13.05.1949
Efri deild: 106. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í B-deild Alþingistíðinda. (1220)

23. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Frsm. meiri hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég hygg, að þetta mál græði ekki á löngum umr., því að eins og hv. form. heilbr.- og félmn. sagði, þá liggja till. ljósar fyrir og þurfa ekki skýringar við, en sem frsm. tel ég, að ásakanir hv. þm. Barð. á form. n., að hann hafi ekki ætlazt til, að málið væri afgreitt, hafi ekki við hin minnstu rök að styðjast. Hið sama gildir um hæstv. ráðh., að aldrei hefur verið ástæða til annars en ætla, að hann legði fullt kapp á að afgreiða málið á þessu þingi, en hann hefur líka lagt kapp á, að það yrði afgreitt óbreytt. Ég held því, að allar ásakanir hv. þm. Barð. séu rangar. Ég held einnig, að gífuryrðin í garð landlæknis og dr. Helga Tómassonar hafi ekki við rök að styðjast og hafi aðeins vakað fyrir þeim að fá lausn á þessum málum, sem þeir telja til góðs, a.m.k. varð ég ekki var við annað, er þeir ræddu við n., en þeir vildu fá þá lausn, sem þeir töldu vænlegasta til árangurs. Og þó að meiri hl. n. vilji gera þessa breyt., þá er það ekki á þeim forsendum, að við viljum ekki fara að ráðum þeirra, heldur vegna þess, að við teljum stjórn slíkrar stofnunar svo vandasama, að ekki sé hægt að ætla hvorki dr. Helga né öðrum að annast hana sem aukastarf. Dr. Helgi stjórnar nú stórri stofnun og hefur gert það af prýði og skörungsskap. Við töldum því, að þetta starf krefðist alls tíma þess manns, sem það annaðist, og sá maður þarf að hafa sálfræðileg kynni af sjúklingunum, og krefst starfið því mikils tíma. Það var því af þeim ástæðum, sem við vildum skilja þessa stofnun frá Kleppi. — Hv. frsm. minni hl., þm. Barð., ræddi um staðsetningu þessara hæla. Það hafa verið leidd rök að því, að lækningahælið þurfi að vera hér í nágrenni Reykjavíkur, svo að auðvelt sé að ná í sérfræðinga að hælinu, enda flestir sjúklingarnir héðan, og væri því aðeins til að torvelda starfið að hafa það langt frá bænum. En menn eru á því máli að hafa hælið fyrir áfengisöryrkjana á einhverjum afskekktum stað, eins og t.d. á einhverri eyjunni í Breiðafirði, en aðrir vilja einnig hafa það hér í nágrenninu. En ég vil segja hv. þm. Barð., að þegar ég fjalla um svona mál sem nm., þá tel ég það hlutverk mitt að vinna að því, að það verði byggt upp af skynsamlegu viti. Ég vil ekkert skipta mér af því, hver stjórni þessari stofnun, því að það hefur veitingarvaldið á sinni ábyrgð. Og þegar hv. þm. Barð. ræðir um, að það geti ekki orðið dr. Helgi Tómasson, þá fer hann út fyrir verksvið sitt sem nm. og inn á svið veitingarvaldsins, og þegar hv. þm. orðar till. sína svo, að þurfi sérstakan lækni, þá fyrirbyggir hann ekki, að dr. Helgi geti komið til greina, því að hann er sérstakur læknir og getur því fallið undir þetta, þó að hv. þm. reyndi að útiloka hann. Þá var hann að ræða um, að það þyrfti að fá sérfræðing í drykkjusýki, en ég veit ekki, hvort nokkur skóli útskrifar slíka sérfræðinga, en þetta er aukaatriði. Það, sem skiptir meginmáli, er það, að í frv. er gert ráð fyrir tvenns konar hælum, lækningahælum, sem kostuð eru af ríkinu, og dvalarhælum, sem sveitarfélögin kosta. En við í meiri hl. leggjum til, að hvort tveggja verði kostað af ríkinu, því að það er það, sem ber ábyrgðina á, hvernig er komið hér í þessum málum, með því að selja áfengið. En það eru fleiri rök, sem mæla með því, að ríkið standi þar einnig undir kostnaðinum, og það er, að á öryrkjahælin koma einn og tveir menn frá bæjar- og sveitarfélögum úti á landi, og ekkert sveitarfélag hefur svo stóran hóp slíkra manna, að það þurfi sérstakt hæli fyrir þá. Við viljum því, að ríkið og Reykjavíkurbær reisi í sameiningu slíkt hæli, sem bæjar- og sveitarfélög úti á landi gætu svo komið sínum mönnum á, en ef það væri lögbundið, að bæjarfélögin skyldu koma þessu upp sjálf, þá yrði útkoman sú, að engu slíku hæli yrði komið upp, nema þá ef til vill í Reykjavík, og væri þetta því engin lausn á vandamálinu, því að slíkir sjúklingar eru til um allt land. — Þetta eru meginbreyt. á frv. eftir till. meiri hl. n., og sé ég ekki ástæðu til að ræða þær frekar.

Hv. þm. Barð. hélt því fram, að reginmunur væri á anda frv. og till. hans. Hann sagði, að við vildum láta lita á menn þessa sem glæpamenn, en hann sem sjúklinga. Hæstv. menntmrh. mótmælti þessu, og það vil ég einnig gera. Meginmarkmið frv. er, að þeir séu meðhöndlaðir sem sjúklingar, en ekki sem óbótamenn. Í 1. gr. er sagt, að þeir skuli fluttir á sjúkrahús, í 2. gr. er sagt, að þeir skuli vera til læknisrannsóknar, þar til runnið sé af þeim, og í 3. gr. er sagt, að læknir eigi að kynna sér ástand þeirra og ef í ljós komi, að þeir þjáist af drykkjusýki, skuli hann ráðfæra sig við þá eða aðstandendur þeirra, hvað gera skuli. Þetta er andi frv., sem hv. þm. talar lengi um, að sé eins og meðferð á glæpamönnum. Þetta er röng túlkun og augsýnilega gegn betri vitund, hafi 1.–3. gr. verið lesin.

Ég gat þess í framsöguræðu minni, að ástæðulaust væri að blanda Kaldaðarnesi eða Kumbaravogi í þetta mál. Það er fortíðin, og gerðist áður en ég kom á þing, en við erum að ræða nútímann. Það er því ekki verkefni mitt eða annarra nm. að ræða það mál, en við getum dregið okkar lærdóm af því. Mér virðist þetta frv. vera nokkurn veginn óskylt því máli, en ég veit, að þeir, sem sömdu þetta frv., hafa þekkt það mál vel og dregið lærdóm af þeirri reynslu, sem þar fékkst. — Hvað viðvíkur þeirri ásökun frá hv. þm. Barð., að landlækni og dr. Helga Tómassyni hafi verið boðið á nefndarfund, en ekki fulltrúa frá stórstúkunni, þá skal ég geta þess, að það var ekki gert af andúð til stúkunnar, því að það hafði verið gert áður og vitað var, að þeir voru þessu samþykkir í megindráttum. — Þá taldi hv. þm. tilefni til að vera með gífuryrta árás á lögregluna. Ég tel það ekki í verkahring mínum, enda tók hæstv. dómsmrh. þetta til meðferðar og lýsti því yfir, að hann mundi láta rannsaka, hvort þetta hafi við rök að styðjast, og ég held, að slíkt hafi ekkert að gera inn í þingið. Hvað því viðvíkur, sem hann sagði, að lögreglan misþyrmdi þessum mönnum og að nauðsynlegt væri að koma því inn í frv., að ekki mætti misþyrma mönnum á þessum hælum, þá held ég, að slíkt varði við landslög, svo að óþarfi sé að setja það inn í frv., sem er heilbrigðisfrv. — Hv. þm. Barð. spurði um ýmislegt, þ. á m. hve mörg hælin ættu að vera. Það er ekkert um slíkt í frv., og er það algert framkvæmdaatriði. Dr. Helgi Tómasson taldi heppilegast, að hælin væru lítil og helzt ekki fleiri en 8 í hverju, en það er framkvæmdavaldsins á hverjum tíma að ákveða slíkt í samráði við lækninn. Slíkt er ekki verkefni n. og ekki hægt að ákveða það í frv. Ef til vill verður því komið fyrir í litlum húsum, svipað og í Reykjalundi, en reynslan verður að skera úr því, hve þörfin er mikil og hvaða form er heppilegast, og hið sama er að segja um dvalarheimili fyrir áfengisöryrkja, en vonandi nægir ein stofnun fyrir þá, sem svo illa eru komnir. En það dettur engum í hug að setja lög um það, hve mörg þau verða. Það fer eftir þörfum og hvar þau eru og hve stór. En ég held, að augljóst sé, að eigi að fylgja till. hv. þm. Barð., að flytja alla menn, sem teknir eru fyrir ölvun af lögreglunni, hvar sem vera skal og fara með þá á sjúkrahús, þá muni skorta sjúkrahús. Ég sætti mig því betur við frv., sem stefnir í rétta átt, heldur en slíkt, sem aldrei yrðu annað en handaskol. Ég vona svo, að till. meiri hl. verði samþ., en verði þær felldar, þá vona ég, að frv. verði samþ. óbreytt heldur en að engin löggjöf verði sett um þetta.