16.05.1949
Neðri deild: 110. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (1262)

180. mál, fiskiðjuver í Reykjavík

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. sjútvn. þessarar hv. d. fyrir afgreiðslu þessa frv., sem ég taldi mér skylt að flytja, en ég játa það þó, að ég hefði verið öllu ánægðari, ef það hefði fengið fljótari afgreiðslu hjá n. en raun ber vitni.

Ég sé, að hv. n. hefur flutt brtt. við heimildina í 10. gr. og hef ekkert á móti því, að sú brtt.samþ., því að samtök útvegsmanna og samvinnufélög geta verið hliðstæð til gagns fyrir þann atvinnuveg, sem hér er um að ræða. Nú hefur hv. 2. þm. Reykv. (EOl) andæft þessari heimild á þeim forsendum, að fiskiðjuverið komi þá til með að hafa svo mikið vald yfir smábátaútvegsmönnum. Það mætti til sanns vegar færa að segja svo, ef stofnað hefði verið til af meira viti og fyrirtækið hefði verið staðsett á öðrum stað, en raun er á. En nú er annað uppi, því að bátaútvegurinn hér um slóðir hefur farið minnkandi síðan stofnunin tók til starfa, svo að það eru miklu fremur bátaútvegsmennirnir, sem hafa vald yfir stofnuninni. Þetta á rætur sínar að rekja til þess í fyrsta lagi, að fiskiðjuverið sem hraðfrystistöð var alveg óþarft, því að hér voru mörg hraðfrystihús fyrir, sem gátu fullnægt allri móttöku fisks. Í öðru lagi er öll framleiðsla á niðursuðuvörum í molum, ekki vegna þess, eins og stendur í grg. með frv., að fyrirtækið sé ekki fullgert og það skorti fé til að fullgera það. Þetta er ekki nema hálfur sannleikur, því að það er nægilegt svigrúm til þess að reyna framleiðslu á ýmsum sviðum, svo að þótt það væri fullbúið, gæfi það svipaða raun, því að það er annað, sem vantar. Okkur vantar markað fyrir þessar vörur. Eins og nú stendur, þá er það með þessar niðursuðuvörur eins og aðrar héðan, að við erum ekki samkeppnisfærir við aðrar þjóðir vegna gífurlegs framleiðslukostnaðar. Um gæðin skal ég ekki dæma. En fyrir nokkrum dögum barst mér sú fregn, að það hefði verið sent til Ameríku allmikið af þessum vörum. Það kom bréf um þetta upp í ráðuneyti. Sá, sem keypt hafði, hafði greitt þetta fyrirfram, og hann lýsti því nú yfir, að varan væri óseljanleg, og heimtaði sá hinn sami dollara sína greidda til baka. — Þrátt fyrir þennan mikla áróður, sem hefur verið hafinn um Fiskiðjuver ríkisins, að það gæti lagt undir sig hálfan heiminn, bara ef bankinn lánaði fé og ríkisstj. væri ekki illviljuð, þá er ástandið nú samt svona.

Hv. frsm. sagði með réttu, að það mundi vera meira en vafasamt, hvort út í þessa framkvæmd hefði verið farið á löglegan hátt. Það er óhætt að fullyrða, að þetta var fyrir ráðríki eins einstaks ráðh. í tíð fyrrv. stj., atvmrh., sem dreif upp þetta fyrirtæki í þunnri heimild frá fiskimálanefnd, því að það er áreiðanlegt, að þegar Alþingi samþ. l. um fiskimálanefnd og um fiskimálasjóð, var ekki ætlazt til þess, að þær tilraunir, sem þar er talað um að gera, væru það, að lagt væri í margra milljóna króna fyrirtæki. En svo mikið er tekið upp í sig, að mér er sagt, að það hafi verið stofnað sérstakt byggingarfélag á þeim tíma um það aðalverkefni að byggja þetta bákn, sem heitir Fiskiðjuver ríkisins.

Eins og greinir í grg. stjórnar fiskimálasjóðs, sem fylgir þessu frv., eru stofnlán fyrirtækisins yfir 7 millj. kr. Ég get bætt því við, að í marga mánuði hefur Landsbankinn verið að herja á sjútvmrn. og spyrja, hvort þeir ættu að auglýsa fiskiðjuveríð, vegna þess að afborganir af stofnlánum væru í óreiðu, um hálf milljón. Svona er ástandið í þessu stóra iðjuveri, sem hv. 2. þm. Reykv. talar um, að hafi svo mikið vald yfir bátaútveginum.

Ég tel 10. gr. frv., söluheimildina, vera nauðsynlega, því að eins og horfur eru í þessum málum, ef ekki skipast betur en nú er um afsetningu á framleiðslu fiskiðjuversins, þá er það sennilega bezta úrræðið fyrir ríkið að selja þetta fyrirtæki innlendum mönnum, og þarf það ekkert að skaða þann upprunalega tilgang, sem var með byggingu þess, hefði hann miðazt við hagsmuni bátaútvegsins eða framleiðenda, sem full ástæða er til að efast um, eftir því sem staðið var að þessu máli.

Það hefur verið gerð mikil háreysti út af því, að selt hefur verið Kaldaðarnes og keypt Silfurtún, en það eru smávægilegir hlutir í samanburði við þá framkvæmd, sem þarna hefur skeð, án þess að nokkur löggjöf hefði verið um það sett. Sjútvmrn. hefur síðan orðið að sitja uppi með þetta og hafa umsjá með því. Það hefur orðið að taka við öllum skömmunum hjá gleiðgosum, sem hafa skrifað í blöðin um þetta merkilega fyrirtæki og þá óskaplegu markaðsmöguleika, sem fyrir hendi væru, en það hefur ekki haft nokkurt fé milli handa til að ráða bót á því ástandi, sem er, hvað smíði snertir á fiskiðjuverinu, og enga löggjöf til að fara eftir.

Fyrir þær mörgu milljónir króna, sem þetta fiskiðjuver hefur kríað út, hefði hæglega mátt leysa vandræði mikils hluta þeirra hraðfrystistöðva, sem byggðar hafa verið víða um land í trausti þess, að þær fengju stofnlán á sínum tíma. Einstök héruð og félög og hópar manna og einstaklingar hafa lagt á sig mikið til þess að geta haft möguleika til þess að taka á móti fiski hjá bátum í hinum ýmsu verstöðvum, og svo stendur þetta kólosseum hérna á hafnarbakkanum og hefur venjulega ekkert verkefni fyrir hendi, m.a. af því, að sá fiskur, sem berst á land hér, er ekki til margskiptanna, eins og hag útgerðarinnar er komið. Og það, sem kemur til með að vera þessu iðjuveri þetta ár þungt í skauti, er bílaverkfallið, sem skall á seint á vertíðinni, og þá voru þessu iðjuveri allar bjargir bannaðar til þess að halda áfram viðskiptum við þá báta, sem það hafði haft viðskipti við. Þeir gerðu heiðarlega tilraun, sem stjórnuðu fiskiðjuverinu, að reyna að sjá til, að fiskiðjuverið fengi fisk, en samúð þeirra, sem stjórnuðu verkfallinu, var ekki meiri en svo með þessu fyrirtæki, að þeir vildu ekki líða því að fá þetta hráefni.

Ég ímynda mér, að svona stórt fiskiðjuver hefði verið miklu betur sett einhvers staðar annars staðar við Faxaflóa, í Keflavík eða á Akranesi, heldur en hér í Rvík, og það verður aldrei, nema einhverjar stórbreytingar gerist annaðhvort í markaðsmálum eða atvinnumálum, annað en byrði fyrir ríkið, ef það hefur þennan rekstur með höndum. Þetta er ekkert sambærilegt við rekstur síldarverksmiðja ríkisins, hér er um allt annað að ræða.

Ég vildi út af þessum andmælum frá hv. 2. þm. Reykv. og vegna þeirrar villu, sem hann er hér að halda fram, að þetta fiskiðjuver hafi eitthvert sérstakt vald yfir róðrarmönnum hér í Rvík eða við Faxaflóa, benda á þessar einföldu staðreyndir, sem því miður eru fyrir hendi. En hvað sem því líður, hvort sem þessi stofnun yrði seld eða ekki, þá er ekki hægt að hafa þetta svona hangandi í lausu lofti, eins og á því var byrjað af þeim ráðh., sem var fyrirrennari minn í sjútvmrn.