30.11.1948
Efri deild: 23. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (1202)

23. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Frv. þessu, sem hér er fram borið, er í rauninni skipt niður í svo meginþætti. Annars vegar fjallar frv. um það, hvernig fara skuli með þá menn, sem lögregla tekur höndum drukkna og eru á almannafæri. Hinn hluti frv. fjallar um það, hvað hið opinbera á að gera til að hjálpa drykkjusjúklingum, en þar er átt við þá menn, sem mega kallast sjúkir af ofnautn áfengis. Ákvæði þau, sem felast í fyrri hluta frv., eru ráðgerð í samráði og samvinnu við heilbrigðisstjórnina og lögregluyfirvöldin. Hefur því verið leitað til þeirra aðila, sem hafa meðferð drykkjusjúklinganna með höndum, og lögreglunnar, sem handtekur drukkna menn á almannafæri. Bæjarstjórn Reykjavíkur hefur einnig sýnt þessum málum mikinn gaum, og hefur ríkt mikill áhugi meðal forráðamanna Reykjavíkurbæjar, að þeim drykkjusjúklingum sé hjálpað, sem af frjálsum vilja óska þess að reyna að komast yfir sjúkdóm sinn, og reynt að forða þeim mönnum frá því, að þeir verði algerlega áfenginu að bráð. Er því gert ráð fyrir, að komið verði upp hæli fyrir drykkjusjúkt fólk. Ráðgert er, að bæjarfélög greiði stofnkostnaðinn að hálfu leyti og að móti komi hálft framlag úr ríkissjóði, eins og ráðgert er í 15. gr. frv. Í síðari kaflanum er talað um ráðstafanir vegna drykkjusjúkra. Í honum eru ekki nein nýmæli frá því, sem áður hefur verið í l., því að áður hefur ríkið rekið hæli fyrir drykkjusjúka menn. En hér er gert ráð fyrir, að reist verði tvö hæli, annað, sem sé ætlað þeim sjúklingum, sem ekki er gert ráð fyrir, að þurfi nema stutta hælisvist til þess að læknast, en hitt hælið sé fyrir þá, sem svo illa eru leiknir af völdum áfengis, að þeim sé nauðsynleg lengri dvöl og nákvæmari hjúkrun á hælinu. Reynsla undanfarinna ára hefur kennt, — sú leið, sem farin var með rekstur drykkjumannahælis, — að nauðsynlegt væri, að þessi hæli væru tvö, og er því hér lagt til, að ríkið reisi á sinn kostnað læknishæli fyrir drykkjusjúka, en hitt hælið verði reist fyrir frumkvæði bæjarstjórnar Reykjavíkur, en til þess verður lagt fé á móti bæjarfélaginu úr sérstökum sjóði, sem ráðgert er að stofna og segir frá í 15. gr. frv. Mikill áhugi ríkir að koma þessu átaki í framkvæmd. Hefur þetta orðið að sameiginlegu verkefni ríkisins og Reykjavíkurbæjar.

Loks er að geta þess, að III. kafli frv. fjallar um fjáröflunarleiðina til þess að hrinda málinu í framkvæmd. Þar er tiltekin ákveðin upphæð, sem ríkið greiði árlega sérstökum sjóði, sem renni til hælisbygginga. Eins og segir í 15. gr., er gert ráð fyrir að taka hluta af ágóðanum af sölu Áfengisverzlunar ríkisins til þess að koma þessu málefni áleiðis, og fannst ríkisstj. ekki óviðeigandi að taka hluta áfengisgróðans til þessa fyrirtækis.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta, en vænti þess, að málinu verði vel tekið og verði vísað til hv. heilbr.- og félmn. þessarar d. að umr. lokinni.