03.05.1949
Neðri deild: 97. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 842 í B-deild Alþingistíðinda. (1312)

203. mál, skemmtanaskattur og Þjóðleikhús

Áki Jakobsson:

Það eru aðeins örfá orð. Ég skaut því fram í ræðu minni, hvort athugaðir, hefðu verið möguleikar á því að fá það fé, sem á vantaði, með öðrum hætti. Mér fyndist ekki tiltökumál, þó að fá þyrfti lán í svona mikið fyrirtæki, og ég mundi telja það miklu heppilegra, en hafa þennan hátt á. Ráðh. lagði hins vegar áherzlu á það, að þrátt fyrir þessi l. fengi félagsheimilasjóður það mikið fé, þó að frv. yrði samþ., að ekki væri ástæða til að fárast yfir því, þó að þetta yrði af honum tekið. Hann hefði fengið eina milljón 1948 og mundi síðan fá hálfa milljón eftir að þessi lög væru komin í gildi. En þótt ráðh. telji, að 1. millj. í félagsheimilasjóði sé mikið fé, get ég fullyrt, að þetta er örlítið fé, eins og byggingarkostnaður er orðinn núna. Og ástandið hvað snertir byggingar til hvers konar félagsstarfsemi og skemmtanalífs utan Rvíkur er óskaplegt. Mörg af þeim húsum, sem eru notuð, eru gersamlega ónothæf til allra hluta, ónýt hús, og verður að byggja alveg ný, þannig að ég er undrandi yfir því, að ráðh. skuli telja það mikið fé og rök fyrir því, að skerða megi framlag til félagsheimila, þó að þau hafi fengið 1 millj. s.l. ár. Mér finnst þetta mjög lítið fé, eins og ástandið er orðið. Það eru undantekningar, ef í kaupstöðum utan Rvíkur eru til sæmileg eða góð samkomuhús. Það eru aðeins undantekningar. Algengast er, að samkomuhús í kaupstöðum og þorpum séu í mjög slæmu ástandi, og í sveitunum er það miklu verra, þannig að ég vil enn undirstrika það, að ég átti, von á öðru frá hendi hæstv. ráðh. en hann yrði til þess að leggja til að skerða svona verulega framlag til félagsheimilasjóðs og vil enn ítreka það, hvort ekki hafi verið reynt að afla þess fjár, sem þarf til þess að ljúka þessari byggingu, með öðrum hætti en þeim að, taka fé, sem átti að verða fé félagsheimilasjóðs, og vil ég benda á það, hvort ekki væru tök á því að fá lán til þess að ljúka þessu verki. Mér finnst aumlegt til þess að vita, að þessi ráðh. skuli hafa orðið til þess að vega að þessum samtökum, sem hafa byggt framtíðardrauma sína á því, að þarna væri nokkurt fé af að taka til þess að leggja í þessi félagsheimili, sem þeir hafa mikinn áhuga fyrir að koma upp. Ég vil þess vegna sérstaklega inna ráðh. eftir því, hvað gert hafi verið til þess að ljúka byggingu þjóðleikhússins án þess að skerða þetta framlag til félagsheimilasjóðs og enn fremur, hvort athugað hefur verið, hvort ekki væri mögulegt að fá lán, sem borgað væri að einhverju leyti með hluta af framlagi til rekstrarsjóðs þjóðleikhússins. Í frv. hæstv. menntmrh. er gert ráð fyrir, að framlag til rekstrarsjóðs lækki úr 40% niður í 30%. Það lítur því út fyrir, að ráðh. geri ráð fyrir, að 30% nægi til þess að borga þann halla, sem kynni að verða á rekstrinum, og væru þá eftir 10% til þess að borga með vexti og afborganir af láni, sem tekið væri í því skyni að fullgera bygginguna. Ég vil sérstaklega inna ráðh. eftir því, hvort hann hafi ekki látið fara fram athugun á því, hvort mögulegt væri að koma þessu húsi upp án þess að fara þessa afleitu leið, sem hann hefur valið, að ráðast á félagsheimilasjóð, þannig að hann geti ekki gert sér vonir um framlag til húsbygginga úr þessum sjóði.