25.03.1949
Sameinað þing: 54. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í B-deild Alþingistíðinda. (1386)

42. mál, fjárlög 1949

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Ég sé það er skammt til fundarhlés og stytti því mál mitt. Eins og hv. þm. er kunnugt, hef ég skrifað undir álit fjvn. með fyrirvara. Ég skal að sönnu taka það strax fram, að ég sá þó ekki ástæðu til að gefa út sérstakt álit, af því að nm. unnu saman að flestu, sem gert var, og langmest var samþ. með litlum eða engum ágreiningi. Þar undir falla einnig þeir nm., sem skilað hafa séráliti. Ég gerði ágreining um ýmis atriði, en eins og form. hefur skýrt frá, stóð n. saman um öll mál, sem ekki voru sérlega stórvægileg. Yfirleitt höfum við látið meirihlutavaldið ráða í nefndinni.

Ég skal þá víkja nánar að fyrirvara mínum. Álit mitt var, að heildargreiðslur á fjárlögunum væru of háar, og byggði ég það álit á því, að á undanförnum árum hefur verið gengið svo nærri almenningi í landinu með því að finna út nýja tekjustofna fyrir fjárlögin, að óhugsandi er að bæta við þá tekjustofna. Meira að segja eru sumir þessir tekjustofnar eða álögur þegar farnar að svíkja, þær álögur, sem búið er að samþykkja á þessa veslings þjóð. Því var og er að mínum dómi ekkert vit í að samþykkja útgjöld, sem leiddu af sér nýjar álögur. Ég lagði til, að útgjöldin færu ekki fram úr 200 milljónum, en þau voru 240 milljónir á frv. stj. Alþingi hefur tekið þessum till. á þann hátt að samþykkja dýrtíðarlögin í vetur og hækka þar með greiðslur fjárlaganna stórkostlega. Eftir að þau lög voru samþ., var alveg fallin niður sú till. mín, að ekki yrðu samþ. hærri greiðslur á sjóðsreikningi, en 200 millj. kr., því að ég ætlaðist til, að felldar yrðu niður 33 milljónir í uppbótargreiðslur á 19. gr. En þessa fjárhæð varð að hækka upp í 74.6 milljónir samkvæmt dýrtíðarlögunum.

Það fór svo í hv. fjvn., að þær tillögur, sem ég hef gert til lækkunar, voru felldar yfirleitt. En n. kom sér saman um það að meiri hl. að hækka útgjöldin um allt að 10 millj. kr. Heildarlækkun á útgjaldaliðum samkv. till. n. nemur aftur ekki nema 6 milljónum, og eru sumar þeirra lækkunartillagna aðeins viljayfirlýsingar, sem sennilega koma ekki til framkvæmda. Og eins og stendur í nál., endaði fjvn. á því að leggja til, að frv. verði afgr við þessa umr. með 28 millj. kr. greiðsluhalla. Ég álít þó, að sá halli sé raunverulega talsvert meiri, bæði af því, að sumar lækkunartillögur n. komi ekki til framkvæmda, og einnig vegna þess, að dýrtíðarsjóður muni hvergi nærri hrökkva fyrir útgjöldum þeim, sem búið er að lögfesta með dýrtíðarlögunum, og tel ég því gætilegra að áætla greiðsluhallann nær 40 milljónum. Þessi till. n., að frv. verði við þessa umr. samþ. með þessum halla, varð þess valdandi, að ég gerði minn fyrirvara, því að ég er þessu gersamlega ósamþykkur.

Ég hef lagt fram á sérstöku þskj. lækkunartill., sem samtals mundu lækka greiðslur fjárlaganna um eða nálægt 9 millj. kr., ef samþ. væru. Auk þess hlýt ég að lýsa því yfir, að ég mun greiða atkv. á móti flestum hækkunartill. n., sem nema töluverðum fjárhæðum. Það er dálítið sérkennilegt, eða ég þykist vita, að þannig sé litið á það, að þingmaður skuli flytja 20 brtt. eins og ég geri á þskj. 481, sem allar miða til lækkunar. Þess munu fá dæmi, að þm. flytji þá ekki heldur hækkunartill. við afgreiðslu fjárl., eða þannig er það orðið, óstöðvandi buna af hækkunartilI. Flestar till. mínar á þskj. 481 hef ég áður borið fram í fjvn. og þær verið felldar þar, og er þetta því að mestu endurtekning þeirra. Ég skal strax taka það fram, að tvær af þessum tillögum eru sjálffallnar, það eru 1. og 2. till. undir XX. lið á þingskjalinu, þar sem n. hefur tekið þær upp. 16 till. minna eru sama eðlis, eða um að fella niður fyrirhugaðar byggingar, og þarf ég því ekki að tala um hverja þeirra fyrir sig. Það er nú svo, að þegar ég fór að hugsa um niðurskurð til að ná saman endunum, þá sýndist mér helzt að fella niður ýmiss konar byggingar, svo sem margháttaðar skólabyggingar, skólastjóra- og kennaraíbúðir, viðhald bæjarhúsa, en þó eru byggingar sjúkrahúsa að mestu eða öllu undanskildar í till. mínum. Nú geng ég þess ekki dulinn, að því verði beint að mér, að ég vilji stöðva þarflegar og jafnvel nauðsynlegar framkvæmdir. En því er til að svara, að það er Alþ. og fjvn., sem bera ábyrgðina á afgreiðslu fjárlaganna, og verður að taka hér ákvarðanir í samræmi við þá ábyrgð, og verður hvort eð er aldrei komizt hjá aðkasti með öllu. Ég hlýt því að leggja til, að því sé helzt frestað, sem helzt má án vera. Enginn má draga þá ályktun af þessum till. mínum, að ég sé á móti skólum og opinberum byggingum. Það er aðeins þetta, að ríkið hefur ekki fé til alls, sem má kallast þarflegt og nauðsynlegt, og þá sé ég ekki betur en heldur sé hægt að vera án þessara hluta en þeirra, sem veita klæði eða saðningu. Ég hef orðið dálítið var við, að menn hneykslast á því, að ég, sem lengi hef verið kennari, skuli vera að ráðast á skólabyggingar. En í gamla daga urðum við oft að sætta okkur við að fresta baðstofubyggingu, þótt við vildum gjarna byggja og þyrftum þess raunverulega. Menn ættu stundum að leiða hugann að því, að þessi þjóð hefur beinlínis lifað af iðjusemi og sparsemi og hefur orðið að neita sér um æskilega hluti og jafnvel þarflega til þess að geta lifað. Nú virðist hagsýnin hins vegar ekki orðin meiri en svo, að menn kunni fótum sínum ekki forráð. Þessi þjóð, sem hefur lifað við og lifað af skortinn í marga mannsaldra og lært að mæta skortinum, hún hefur nú lifað litla stund við fjárhagslegt meðlæti, og það hefur sýnt sig, að hún kann ekki að mæta meðlætinu, af því að hana skortir reynslu á því sviði. Hún hafði öðlazt reynslu í því að mæta skortinum og unnið afrek á sviði sparseminnar og þrautseigjunnar, en það er eins og meðlætið hafi blindað hana, og er nú sannarlega kominn tími til að átta sig aftur.

Ég sagði, að 16 af brtt. mínum á þskj. 481 fjölluðu um að fella niður framlög til bygginga, en 4 till. mínar fjalla um annað. — Það er fyrst 1. till. undir XV. lið, um að lækka kostnað við sauðfjársjúkdómavarnir niður í 4.5 millj. kr. Þessi fjárhæð fer síhækkandi frá ári til árs. Á frv. eru 5.8 milljónir, en sú upphæð, sem ég geri ráð fyrir, er þó mun hærri, en varið var til þessara hluta s.l. ár. Ég held, að ekki sé hægt að halda því fram með nokkurri sanngirni, að bændur séu ekki styrktir verulega í baráttunni við sauðfjársjúkdómana, þótt ekki sé lagt fram meira en 4.5 milljónir á þessu ári, einkum þegar tekið er tillit til fjárhags ríkisins. — Undir sama lið á þskj. er till. frá mér um að fella niður framlag til nýrra raforkuframkvæmda og önnur till. um að fella niður framlag til bindindisstarfsemi. Um fyrri tillöguna er það að segja, að hún yrði til þess, að raforkuframkvæmdum seinkaði, og er því frestun á þarflegum og æskilegum hlut, en um framlag til bindindisstarfsemi er vitað, að það er beita til góðtemplara. Ég hef aldrei verið með á þeirri vertíð, og það er vitað, að sá félagsskapur þarf einskis fjár með. Þá er ein brtt. mín við 13. gr., samgöngur á landi, sem hæstv. samgmrh. var að tala um áðan. Vegamálastjóri hafði tilkynnt, að 9 milljónir þyrfti til viðhalds vega, en hann telur nú, að 2–4 milljónir þurfi til viðbótar, og hefur hæstv. ráðh. staðfest það. Ég vil taka fram, að ætlað er ríflegt framlag til vegamála, og er því ósanngjarnt að hafa um þetta eins hörð orð og hæstv. samgmrh. gerði, því að til samgangna á landi eru ætlaðar næstum 17.5 millj. kr. En á stjfrv., og eins hjá fjvn., er þetta sundurliðað til nýrra vega og og vegaviðhalds, og n. hefur sundurliðað, hvað skuli fara til hvers vegar. Ég hef hins vegar alltaf viljað, að fjárveitingin væri ósundurliðuð. Nú tel ég aftur á móti ekki fært að veita meira en 11 milljónir í allt til vega. Ég vil því ekki láta skipta þessu milli nýbygginga og viðhalds, því að það sjá allir, að vitanlega er þarfara að halda við þeim vegum, sem þegar hafa verið byggðir, heldur en að fara að leggja í nýbyggingar. Ég legg til, að 11 millj. kr. verði varið til veganna og vegamálastjóri ráði svo, hvernig hann ver því fé, hvort hann ver því til nýbygginga eða viðhalds eða hvors tveggja. Ég skal svo ekki lengja mál mitt um vegina. Mér heyrðist á samgmrh., að honum fyndist n. hafa farizt illa við vegamálin, en þar er ég á öðru máli. Um samanburð á vegum, sem ráðh. nefndi áðan, kemur ekki til minna kasta að svara, enda geri ég ráð fyrir, að form. n. muni gera það. (GJ: Já, áreiðanlega. ) En ég vil mótmæla þeirri staðhæfingu ráðh., að nú hafi sannazt, hversu heppilegt það hafi verið að leggja Krýsuvíkurveginn. Þvert á móti álit ég, að það hafi aldrei sannazt eins og einmitt í vetur, hvílíkt glapræði það var að leggja hann. (HelgJ: Ósannindi.) Ég vil nú biðja þennan hv. þm. að þegja. Hann hefur nóg hneyksli í samgöngumálum á samvizkunni, þótt hann fari ekki að grípa fram í fyrir mér. Hæstv. forseti, því miður get ég ekki lokið máli mínu nú, en þar sem ég er hér kominn að alvarlegu efni, þá mun ég ekki ræða þetta frekar að svo stöddu. [ Frh.].