16.05.1949
Efri deild: 110. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í B-deild Alþingistíðinda. (1139)

161. mál, Laxárvirkjun

Frsm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Þetta frv. um Laxárvirkjunina fer í sömu átt og áður hefur verið um svipað mál, þ.e.a.s. Sogsvirkjunina, en það er, að ríkissjóður gerist að hálfu leyti meðeigandi Akureyrar í virkjuninni, eins og áður var með Sogsvirkjunina og Reykjavík. Þó er hér sá munur á, að þegar ríkissjóður gerist eigandi að hálfri Sogsvirkjuninni, þá er það á þann hátt, að kaupverð hans á þeim hluta er miðað við kostnaðarverð. Hins vegar er í þessu frv. ákvæði um, að þær eignir, sem lokið er að byggja, og þær eignir, sem byggðar verða á næstunni, skuli verða seldar ríkissjóði með matsverði, en þær eignir, sem síðar verða byggðar, verði seldar ríkissjóði á kostnaðarverði. Þetta er talsverður munur og að dómi n. mjög miklu óeðlilegra en þeir samningar, sem gerðir voru í sambandi við Sogsvirkjunina. Hæstv. atvmrh. tjáði mér, að hann hefði átt í samningum við Akureyrarbæ út af þessu atriði, en það hafi ekki fengizt lagfært og að hann leggi þrátt fyrir það til, að að þessum samningi verði gengið. Skildist mér, að það byggðist að verulegu leyti á því, að raforkumálastjóri taldi, að þær eignir, sem til eru fyrir, þær mundu hafa rýrnað talsvert mikið í verði, þegar til þess kæmi, að ríkissjóður yrði meðeigandi að virkjuninni. Ég skal ekkert um það segja, hversu mikilvæg þessi rök eru, en það má vel vera, að svo sé, að eignirnar verði þá metnar á nokkru lægra verði, en nú mundi vera. Þrátt fyrir þetta hefur n. ekki talið sér fært að leggja á móti frv. og vill eftir atvikum mæla með samþykkt frv., þó að mér fyrir mitt leyti finnist dálítið erfitt að samþ. svona mál, sem að mestu leyti er rekið á eftir af Akureyrarbæ, sem ekki vill þó ganga til móts við ríkið á þann hátt, sem Reykjavíkurbær gerði, en ef þetta frv. verður ekki samþ. nú, þá skilst mér, að Akureyrarbær muni verða í einhverjum vandræðum með áframhald Laxárvirkjunarinnar.