16.05.1949
Efri deild: 111. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í B-deild Alþingistíðinda. (1122)

1. mál, togarakaup ríkisins

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég mun ekki svara beinum brigzlyrðum hæstv. fjmrh. Þau skipta mig engu máli, vegna þess að slíkar hnútur kastast í steinvegg og lenda aftur á þeim, sem senda þær frá sér. Ég vænti þess, að ef hann vill gæta að því, sem hann sagði í hv. Nd., þegar umr. fóru fram um gömlu togarakaupin, þá muni hann sjá, að því var haldið fram, að þeir ættu ekki að taka menn frá annarri atvinnu. Það var nú eitthvað annað.

Ég ætlast til þess, að stj., hver sem hún er og hverjir sem að henni standa, gæti allra aðstæðna, áður en hún leggur svona mál fram. Hæstv. ráðh. viðurkenndi að svo hefði farið, að eigendur togaranna, sem komnir eru, væru enn ekki búnir að greiða þá. (Fjmrh.: Ég hef ekkert um það sagt.) En að ríkissjóður standi í ábyrgð gagnvart Landsbankanum vegna þeirra togara, sem síðast hafa komið. Það getur farið eins með þessa, sem nú á að kaupa. Og ég spái hæstv. ráðh. því, að svo fari hér, að bæði þetta og reyndar fleira, sem nú er verið að gera, verði til þess að draga úr eða leggja í eyði nokkuð af þeirri atvinnu, sem nú er fyrir í landinu. Þetta nýbyggingarbrölt, sem svo hefur verið kallað, hefur verið framkvæmt svo ört, að það hefur lagt í rústir meira og minna af því atvinnulífi, sem fyrir var í landinu, og það er skaði. Þessi aukning hefði þurft að verða þannig, að alltaf hefði skapazt atvinna vegna fólksfjölgunarinnar, svo að það atvinnulíf, sem fyrir var, gæti blómgazt áfram, en ekki orðið að dragast saman vegna hins nýja. Það hefur þessi ríkisstj., sem fyrst og fremst settist á stólinn með það fyrir augum að gera slíkar ráðstafanir, gersamlega vanrækt. Í stað þess eru lagðir þyngri baggar á herðar allra vinnandi manna til sjávar og sveita. Menn gera verkföll eða hóta að gera þau, ekki aðeins verkalýður landsins, heldur embættismennirnir líka, ef þeir fá ekki launauppbætur. Allt er þetta afleiðing af þeirri verðbólgu, sem þing og stj. hefur, í staðinn fyrir að stöðva, stöðugt látið aukast, og nú síðast með afnámi kjötuppbótarinnar. Þetta frv. mun verða einn liðurinn í því að láta landbúnaðinn fara í rústir, og menn munu fara frá honum og á þessa togara.