16.05.1949
Efri deild: 110. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (1109)

1. mál, togarakaup ríkisins

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Það er nú að vísu gott til þess að vita, að gerðar hafa verið ráðstafanir til þess að auka við togaraflota okkar frekar en þegar er orðið, því að það hefur nú sýnt sig mjög greinilega, að hinir svokölluðu nýsköpunartogarar, sem keyptir voru inn í landið fyrir forgöngu fyrrverandi ríkisstj., eru nú þau atvinnutæki, sem langstórvirkust eru við að afla þjóðinni gjaldeyristekna. Og ég býst við, að nú sé svo komið, þó að á sínum tíma væri nokkur andstaða gegn þeirri ráðstöfun, að nú muni flestir álita, að vel hafi verið ráðið, þegar þessir togarar voru keyptir, enda sýnir það sig nú við afgreiðslu þessa máls, að ekki hafa komið fram a.m.k. nein veruleg andmæli gegn því, að þessir 10 togarar verði keyptir til viðbótar. Hins vegar hafa komið fram raddir um það, að þetta væri ekki fullnægjandi og nú ætti að taka enn stærra skref, en felst í þessu frv. Hv. 2. þm. Reykv. flutti um það brtt. í hv. Nd., að í staðinn fyrir 10 togara, eins og frv. felur í sér, yrðu keyptir 20 togarar og að lánsheimildin til ríkisstj. yrði hækkuð í samræmi við það. Ég álít, að það væri mikil þörf á því að kaupa fleiri togara, en gert er ráð fyrir í frv. og að það mundi sýna sig, eins og þegar hefur orðið um þá togara, sem búið er að kaupa, að það yrði þjóðinni mjög til hagsbóta, að þeim yrði fjölgað verulega frá því, sem nú er, jafnhliða öðrum ráðstöfunum, sem þyrfti að gera til ýmiss konar nýrra framkvæmda í sambandi við sjávarútveg okkar. Og sérstaklega þyrfti að gera ráðstafanir til að gera það kleift að vinna betur úr hráefnum en nú er gert og auka á þann hátt útflutningsverðmæti þeirra. En þrátt fyrir þetta ætla ég ekki að flytja brtt. um, að togurunum verði fjölgað. Ég geri ekki ráð fyrir, að það hafi meiri byr hér en í hv. Nd., þar sem slík brtt. var felld. Hins vegar álít ég, að annað atriði í sambandi við þessa togara skipti mjög miklu máli. Það er atriði, sem að vísu líka var flutt um brtt. í hv. Nd., af hv. 2. þm.: Reykv., sem miðar að því að gefa bæjarfélögum úti á landi meiri möguleika en frv. felur í sér til þess að verða eigendur togaranna, þegar þeir koma til landsins. Það var gert nokkuð að þessu í sambandi við kaup nýsköpunartogaranna, þegar þeir voru keyptir til landsins. Í sambandi við það var komið upp sérstakri lánsstofnun, eins og hv. þm. er kunnugt, og fyrir þá ráðstöfun var hægt að tryggja bæjarfélögum úti á landi, - og að vísu einstaklingum líka, —lánsfé til þess að geta keypt togara. Sú ráðstöfun varð beinlínis til þess, að nokkur hluti togaranna, að vísu fyrir forgöngu þáverandi ríkisstj., komst í hendur bæjarfélaganna og í hendur einstaklinga og félaga í bæjunum, félaga, sem voru mynduð á grundvelli þessarar lagasetningar til þess að geta keypt þessa togara. Nú er það augljóst mál og komin á það nokkur reynsla, þó að hún sé ekki fullnægjandi og eigi eftir að sýna sig enn betur, að bæjarfélögin úti á landinu, sem flest hafa fyrir þessar aðgerðir í fyrsta sinn orðið eigendur togara, hafa haft af þessu mikinn hagnað, og það hefur sýnt sig, að þetta hefur orðið þeim alveg sérstök lyftistöng í atvinnulífi þeirra og skapað hinu vinnandi fólki á þeim stöðum betri skilyrði en áður voru til þess að hafa atvinnu og sæmilega atvinnumöguleika. Ég álít þess vegna, að um leið og gerðar eru ráðstafanir til þess að fjölga þessum togurum, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, þá verði að haldast í hendur við þær ráðstafanir, sem tryggja það, að bæjarfélögin úti á landi geti haldið áfram að eignast slíka togara, þ.e.a.s., að þau geti orðið eigendur nokkurs hluta þeirra skipa, sem nú er gert ráð fyrir að kaupa inn í landið. En ég þykist viss um, að verði ekki gerðar ráðstafanir til þess að tryggja þessum bæjarfélögum lánsfé, þá verði niðurstaðan sú, að þau fái ekkert af þeim, geti ekki keppt við fjársterka einstaklinga hér í Reykjavík, sem vafalaust munu sækjast eftir að fá þessi skip keypt.

Ég vil þess vegna leyfa mér að taka upp þá brtt., sem hv. 2. þm. Reykv. flutti í Nd., og gera tilraun til að fá henni framgengt hér í hv. d., a.m.k. þá fá að sjá, hverjir það eru, sem ekki vilja veita bæjarfélögunum þennan nauðsynlega stuðning, og hverjir það eru, sem hafa meiri áhuga fyrir því, að fjársterkir einstaklingar í Reykjavík geti einir setið að þessari aukningu togaranna. Ég mun þess vegna leggja hér fram skriflega brtt. við 2. gr., sem er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstjórnin skal gefa bæjar- og sveitarfélögum þeim, sem þessa togara vilja kaupa, forgangsrétt að því að kaupa þá, ef þau ætla að kaupa þá til eigin rekstrar. Ríkisstjórninni heimilast að lána þessum bæjar- og sveitarfélögum 85% af andvirði togaranna og nota til þess það lán, sem ríkisstj. í þessum lögum heimilast að taka. Lánið skal greiðast með jöfnum afborgunum á 15 árum. Vextir séu hinir sömu og ríkisstjórnin greiðir.“

Til samræmis þessu yrði þá einnig að breyta niðurlagi 1. gr., þannig að niður yrðu felld síðustu orð hennar, um það, að það lán, sem ríkisstj. er heimilað að taka, skuli greiðast strax, þegar skipin hafa verið seld, því að samkvæmt þessari brtt. við 2. gr. er ætlazt til þess, að ríkisstj. taki þetta lán til lengri tíma og noti það til styrktar bæjarfélögum, sem kynnu að kaupa togara samkvæmt þessu.