10.05.1949
Neðri deild: 105. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í B-deild Alþingistíðinda. (1058)

195. mál, Marshallaðstoðin

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég skal nú reyna að svara nokkuð þeim atriðum, sem hv. 2. þm. Reykv. hefur helzt fundið þessu frv. til foráttu, og jafnframt fara nokkrum orðum um frv. almennt.

Hv. þm. finnur það helzt að frv., að hér er verið að fara fram á leyfi til þess að taka á móti framlagi frá Bandaríkjum Norður-Ameríku án endurgjalds. Hann telur, að við höfum verið vel efnuð þjóð eftir styrjöldina og því ekki þurft að leita til annarra um fjárhagslega aðstoð. Það út af fyrir sig hefði þessum hv. þm. átt að vera ljóst, að þegar um áramótin 1946–47 var fé þjóðarinnar til þurrðar gengið, af því að því hafði verið varið til stórfelldrar fjárfestingar, sem kostaði þjóðina mikið fé í erlendum gjaldeyri, sem þó nægði ekki til að ljúka þessum framkvæmdum til fulls. Þar á ofan bætist svo, að viðskiptajöfnuðurinn við Bandaríkin hefur alltaf verið okkur óhagstæður, því að við höfum alltaf þurft að kaupa þaðan meiri vörur, en við höfum getað flutt þangað. Fyrir styrjöldina var þetta einnig svona, þá gátum við ekki verzlað nema lítið við Bandaríkin, af því að við höfðum ekki aðstæður til að selja þeim nema lítið eitt af þeim vörum, sem við framleiddum og gátum flutt út, af þeirri ástæðu, að við vorum ekki samkeppnisfærir við aðrar þjóðir, sem höfðu sömu vöru á boðstólum. Það, að við gátum keypt svo mikið frá Bandaríkjunum meðan á styrjöldinni stóð, stafaði ekki af því, að við flyttum svo mikið þangað, heldur af því, að Bandaríkin höfðu þá samþ. láns- og leigulögin, sem eins og þessi lög, sem þau hafa samþ. núna nýlega, voru til hjálpar og aðstoðar þeim þjóðum, sem börðust á móti fasismanum í heiminum. Við nutum þess þá, eins og við njótum þess nú. Það má geta þess hér í þessu sambandi, innan sviga, að kommúnistar alls staðar í heiminum börðust þá eins og nú á móti því með hnúum og hnefum, þegar Roosevelt Bandaríkjaforseti 1941 reyndi að freista þess að taka upp baráttu gegn einangrunarsinnunum og afturhaldssinnum. En þá samþ. Bandaríkjaþingið að styrkja hann í þeirri baráttu. En hvað gerðu kommúnistar þá, allt fram til 22. júlí? Þá börðust þeir gegn láns- og leigulögunum, eins og þeir berjast nú gegn Marshallaðstoðinni. En þá skyndilega breyttist þetta. Þá voru þetta allt í einu orðin ágæt lög og kommúnistar orðnir stuðningsmenn þeirra laga. Það er þess vegna alveg auðséð, að andúð kommúnista á þessu máli stafar af því, að þeir hafa ekki tekið afstöðu til þess sjálfir. Eins mætti segja mér það nú, að hv. 2. þm. Reykv. réði ekki afstöðu sinni sjálfur í þessu máli, því að það er alveg eins með hann og kommúnista í öðrum löndum, það er tekin afstaða fyrir þá. En ef það kæmi nú einhver andblær að austan, þá mætti segja mér, að hv. þm. snerist ótt og títt, eins og kommúnistar gerðu alls staðar 1941.

Ég ætla svo ekki að fara lengra inn á þetta atriði, þó að það mætti miklu við bæta. En ég skal, af því að langt er liðið kvölds og margir þm. farnir heim, reyna að stilla mitt tal í hóf, en í stað þess skal ég fara nokkrum orðum um þær athugasemdir, sem þessi hv. þm. bar hér fram gegn samþykkt frv.

Í fyrsta lagi taldi hann, að skyldurnar væru það miklar, að það væri ekki einasta óviðkunnanlegt, heldur jafnvel stórhættulegt að taka við svona framlagi. Nú er það svo, að hér er um að ræða framlag án endurgjalds, en samkvæmt Marshallaðstoðinni er um þrenns konar framlög að ræða. Það er í fyrsta lagi lán, í öðru lagi er það skilyrðisbundið framlag og í þriðja lagi framlag án endurgjalds. Mestur hlutinn af því fé, sem við höfum fengið, er skilorðsbundið framlag, sem við höfum fengið í Bandaríkjadollurum fyrir andvirði vara, sem seldar hafa veríð til þátttökuríkja efnahagssamvinnunnar. Þessi framlög í dollurum voru fyrir vörur, sem seldar hafa verið til Evrópuríkjanna og voru einkum fiskur og fiskafurðir, lýsi og síldarmjöl, sem annars hefðu í bezta falli verið greiddar í sterlingspundum. Auk þess var tekið að láni 1948 2,3 milljónir dollara til þess að kaupa fyrir síldarbræðsluskip, verksmiðjuvélar, veiðarfæri og fleira til framleiðslustarfseminnar samkvæmt áætlun. Og ég er alveg hreint viss um það, að þessi lán eru þau hagkvæmustu og þénanlegustu, sem ríkissjóður hefur nokkurn tíma tekið, því að þau eru veitt með 2,5% ársvöxtum og eru veitt til 35 ára. Það þarf enga vexti að greiða af þessum lánum fyrr en 1952 og ekki heldur afborganir fyrr, en það er einnig gert ráð fyrir því, að lengri frestur verði gefinn, ef samkomulag verður um það milli viðkomandi aðila. Þetta framlag er ákaflega hentugt og þénanlegra en nokkurt annað. Þó ber að geta þess, að við getum ekki notað það til þess að borga vexti og afborganir af erlendum lánum með því. við hikuðum við lántöku vegna þess, að við héldum, að við ættum erfitt með að endurgreiða það lán á réttum tíma, og þess vegna: var farið fram á að fá framlag án endurgjalds, og nú höfum við fengið það, samtals 2,5 millj. dollara, og ég verð nú að segja það, að einhvern tíma hefði það nú þótt þakkarvert að fá slíkt framlag án endurgjalds til þess að tryggja framkvæmd þeirrar áætlunar, sem miðar að því að tryggja fjárhagslegt og atvinnulegt öryggi hér á landi. Þess vegna er í þessu sambandi sett ákvæði í frv., þar sem áskilið er, að féð verði eingöngu notað til byggingar á atvinnufyrirtækjum, og er þessi áætlun í stórum dráttum eins og segir á þskj. 657:.

1. Aukning fiskiflotans.

2. Aukning síldariðnaðarins.

3. Bygging lýsisherzluverksmiðju.

4. Bygging fiskimjölsverksmiðju.

5. Aukning kaupskipaflotans.

6. Aukning hraðfrystihúsanna.

7. Bygging skipasmíðastöðvar og þurrkvíar.

8. Kaup á landbúnaðarvélum og aukning ullarverksmiðju.

9. Bygging raforkuvera.

10. Bygging áburðarverksmiðju.

11. Bygging sementsverksmiðju.

12. Bygging kornmyllu.

Ég veit, að þetta eru allt aðkallandi mál, sem við getum ekki ráðizt í vegna takmarkaðrar gjaldeyrisgetu sem stendur og getur valdíð okkur talsverðum örðugleikum, nema því aðeins að þær aðstæður fáist, sem hér er um að ræða í frv. Ég tel þess vegna, að við þokumst mjög verulega fram á við að því marki, sem við höfum sett okkur, með því að taka þessu boði, því að ég tel, að lántakan og þetta framlag án endurgjalds hjálpi okkur nær því marki, sem við höfum sett okkur og hv. 2. þm. Reykv. hefur lýst yfir, að hann sé ekki mótfallinn, og auk þess er mikil þörf á erlendu fé til þess að. geta komið þessari áætlun í framkvæmd. Og ef það er þörf fyrir þessa peninga, er þá ekki miklu þægilegra að fá þá án þess að þurfa að borga þá aftur til baka? En það, sem hv. þm. setur fyrir sig, það er þessi særði metnaður hans af því að taka við gjöfum. En ég vil þá spyrja hv. þm., hvort við séum það miklu meiri menn en Englendingar, Danir, Frakkar, Hollendingar og fleiri þjóðir, sem allir hafa tekið á móti slíkum gjöfum, að við getum ekki tekið við þeim án þess að særa metnað okkar. Það var sagt hérna í upphafi, — ekki við umr. um þetta frv., heldur umr. um Marshallaðstoðina, — af þm. þess flokks, sem hv. 2. þm. Reykv. heyrir til, og í blöðum flokksins, að það, sem Bandaríkin ætluðu að láta okkur hafa samkvæmt Marshallsamningnum, væru aðeins þær vörur, sem offramleiðsla væri á í Bandaríkjunum og enginn markaður fyrir, það ætti að troða upp á okkur vörum, sem við hefðum ekkert að gera með. Hver hefur svo raunin orðið? Reynslan er sú, að við getum ekki fengið þær vörur frá Bandaríkjunum, sem hægt er að fá héðan úr þeim löndum Norðurálfunnar, sem eru aðilar að samningnum. Það er ekki verið að troða upp á okkur bílum eða tóbaki. Við höfum aðeins fengið þær vörur, sem okkur hefur lyst að kaupa, þó ekki, eins og ég sagði áðan, þær vörur, sem við getum fengið í Evrópu.

Marshallhjálpin er hugsuð til þess að gera þjóðirnar færari til þess að komast af án þess að hafa dollarahalla í viðskiptum sínum við Bandaríkin. Í stað þess að vera háðir Bandaríkjamönnum gera þeir allt til þess að losa okkur við að verða það. Efnahagshjálpin byggist á því að gera þjóðirnar svo efnahagslega óháðar, að þær geti komizt hjá því að hafa dollarahalla eftir 1952. Gegn þessari þróun og yfirleitt allri efnahagsþróun í Vestur-Evrópu hafa kommúnistar allra landa barizt, sýnilega samkvæmt einhverri yfirstjórn og eftir áætlun, því að baráttuaðferðirnar eru alls staðar eins. Þessi barátta kemur ekki til af því, að þeir séu hræddir um, að hjálpin geri okkur háða Bandaríkjum Norður-Ameríku, heldur óttast þeir, að þetta muni efla framleiðsluna, svo að afkoma þjóðarinnar verði betri og þar af leiðandi minni líkur til þess, að trúboð þeirra gangi að óskum. Það er þetta, sem baráttunni veldur.

Fyrir utan þennan særða þjóðarmetnað, sem hv. 2. þm. Reykv. taldi fyrstu ástæðuna til, að við skyldum ekki taka við þessu framlagi, þá taldi hann númer tvö óttann við þær skyldur, sem við mundum taka á herðar okkar með því að taka við framlaginu. Framlag án endurgjalds er fyrst og fremst gjaldeyrisstyrkur, það er fyrsti ávinningurinn. Annar ávinningurinn er svo sá, að andvirði þeirra vara, sem fengnar eru fyrir þennan erlenda gjaldeyri, í íslenzkum gjaldeyri er bundið innanlands, og má ekki ráðstafa því nema með samþykki Alþ. Það, sem hv. þm. óttast, er, að okkur kunni að verða settar þær skyldur, að ekki verði við hlítandi. En hvað er það þá, sem skeður að hans dómi? Það t.d., skildist mér, að þessir peningar yrðu ef til vill notaðir til þess að grynna eitthvað á skuldum ríkisstj. við Landsbankann. Ég held, að ég hafi skilið hann rétt og hann hafi átt við þetta. En yæri það nú svo óttalegt ef eitthvað af þessum peningum yrði notað til þess að lækka á skuldunum við Landsbankann? Mér finnst það nú reyndar ekki. Þessi jafnvirðissjóður hefur í Noregi og Englandi verið notaður til þess að grynna á skuldum viðkomandi stjórna við banka þar í landi eða aðrar lánsstofnanir, sem stj. hafa tekið lán hjá. Og ég sé ekkert á móti því, þótt það verði gert hér, en hins vegar hefur engin ákvörðun verið um þetta tekin. Það hafa engin tilmæli komið frá Landsbankanum um slíkt, og það er alveg opið til umræðu, hvort þetta fé verður notað til þess að greiða niður skuldir í Landsbankanum eða hvort það verður notað til einhverra framkvæmda innanlands. Og það eina, sem ég hef fengið að vita um hug Bandaríkjamanna í sambandi við þetta, er það, að ég hef spurt umboðsmann þessarar Marshallstofnunar um það, hvort þeir hafi nokkrar sérstakar till. að gera um notkun þessa jafnvirðissjóðs, og hefur hann svarað því, að svo væri ekki og að þeir skyldu fúslega taka til athugunar hverjar þær till., sem gerðar hefðu verið um notkun sjóðsins. En sjóðurinn er ekki aðalatriðið í þessu sambandi, heldur er það aðalatriðið að fá gjaldeyrinn til að geta keypt vörur. Ég vil segja, að ráðstöfun jafnvirðissjóðsins sé hreint aukaatriði í þessu sambandi, þannig að ég tel, að þær skyldur, sem við erum bundnir stofnuninni með, — að geta ekki ráðstafað jafnvirðissjóðnum nema með samþykki hennar, — séu eðlilegar og sjálfsagðar.

Þá minntist hv. þm. á það, að það væri ákvæði um það í bandarískum l., — og ég vil nú undirstrika það, að það er náttúrlega sitt hvað, hvaða ákvæði eru í bandarískum l., sem samþ. eru á congress Bandaríkjanna, eða þeim milliríkjasamningi, sem við höfum gert við Bandaríkin, þó að sá samningur byggist á þeim l., sem þeir hafa samþ., af þeirra hálfu, — að þegnar Bandaríkjanna njóti sama réttar til fjárfestingar í þessum löndum og þegnar viðkomandi landa. En hann bætti við þeim fyrirvara, sem gerður var af hálfu Íslendinga, um leið og þessi samningur var gerður, og útilokar það beinlínis, að Ameríkumenn fái nokkur réttindi til nokkurra framkvæmda á Íslandi umfram það, sem íslenzk l. leyfa, heldur aðeins þau, sem hefði verið hægt að veita hverjum þegni Bandaríkjanna, án þess að samningurinn hefði verið gerður. M.ö.o., ég sé ekki, að samningurinn feli í sér neina skuldbindingu eða nein réttindi til handa Ameríkumönnum umfram það, sem þeir þá hefðu án þessa samnings. Að þetta sé hættulegt sjálfsforræði okkar, kemur þess vegna alls ekki til greina.

Hv. 2. þm. Reykv. taldi það svo upp sem síðustu rök fyrir sínu máli til þess að vera á móti þessum samningi, að við værum gerðir háðir Bandaríkjunum, ef þessi lög yrðu nú samþ., og af því gæti leitt það, að þeir gætu sett okkur ýmis skilyrði og fengið fram ýmislegt, sem þeir óskuðu eftir, eða eins og hann orðaði það sjálfur, „innheimt sjálfir það endurgjald, sem þeir óskuðu að fá fyrir þessa peninga“. Hv. þm. fór síðan að skýra þetta nánar, og það mátti greinilega skilja það, að einhvers konar landsréttindi hefðu verið seld eða afhent Bandaríkjunum fyrir það fé, sem við höfum tekið á móti, og að það væri gjaldið, sem við hefðum fórnað til Bandaríkjanna vegna samningsins. Þessum aðdróttunum hv. þm. dettur mér ekki í hug að svara og ég veit það, að hann veit, að þetta eru mjög ómakleg orð, sem ekki eiga sér stoð í veruleikanum fremur en margt annað, sem um þetta mál hefur verið sagt. Það hafði verið farið fram á það í sambandi við Marshallsaðstoðina, að það yrði látið af hendi framlag án endurgjalds, og það var gert löngu áður en minnzt var á Atlantshafssáttmálann. Og svo grandalausir vorum við, eða a.m.k. ég, um það, að þetta yrði á nokkurn hátt sett í samband við hvað annað, að mér datt ekki í hug að reyna að hafa nokkur áhrif á það, þó að þetta framlag, sem við vissum, að komið var að, að afgreiða, bæri að á svipuðum tíma og undirskrift Atlantshafssáttmálans. Ef við hefðum verið hræddir um, að þessu tvennu yrði blandað saman í hugum nokkurra heiðarlegra Íslendinga, þá hefði okkur verið innan handar að fá málin afgreidd sitt í hvoru lagi með meira millibili. En að þetta var gert á sama tíma, sýnir, að við vorum grandalausir fyrir, að nokkrum manni mundi detta slíkt í hug. Læt ég þetta vera nóg svar við þessari aðdróttun hv. 2. þm. Reykv.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að við gætum farið í alþjóðabankann og fengið þar lán. Í fyrsta lagi liggur ekkert fyrir um það, að við gætum fengið lán þar. Í öðru lagi getum við vissulega, ef við viljum fá okkur lánsfé, fengið það hjá Marshallstofnuninni, og við gætum fengið það með mjög hagkvæmum vöxtum, eins og ég nefndi áðan, 21/2% til 35 ára, afborgunarlaust fyrstu árin o.s.frv. Ég efast um, að hagkvæmari lán fáist í alþjóðabankanum, og hvers vegna skyldum við þá vera að fara í hann? Að við óskuðum ekki að fara lántökuleiðina nema að nokkru leyti, stafaði af þeirri ástæðu, sem ég rakti í upphafi máls míns, af ótta við, ef í mikla lántöku væri ráðizt, að geta ekki staðið í skilum með vexti og afborganir af dollaralánum, þegar til kæmi. Og þegar við áttum kost á að fá nokkurn hluta upphæðarinnar í óendurkræfu láni, hvers vegna skyldum við þá ekki nota okkur það til þess að geta byggt dýr og fjárfrek fyrirtæki, sem við þurfum nauðsynlega að koma upp, þegar við, eins og aðrar þjóðir, sem þessa njóta, getum fengið verulegan hluta stofnkostnaðarins til þessara framkvæmda án endurgjalds? Vissulega hafa aðrar þjóðir ekki kinokað sér við að gera það, og ég sé enga ástæðu til þess að við skyldum gera það frekar.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að þetta frv. væri einn af þeim dómum, sem ríkisstj. hefði fellt um sjálfa sig. Fyrsti dómurinn, sem hún hefði fellt um sjálfa sig, væri, að í grg. fyrir till. um hækkun álagningar á tóbak hefði staðið, að úr því að aðrar vörur hefðu hækkað svo mikið í verði, yrði tóbak að gera það líka. Og hv. þm. vildi leggja þetta þannig út, að við hefðum ekki getað staðið á móti þessum miklu hækkunum á nauðsynjavörum og þess vegna orðið að hækka tóbakið líka. Þessi túlkun hefur líka komið fram í blaði hv. þm. En það, sem vitaskuld lá á bak við, er án útúrsnúninga, að ýmsar vörur í þessu landi hafa hækkað tiltölulega meira en tóbakið hefur gert, og þess vegna var það ekkert óeðlilegt, meðan ekki væri farið fram úr neinu venjulegu samræmi, þó að tóbakið væri hækkað álíka og annað. Þetta hefur ekki verið gert frekar í tíð núverandi stj. heldur en í tíð fyrrverandi stj., þar sem þm. Sósfl. áttu sæti með mér „sællar minningar“. En ég man ekki eftir því, að þeir væru á móti tóbakshækkun. Þá átti frv. um benzínskattinn að vera. einhver dómur um það, að okkur hefði mistekizt fjármálastjórnin, vegna þess að við hefðum fært það fram sem rök, að benzínskatturinn væri hærri erlendis. Ég skil ekki svona rök. Vegna þess að okkur hefur tekizt að halda niðri verði á benzíni lengur en öðrum þjóðum hefur tekizt það, ætti okkur að hafa mistekizt fjármálastjórnin. Ég held, að þótt við höfum ekki hækkað benzín fyrr en nú, þá sýni það ekki neitt um fjármálastjórnina, hvorki illa né góða. Það er prinsip, hvort kostnaður við vegagerð er tekinn af benzínskattinum eða ekki. Ýmsar þjóðir telja það eðlilegt. Ég tel eðlilegt, að farið verði inn á þessa braut fyrst nú. Það þýðir aðeins, að við höfum farið inn á hana seinna en aðrir, en að það sýni mislukkaða fjármálastjórn, sé ég ekki. Og að þetta frv. sýni hið sama, það sé ég ekki. Þetta frv. fer ekki fram á annað en að við fáum að taka á móti framlagi án endurgjalds til þess að stofnsetja fyrirtæki, sem við annars komum ekki á fót. Við höfum sett upp áætlun um gagnleg fyrirtæki, sem munu verða þjóðinni til blessunar í framtíðinni, gjaldeyrisaukandi og innflutningssparandi fyrirtæki. Þau geta orðið fleiri, og þau geta líka orðið færri, en við höfum með því að taka á móti þessu möguleika til þess að auka framleiðslugetu þessara fyrirtækja og stækka þau. Ég sé ekki, að þetta beri vott um mislukkaða fjármálastjórn, en hv. 2. þm. Reykv. hefur nú sínar skoðanir á því.

Hv. þm. sagði, að við hefðum ekki þurft að fara þessa leið, ef togarastöðvunin hefði ekki átt sér stað. Þar hefðum við eytt 20 millj. kr. í gjaldeyri, án þess að nokkur ástæða væri til. Slíkar fullyrðingar er alltaf hægt að koma með, að ef þetta væri svona eða svona, þá hefðum við fengið meiri gjaldeyri. Ef Hvalfjarðarsíldin hefði komið eða eitthvað annað, þá hefðum við getað fengið meiri gjaldeyristekjur. En það sannar ekkert í þessu máli. Hv. þm. veit það eins vel og ég, að það er oft ekki hægt að komast hjá því, að vinnustöðvun verði, þó að óæskilegt sé. Að við höfum skaðazt um 20 millj. kr. er náttúrlega sagt gersamlega út í loftið. Hv. þm. veit, að það, sem við fáum í aðra hönd fyrir ísfisk togaranna, nemur ekki nema 40–60% af söluverði aflans, hitt fer í ýmiss konar erlendan tilkostnað, og þess vegna og af ýmsum fleiri ástæðum má ekki reikna með því, að togararnir gefi viðlíka eins mikinn gjaldeyri og hv. 2. þm. Reykv. og aðrir reikna með, að þeir gefi, svo að þótt engin togarastöðvun hefði verið, þá hefðum við ekki haft þessar millj. í handraðanum og allra sízt í dollurum.

Ég held, að ég hafi nú minnzt á öll atriðin, sem hv. 2, þm. Reykv. fann þessu frv, til foráttu. Mér þótti rétt að gera það í eitt skipti, þó að áliðið sé orðið og umr. kunni að hafa litla þýðingu, þar sem fáir hv. þm. eru á fundi. Ég geri ekki ráð fyrir að taka frekar til máls, nema alveg sérstakt tilefni gefist, en tel mig hafa gert grein fyrir afstöðu minni og ríkisstj. í heild til þessa máls og einnig svarað því, sem hv. þm. hefur fundið frv. til foráttu.