13.05.1949
Efri deild: 106. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í B-deild Alþingistíðinda. (1219)

23. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Páll Zóphóníasson:

Herra farseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mjög mikið, en frásögn hv. þm. Barð. af nefndarfundum um þetta mál var þess eðlis, að ég sem form. n. get ekki látið því ómótmælt. Það er að vísu rétt hjá honum, að málið var óskaplega lengi í n., og stafar það fyrst og fremst af því, að það var verið að reyna að ná samkomulagi um málið, og satt að segja virtist manni lengi vel, að ekki bæri svo mikið á milli, að samkomulag ætti að nást, en það endaði með því, að samkomulag náðist ekki. Önnur svigurmæli frá hans hendi um það, að ég og hæstv. menntmrh. hefðum aldrei hugsað okkur, að málið næði fram að ganga, og hagað okkar vinnubrögðum með það fyrir augum, eru algerlega út í loftið. Ég held, að við, sem stöndum að meiri hl., viljum þessu máli vel, þó að við höfum aðra skoðun á fyrirkomulaginu. Ég skal ekki fara í einstök atriði, en tel málið svo mikilsvert, að full ástæða sé til að ætla það sérstökum manni, en ekki að láta það vera aukastarf önnum kafins manns. Ég held einnig, að þar sem ríkið hefur einkasölu á áfengi, með allri þeirri bölvun, sem því fylgir, þá beri ríkinu að standa undir kostnaði af þessu með gróða af áfengisverzluninni, en ekki bæjarfélögunum, þó að ég viðurkenni, að ef Reykjavíkurbær vill standa undir kostnaðinum að sínu leyti, þá sé rétt að þiggja það, þar sem fjárhagurinn er ekki of góður. En ég held, að það heppilegasta sé, að ríkið standi undir þessu, það hefur hvort sem er valdið bölvuninni. Um brtt. tala ég ekki frekar, þær liggja ljósar fyrir, og mér dettur ekki í hug að fara að lesa þær allar eins og hv. þm. Barð. gerði. Menn hafa þær prentaðar, og þær túlka sig sjálfar.