28.03.1949
Sameinað þing: 55. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í B-deild Alþingistíðinda. (1396)

42. mál, fjárlög 1949

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram ásamt hv. samþm. mínum brtt. á þskj. 488. Er þar fyrst að veita í þessa árs fjárl. 100 þús. kr. til vegar gegnum Selfosskauptún. Eins og hv. þm. vita, þá má þetta teljast alfaraleið. Um þann veg er ákaflega mikil umferð, sérstaklega að sumarlagi. Flestir, sem ferðast um Suðurland, leggja leið sína um þennan veg, og auk þess er þetta aðalsamgönguleið fyrir Rangárþing og Skaftafellssýslu vestri og að nokkru leyti Austur-Skaftafellssýslu. Slit á þessari leið er þess vegna ákaflega mikið, og vegurinn hefur undanfarin ár oft og einatt verið lítt fær sökum þess, hvað hann er ótraustlega gerður. Nú mun í ráði að endurbyggja þennan veg, en vegamálastjóri telur sér það ekki fært, því að það mun vera um það mikla endurbót að ræða, að það verður að fá sérstaka fjárveitingu til þess, því að það getur ekki talizt eingöngu vegaviðhald, sem þarf að gera veginum, heldur megi það teljast endurbygging. Aðalfarartálminn hefur oft verið á leiðinni frá kauptúninu og upp undir Ingólfsfjall, því að vegurinn er þar svo siginn, að hann er lægri en landið beggja vegna. Þess vegna safnast mikill snjór á veginn, og í vetur hefur það oft komið fyrir, að þótt vegurinn væri allvel fær um Ölfusið, þá hafa bílar strandað á þessum parti, frá Ingólfsfjalli og niður í Selfosskauptún. Auk þess þyrfti að endurbyggja veginn gegnum kauptúnið sjálft. Ég vil því mega vænta þess, þar sem svo brýn þörf er á þessari vegarbót, þá verði reynt að mæta þessari ósk, því að nauðsyn þessarar endurbyggingar er mikil.

Þá er önnur till., sem við þm. Árn. flytjum, fjárveiting til húsmæðraskóla Árnýjar Filippusdóttur í Hveragerði. Þessi kona er búin að koma skóla upp, en á ákaflega erfitt með að rísa undir þeim kostnaði, sem byggingin hefur í för með sér. Þessi skóli er fjölsóttur, hefur langoftast orðið að synja stúlkum um víst í skólanum sökum þess, hvað aðsóknin er mikil. Skólinn hefur einróma vitnisburð, að hinar ungu stúlkur hafi haft mjög gott af dvöl sinni þar. Þó segja megi, að hvert hár geri skugga viðvíkjandi fjárhagslegri afkomu ríkissjóðs, þá vil ég samt vona, að mönnum vaxi ekki svo í augum hver smáupphæð, þar sem þörfin er mikil fyrir þær og þær koma að verulega miklu haldi og mikils árangurs má vænta af þeim fjármunum, og það þori ég að fullyrða, að mundi verða um þá fjárveitingu, sem gengi til þessa skóla.

Þá flytjum við till. um endurbót á sjóvarnargarði á Stokkseyri, 12 þús. kr. Þetta verk er hafið og komið nokkuð áleiðis, en sjávarflóð fyrir nokkrum árum skemmdi garðinn, og góð nytjalönd liggja undir skemmdum, ef garðinum er ekki komið upp aftur. Ríkið á hér mikilla hagsmuna að gæta, það eru lendur ríkisins, sem þarna eru í hættu, og ég hygg, að þau verðmæti fari illa, ef ekki er reynt að sjá um að koma upp garðinum það bráðasta, því að hann hefur varið þessar lendur mikið til fyrir skemmdum af sjávarflóðum. En fyrir nokkru kom svo mikið flóð, að það eyðilagði þennan garð á alllöngum kafla, og endurbyggingu hans er ekki nærri því lokið enn. Ég býst við, að þessi upphæð muni alls ekki nægja til að ljúka verkinu, en nokkuð mundi það þó þokast áleiðis, ef þetta fé fengist.

Ég skal svo ekki fjölyrða meir um þessar till. Hv. samþm. minn mun hafa látið þau orð falla, að hann tæki allar þessar till. aftur til 3. umr., og hefur hann tjáð mér það. Það get ég fyrir mitt leyti fallizt á. Ég vænti þess, að hv. fjvn. athugi þær vel og leggi gott orð til, að þær nái samþykki Alþingis.