. Nú er þessi áhugi tekinn burt. Svo komu kauptryggingarnar. Útgerðarmaðurinn á að nafninu til að ábyrgjast kaupið, en reyndin er sú, að ríkissjóði blæðir. Og með þessu móti er líka í burtu numið mikið af áhuga sjómannanna fyrir því að afla sem bezt. Þá hangir eitt eftir. Það er áhugi útgerðarmannanna sjálfra. Með þessu á nú svo að taka þann áhuga frá þeim að verulegu leyti. Hann á að fá tryggingu fyrir hlut, en leggur ekkert fram. Þeir, sem eiga að borga brúsann, eru fyrst og fremst þeir, sem kaupa útflutningsvöruna, og svo auðvitað hinn þrautpíndi ríkiskassi. Hér er sem sagt algerlega vikið frá tryggingagrundvellinum og yfir á styrkjagrundvöllinn. Það er nú ekki þýðingarlaust atriði, hvernig fer um kauptrygginguna. Það fór ég aldrei dult með, að ég áleit, að hlutatryggingin ætti að koma í stað kauptryggingarinnar. Nú á hún að haldast. En hver borgar svo kauptrygginguna? Útgerðarmenn, ef vel aflast, en ef illa fer, þá ríkissjóður, þessi sami brunnur, sem allir halda, að hægt sé að ausa endalaust úr.

Ég hef nú ekki tíma til þess að fara nánar út í þetta mál. Ég neitaði að vera með um afgreiðslu þessa máls, þegar ég sá, hvernig fara skyldi út af tryggingagrundvellinum og sjóðstofnunin var ekki annað en hégómi. Það kom, þetta frv., frá sjútvn. Ed. eins og rifið ræksni. Af því að ég tel stigið spor í rétta átt með brtt. hv. 2. þm. N-M. um að taka framlagið af óskiptum afla, mun ég greiða henni atkvæði mitt. Um nál. hv. minni hl. ræði ég hér ekki, þar sem hv. þm. Siglf. er ekki viðstaddur, enda þótt hann gæfi tilefni til gagnrýni. Frv. mun ég ekki greiða atkv., því að ég tel það einskis virði í þessu formi, en ég mun greiða atkv. með brtt. á þskj. 769.