03.05.1949
Neðri deild: 97. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (1313)

203. mál, skemmtanaskattur og Þjóðleikhús

Jón Pálmason:

Herra forseti. Þegar sú breyt. var gerð á þeim lögum, sem hér um ræðir, — á næstsíðasta þingi, að ég ætla, — að taka nokkuð af skemmtanaskattinum til félagsheimila í landinu og auka tekjur lestrarfélaga o.s.frv., þá þótti mér mikils til of skammt gengið í því að taka þetta fé til þeirra hluta, því að frá því að skemmtanaskatturinn var fyrst á settur, hefur hann verið látinn renna til þess að byggja þetta þjóðleikhús hér í Rvík, sem illu heilli hefur verið á byrjað á þann hátt, að það veldur svo miklum örðugleikum að klára það sem raun hefur á orðið. Ég sagði illu heilli, því að það hefði mátt komast af með minni byggingu og meir við hæfi ,en þarna er um að ræða. En úr því atriði verður nú ekki bætt, og sjálfsagt er það æskilegast með þetta mál, eins og fjöldamörg önnur í okkar landi, að húsið sé klárað, svo að það geti orðið til nota og þess gagns, sem til hefur verið stofnað. En ég hygg, að það sé mjög örðug leið, sem hér hefur verið farin til þess að koma þessu í framkvæmd, með því að kippa aftur til baka þeim réttindum, sem fólkinu úti á landsbyggðinni höfðu verið veitt til nokkurs hluta af því fé, sem innheimt er á þennan hátt. Ég held, að það verði ekki hjá því komizt, þegar vinna á að því að klára þetta hús, að það verði að gerast með lánsfé. Og ef það lánsfé fæst ekki nógu fljótt, verða það sjálfsagt örlög þess, eins og margra annarra fyrirtækja hér, sem byrjað hefur verið á, en ekki hefur verið hægt að ljúka, að það verði að biða, hvenær sem lánsfé til þess fæst. En ég get með engu móti fallizt á, að rýrt verði það fé, sem með breyt. á l. frá 1947 var ákveðið til félagsheimila úti á landi. Með þessu stefnir löggjafarvaldið í þá mjög öfugu átt að beinlínis draga með sköttum fé af dreifbýlinu til framkvæmda í höfuðstaðnum, þar sem bezt er aðstaða með skemmtanalíf og fjármagn og þangað sem fólkið hefur verið dregið á undanförnum árum með margvíslegum ráðum. Ég held því, að þetta sé öfug leið, eins og á hefur verið bent af þeim ræðumönnum, sem hér hafa talað gegn þessu frv. Og mér finnst þetta vera svo mikil fjarstæða, að mér þætti eðlilegast, að þetta frv. væri ekki látið ganga lengra, heldur væru höfð samtök um að fella það hér strax við 1. umr.