17.05.1949
Neðri deild: 113. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (1354)

203. mál, skemmtanaskattur og Þjóðleikhús

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því, að hér er alls ekki um neina veigalitla breyt. að ræða, og er því hér um annað mál að ræða en þegar frv. var rætt hér síðast. Nú var þannig frá þessu gengið, að byggingarsjóður þjóðleikhússins fengi tekjur þær, sem rekstrarsjóður átti að fá árið 1948, eða 800 þús. kr. Eðlilega er það fé tiltækilegt, þar sem enginn rekstur hefur farið fram á því ári. Þá var og gengið út frá, að ef einhver rekstrarafgangur yrði árið 1949, þá rynni hann í byggingarsjóð og yrði svo næstu ár.

Ég skil hins vegar hæstv. menntmrh. svo, að nú eigi að nota peningana til þess að fullgera húsið, en halda því opnu, að rekstrarsjóður eigi kröfurétt á byggingarsjóð og geti þannig endurheimt féð með vöxtum. Þetta þýðir það, að þessi lög, sem hér á að samþ., verða lengur í gildi og skerðing félagsheimilasjóðs því meiri, þar sem hún nær til lengri tíma en ætlað hafði verið. Ég vil, að hv. þm. geri sér grein fyrir þessu, og það mun vera óhætt að áætla, að vegna þessa ákvæðis fái félagsheimilasjóður sín 50% skemmtanaskattsins 1–2 árum síðar en annars hefði orðið.