16.05.1949
Neðri deild: 110. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í B-deild Alþingistíðinda. (1045)

184. mál, hlutatryggingarsjóður bátaútvegsins

Halldór Ásgrímsson:

Ég ætla með örfáum orðum að svara hv. þm. Ísaf. Mér skildist, að þessi hv. þm. vildi telja það rangt hjá mér, að útflutningsgjaldið, þetta háa prósent eins og það er hugsað nú, kæmi ekki niður á útgerðinni. Ég held, að hér sé um mikinn misskilning að ræða hjá þm., því að það hlýtur að fara svo, meðan ábyrgðarverðið er í gildi, að sjómenn hljóta að krefjast fullrar greiðslu á því opinbera verði, sem ákveðið er, og skilst mér þá, að ekki geti hjá því farið, að hraðfrystihúsin verði að taka á sig þennan frádrátt og þar af leiðandi bera uppi þetta háa prósent. Hins vegar kemur þetta, eins og ég sagði, niður á fiskeigendum sjálfum, þegar um saltfisk er að ræða. Ég benti á, að hér er um misræmi að ræða, þar sem í sumum tilfellum eru það útgerðarmenn og sjómenn, sem bæru uppi gjaldið, en í öðrum tilfellum aðrir aðilar. — Hv. þm. vildi halda fram, að ef samþ. yrði till. mín um 1% af óskiptum afla, mundi það verða meira gjald, en ef tekið yrði 1/2% af útflutningsverðinu. Ég held, að ástæðulaust sé að óttast slíkt, því að það geta ekki verið neinar deilur um það, að ef greiða á 1% af óskiptum afla, eru það sjómenn og útgerðarmenn, sem bera þetta gjald uppi og hlutfallslega við það, sem þeim ber af aflanum.

Hv. þm. talaði um, að það mundi valda miklum erfiðleikum að innheimta gjaldið á þann hátt, sem ég legg til, og taldi, að ástæðan fyrir þessari till. mundi vera ókunnugleiki minn í þessum efnum. Ég skal ekki bera saman kunnugleika okkar hv. þm. Ísaf. á sjávarútvegsmálum. Ég viðurkenni, að hann mun vera meiri til staðar hjá honum en mér. En ég vil leyfa mér að benda honum á, að það eru fleiri, sem hafa komið við þessa sögu en ég. Ég er hér að taka upp till., sem er sett inn í stjfrv. af mönnum, sem ég vænti, að hafi eins mikið vit á þessu og hv. þm. Ísaf. og ég geri ráð fyrir, að hafi haft góðan tíma til þess að athuga þetta mál. Ég vil því ekki fallast á, að þetta séu góð rök gegn till. minni.

Þetta vildi ég segja. Ég skal svo ekki tefja tímann meir né vekja neinar deilur í þessu máli.