03.05.1949
Neðri deild: 97. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í B-deild Alþingistíðinda. (1311)

203. mál, skemmtanaskattur og Þjóðleikhús

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Út af fyrirspurn hv. þm. Siglf. (ÁkJ) vil ég taka fram, að eftir þeim upplýsingum, sem mér hafa borizt alveg nýlega, þá mun það vera meira en 3 millj., sem vantar, til þess að hægt sé að ljúka við bygginguna. Og ef peningarnir fást, þá á, eftir því sem byggingarnefndin gefur upp, að vera hægt að koma húsinu alveg upp í lok þessa árs. Út af því, sem hv. þm. Siglf. sagði um félagsheimilin, vil ég taka fram, að engum okkar hefði dottið í hug að taka skemmtanaskattinn frá byggingarsjóði þjóðleikhússins, ef við hefðum ekki staðið í þeirri meiningu, að það sem kæmi inn í sjóðinn 1947, mundi hrökkva fyrir byggingarkostnaðinum. Á því var málið, byggt, og því er ekki um annað að ræða en: ljúka húsinu með tilstyrk skemmtanaskattsins. En til þess að taka það ekki af óskiptu og til þess að stöðva ekki starfsemi félagsheimilasjóðs er þessi millileið farin. Það er fjarri því, að starfsemi sjóðsins þurfi að stöðvast. Hann mun fá 1 millj. kr. til ráðstöfunar fyrir 1948, sem er mjög veruleg fúlga, og áætlað er, að, meðan verið er að ljúka byggingunni, yrði það a.m.k. 1/2 millj. kr., sem kæmi árlega í sjóðinn.