05.11.1948
Sameinað þing: 14. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (1368)

42. mál, fjárlög 1949

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég var nú að vísu búinn að þreyta hv. þm. á svo löngum lestri, að ég býst við, að flestir hafi verið búnir að fá nóg af því, enda hef ég nú stuttan tíma til að gera athugasemdir við það, sem fram hefur komið hér í umræðunum, og er því þakklátur fyrir, að þeir þm., sem mark er á takandi, hafa ekki gefið mér tilefni til langs máls.

Ég vil taka undir með hv. þm. Ísaf. hvað snertir fjárfestinguna. Mér betri hagfræðingar hafa staðfest, að það er síður en svo hægt að segja með sanni, að fjárhagsráð hafi verið allt of tregt til fjárfestingar. Athugun á verzlunarskýrslum undanfarinna ára sýnir það glöggt, hve mikið hefur einmitt verið flutt inn á þessu ári af kapítalvörum svokölluðum eða nýsköpunarvörum, hversu mikið rúm þær eru farnar að taka í innflutningnum, en hversu innflutningur allrar neyzluvöru til daglegra þarfa hefur aftur á móti minnkað mikið. Á árunum 1942–6 var meðaltalsinnflutningur af þessum vörum 341/2% af innflutningnum, en á þessu ári er hundraðshluti nauðsynjavara kominn niður í 22.3%, og það er það langlægsta, sem verið hefur um langt árabil. Aftur á móti er innflutningur á byggingarvörum, vélum og tækjum kominn upp í 43% á þessu ári, og þá á ég við í þessu tvennu þá áætlun, sem hv. fjárhagsráð hefur gert um innflutning ársins 1948, og í öðru lagi opinberar skýrslur. Þegar innflutningur á kapítalvörum, byggingarvörum o.fl. er orðinn 40–50%, en nauðsynjavörurnar komnar niður í 22.3%, þá er komið að minni hyggju allt of langt í því að flytja inn hinar svokölluðu kapítalvörur og nauðsynlegt að snúa blaðinu nokkuð við og örva innflutninginn á nauðsynjavörunum og því, sem þar undir er talið heyra. Og meðal annars átti ég við það í ræðu minni, að þessi innflutningur yrði. aukinn og þar með ýtt undir tekjuöflun ríkissjóðs og almenningi í landinu gerð stór þægindi.

Ég skal svo ekki ræða meira um þetta, en vert er að athuga, þegar minnzt er á kapítalvörur, þá á ég við óarðbærar vörur og arðbærar' undir einum hatti, og þegar ég vil láta draga úr innflutningi á kapítalvörum, þá á ég við þann hluta þeirra, sem talinn er óarðbær og festur verður í t.d. ýmiss konar byggingum. En vörur, sem fluttar eru inn vegna sjávarútvegsins, t.d. skip, eða vegna landbúnaðar til framleiðslu í landinu, ber að skoða að mínum dómi í öðru ljósi.

Hv. þm. Ísaf. beindi með mikilli röggsemi frá sér þeim fáránlegu ásökunum, sem hv. 8. landsk. var með, eins og andinn hafði honum inn gefið. Hv. 8. landsk. talaði eins og aðrir, sem kommúnistar senda út af örkinni, þeir eiga að tala svona; það er fyrir þá lagt. Hv. 8. landsk. er að vísu ekki barn, en hann er hins vegar barnakennari, en þar með er ekki sagt, að hann þurfi að tala við hv. þm. og sízt af öllu við alla þjóðina eins og allir væru börn.

Ég hef ekki tíma til þess að fara langt út í það að ræða fullyrðingar hans, en ég vil þó benda á einstök atriði í þeim, t.d. það, að það, sem ég minntist á þá skoðun mína, að það beri að athuga til hlítar, hvort ekki sé hægt að fara aðrar leiðir til þess að bæta úr fyrir bátaútveginum hvað framleiðslumöguleika snertir í framtíðinni heldur en þær að borga beint úr ríkissjóði; sé árás á verkalýðinn í landinu. Ef þetta er árás á verkalýðinn, þá er ég ekki þar einn í sök, því að fjölmennur fundur útvegsmanna samþ. það sama í fyrra og nú fyrir nokkrum dögum síðan. Ef það er árás á verkalýðinn að athuga ráð til þess, að atvinnuvegirnir geti gengið, þá er það orð nýstárlegt, og það getur verið, að slíkt sé tekið sem góð og gild vara hjá kommúnistum og kannske sérstaklega austur í Hornafirði, en ég held, að í eyrum allra skynbærra manna hljómi það hálffáránlega.

Þá ræddi hv. 8. landsk. um fiskiðjuver ríkisins og taldi, að það væri alveg dæmalaust, að því væri ekki veitt innflutningsleyfi fyrir dósum, og hann sagði, að það stæði ekki á neinu öðru til að tryggja arðberandi rekstur, því að hér væri að ræða um mjög auðseljanlega vöru við ágætu verði. En því miður er sannleikurinn sá um það bákn, sem hæstv. fyrrv. atvmrh. lét byggja hér við höfnina, að það lítur út fyrir, að framleiðsla þess sé byggð á þeim grundvelli, að vörurnar seljist ekki erlendis. Hv. 8. landsk. vísaði til þess, að forstjóri þessarar verksmiðju hefði nýlega átt tal við blað, sem nákomið væri Sjálfstfl., og samkvæmt því væri reksturinn á góðum grundvelli og nægir markaðir erlendis fyrir vöruna. Þetta viðtal mun hafa verið í Vísi, þar sem forstjóri fyrirtækisins, hr. Jakob Sigurðsson, lýsti möguleikunum fyrir því að selja þessa vöru. Og það viðtal var tilefni til þess, að ráðuneytið spurði hann um möguleika á því að selja þær vörur erlendis, sem hann léti framleiða í þessari verksmiðju. Svarið liggur í stjórnarráðinu, og Jakob Sigurðsson vísar því frá sér sem röngu sem í blaðinu stendur, og segir, að það sé skakkt eftir sér haft. Og því miður lýsir hann fyrir ráðuneytinu ástandinu í þessum sölumálum, þegar hann er krafinn sagna og stendur ábyrgur, öðruvísi en þegar hann talar við blaðið. Það er ekki ánægjulegt að þurfa að segja það, að stórfé sé lagt í fyrirtæki, sem á svona erfitt uppdráttar að selja sínar vörur á erlendum markaði, en það þýðir ekki annað en að horfast í augu við staðreyndirnar í þessu efni. Íslenzka niðursuðan mun vera seld töluvert á innlendum markaði; en það gengur raunalega illa að ná fótfestu á erlendum markaði enn þá, og þar er kannske fyrst og fremst til trafala, að þessi vara er svo dýr, að hún þykir ekki samkeppnisfær. Það er þetta ástand, sem hv. 8. landsk. kallar, að varan sé auðseljanleg við ágætu verði. Það væri óskandi, að þetta væri satt, sem hv. þm. heldur fram, en því miður er það ekki nema eins og hvert annað fleipur.

Þá átaldi hv. 8. landsk. ríkisstj. fyrir það að hafa ekki látið byggja lýsisherzluverksmiðju og síldarniðursuðuverksmiðju eins og fyrrv. atvmrh. hefði viljað gera og verið byrjaður að undirbúa. Það er satt, að hæstv. fyrrv. atvmrh. var búinn að ausa hundruðum þús. kr. í þann undirbúning. En það var allt á sandi byggt, því að enginn eiginlegur grundvöllur var fundinn undir byggingu þessa fyrirtækis, þegar ég kom í ráðuneytið. En horfurnar eru yfirleitt þannig vegna bygginga verksmiðjanna á Skagaströnd og Siglufirði og þá einnig með tilliti til þeirra byrða; sem á ríkissjóð og þjóðina hafa verið lagðar, og með því ráðslagi öllu saman, samfara aflabrestinum, sem allir þekkja, að ég held það megi þakka það, að ekki er lagt út í margra millj. kr. kostnað með lántöku til þess að koma upp þessari lýsisherzluverksmiðju enn sem komið er.

En það er hins vegar fyrirhugað á næstu árum með hinni svokölluðu Marshallaðstoð að koma lýsisherzluverksmiðju upp á vegum hins opinbera, ef einstakir framleiðendur hér á landi verða ekki áður búnir að byggja verksmiðju til þeirra hluta, sem heyrzt hefur, að sé í undirbúningi. En verði það svo, er sannarlega óþarfi fyrir ríkissjóð að binda sér slíkan bagga, hann hefur nóg af þeim.

Athugasemdir hv. 8. landsk. um hinn gífurlega vaxandi ríkiskostnað og embættismannakostnað eru alveg út í bláinn. Hann byggir annars vegar á áætlunartölum fyrir árið 1946 og hins vegar á reikningsútkomu ársins 1947, en þar skakkar mikið á milli. Hitt er vitaskuld eðlilegt, að ýmislegt hefur vaxið á þessu sviði, eins og t.d. landhelgisgæzlan, sem mun kosta um mörg hundruð þús. kr. fram yfir það, sem áður hefur verið, til 1946 annars vegar og 1947 hins vegar. Þá hefur orðið að fjölga lögregluþjónum og tollþjónum, slíkt var óhjákvæmilegt. Hinu horfir þessi hv. þm. og fleiri hv. þm. fram hjá, hvaða liðir það eru, sem mestum útgjöldum valda. Ég get ekki stillt mig um að nefna 5 greinar þessara fjárl., sem gleypa um 2/3 hluta af öllum tekjum ríkissjóðs og eru þá um leið um 2/3 af öllum útgjöldum ríkissjóðs. Og ef maður tekur ársreikninginn fyrir árið 1947,: liggur ljóst fyrir, hvaða liðir það eru. Það eru t.d. dýrtíðarráðstafanir, sem fara með rúmar 60 millj. kr., kennslumálin, sem fara með 34 millj. kr., vegamálin, sem fara með um 29 millj. kr., landbúnaðarmálin, sem fara með um 18 millj. kr., og loks félagsmálin eða tryggingamálin öðru nafni, sem kosta 26.5 millj. kr. Hinar greinarnar allar 17, svo sem alþingiskostnaður, stjórnarráðskostnaður, utanríkismálin öll, dómgæzla og lögreglustjórn, heilbrigðismálin, vitamálin, hafnargerðir, sjávarútvegsmálin, flugmálin, iðnaðarmálin, ræktunarmálin o.fl., sem ég hef ekki tíma til að telja upp, verða að láta sér nægja 1/3 hluta af útgjöldum ríkissjóðs. Það væri óskandi, að hv. þm., eins og t.d. 8. landsk., vildi gera sér ljóst, hvaða tölur ætti að taka, þegar gera skal samanburð á útgjöldum, en væru ekki að fjasa svona út í loftið með því að benda annars vegar á áætlun, en hins vegar á reikning fyrir árið, og sýna svo stóra hækkun á útgjöldum samkv. þeim. Hitt er satt, að það er allt of mikil þensla á útgjöldum í starfskerfi ríkisins. En hverjir hafa boðið þessari þenslu heim? Eru það ekki löggjafarnir? Og ef út í það er farið, þá vil ég spyrja: Við hvaða tækifæri hefur Sósfl. barizt á móti því, að þenslan héldi áfram? Ég fullyrði: aldrei. Þessi flokkur hefur þvert á móti alltaf greitt atkv. með öllu því hæsta, sem aðrir hafa verið með, og venjulega yfirboðið að auki. — Tími minn er kannske farinn að styttast.

Hv. 1. þm. Rang. sagði, að það væri ekki fyrr en nú, að fjárlfrv. væri lagt fram. En það er ekki alveg rétt sagt. Fjárlfrv. var lagt fram 1. nóv., og er það rétt 20 dögum eftir, að þingið kom saman, og þegar þess er gætt, að ég var veikur 12 fyrstu daga þingsins, þá er það eðlilegt, og þá einnig, að mjög erfitt er að koma málinu saman, enda sagðist hv. 1. þm. Rang. taka mínar afsakanir gildar. Hv. þm. talaði um, að fjárl. hækkuðu o. s. frv. En hann og hans ágæti flokksbróðir, hv. 2. þm. N–M., áttu ákaflega skammt að því búri, þar sem þeir geyma ýmsa óþrifalega hluti, þegar leita þarf að orsökum að öllum vandræðum, sem rekja megi til fyrrverandi stjórnar, sem sé ásökunum á fyrrv. stjórn. En þetta er orðin svo þvæld tugga, að ég nenni ekki að eltast við slíkt. En fyrir það framtak, sem átti sér stað í tíð fyrrv. ríkisstj. í atvinnumálum, þá erum við nú að því leyti ofan á, sem raun ber vitni. Hefðu t.d. nýsköpunartogararnir ekki verið komnir inn í landið til þess að moka inn gjaldeyri, þá værum við nú mjög illa komnir. Og það verður aldrei hægt að neita því, að þeir voru keyptir í tíð fyrrv. ríkisstj. En þessi sárindi fyrrverandi andstæðinga stj. eru ekki ný. Það er ekki hægt að taka það alvarlega, en heldur ekki að láta því ómótmælt, sem sagt er bara af þykkju út í það, sem þá var gert.

Hv. 2. þm. N–M. og hv. 1. þm. Rang., sem hér hafa talað, hafa sagt, að þær 30 millj. kr., sem áætlaðar eru til dýrtíðarráðstafana, væru of lágt áætlaðar. Það er alveg eftir því, hvernig á það er litið, það er að segja, hvort farnar verða alveg sömu leiðir, hvort á að halda áfram að fleygja kjötuppbót í þá, sem ekkert uppbótaskylt kjöt nota t.d., og hvort á að halda áfram að gefa ábyrgð á fiski, svo að hægt sé að selja vörurnar með lægra verði; eða hvort á að reyna að fara einhverjar aðrar leiðir. Ég mun gera það að minni till., að það verði litið nær sér í þessum efnum, því að það liggur vissulega í götunni steinn; sem hætt er við að þjóðin hnjóti um, verði hlaðið á hana of þungum byrðum í þessum efnum, og kannske verður henni um megn að standa undir útgjöldum í þessu skyni. — Hæstv. forseti hefur nú tekið hamarinn í hönd, og má ég vera við öllu búinn.

Ég vil svo leyfa mér að þakka góðar ábendingar þeirra hv. þm., sem talað hafa skynsamlega um málið. Ég vil undirstrika það, að þótt ég hafi talið skyldu mína að benda á ákveðna tekjuöflun, sem ég hef gert, að tvöfalda söluskattinn, þá er ég sem sagt reiðubúinn til þess að tala um aðra lausn á því máli, ef bent verður á aðrar betri leiðir. Ef þær geta talizt skynsamlegri, þá tel ég víst, að bæði ég og aðrir taki þá stefnu, sem Ari fróði gerði að sinni lífsreglu, að vilja heldur gera það, sem sannara reynist. Með þetta í huga lýk ég svo þessum umr. Ég veit, að þetta mál fer nú til hv. fjvn., og ég vona, að hinu háa Alþ. og n. fari afgreiðsla á þessu frv. eins vel úr hendi og ég kann bezt að óska og betur en ég hef getað undirbúið það, þó að ég um leið verði að taka það fram, að ég og starfsmenn mínir í ráðuneytinu hafa ekkert til sparað til þess að vanda sem bezt fráganginn á frv.