16.05.1949
Efri deild: 110. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 861 í B-deild Alþingistíðinda. (1339)

203. mál, skemmtanaskattur og Þjóðleikhús

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Eins og hv. frsm. n. tók fram, er gengið þannig frá þessu í frv., að það er ákaflega hæpið, að það valdi ekki einhverjum töfum á byggingu þjóðleikhússins. Það er sem sé þannig, að það mun vanta, þótt teknar séu rekstrartekjur 1948 og látnar renna í bygginguna, 3 millj. til að fullgera leikhúsið. Ef gert er ráð fyrir, að 25% af skattinum renni til að ljúka við bygginguna, eða 600 þús. kr. á ári, mundi þurfa 5 ár til þess að fá þessa upphæð, og ekki er víst, að hægt væri að fá lán, þó að það væri reynt. Ég lagði til og ríkisstj., að byggingarsjóðurinn fengi 35%, en Nd. færði það niður í 25%. Enn fremur var það svo í upphaflega frv., að rekstrarsjóðurinn slakaði til um 10% frá því, sem áður var, úr 40% í 30%. Nd. setti þetta svo í 25%, og er hæpið, að hægt sé að standa undir rekstrarkostnaðinum með 1/4 af 600 þús. kr. Fyrir þessu voru færðar fram þær ástæður í Nd., að d. vildi ekki taka til greina að lækka félagsheimilasjóð og færa það niður fyrir 40%. Vil ég ekki leggja til, að þessari upphæð verði breytt, af því að ég veit, hvernig ástatt er í Nd. og óttast, að það mundi ekki bera árangur, þó að þessi hv. d. mundi gera það. Mér er ljóst, að þetta getur orðið erfitt fyrir þjóðleikhúsmálið, en mér skilst að málið sé mjög fast fyrir, og þess vegna vil ég ekki leggja það til. Aftur á móti vil ég leggja til, að önnur breyt. verði gerð, sem ég hef von um, að ekki þurfi að valda miklum uppsteit. Mér finnst eðlilegt að fella niður 3. gr., en þar segir:

„Tekjur rekstrarsjóðs þjóðleikhússins árið 1948 skulu renna í þjóðleikhússjóð. Verði tekjuafgangur af rekstri þjóðleikhússins, skal hann renna í þjóðleikhússjóð, unz byggingarkostnaður hússins er að fullu greiddur.“

Þegar þetta var hugsað, þá var það hugsað út frá því, að rekstrarupphæðin væri a.m.k. 30% og mætti því gera ráð fyrir, að reksturinn gæti misst þetta inn í bygginguna. En þegar búið er að þjarma að rekstrinum eins og með 1. gr., er óvarlegt að slá þessu föstu, að rekstrarsjóðstekjurnar 1948 skuli renna í byggingarsjóðinn og aldrei koma til baka. Því mælist ég til þess, að hv. d. felli þetta niður, þ.e. 3. gr. Þá mundi framkvæmdin verða sú, að ef illa gengi með lánsfjárútvegun, mundu rekstrartekjurnar verða látnar renna inn í bygginguna til bráðabirgða, með það fyrir augum, að það yrði endurgreitt síðar, þegar byggingarsjóðurinn ætti þess kost. Ég leyfi mér því að leggja fram skriflega brtt. um, að 3. gr. frv. falli niður.