28.03.1949
Sameinað þing: 55. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 991 í B-deild Alþingistíðinda. (1392)

42. mál, fjárlög 1949

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti. Ég á hér brtt. á þskj. 481, sem ég stend einn að. Ég skal játa það, að þessi brtt. er til hækkunar á fjárl., ef samþ. verður, en ég þóttist ekki geta komizt hjá því að flytja hana, sérstaklega með tilliti til þess, ef svo ólíklega skyldi fara, að till. á sama þskj. frá hv. 5. þm. Reykv. yrðu samþ. Ef till. þessa hv. þm. verða samþ., verður höggvið stórt skarð í hluta míns kjördæmis, þar sem lagt er til í þeim að fella niður styrk til bæði sjúkrahúss og heimavistarskóla á Akureyri. En hér er um nýja brtt. að ræða, sem er um það, að við 13. gr. A. III komi nýr liður: Glerá við Akureyri, gegn framlags frá Akureyrarkaupstað 210 þús. kr. Þetta mál lítur öðruvísi út en venja er til, þannig að héraðið leggur fram fé á móti ríkissjóði. Akureyrarkaupstaður leggur fram 100 þús. kr. á fjárhagsáætlun sinni fyrir árið 1949 til þess að byggja nýja brú yfir þessa á, sem kemur til með að tengja Glerárþorp við Akureyri á hagkvæmari hátt en áður, en Glerárþorp mænir nú vonaraugum eftir því að geta samtengzt Akureyri. Akureyrarbær hefur sýnt, að hann leggur áherzlu á að fá þessa brú og um leið breytingu á vegakerfinu frá því, sem nú er. Nú vita allir það, sem til þekkja, að brú er á Glerá, en hún er upp undir Gljúfrum á mjög óheppilegum stað, því að í fyrstu snjóum kyngir þar niður mikilli fönn, svo að þar stöðvast flutningar alltaf fyrst. Auk þess fara menn heldur göngubrúna niður á eyrunum, því að það er óþægilega langur gangur að fara þessa gömlu brú. Það er sótt mjög fast að fá þessa nýju brú, og hugsað er að breyta þjóðveginum og fá hann í beinni línu gegnum Glerárþorp og um þessa nýju brú inn í Akureyrarkaupstað. Ég hef farið fram á það við vegamálaskrifstofuna, að geta fengið kostnaðaráætlun um hvort tveggja brúna og veginn. Nú kemur mér þessi vegur ekki beint við þar sem hann tilheyrir ekki mínu kjördæmi, en kostnaður við þennan vegarkafla er áætlaður 250 þús. kr. Kostnaður við að byggja þessa brú er áætlaður 320 þús. kr. Ég hef þess vegna leyft mér að fara fram á það, að ríkissjóður leggi fram 210 þús. kr. á móti 1/3 hluta frá Akureyrarkaupstað til þessarar brúar yfir Glerá. Ég hef svo í raun og veru ekki meira um þessa till. að segja.

Ég á hér aðra till., á þskj. 494, ásamt hv. þm. Str., hv. þm. Ísaf. og hv. 6. þm. Reykv.till. fer fram á greiðslu til Tónlistarfélagskórsins upp í ferðakostnað til Danmerkur á s.l. sumri, 25 þús. kr. Hv. fjvnm. er kunnugt um þetta mál og tildrögin til styrkbeiðninnar, því að fyrir henni lá beiðni um þennan styrk, en var fellt í n. Tónlistarfélagskórinn leggur nokkuð mikið upp úr því að geta fengið leiðréttingu á sínu máli, þar sem kórinn var fenginn að til stuðlan þess opinbera til þess að fara á söngmót til Danmerkur. Kórinn fékk bæði farar- og gjaldeyrisleyfi fyrir tilmæli ríkisstj., og auk þess var honum veittur 20 þús. kr. styrkur strax, til þess að förin ekki heftist. Enn fremur hafði borgarstjórinn hér gefið vilyrði fyrir einhverju upp í greiðsluna. Kórinn stendur fast á því, að hann hafi farið þessa ferð í því trausti, að hann mundi fá beinan ferðakostnað greiddan og að kórfélagar þyrftu ekki að greiða annað en það, sem svaraði til eyðslueyris utanlands, en ferðin tók lengri tíma en fyrirhugað var, af óviðráðanlegum orsökum. Við, þessir 4 þm., höfum því leyft okkur að leggja fram brtt. um, að þetta verði leiðrétt, og óskum við eftir því, að hæstv. Alþ. sjái aumur á þeim, sem hér eiga hlut að máli, og greiði þessar 25 þús. kr.

Ég þarf svo ekki að orðlengja meir. Ég fer ekki í neina lúsaleit um fjárlfrv. yfirleitt, ekki heldur um till., sem fram hafa komið. Það má ýmislegt að því finna, en ég hygg, að þar sé þó fleira vel gert frá n. hálfu, því að við marga og mikla örðugleika mun vera að stríða, þar sem ekki var hægt að koma frv. saman með minna en 28 millj. kr. greiðsluhalla. Hins vegar er fyrir mér eins og öðrum, að við treystum okkur ekki til að koma með neinar sparnaðartill., heldur komum með till. lítið eitt í hækkunaráttina, og verð ég að biðja afsökunar á því.