13.05.1949
Neðri deild: 108. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í B-deild Alþingistíðinda. (1097)

1. mál, togarakaup ríkisins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér heyrðist á því, sem hæstv. forsrh. sagði, að hann teldi litlar líkur á því, að bankarnir vilji eða geti hjálpað bæjar- og sveitarfélögum til að eignast þessa nýju togara, og vera enn fremur hræddur um, þótt þessi heimild væri samþ., þá gæti hæstv. ríkisstj. ekki heldur útvegað lán til þessara aðila. Þetta má vel vera, en ekki ætti heimild að saka, og víst er um það, að ekki gerðu bæjar- og sveitarfélög minna til að pína út fé til kaupa á þessum atvinnutækjum, ef þau hefðu einhverja von um að fá þau. En við vitum, hvernig þetta er, nýju togararnir verða miklu dýrari en þeir, sem keyptir voru 1946. En ég álít samt, að við megum ekki gefast upp við að koma fjármagninu út á landið. Hæstv. forsrh. sagði, að við yrðum að láta það ráðast, hvernig þetta færi. En þá fara togararnir einmitt til þeirra, sem auðmagnið hafa eða nægilega gott lánstraust hjá bönkunum. Hér þarf Alþ. einmitt að grípa inn í og reyna að breyta þessu, og þess vegna er nauðsynlegt að samþ. heimildina. Ég tel því rétt að fara fram á, að 3. liður brtt. minnar verði borinn undir atkv. í tvennu lagi, þannig að fyrst komi: „Ríkisstj. skal gefa bæjar- og sveitarfélögum þeim, sem þessa togara vilja kaupa, forgangsrétt að því að kaupa þá, ef þau ætla að kaupa þá til eigin rekstrar.“ Þetta mundi þýða, ef þessi liður yrði samþ., að þótt báðar heimildartill., mín og hv. þm. V-Húnv., yrðu felldar, þá kæmist inn í lögin ákvæði, sem ætti að gefa bæjar- og sveitarfélögum forgangsrétt að togurunum að öðru jöfnu. Ég bið því hæstv. forseta að bera 3. liðinn upp í tvennu lagi. Ég sé ekki formlega neitt athugavert við þetta og býst því ekki við, að ég þurfi að koma með sérstaka till. í þessu efni.