05.04.1949
Neðri deild: 86. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í B-deild Alþingistíðinda. (1257)

180. mál, fiskiðjuver í Reykjavík

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég tel ekki nauðsynlegt að hafa langan formála fyrir frv. þessu. Aths. við það skýra, að stj. telur nauðsynlegt, að l. séu sett um fiskiðjuverið, um stj. þess og afstöðu til ríkissjóðs. Fiskiðjuverið hefur nú staðið um skeið, án þess að það sé fullbúið. Hingað til hafa 7 millj. kr. verið lagðar í fyrirtækið, og er gerð grein fyrir þeim peningum í fylgiskjali. Þeim hefur verið varið til byggingar, en enn er talið nauðsynlegt að auka vélakost fyrirtækisins. Ég hef látið grg. stjórnar fiskimálasjóðs um hag þess og framtíðarhorfur fylgja frv. orðrétta, eins og frá henni hefur verið gengið af hendi stjórnar sjóðsins, en henni fól ég að hafa stjórn fiskiðjuversins á hendi. Lagt er til í frv., að þannig sé framvegis, og frv. er að öðru leyti miðað við að lögfesta það ástand, er fyrir er, c: fiskiðjuverið sé eign ríkisins, en ríkissjóður beri ekki ábyrgð á skuldum þess nema heimild sé veitt til þess af Alþ. Frvgr. skýra sig sjálfar, og skal ég ekki fara út í það. Sjálfsagt er að vísa frv. til hv. sjútvn.

Þó að ég gæti margt um málið sagt, sé ég ekki, að nauðsynlegt sé að orðlengja um það. Fyrirtækið er ekki stofnað af núverandi ríkisstj., heldur verður hún að skipta sér af hví vegna þess, að því var komið af stað áður en hún kom til skjalanna. Hins vegar er enginn lagastafur til um byggingu þess og rekstur. En nú virðist verða að setja l. um stöðu fiskiðjuversins í ríkinu. Ég skal líka láta liggja á milli hluta, ef eigi gefst til þess sérstakt tilefni, að ræða um, hverjar skoðanir mínar eru í sjálfu sér á þessu máli, — hvort ríkið eigi að standa fyrir svona iðjuveri. En í 10. gr. frv. er heimild fyrir stj. „að selja félagi útvegsmanna fiskiðjuver ríkisins, enda sé þátttaka almenn í félagi þessu.“ Þessi heimild þykir mér þannig vaxin, að rétt sé að hafa hana í frv., því að alltaf getur að því borið, að heppilegra sé talið, að félagsskapur útgerðarmanna hafi rekstur fyrirtækisins með höndum, en elgi ríkissjóður. Í því skyni að halda opinni þeirri leið þá er þessi heimildargr. sett í frv. Ég mun svo ekki fjölyrða um málið að nauðsynjalausu. Ég tel ekki að tilefnislausu ástæðu til að fara frekar í það. Ég óska, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.