01.04.1949
Sameinað þing: 61. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 999 í B-deild Alþingistíðinda. (1401)

42. mál, fjárlög 1949

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Það hefur ekki verið mín venja á tveimur undanfarandi þingum að taka mikið til máls hér við umr. fjárl. En að þessu sinni tel ég rétt að segja hér nokkur orð, m.a. að gefnu tilefni. Það komu fram í framsöguræðu hv. form. fjvn. orð, sem ég tel rétt að svara. Ég vil byrja á því að geta þess, að ég gat því miður, af eðlilegum ástæðum, ekki fylgzt með allri hans framsöguræðu. En ég fylgdist með upphafi ræðunnar, og sá hluti ræðunnar gefur mér tilefni til þess að segja nokkur orð. Hv. frsm. byrjaði með nokkrum setningum, sem hann vildi túlka sem skoðun fjvn. um það, á hverju hún byggði sínar till. í höfuðatriðum, og fór þar út í pólitískar fullyrðingar um stefnu þessa eða hins flokksins, sem ég tel, að ekki hafi átt við undir þessum kringumstæðum, þar sem hann í fyrsta lagi var málsvari 7 manna í nefnd sem meiri hluta nefndar, og það, sem hann sagði í þessu sambandi, sem ég gat um, kom þess vegna ekki því við, sem honum var falið að flytja sem frsm. meiri hl. n. Ég ætla ekki að fara að rökræða við þennan hv. þm. um þær pólitísku deilur, sem flokkarnir kunna að hafa í þeim vandamálum, sem nú liggja fyrir og eru vandamál þjóðarinnar. En ég vil fyrir mína hönd og míns flokks mótmæla hans skoðunum, sem fram komu í þessu efni, sem algerlega óviðeigandi og sumpart villandi og sumpart röngum. Honum þótti það við eiga að kasta til mín nokkrum hnútum fyrir það, sem hann talaði um, að einn fulltrúi stjórnarflokkanna léti bóka. En eins og sjá má af nál. meiri hl. n., þá lét ég bóka á þá leið, að „Sigurjón Ólafsson óskar tekið fram, að hann sé ekki samþykkur meiri hl. n. um ýmsar brtt., sem hann flytur.“ Og þetta er það vægasta, sem ég gat látið bóka í þessu efni. En mér fannst ekki ástæða til þess fyrir hv. frsm. fjvn. að stimpla mig sem einhvern andstöðumann einhverrar stefnu innan n., en þetta kom óbeint fram í hans ræðu, að ég væri á móti öllu því, sem lyti að sparnaðarviðleitni innan fjvn. Þessu vil ég mótmæla. Ég hef bókað við hverja einustu atkvgr. mína afstöðu til hinna ýmsu till., sem fram komu í n. En ég tel ekki rétt að þreyta hv. þm. með því að taka fram, hverjum einstökum till. ég var með eða móti og við hvaða atkvgr. um till. ég sat hjá. En eftir að till. sparnaðarnefndar voru lagðar fram í n., reyndi ég í flestum ef ekki öllum tilfellum að fylgja fram hennar till. um sparnaðarviðleitni. Ég undirstrika þetta. En þar, sem lengra var gengið en n. sú lagði til, því var ég á móti. Og ég byggði mína afstöðu og skoðun í því efni á því, að sparnaðarnefnd var þannig skipuð mönnum, að form. n. var skrifstofustjóri í fjmrn., tveir aðrir nm. skrifstofustjórar í félmrn. og atvmrn. og svo aðalbókari og yfirskoðandi reikninga ríkisins, Björn Árnason. Þessir fimm menn tel ég að ættu að hafa þá þekkingu til að bera, að það mætti nokkuð leggja upp úr þeirra sparnaðartill. Og ég taldi mér ekki annað fært en að vera með þeim till., sem þessir menn lögðu til. En þegar fjvn. sá ástæðu til að fara lengra í sparnaðartill. en sparnaðarnefndin gerði, vildi ég ekki lengur vera með. Og það er það líklega, sem hv. form. og frsm. fjvn. á við, þegar hann segir, að ég hafi verið á móti öllum sparnaðartill. nefndarinnar.

Ég vil geta þess, að nokkur hluti fjvn. ákvað að tilkynna ríkisstj., að sá hluti n. mundi leggja til hækkun á framlagi til verklegra framkvæmda, sem næmi 10 millj. kr. Þetta út af fyrir sig skal ég ekki gera hér að umræðuefni, þó að ég verði að játa, að það kenni nokkurrar bjartsýni hjá þeim hluta n., sem að þessu stóð, um fjáröflun hjá ríkissjóði til þess að standa undir þeim kostnaði, sem sú hækkun fjárlaganna hefði í för með sér. En eftir að þetta er gert, þá skilst mér, að ætlunin sé sú að skera niður á ýmsum liðum fjárlaganna, fyrir utan verklegar framkvæmdir, sem e.t.v. mætti láta líta svo út á pappírnum, að mætt gæti þeim till., sem n. hugsaði sér að gera til hækkunar á gjöldum fjárl. Og ég taldi, að fjvn. gengi svo freklega til verks í þessu efni, að þetta yrði ekki annað en blekking ein. Þegar gert er ráð fyrir að skera niður útgjöld í sambandi við skrifstofuhald, þá munu þeir álíta, sem kunnugir eru þessum málum, að engin leið sé að ætlast til þess, að skrifstofur geti framkvæmt þennan sparnað, hvort sem um er að ræða skrifstofur ráðuneytanna eða aðrar opinberar skrifstofur. Þetta var nánast viljayfirlýsing hjá þessum mönnum, sem þarna kom fram, en ekki till., sem byggjast á raunhæfum staðreyndum. Og ég margsagði í fjvn., að ég teldi, að n. væri að blekkja sig með því að koma með sparnaðartill. á pappírnum, sem ekki gætu staðizt í framkvæmd, heldur kæmi það, sem þar væri sagt, að ætti að spara, bara fram sem útgjöld á aukafjárlögum, sem síðar yrðu að samþykkjast af Alþ. Þar greindi mig á við meiri hl. n., og einstakir hv. nm. hafa e.t.v. séð, að þetta var rétt, að hér ætti að gera lækkunartill., sem meir mundu vera till. á pappírnum en till. um raunverulegan sparnað.

Þegar fjárlagafrv. var lagt fram af hæstv. fjmrh., þá var því, eins og kunnugt er, skilað með rúml. 396 þús. kr. greiðslujöfnuði og með rekstrarafgangi upp á rúml. 27 millj. kr. Í meðferð n., eins og kunnugt er, er niðurstaðan allt önnur, þó að rekstrarhallinn sé að vísu ekki nema 222 þús. En greiðslu hallinn er upp á 28 millj. kr. M.ö.o. að í meðferð n. hefur fjárlagafrv. tekið þessum stórkostlegu breyt., sem þessu nemur. Nú skal ég játa, að sumar till., sem gera þennan mismun, eru ekki óeðlilegar. En það má della um sumar aðrar. Viðvíkjandi hækkunartill. um verklegar framkvæmdir, þá skil ég vel þann vilja hjá hv. nm. og e.t.v. mörgum öðrum hv. þm., að æskilegt sé að geta haldið uppi verklegum framkvæmdum í sama horfi eins og til var ætlazt í síðustu fjárl. Hins vegar verður maður að taka fullt tillit til fjárhagsgetu ríkissjóðs. Og nú er, eins og allir vita, þetta þannig, að þessi greiðsluhalli liggur fyrir, ef allar brtt. fjvn. verða samþ. En það liggur enn ekki fyrir stafkrókur um það, hvernig á að mæta þessum greiðsluhalla. Og ég held, að ég og fleiri innan fjvn. hafi orðið þess varir hjá hæstv. fjmrh. og fleiri hæstv. ráðh., að tekjulindir væru svo uppausnar, að erfitt væri að mæta þessum mismun, sem hér er um að ræða. Ég ætla ekki að deila á mína samþm. í sambandi við þetta, nema ég tel, að hér hafi verið mjög ógætilega farið að í hækkunum og sumar lækkunartill. séu mjög óvarlegar. — Ég vildi að gefnu tilefni láta þessa mína skoðun koma fram. Hins vegar verður það á valdi hæstv. Alþ., hvernig það tekur undir þær brtt., sem fjvn. flytur. Ég lýsti yfir í n., að ég mundi greiða atkv. á móti þeim brtt. fjvn., sem ég hefði verið andvígur í n., og virtist mér, að ekkert væri haft við það að athuga. Hins vegar er það alveg óþarfi að brýna Alþfl. með því, að hann sýni hér eitthvert andvaraleysi og þrjózku gagnvart sparnaði. Það tel ég í raun og veru sagt alveg út í loftið. Ég býst við, að innan Alþfl. sé fullkominn vilji fyrir því, að þar, sem með rökum er hægt að benda á, að hægt sé að spara, þá muni hann fyllilega taka undir það að spara eins og hver annar flokkur hér á Alþ. Hins vegar hef ég mína skoðun um það, hvar sé hægt að spara og hvar ekki, eins og sakir standa nú. — Ég sagði áðan, að ég ætlaði ekki að telja upp einstakar brtt. Ég mun láta það koma fram við atkvgr., hverjum þeirra ég er með og hverjum ég er móti. Og það hefur komið fram hjá öðrum hv. þm., svo sem hv. 5. þm. Reykv., að hann var heldur ekki sammála fjvn. í höfuðsjónarmiðum. Og mér var vel kunnugt um það, þó að hann hafi ekki gert þennan ágreining eins og ég, að það var svo um margar þær till., sem áttu að miða til sparnaðar, sérstaklega á skrifstofuhaldi, að hann greiddi ekki atkv. um þær. Ég var þar kannske frekari, þar sem ég greiddi sumum þeirra mótatkvæði.

Þetta vildi ég láta koma fram við þessar umr. og ekki láta því ómótmælt, sem hv. frsm. fjvn. bar mér á brýn. Ég hygg, að ég hafi ekki minni ábyrgðartilfinningu fyrir hag ríkissjóðs en hv. frsm. fjvn., því að ég varð ekki annars var en a.m.k. þegar til atkvgr. í fjvn. voru mál, sem hann taldi vera hagsmunamál síns kjördæmis, að þá var ekki af hans hálfu skorið neitt niður. Og svona mætti lengi telja. — Mun ég svo ekki taka aftur til máls við þessar umr., nema sérstakt tilefni gefist til.