05.11.1948
Sameinað þing: 14. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í B-deild Alþingistíðinda. (1366)

42. mál, fjárlög 1949

Finnur Jónsson:

Framsóknarflokksmenn eiga erfitt með að gleyma því, að þeir urðu utan gátta í stjórnarsamvinnunni 1944–46, og eru þess vegna með sífelldar ásakanir í garð þeirrar stjórnar, er þeir saka um, að hún hafi staðið fyrir allri verðbólgu og dýrtíð í landinu. í þessu samþandi verður ekki komizt hjá að minna þessa ágætu menn á, að þeir sjálfir vöktu upp dýrtíðardrauginn, þegar þeir beittu sér fyrir, að verðlag landbúnaðarvara var fellt burt úr dýrtíðarlögunum, og losuðu þannig fyrstir allra um skrúfugang dýrtíðarinnar.

Hv. 8. landsk., sem talaði hér fyrir kommúnista, sem nú eru að missa allt fylgi í landinu, mætti minna á það í sambandi við áhuga hans á auknum innflutningi til kaupfélaganna al- mennt, að aldrei minntust ráðherrar Sósfl. á slíkt þau tvö ár, er þeir sátu í ríkisstjórn. Hins vegar voru þeir til með að selja heildsölum sjálfdæmi um allan innflutning, ef þeir fengju sérréttindi fyrir KRON. Önnur kaupfélög voru þeim alls óviðkomandi.

Út af árásum 8. landsk. á hæstv. viðskmrh. varðandi innkaupastofnun ríkisins vil ég taka fram, að eigi fékkst samkomulag í ríkisstj. um, að sú stofnun skyldi heyra undir viðskmrh. fyrr en alveg nýverið; og var það þá þegar ákveðið, að innkaupastofnunin skyldi taka til starfa um næstu áramót.

Hæstv. fjmrh. hefur lýst í höfuðdráttum frv því til fjárlaga, sem hér er til umræðu. Skal ég því ekki fjölyrða um einstaka liði þess, en við þó taka fram, fyrir hönd Alþfl., að um hina nýju stóru tekjuöflun, tvöföldun söluskattsins, sem gert er ráð fyrir í frv., hefur eigi orðið samkomulag milli stjórnarflokkanna.

Undanfarin þing hafa bundið í lögum miklar fjárhæðir, og ber frv. þess ótvíræð merki. Virðast þingmenn hafa verið mjög misduglegir í þeim efnum, svo sem sjá má af 15. gr. frv. Þar eru landbúnaðinum ætlaðar 20.5 millj. kr., en sjávarútveginum aðeins 1 millj.

Þá eru í 19. gr. einungis ætlaðar til dýrtíðarráðstafana 33 millj., en var á fjárl. þessa árs 55 millj. Mun það hrökkva skammt, ef eitthvað á að hygla hinum aðþrengda vélbátaútvegi, svo sem mjög brýn nauðsyn ber til að gera og það tafarlaust. Svo mikil lækkun sem hér er ráðgerð hlýtur að hafa í för með sér gagngerða breytingu á dýrtíðarráðstöfunum og getur því aðeins staðizt, að þær ráðstafanir verði gerðar. Ég vil þakka hæstv. fjmrh, fyrir, að í 19. gr. hefur verið tekinn upp nýr liður til stuðnings bátaútveginum vegna veiðibrests á árina 1948, 6 millj. En ef einhverjum skyldi miklast í augum þessar 6 millj., sem áætlaðar eru vélbátaflotanum til stuðnings, má benda á, að það er aðeins 200 þús. kr. hærri upphæð, en áætluð er til mæðiveikinnar á þessu fjárlfrv., og eiga þó vissulega fleiri menn líf sitt og afkomu undir vélbátaflotanum, en sauðfjárrækt, þótt nauðsynleg sé. Ég vil taka fram, að ég tel þessa upphæð of lága, til þess að hún bæti vandræði vélbátaflotans, nema ýmsar aðrar aðgerðir fylgi, og mun hæstv. fjmrh. vera þetta allra manna ljósast, og vænti ég því, að hann fylgi fast fram, að slíkar ráðstafanir verði gerðar.

Fjögur sumur samfleytt hefur síldarvertíðin brugðizt. Hlutir skipverja hafa orðið mjög rýrir, og útgerðin hefur stórtapað. Skipverjar hafa fengið minni tekjur en þeir landsmenn, er aðra atvinnu hafa stundað, og síldveiðin hefur fært útvegsmönnum tap, þegar aðrir atvinnuvegir landsmanna græddu.

Útvegsmenn hafa tvisvar fengið kreppuhjálp hjá ríkinu, og á miðri síldarvertíð í sumar leit át fyrir, að allt mundi stöðvast. Þá hljóp ríkið undir bagga. Það hrökk þó skammt. Mörg skipin komu heim í haust svo illa stödd, að þau hafa ekki enn þá getað greitt skipverjum hinn rýra hlut þeirra. Þetta eru hin mestu vandræði og er hvorki sök skipverja né útvegsmanna. Svo stöðugan aflabrest sem hér hefur orðið getur enginn staðizt, en almennt gera menn sér þó ekki ljósa grein fyrir því, um hve mikið tap er að ræða. Þetta hefur nýlega verið athugað af nefnd, er hæstv. sjútvmrh. hefur skipað til að rannsaka tapið og gera tillögur til úrbóta. Auglýst var eftir reikningum frá síldarskipum. Alls hafa 134 skip sent reikninga. Úr þeim hefur verið unnið á reikningaskrifstofu sjávarútvegsins. Sýna reikningarnir, að tekjur þessara 134 skipa hafa orðið á síldarvertíðinni kr. 9.498.315, en gjöld kr. 21.671.718. Tap hefur því orðið alls rúmar tólf millj. kr., hér í faldar afskriftir um 1.8 millj. Ógreidd kauptrygging þessara skipa var kr. 5.808.944 og vátrygging kr. 2.840.980, eða alls lögveðs- og sjóveðskröfur kr. 8.649.924. Gefa tölur þessar nokkra hugmynd um hið ömurlega ástand vélbátaútvegsins, en mikið vantar þó á, að heildaryfirlit sé fengið með þeim. Ýmis þeirra skipa, er enga reikninga hafa sent, standa á gömlum merg, en önnur eru svo illa stæð, að eigendur þeirra hafa talið vonlaust verk að senda reikninga til nefndarinnar, og enn eru kauptryggingarkröfur á skip þessi ógreiddar. Reikningar hafa borizt heldur seint, og torveldar það nokkuð starf nefndarinnar. Hins vegar ákvað hún á einum af fyrstu fundum sínum að óska þess við ríkisstj., að hún hlutaðist til við bankana, að sjóveðskröfur skipverja fyrir kaupi þeirra yrðu greiddar þegar í stað vegna þess, hve hér var um lágar tekjur að ræða hjá skipverjum og ekki líklegt, að þeir gætu beðið eftir þessu. Nokkur skip voru þá leyst, en allur fjöldinn bíður enn frekari ráðstafana, þar eð bankarnir munu eindregið hafa óskað eftir, að reikningar lægju fyrir. Nú eru þeir komnir frá þessum 134 skipum, svo að væntanlega dregst ekki lengi hér eftir, að úr þessum aðkallandi vanda verði bætt. Þegar því er lokið, er enn eftir að koma einhverju lagi á greiðslu eða samninga um greiðslu til þess að aflétta hinum þunga skuldabagga, svo og gera ráðstafanir til þess, að rekstur vélbátaflotans verði ekki áfram í fullu vonleysi. Er óhætt að fullyrða, að margir útgerðarmenn munu alveg gefast upp bráðlega, ef ekki verður úr þessu bætt. Er hér mjög úr vöndu að ráða.

Sjávarútvegurinn er grundvallaratvinnuvegur fyrir alla aðra atvinnu og afkomu landsmanna. Á undanförnum árum eða síðan nýsköpunin hófst hefur margt verið gert til þess að efla útveginn. Nýir vélbátar hafa verið keyptir, togaraflotinn hefur verið endurnýjaður, síldarverksmiðjur hafa verið stórum auknar, og sú reynsla er fengizt hafði af hraðfrystingu fyrir forgöngu fiskimálanefndar, eftir tillögum Alþfl., hefur verið hagnýtt, þannig að afköst hraðfrystihúsanna hafa verið margfölduð. En þrátt fyrir hinar miklu framfarir í sjávarútveginum er hann í heild illa á vegi staddur í samanburði við aðra atvinnuvegi. Fjármagnið, sem í hann hefur verið lagt, er að langmestu leyti lánsfé og útvegað fyrir beina eða óbeina milligöngu hins opinbera. Þjóðarauðurinn hefur á þessum árum vaxið stórkostlega. Mikið fé er árlega fest í húsabyggingum, landbúnaði og verzlun, en flestir forðast að leggja eigið fé í sjávarútveg. Það þykir ekki eins ábatavænlegt og margt annað og er auk þess miklu áhættumeira. Hinar miklu vaxtagreiðslur af skuldaböggum sjávarútvegsins eru eins og drápsklyfjar og torvelda allan rekstur. Auk þess er nú svo komið, að fiskiskipin eða að minnsta kosti vélbátaflotinn er ekki lengur samkeppnisfær við aðra atvinnuvegi um kjör og kaupgreiðslur háseta. Vélbátaútvegurinn er rekinn með tapi ár eftir ár. Hinir gömlu togarar eru einnig reknir með tapi, og um hina glæsilegu nýsköpunartogara er sagt, að 1/3 þeirra græði, 1/3 sleppi skaðlaus og 1/3 sé rekinn með tapi, og þetta gerist á þeim tíma, þegar bæði fer saman mikill afli og metsala. Ef eitthvað ber út af með annað hvort, afla eða sölu, er talið fyrirsjáanlegt tap, jafnvel á hinum glæsilegu nýsköpunartogurum. Svona getur þetta ekki haldið áfram til lengdar. Ýmiss konar afskipti og afskiptaleysi hins opinbera af atvinnuvegunum ásamt þeim þjóðflutningum, sem nú eiga sér stað í landinu, tryggja aðra atvinnuvegi og framkvæmdir landsmanna og leyfa þeim óhóflegan hagnað, þannig að til þeirra leitar bæði vinnuafl og fjármagn á sama tíma og undirstöðuatvinnuveginn, sjávarútveginn, skortir fjármagn, öryggi og vinnuafl. Þessu verður að gerbreyta. Hin mikla yfirbygging, sem sett hefur verið ofan á sjávarútveginn á undanförnum árum, hvort heldur verzlun, iðnaður, landbúnaður, rekstur ríkisins eða annað; fellur saman eins og spilaborg, ef rekstri sjávarútvegsins verður ekki komið á heilbrigðan grundvöll. Þar hafa allir landsmenn sameiginlegra hagsmuna að gæta, þótt vera kunni, að ýmsir telji sig góða, meðan þeir sjálfir fljóta, hvað svo sem verði um aðra. En þeir hinir sömu fljóta ekki lengi, ef sjávarútvegurinn sekkur. Það væri þjóðarslys, sem enginn slyppi óskaddaður frá. Þess vegna biða Alþ. stórkostlegri og erfiðari verkefni en nokkru sinni fyrr.

Fyrst þarf að gera bráðar ráðstafanir til þess að leysa vandræði vélbátaflotans vegna hinna misheppnuðu síldarvertíða, og síðan verður að leita allra ráða til þess að beina fjármagni landsmanna og vinnuafli að sjávarútveginum og koma framtíðarrekstri hans á heilbrigðan grundvöll.

Við 1. umr. fjárlaga fyrir þetta ár vakti ég athygli hv. Alþ, á því, að brýna nauðsyn bæri til, að framkvæmdum hins opinbera væri hagað þannig, að vinnuafl væri ekki dregið frá sjávarútveginum. Á þetta verður enn að leggja áherzlu. Útflutningsframleiðslan þarf að sitja í fyrirrúmi fyrir öðru. Verður það því að teljast rétt stefna í fjárlfrv. að draga úr framkvæmdum hins opinbera í því skyni, að atvinnuvegirnir fái vinnuafl og fjármagn. Áherzlu þarf að leggja á að hefja sem minnst af nýjum óarðbærum framkvæmdum, heldur ljúka þeim, sem þegar er byrjað á. Einnig væri æskilegt, að ríkið stæði við þær skuldbindingar, sem því ber lögum samkvæmt, áður en það tekur á sig svo margar nýjar kvaðir, að ekki verði unnt að standa við neitt. — Hið opinbera þarf að haga framkvæmdum sínum þannig að minnka þær, þegar nóg er um aðra atvinnu, en auka þær, ef atvinnuleysi kemur. Að þessu sinni þarf sérstaklega að gæta þess að haga hinum óarðbæru framkvæmdum ríkisins með tilliti til atvinnuveganna og væntanlegra Marshallframkvæmda, sem hæstv. ríkisstj. hefur skýrt frá, að nú séu á döfinni.

Í lögunum um fjárhagsráð er stefnan mörkuð með fyrirmælum um, að ráðinu beri skylda til að samhæfa framkvæmdir einstaklinga og hins opinbera. Slík samhæfing er þjóðarnauðsyn til þess að tryggja áfram heilbrigða aukningu atvinnuveganna. Þetta framhald nýsköpunarinnar er kommúnistum hér á Alþ. þyrnir í augum, og gera þeir allt, er í þeirra valdi stendur, til þess að hindra það, að þetta megi takast. Má því til sönnunar benda á árás hv. 8. landsk. á fjárhagsráð og þau gífuryrði, er hann lét sér um munn fara.

Hrunsöngur og hrunspár kommúnista í sambandi við störf fjárhagsráðs hafa staðið í 16 mánuði samfleytt, en reynslan hefur sýnt, að þær eru á engum rökum reistar. Þegar fjárhagsráð tók til starfa, var þegar búið að ráðast í mikinn fjölda bygginga og stöðugt bættust við nýjar og nýjar. Engin leið hefði verið að ljúka þessum byggingum vegna skorts á vinnuafli, fjármagni og gjaldeyri nema vegna starfa fjárhagsráðs. Sumum þessum byggingum hefur þó enn eigi tekizt að ljúka. Fjárhagsráð hefur eftir mætti reynt að beina byggingarstarfseminni og fjárfestingunni í fyrirtæki, er vinna áð framleiðslustarfsemi til útflutnings. Má í því efni nefna hina stórkostlegu aukningu síldarverksmiðjanna við Faxaflóa, sem nú er að verða fullgerð, svo og fyrirgreiðslu fjárhagsráðs fyrir aukningu hraðfrystihúsa og annarra atvinnufyrirtækja. Þá hefur fjárhagsráð greitt fyrir byggingu íbúðarhúsa af hæfilegri stærð, en ekki leyft stóríbúðir né heldur verzlunar. og skrifstofubyggingar. Allt kemur þetta greinilega fram í skýrslu um fjárfestingarstarfsemina, sem hefur verið fjölrituð og þannig birt almenningi. Starf fjárhagsráðs hefur þegar á stuttum tíma borið stórkostlegan þjóðhagslegan árangur, og sú ríkisstj., er að því hefur staðið, getur vikið frá sér árásum út af því með fullum rökum.

Kommúnistar bera ráðinu sífelldlega á brýn; að það vilji stöðva framkvæmdir af tómri svartsýni og löngun til þess að koma á atvinnuleysi. Þetta er hin mesta firra; hins vegar fer því mjög fjarri, að ráðið sé óskeikult, og munu mörg mistök hafa átt sér stað hjá því, en höfuðskyssa ráðsins mun hafa verið bjartsýni þess og of mikil leyfaveiting, en ekki of lítil, eins og kommúnistar halda fram. Fjárhagsráð vildi fá úr þessu skorið af kunnáttumönnum og sneri sér því til fjögurra hagfræðinga úr öllum stjórnmálaflokkum og bað þá um álit þeirra. Hagfræðingar þessir eru Gylfi Þ. Gíslason, Jónas Haralz, Klemenz Tryggvason og Ólafur Björnsson. Hafa þeir samið „Álitsgerð um fjárveitingarmál“, sem hefur verið fjölrituð og send alþm. Álitsgerð þessi er 47 vélritaðar blaðsíður og allýtarleg. Segja hagfræðingarnir hispurslaust skoðun sína og benda á ýmislegt, sem þeir telja, að betur mætti fara. Margt af því, er þeir segja, var fjárhagsráði áður ljóst, og um ýmislegt má deila, en heildarniðurstaða þeirra af fjárfestingarleyfisveitingum fjárhagsráðs á þessu ári er sú, sem fjárhagsráð raunar vissi áður, að leyfisveitingarnar hefðu verið of háar, en ekki of lágar eins og kommúnistar halda fram. Því miður er hér ekki tími til að rekja þessa álitsgerð í heild, en hagfræðingarnir benda mjög á þá nauðsyn, sem hafi verið á því að samræma áætlanir um fjárfestingu og sparnað, og segja m.a.: „Þannig hefur ríkið síður en svo dregið úr sínum eigin fjárfestingarfyrirætlunum, en það ætti því þó vissulega að vera innan handar.“ Beri menn nú þetta álit hagfræðinganna, þ. á m. J.H., saman við bægslagang kommúnista á Alþ. út af fjárl.frv. því, sem hér liggur fyrir, sem einmitt fer í þá átt, sem hagfræðingarnir leggja til.

Um fjárfestingaráætlun fjárhagsráðs 1948 segja hagfræðingarnir á bls. 22: „Þessi áætlun verður að teljast mjög há miðað við sams konar áætlanir nágrannaþjóðanna,“ og enn fremur: „Það er einnig ljóst, að þessi áætlun felur ekki í sér mikla minnkun framkvæmda frá því, sem verið hefur á undanförnum árum.“

Þá benda hagfræðingarnir á að nauðsyn beri til, að fjárfestingarfyrirætlanir séu í samræmi við áætlun um sparnað og innflutningsáætlun, og segja: „Það má fullyrða, að þær fjárfestingarfyrirætlanir, sem felast í fjárfestingaráætluninni 1948, séu langt umfram árlegar sparnaðarfyrirætlanir,“

Af öðrum niðurstöðum hagfræðinganna fjögurra má nefna, að þeir telja, að byggingarstarfsemin hefði farið á ringulreið, ef eigi hefði notið við starfa fjárhagsráðs, og að aukning raunverulegrar fjárfestingar sé ekki nauðsynleg til að koma í veg fyrir atvinnuleysi, þar eð enn séu miklir atvinnumöguleikar fyrir hendi í sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði, geti þessar atvinnugreinar af öðrum ástæðum starfað að fullu.

Hagfræðingarnir segja á bls. 43: „Þær niðurstöður, sem komizt hefur verið að hér að framan, benda eindregið í þá átt, að fjárfestingaráætlun ársins 1949 verði að byggjast á allmikilli takmörkun leyfisveitinga fyrir nýjum framkvæmdum, miðað við það, sem var 1948.“ En þetta verði stundarfyrirbrigði meðan verið sé að ljúka hinum miklu framkvæmdum, sem nú séu á döfinni.

En vilja nú ekki hlustendur bera saman það, sem ég nú hef skýrt frá úr hagfræðingaumsögninni, við hrunsögn hv. 8. landsk., talsmanns kommúnista hér á Alþ., áðan og við þær ómaklegu árásir, sem Þjóðviljinn stöðugt heldur uppi á hæstv. ríkisstj. út af störfum fjárhagsráðs. Ég vil með leyfi hæstv. forseta lesa til samanburðar nokkrar setningar úr Þjóðviljanum. Þar segir 2. nóv. 1947. Hlustendur bið ég afsökunar á því að bera slíkt í eyru þeirra:

„Að setningu þess (fjárhagsráðs) stóðu þau öfl í þjóðfélaginu, sem frá upphafi voru á móti nýsköpun atvinnulífsins og ætið hafa viljað hana feiga, enda fengu þeir fjárhagsráði fyrst og fremst stöðvunarvald; því var ætlað að stöðva þróunina, kæfa bjartsýni og stórhug fólksins, veikja sóknarvilja fólksins til betri kjara. Verk þess hefur verið í samræmi við þetta ætlunarverk, hönd þess hefur verið hin dauða hönd stöðvunarinnar.“

Margoft síðan hefur blaðið talað um „skipulagða stöðvun í byggingarframkvæmdum.“ Blað eftir blað í 16 mánuði er málgagn kommúnista hér á landi að telja lesendum sínum trú um þessa vitleysu. Á sama tíma vinnur hagfræðingur flokksins og þingframbjóðandi merkilegt starf hjá fjárhagsráði og gefur út með þremur öðrum hagfræðingum álitsgerð, sem berlega brýtur í bága við hinn rauða þráð í baráttu kommúnista gegn ríkisstjórn og fjárhagsráði. Ég hlýt að spyrja: Hvað veldur þessari blindu og heimskulegu baráttu kommúnistafl. gegn öllum staðreyndum og þjóðarhag? Hvers vegna leita þeir ekki upplýsinga? Við þessu er aðeins eitt svar: Þeir vilja ekki vita hið rétta; þeir vilja heldur ljúga, en leita sannleikans hjá sínum eigin flokksmanni.

Ef vikið er að framkomu kommúnista í gjaldeyrismálunum og skömmtunarmálunum, tekur ekki betra við. Hinum vísa orðabókarhöfundi, sem ritar sunnudagshugleiðingar Þjóðviljans, dauðleiðist allt tal um gjaldeyri. Allt slíkt er fyrir ofan hans skilning og virðingu. 2. nóv. 1947 kemst hann svo að orði: „Skelfingar ósköp er maður orðinn leiður á þessu þvaðri um hinn horfna gjaldeyri.“ áður, eða 24. okt. 1947, sagði sami spekingur: „Það er því í alla staði fráleitt, sem fjárhagsráð heldur fram, að hinar horfnu gjaldeyriseignir hljóti að verða til þess að lífskjör almennings rýrni.“

Skelfingar ósköp hefði orðabókarhöfundurinn gott af að ganga nokkra daga í hagfræðitíma hjá Jónasi Haralz hagfræðingi. Í álitsgerð þeirri, er ég áður nefndi, gera hagfræðingarnir fjórir verðbólguna að umtalsefni og telja, að hún sé á háu stigi og á mörkum þess að geta snúizt upp í kreppuþróun. Í þessu sambandi komast þeir þannig að orði:

„Það má hiklaust telja, að sú hlið þessarar þróunar, sem alvarlegust er fyrir atvinnulíf landsins, sé þrot hinna erlendu innstæðna og þrot vörubirgða innanlands. Til þess að atvinnulífið geti gengið jafnt og greitt, þurfa ávallt áð vera til vörubirgðir og gjaldeyrisforði og nokkur vissa um framtíðarhorfur, svo að hægt sé að taka ákvarðanir í samræmi við þær horfur. Séu þessar aðstæður ekki fyrir hendi; leiðir það til geysilegrar afkastarýrnunar í atvinnulífinu og jafnvel til hálfgerðrar eða fullkominnar stöðvunar einstakra fyrirtækja eða heilla atvinnugreina um lengri eða skemmri tíma.“

Síðan lýsa höfundar þeim tíma og þeirri fyrirhöfn, sem fer til spillis við ýmiss konar skömmtun og leyfisumsóknir, og komast að þeirri niðurstöðu, að hin mikla afkastarýrnun, sem orðið hafi vegna þrots gjaldeyriseignarinnar og vörubirgða, dragi mjög úr áhrifum tækniþróunar síðustu ára, sem inneignum þá var varið til að efla. Um þetta segja þeir m.a.: „Óhætt er að fullyrða, að engar tækniframfarir, sem hægt væri að koma á nú, séu eins þýðingarmiklar og lagfæring þessa ástands.“

Það er ekki að furða, þó að þeim Þjóðviljamönnum dauðleiðist slíkt umtal. Þeir hafa öðru að sinna, en að leiða hugann að því, sem Jónas Haralz og þrír aðrir hagfræðingar telja alvarlegt, sem sé þrot gjaldeyriseignarinnar og vörubirgðanna.

Fjárhagsráð hefur hins vegar álitið þetta örðugasta og alvarlegasta verkefni sitt og þess vegna verið að glíma við að kippa þessu í lag. Fyrir þetta þjóðnýta starf hefur fjárhagsráð orðið fyrir stöðugum árásum af hálfu kommúnista, er rita Þjóðviljann, en hins vegar ekki fengið þann stuðning, er vænta mátti og vera bar hjá flokksblöðunum. Ég vil í þessu sambandi rifja upp ástandið eins og það var fyrir ári, eða 31. okt. 1947. Þá vantaði bankana 8 millj. kr. til þess að eiga fyrir ábyrgðum sínum við erlenda banka. Auk þess lágu þá í bönkunum erlendar kröfur, yfirfærslubeiðnir og ábyrgðarbeiðnir um gjaldeyri fyrir um 40–45 millj. kr. með fullkomlega löglegum leyfum, sem lítið var hægt að hreyfa sökum gjaldeyrisskorts vikum og mánuðum saman. Sumar þessar kröfur urðu jafnvel allt að tveggja ára gamlar. Þetta ástand var algerlega óþolandi fyrir öll viðskipti. Hætta á algerri stöðvun vofði yfir atvinnulífi landsmanna vegna gjaldeyrisskorts. Sumarsíldin 1947 hafði brugðizt. Þá kom Hvalfjarðarsíldin ásamt hinum stórum auknu tekjum af sölum nýsköpunartogaranna og stórkostlegum niðurskurði á innflutningi til landsins.

Í sumar brást síldin aftur fyrir Norðurlandi, enn verr en sumarið 1947. Féll þar niður tekjustofn, sem nam 70–80 millj. kr. frá því, er áætlað hafði verið. En þrátt fyrir það hefur gjaldeyrisástandið batnað mjög mikið frá því um sama leyti í fyrra. Nú um s.l. mánaðamót áttu bankarnir 28 millj. kr. í erlendum gjaldeyri umfram ábyrgðir, en skulduðu á sama tíma í fyrra 8 milljónum meira en ábyrgðirnar. Auk þess eru hin miklu vanskil frá fyrra ári, er námu eins og áður sagði 40–45 millj. króna, að fullu greidd. Hefur hagurinn út á við því batnað stórlega, jafnhliða og tekizt hefur að koma á jafnvægi milli leyfisveitinga og greiðslumöguleika bankanna. Traust það, sem við Íslendingar vorum að missa erlendis, hefur unnizt á ný. Allar yfirfærslur í sterlingspundum fara nú fram jafnóðum og beiðnir berast. Dollarainnstæður eru að visu engar, en engar óskilakröfur eru lengur í bönkunum vegna skorts á gjaldeyri eins og í fyrra. Úr dollaraskortinum hefur bætzt í bili með Marshallaðstoðinni og með því, hve mikið hefur verið fært af viðskiptum frá Bandaríkjunum yfir á önnur lönd.

Hið mikla átak, sem gert hefur verið til þess að lagfæra gjaldeyrisástandið, hefur þannig borið verulegan árangur. Þetta átak var því aðeins hægt að gera af því, að nýsköpunin, sem Framsókn beitti sér gegn, var á undan gengin. Á árinu hefur öll áherzla verið lögð á að flytja inn nauðsynjavörur vegna rekstrar atvinnuveganna, einkum til framleiðslu útflutningsvara: Þá hefur og verið mjög mikið flutt inn af kapítalvörum til bygginga o.þ.h. Þetta hefur mjög dregið úr því, að mögulegt hafi verið að flytja inn neyzluvörur handa almenningi og hefur það vakið talsverða óánægju, enda ekki til sparað af stjórnarandstöðunni og öðrum, sem vilja núverandi ríkisstj. feiga, að kynda þar undir. Þessar óánægjuraddir hafa haft frjálsan aðgang að öllum blöðum landsins, svo sem vera ber í lýðfrjálsu landi. Þó er vitað, að ekki var vandalaust að takmarka innflutning í fyrsta sinn hér á landi eftir allsnægtirnar í stríðslokin, í peningaflóðinu, sem þá streymdi yfir landið. Því, sem miður fór, hafa blöðin mjög haldið á lofti, en hins vegar ekki brýnt nógsamlega fyrir almenningi, að fyrir rúmu ári síðan áttu landsmenn um það að velja að halda áfram óhindruðum innflutningi, þangað til allt var sokkið í vanskil og skuldir og atvinnuvegirnir stöðvaðir, eða að skera niður innflutninginn, svo sem gert hefur verið með þeim árangri, sem ég hef lýst, og halda jafnframt öllu,. sem unnt var, til atvinnuveganna, svo að fólkið ekki missti atvinnuna.

Á þessu ári hefur mikið áunnizt í þá átt að laga gjaldeyrisástandið, sem kommúnistum leiðist svo mikið að heyra talað um, en hagfræðingarnir telja nauðsynlegt. Þó er fjarri því, að úr því sé bætt að fullu. Vörubirgðir eru mjög litlar í landinu, og þrátt fyrir takmarkaðan innflutning er gjaldeyrisþörfin gífurleg.

Það, sem af er árinu, hafa bankarnir keypt gjaldeyri fyrir 365 millj. kr., þar af 343 millj. fyrir útflutningsverðmæti. Á sama tíma hafa þeir selt gjaldeyri fyrir kr. 313 millj. eða rúmlega 1.1 milljón króna á dag. Það er þess vegna ekki enn þá til eins mánaðar gjaldeyrisforði í bönkunum, en birgðir af útflutningsvöru, sem líklegt er að seljist og greiðist til áramóta, nemur rúmlega 60 millj. kr.

Í þessu sambandi vil ég taka fram, að handbær gjaldeyrisforði einn sýnir ekki hina réttu mynd af ástandinu, heldur þarf einnig að taka tillit til birgða af seljanlegum útflutningsafurðum og birgða af innfluttum vörum í landinu. Hinar síðarnefndu eru nú litlar, en um útflutninginn er það að segja, að afgreidd og útflutt og væntanlega öfluð útflutningsvara nemur um 100 milljónum króna til áramóta.

Hvort ástandið batnar eða versnar á næstu mánuðum, fer eftir því, hvort Hvalfjarðarsíldin kemur og hvernig fer um vertíðina í vetur. Komi Hvalfjarðarsíldin, á að vera óhætt að rýmka nokkuð um innflutning almennra neyzluvara, en komi hún ekki, verður varla til gjaldeyrir fyrir öðru en því, sem ekki verður hjá komizt að flytja inn. Færi svo, að síldin bregðist, er óvarlegt að gera ráð fyrir auknum innflutningi á tollvörum, svo sem gert er í fjárlagafrv. þessu, nema landsmenn kjósi heldur að draga úr fjárfestingu, svo sem til húsabygginga og annarra framkvæmda, minnka innflutning til framleiðslunnar og hafa minna að gera, en fá í staðinn fyrir atvinnu aukinn innflutning á neyzluvöru. Það er nauðsynlegt, að menn geri sér þetta ljóst.

Ef vel væri, tel ég, að gjaldeyrisforði bankanna þyrfti að nema að jafnaði sem næst 100 millj. króna, svo að hægt væri að mæta nokkrum vanhöldum og veiðibresti. Til þess að ná þessu marki þarf annaðhvort ágæta vertíð eða mikið átak eða hvort tveggja. Stöðugur gjaldeyrisskortur truflar mjög öll viðskipti og framkvæmdir, svo sem almenningur hefur fengið að kenna á, á árinu, sem er að líða. Ég hef talið rétt að benda á við þessa umræðu fjárl., að til þess að bæta úr gjaldeyrisskortinum verður að koma sjávarútveginum á heilbrigðan grundvöll, svo að hann geti starfað af fullum krafti. Það þarf að samhæfa framkvæmdir hins. opinbera og einstaklinga, svo sem ætlazt er til með l. um fjárhagsráð. Enn fremur þarf að haga innflutningi eftir greiðslugetu hverju sinni. Þetta er lögmál þeirrar nýsköpunar, sem þjóðin getur byggt á vonir sínar um bjarta framtíð.