29.10.1948
Neðri deild: 8. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í B-deild Alþingistíðinda. (1188)

23. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Mér þykir hlýða að gefa upplýsingar um nokkra þætti þessa máls, sem dregnir hafa verið hér inn í umr., og með tilliti til fyrirspurna þeirra hv. þm. A-Húnv. og hv. 6. þm. Reykv., þ.e. um ráðstöfun Kaldaðarness.

Þegar ég kom í atvmrn., þá kom það af sjálfu sér, að ég fékk til meðferðar allar jarðir ríkisins, bæði byggðar og óbyggðar. Og meðal þeirra var að vissu leyti Kaldaðarnes, sem atvmrn. hafði um skeið lánað í eins konar byggingu til rekstrar drykkjumannahælis. Nú bárust mér fljótt skoðanir og álitsgerðir ýmissa merkra manna á Suðurlandsundirlendinu um það, að þeir töldu, að þessu forna höfuðbóli væri þannig komið, að til skaða og skammar væri fyrir þjóðfélagið, hvernig jörðinni væri haldið. Ég fór svo þangað austur til þess að kynna mér þetta. Og mér rann til rifja að sjá þetta forna höfuðból, sem áður fyrr hefur verið með glæsilegustu höfuðbólum á Suðurlandsundirlendinu, — að sjá þá viðurstyggð eyðileggingarinnar, sem þar hafði verið drýgð um undanfarin ár. Jörðin hafði verið hersetin, og hafði þar með túnið verið eyðilagt með byggingum og margvíslegum framkvæmdum. Þessi braggaborg, sem þar hafði verið reist, lá skökk og skæld og hálfhrunin með járnplötum á við og dreif um allt túnið, og sýnilegt var, að túnið væri um ófyrirsjáanlega framtíð ónothæft. En mikill flugvöllur, sem þarna var byggður, lá í miðjum engjunum, þar sem beztu og vissustu slægjulöndin höfðu áður verið. Ég komst þá að þeirri niðurstöðu, að ég vildi ekki eiga þessa jörð, þó að mér væri gefin hún. Og ég áleit ekki líklegt, að hægt mundi vera að fá dugandi mann til þess að byggja þarna og koma hlutunum í samt lag, eftir því sem möguleikar eru á. — Ég kynnti mér einnig hælisreksturinn sjálfan. Þá var aðeins einn einasti vistmaður á hælinu, og gert var ráð fyrir því, að hann færi næstu daga. En allt þetta mikla maskíneri átti að ganga áfram með þeim ærna kostnaði, sem hafði verið við það og fyrirsjáanlegt var, að mundi verða áfram. Og ég kynnti mér þetta hjá mönnum, sem höfðu haft þetta með höndum, m.a. hjá heilbrmrn., hvað þeir hugsuðu sér um Kaldaðarnes í framtíðinni, og létu þeir ótvírætt í ljós þá skoðun, að þessi staður væri ekki vel valinn staður fyrir rekstur drykkjumannahælis, og að það yrði að skipa þeim málum öðruvísi. Þá fór ég fram á það við heilbrmrn., að það sleppti ábúðarrétti sínum á jörðinni, þannig að ég gæti gert tilraun til að ráðstafa jörðinni til framtíðarnotkunar og framtíðarviðreisnar. Og niðurstaðan varð, að þetta var gert samkvæmt ráðleggingum þeirra manna, sem höfðu með höndum rekstur hælisins þarna, sem voru sérfræðingar í þeim efnum. Tók atvmrn. því næst við jörðinni, með þeim skilmálum þó af hendi menntmrn., að það fengi fjármuni þá, sem hægt væri og eðlilegt væri að taka út úr stofnuninni. En það er búið að verja miklu fé, bæði sem stofnkostnaði hælisins og undirballans á búrekstri og hælisrekstri á staðnum, og búið að leggja allmikið fé í að byggja upp gamla húsið og byggja smáhús þarna í viðbót. Þessar byggingar voru þó ekki meiri en það, að þær nægðu til þess að koma staðnum í eitthvað svipað horf og það, sem hann hafði verið í áður.

Nú stendur svo á, að hæstv. Alþ. hafði þá nýskeð samþ. lög um bændaskóla í Skálholti. Það hafði ekki verið tekið fram í þeim l. og ekkert rætt í því sambandi, að Jörundur Brynjólfsson hafði lífstíðarábúð á þessari jörð. Og það var ekki hægt að byggja skólann á þessum stað nema með samþykki hans. Og nefndur ábúandi jarðarinnar hafði löglegan rétt til þess að setja upp fyrir það eitthvað, meira eða minna, að sleppa sínum ábúðarrétti. Hefði þá annaðhvort orðið að ná samkomulagi við ábúandann um að sleppa ábúðarréttinum á jörðinni eða taka ábúðarréttinn eignarnámi. Nú kom það í mitt hlutskipti, til þess að framkvæma þann hlut, sem mér var fenginn að framkvæma, að losa Skálholt úr ábúð. Ég ræddi við ábúandann um það, með hvaða kjörum hann vildi sleppa ábúðarréttinum á jörðinni. Hann tjáði sig fúsan til að flytja burt af jörðinni, ef eignir hans þar væru keyptar samkvæmt mati dómkvaddra manna og honum fengin einhver jörð í héraðinu, sem hann vildi líta við. Ég leit þá yfir þær jarðir í héraðinu, sem ég hafði yfir að ráða sem ráðh. Og Kaldaðarnes var eina jörðin, sem hann vildi líta við í staðinn fyrir að sleppa lífstíðarábúðarrétti sínum í Skálholti. Þegar svo að því kom, að ég hafði losað Kaldaðarnes úr byggingu, taldi ég rétt að fá Jörund Brynjólfsson til að standa upp af Skálholti með því að láta hann fá Kaldaðarnes. Um sama leyti fór fram mat dómkvaddra manna, bæði á eignum Jörundar í Skálholti og eignum hælisins, sem verið hafði í Kaldaðarnesi. Og eins og eignir hælisins voru taldar af þessum sömu dómkvöddu mönnum, þá voru þær metnar á 300–400 þús. kr., sem hælinu var skilað af þeim eignum, sem lágu í Kaldaðarnesi. — Nú spurði hv. 6. þm. Reykv. samkvæmt hvaða heimild jörðin hefði verið seld. (SigfS: Sérstaklega hælið.) Jörðin var seld með þeim húsum. Það er heimild í tvennum lögum fyrir því að selja jarðir, sem verið hafa í opinberri eign, með því að þær séu gerðar að óðalseign, og verður þá eigandi jarðarinnar eða hans afkomendur, svo sem til er tekið í þeim l., að búa á jörðinni, en verði það ekki, fellur hún til ríkisins aftur. Og með þessari kvöð var jörðin Kaldaðarnes seld, eins og fjölda margar ábúðarjarðir, samkvæmt heimild í tvennum l. — Áður en ég gerði þetta, leitaði ég álits hreppsnefndar í viðkomandi hreppi og sömuleiðis viðkomandi sýslunefndar, svo og landbúnaðarnefnda Alþ. Sýslunefnd og hreppsnefnd mæltu eindregið með því, að þessi sala færi fram, og meiri hl. landbn. Alþ. einnig. — Þetta er í fáum orðum sú grg., sem ég get á þessu stigi málsins látið frá mér fara út af þeim fyrirspurnum, sem fram hafa komið um þetta mál. En nánari upplýsingar er hægt að fá um þetta, ef óskað er, t.d. af þeirri n., sem fær málið til meðferðar.