16.05.1949
Neðri deild: 110. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (1264)

180. mál, fiskiðjuver í Reykjavík

Einar Olgeirsson:

Ég ætla ekki að fara að deila hér í löngu máli við hæstv. fjmrh. um undirbúning og tilkomu Fiskiðjuvers ríkisins. Ég vil hins vegar lýsa yfir skoðun minni; að ég álít, að það, sem hefur gert þessu fyrirtæki erfiðast fyrir, sé það, að þegar búið var að setja fé í þetta fyrirtæki. Svo að það vantaði aðeins herzlumuninn að geta klárað fyrirtækið, þannig að það gæti komið að fullum notum, og nokkurt rekstrarfé því til handa til að það gæti tekið til fullra starfa, þá er allt látið stranda á fjárskorti. Það er þetta, sem fyrst og fremst hefur gert það, að þetta fyrirtæki hefur verið rekið með tapi síðan reynt var að láta það taka til starfa.

Ég verð að segja, að ég held, að það hefði mátt sækja fastar hér á, þó að við vitum, að það sé oft við ramman reip að draga, þar sem þeir lánveitendur eru, sem ríkið fyrst og fremst á við. Og engum efa er það undirorpið, að svo framarlega sem þetta fyrirtæki hefði fengið að taka lán erlendis og fengið að nota afurðir sínar til að borga lánið með, þá hefði það bjargað sér, þannig að það er annars vegar bankavaldið innan lands og hins vegar tregða hjá innflutningsyfirvöldunum viðvíkjandi innflutningi á umbúðum og slíku fyrst og fremst að kenna, að fiskiðjuverið hefur ekki getað starfað til fulls. Hvað snertir þá mótbáru, að jafnvel í Rvík sé ekki svo mikill fiskur, að þetta fiskiðjuver eigi framtíð fyrir höndum þess vegna, þá verð ég að segja, að ég er bjartsýnni en hæstv. fjmrh. Ég held, að við eigum ekki að reikna framtíðarmöguleika einstakra fyrirtækja út frá því augnabliksástandi, sem er hjá sjávarútveginum. Ég efast ekki um, að ef vel er á spilunum haldið, þá komi bátaútvegurinn í Rvík til með að aukast, auk þess sem ég skal ekki fortaka, nema möguleikar gætu skapazt fyrir því í framtíðinni, að togarar legðu inn fisk í svona fiskiðjuver, þegar útbúnaður allur væri þar orðinn nægilega góður. Það verður vafalaust ekki framtíðarskipulagið að veiða í ísfisk og nota togarana sem flatningaskip og flytja fiskinn til Englands. Það er síður en svo heppilegasta aðferðin til að nýta fiskinn sem bezt. Þess vegna er það, að þótt margt sé rétt í því, sem hæstv. fjmrh. sagði um augnabliksástandið fyrir þessu fiskiðjuveri, þá er ekki víst, að það eigi að valda því, að taka eigi nú ákvörðun um að selja þetta fyrirtæki einmitt á þeim tíma, þegar byrjunarörðugleikarnir eru sem mestir og öll aðstaða fyrir sjávarútveginn dekkst. Þess vegna vil ég aðeins ítreka það, að ég álít heppilegt, að ríkið eigi þetta fyrirtæki.

Hvað snertir það vald, sem svona fyrirtæki hefur, þá er það rétt, að svo framarlega sem bátaflotinn og sjávarútvegurinn er í hnignun, þá er þetta fyrirtæki ekki vald, heldur barlest. En ef sjávarútvegurinn er í uppgangi, bátaflotinn að vaxa og þannig búið að sjávarútveginum, að þær vörur, sem hann framleiðir, tryggi afkomu hans, þá er enginn vafi, að fyrirtæki, sem getur tekið á móti svona miklum afla, er vald í blómlegu atvinnulífi, og út frá slíku verður maður að reikna, þegar maður talar um, hvaða gildi eitt fyrirtæki hafi. Það mætti segja, þegar síldarvertíð hefur brugðizt 2–3 ár, að síldarverksmiðjurnar séu ægileg barlest á ríkinu, en fæstum mundi þó detta í hug að selja þær, þó að einhver vildi kaupa.

Þá minntist hæstv. ráðh. á, að það hefði komið illa við Fiskiðjuver ríkisins, að það hefði verið verkfall hjá vörubílstjórum og sagði, að samúð þeirra, sem verkfallinu stjórnuðu, hefði ekki verið mikil með þessu fyrirtæki. Ég get trúað því, að þetta sé rétt. Það var Sjálfstfl., sem hafði forustu í félagi vörubilstjóra. Ég man ekki betur, en hæstv. ríkisstj. og flokkar hennar hafi verið hróðug yfir stjórninni í félagi vörubílstjóra, svo að það getur verið rétt, að fiskiðjuverið hafi ekki átt mikilli samúð að fagna í Sjálfstfl., svo að þegar sá flokkur gat stjórnað verkalýðsmálum, hefur það bitnað á slíku fyrirtæki. En ég er hissa, að hæstv. ráðh. skuli þá ekki hafa reynt að hafa meiri áhrif á flokksbræður sína í stjórn slíks fyrirtækis. Þetta vil ég segja út frá orðum hæstv. ráðh. Ég veit, að hann hefur látið þau falla af því, að hann hefur ætlað að beina örvum sínum til Sósfl., af því að hann gengur út frá, að aldrei sé háð neitt verkfall nema undir hans stjórn, en svona var það nú.

Ég held sem sé, að þessi 10. gr. ætti ekki að vera í l. Að öðru leyti er ég sammála þessu frv. Ég álit, að það, sem hæstv. stj. vildi gera í þeim málum viðvíkjandi ráðstöfun á fiskiðjuverinu, væri eins hægt að gera eftir sérstakri heimild, sem hún fengi hjá þinginu, ef hún óskaði eftir henni, þegar séð væri, hvort hún gæti selt þessa eign og þá hverjum og fyrir hvaða verð. Ég verð að segja, að ég uni að vissu leyti betur við gr. eins og hún er orðuð í frv. fjmrh. Þar er tekið fram, að þátttaka verði að vera almenn í því félagi, sem þetta fyrirtæki yrði selt. Ég álít, að það sé höfuðatriði, ef sú ráðstöfun er gerð að selja svona fyrirtæki, að þátttaka sé almenn í því félagi, sem kaupir. Þetta lítur öðruvísi út samkv. brtt. n. Þar er tekið fram, að selja megi þetta fyrirtæki einnig samtökum samvinnufélaga. Þetta er ef til vill frá framsóknarmönnum, en ég er hræddur um, að brtt. geti ekki komið í staðinn fyrir orðalag gr. eins og hún er í frv. fjmrh., en það mætti athuga fyrir 3. umr., þó að 10. gr. verði samþ.