17.05.1949
Efri deild: 112. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (1286)

180. mál, fiskiðjuver í Reykjavík

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég gerði grein fyrir því í Nd., að þetta fyrirtæki væri ekki stofnað af núv. ríkisstj. Samt sem áður er það óneitanlega eign ríkisins og ríkið búið að gera ráðstafanir, sem tengir það við hag ríkisins eða ríkissjóð. Þeir, sem í heimildarleysi fóru út í þetta á sínum tíma, verða ekki saksóttir á þessum vettvangi, en ekki er hægt að komast hjá að setja lög um rekstur fyrirtækisins eða heimild fyrir ríkisstj. til að segja það, ef svo ber undir. Ég sé ekki, að ríkisstjórnin hafi heimild til að selja það án lagaheimildar frá Alþingi. Nú veit ég ekki, hvort þess er kostur, en það verður a.m.k. að vita, hvort heimild er til að gera það. Það er satt, að í þetta fyrirtæki hefur farið óhóflega mikið fé og lánsfé, sem annars hefði mátt dreifa til staða, sem stórlega skortir lánsfé, en það þýðir ekki að sakast um orðinn hlut. Og þó að ég flytji frv. eftir beiðni stjórnar fiskimálasjóðs, sem ég kvaddi til að stjórna fyrirtækinu, því að einhver verður að hafa stjórn þess með höndum, þá þýðir það ekki, að við leggjum blessun okkar á ráðabreytni hæstv. fyrrv. sjútvmrh. Ég tel mér hins vegar skylt að flytja frv. um reglur um meðferð fiskiðjuversins, og það er það, sem liggur hér fyrir, og vil ég fara fram á, að Alþ. samþ. það. Nd. hefur þegar samþ. frv., og þykir mér slæmt, ef það verður stöðvað hér.