16.05.1949
Neðri deild: 110. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í B-deild Alþingistíðinda. (1265)

180. mál, fiskiðjuver í Reykjavík

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Ég skal ekki lengja umr. mikið um þetta. Hv. 2. þm. Reykv. (EOl) þarf ekki að óttast, að fiskiðjuverið yrði ekki rekið áfram sem hraðfrystihús, hver sem eignast það, því að allar vélar þar eru á þann veg, að rekstur þess hlýtur að verða bundinn við slíka starfsemi. Um niðursuðuna skal ég ekki eins fullyrða, af því að hún hefur gengið svo böngulega og markaðsmöguleikarnir eru svo hæpnar. Meining mín er, að félagsskapur fiskimanna og útgerðarmanna, eins og stendur í frv., og þá menn, sem áhuga hefðu fyrir sjávarútvegi, eignuðust þetta fyrirtæki, og væri það í slíkra manna höndum, tel ég það betur komið en sem ríkisfyrirtæki.

Nú hefur komið fram brtt. við 10. gr., og ég hef tekið því eins og ég sagði áðan og þarf ekki að endurtaka það. En hv. 2. þm. Reykv. flutti fram þá kenningu, að þótt til þess kæmi, að einhver vildi kaupa Fiskiðjuver ríkisins o.s.frv., og þótt til þess kæmi að nota þessa heimild, þá ætti að bíða eftir samþykki Alþingis. Þetta gæti vel komið í veg fyrir, að hægt væri að ganga frá slíkum kaupum, því að það er ekki víst, að væntanlegur kaupandi vildi bíða eftir því, að þing kæmi saman. Þingið situr ekki alltaf. Kenning hans virðist vera sú, að það megi byggja fyrir margar milljónir óarðbært bákn á kostnað ríkisins án allrar lagaheimildar og skuldbinda ríkið til að reka það án löggjafar og án íhlutunar þingsins, eins og hefur verið gert fram að þessu með þetta fiskiðjuver, en það megi ekki losa ríkið við slíkan bagga nema sækja sérstaklega um það til þingsins. Mér finnst, að ekki eigi að gera svona örðugt að losa ríkið við óarðbært fyrirtæki og óarðbæran rekstur og það sé nægilegt að bera það undir þingið á þann hátt, sem nú liggur fyrir. Ef Alþingi vill, að ríkið eigi þetta áfram, er ekki annað en að fella söluheimildina. Hitt er ekki hægt, eftir að heimildin væri gefin, að segja við þá, sem kannske vildu ljá máls á að kaupa þetta fyrirtæki, að ekki sé hægt að ganga frá kaupunum, því að það þurfi að fá samþykki Alþingis eftir á. Ég ímynda mér, að það gæti staðið fyrir, að slík kaup tækjust.