30.11.1948
Efri deild: 23. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (1206)

23. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil bara minna báða hæstv. ráðh. á, að það var í l. um nokkurt skeið að leggja ákveðinn hluta af benzínskattinum í svokallaðan brúasjóð, og var sú áætlaða upphæð tekin inn í fjárl., því að það er vitanlega skylda Alþ. hverju sinni að taka upp í fjárl. lögboðin útgjöld, og ef horfið verður að því ráði að láta 11/2 millj. til þeirra hluta, sem frv. gerir ráð fyrir, þá verður það vitanlega tekið upp í fjárl. Hitt er annað mál, hvort fjárhag ríkisins er svo háttað, að ráðlegt sé að láta þá upphæð til þess. Það er hlutur, sem þarf að athuga. Það er ósiður, sem hefur tíðkazt undanfarin ár, að samþ. útgjöld og setja þau ekki inn í fjárl., heldur hafa það sem útgjöld samkvæmt sérstökum l. Það var komið í þetta horf fyrir nokkrum árum og hefur færzt til hins verra. Og þó að ég sé hundrað prósent með að hjálpa þessum mönnum, þá er ég ekki tilbúinn að samþ., að það eigi nú að láta hálfa aðra milljón til þeirra hluta. Það þarf enga skekkju að gera á útgjalda- og tekjuhliðinni, ef rétt er áætlað, en að halda utan við fjárl. stórum póstum er ósiður, sem á að leggja niður, þó að hann hafi verið viðhafður nokkur ár.