16.05.1949
Efri deild: 111. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (1278)

180. mál, fiskiðjuver í Reykjavík

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta mál er flutt af sjútvn. og upphaflega samið af stjórn fiskimálasjóðs, utan 10. gr. þess, sem rn. setti inn í frv., sem er um heimild fyrir ríkisstj. til að selja félagi útvegsmanna og útgerðarfyrirtækja Fiskiðjuver ríkisins, en þessari gr. mun hafa verið breytt í hv. Nd. þannig, að bætt hefur verið í hana „eða samvinnufélagi“. Það er næsta nauðsynlegt, að það sé einhver löggjöf til um Fiskiðjuver ríkisins. Það er ákaflega óþægilegt, úr því að það er til og í eigu ríkisins, að hafa enga löggjöf og hefur það gert talsverðan baga, að hún hefur ekki verið til.

Ég vildi mjög mælast til þess við hv. d., að hún afgr. þetta mál áður en þingi er slitið. Ég vildi biðja um, að málinu yrði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn. Hv. sjútvn. Nd. hafði málið til meðferðar. Eru það tilmæli mín til hv. n., að hún vildi svo vel gera að taka málið til meðferðar helzt í kvöld, svo að hægt verði að halda áfram með það á næsta fundi þessarar hv. d.