03.05.1949
Neðri deild: 97. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í B-deild Alþingistíðinda. (1308)

203. mál, skemmtanaskattur og Þjóðleikhús

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. um þetta mál á þessu stigi, því að þetta frv. fær væntanlega athugun í n. En tvö atriði vildi ég minnast á, út af því, sem hv. þm. N-Ísf. (SB) sagði. Ég hef jafnmikinn áhuga og hann fyrir því, að sem minnst skuli skerða tekjur félagsheimilasjóðs til bráðabirgða. En ég hygg, að niðurstaðan muni verða sú, þegar hv. n. athugar þetta mál og að fengnum upplýsingum, sem henni munu verða gefnar, að það, sem á vantar væntanlegar tekjur þjóðleikhússins og lánsmöguleika, sem fyrir hendi kynnu að vera, til þess að hægt væri að halda byggingu þjóðleikhússins viðstöðulaust áfram, þar til henni er lokið, sé ekki minna en gert er ráð fyrir í frv. að auka tekjur þjóðleikhússjóðsins, enda mundi þá minnkun þess hluta, sem hér er ætlaður til þjóðleikhússjóðs eftir þessu frv., fram yfir það sem áður eru l. um, verða til þess, að þessi bráðabirgðalög þyrftu að vera mun lengur í gildi, og sennilega mundi vera ómögulegt að fá bráðabirgðalán til þessa. Þetta allt er sjálfsagt, að hv. n., sem athugar málið, íhugi. — Ég vil líka geta þess, að hér er ekki um eins mikla skerðingu til bráðabirgða að ræða á tekjum félagsheimilasjóðs og í fljótu bragði mætti álíta, því að skemmtanaskatturinn í heild hefur verið hækkaður til muna, frá því að löggjöf um hann var sett í fyrra. Það gerir skatturinn, sem settur var á kvikmyndaleyfin, og hækkunin á bíómiðunum, sem drýgt hefur tekjurnar af skemmtanaskattinum.

Hv. þm. N-Ísf. sagðist vilja, að ríkisstj. beitti sér fyrir hækkun skemmtanaskattsins í sambandi við þetta mál. En því er þar til að svara, að það er talsvert ágreiningsmál, hvort og þá hvernig breyta skuli skemmtanaskattinum. En þetta mál er hins vegar þannig vaxið, að það má til að fá einhverja afgreiðslu á þessu þingi, sem nú stendur yfir, til þess að þjóðleikhúsbyggingin stöðvist ekki, og þess vegna hefur ekki þótt rétt að setja lúkningu byggingar þessarar í samband við hugsanlegar breyt. á skemmtanaskattinum. Þarf þess vegna þetta að athugast, hvað út af fyrir sig. — Þetta verður svo sjálfsagt rætt nánar við 2. umr., eftir athugun málsins í nefnd.