02.04.1949
Sameinað þing: 61. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1012 í B-deild Alþingistíðinda. (1405)

42. mál, fjárlög 1949

Finnur Jónsson:

Það væri að ýmsu leyti freistandi að fara út í brtt. meiri hl. n., en þar sem búið er að ræða mikið um það mál, sé ég ekki ástæðu til þess, afstaða mín og fleiri kemur fram við atkvgr. Ég ætla því að láta nægja fá orð um þessar tvær brtt. frá mér prívat, og 3. brtt. flyt ég með hv. þm. Ak. og fleirum.

Á þskj. 494 á ég tvær brtt. viðvíkjandi mínu kjördæmi, og hefur bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar eindregið skorað á mig að flytja þær. Það er í fyrra lagi 150 þús. kr. til sjúkrahússins á Ísafirði, sem var reist næst sjúkrahúsa á eftir Landsspítalanum og hefur verið fjórðungssjúkrahús í rauninni undanfarinn áratug. Talsverðar umbætur þarf því að gera á sjúkrahúsinu, og einnig þarf fé til væntanlegrar heilsuverndarstöðvar á Ísafirði. Af þessum ástæðum flyt ég þessa brtt. og vænti þess, að n. taki hana að öllu leyti eða einhverju leyti til greina. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið frá Ísafirði, tel ég, að Ísafjarðarkaupstaður hafi ekki nægilegt fé til að framkvæma þær umbætur á sjúkrahúsinu, sem gera þarf.

2. brtt. mín er um, að fjárframlag til Ísafjarðarhafnar hækki úr 180 þús. í 300 þús. kr. Það standa nú yfir talsvert fjárfrekar hafnarbætur þar. Ætlunin er að gera uppfyllingu, er bæti mjög aðstöðu til útgerðar, og ríkið á mjög mikið vangreitt til þessara framkvæmda, og verður að telja, að Ísafjörður geti ekki risið undir hafnarframkvæmdum til margra ára án þess að fá frá ríkinu það framlag, sem það á að greiða. Nú grynnkar innsiglingin til Ísafjarðar óðfluga, svo að stærri skip tefjast þar oft af þeim sökum, og þarf að dýpka svokölluð Sund allmikið, og samkvæmt hafnarlögunum á ríkið að greiða sinn hluta af því. Ísafjörður er stærsta útgerðarhöfn á Vestfjörðum og þótt víðar væri leitað, og ef aðstaða til siglingar flutningaskipa þangað torveldast, hefur það mikil áhrif langt út yfir bæinn sjálfan.

Ég sé, að ýmsar hafnir hafa fengið hærri styrk en Ísafjörður á árinu samkv. till. n. En ég tel það dálítið vafasama aðferð að hvetja menn til hafnarbóta, þar sem ekki er veruleg útgerð, á sama tíma og það er ekki gert á stöðum, þar sem gjaldeyrisöflunin er mest og ríkið hefur mestar tekjur af útflutningi. Það er hæpið að láta sveitarfélög skulda stórfé vegna hafnarbóta og auka árlega við þær skuldir, með því að ríkið getur ekki innt sitt framlag af hendi, í stað þess að beina framkvæmdunum heldur á færri staði og fara þá eftir því, hvar þörfin er brýnust, og borga auk þess fyrst það, sem ríkið skuldar nú þegar vegna þess, sem framkvæmt hefur verið af hafnarbótum. Ég hefði því álitið, að nauðsynlegra hefði verið á þessu ári að greiða áfallnar skuldir sem ríkinu ber að greiða lögum samkvæmt, í stað þess að örva til nýrra framkvæmda og aukinna á hinum og þessum stöðum, vitandi það, að þar getur ríkið heldur ekki innt af hendi sitt framlag eins og stendur.

Ég vil að lokum ítreka þá ábendingu, hve innsiglingin til Ísafjarðar grynnkar óðfluga í sundunum og hver nauðsyn er að bæta úr því. Ísafjarðarkaupstaður getur ekki risið undir þeirri framkvæmd nema fá til þess framlag frá ríkinu og það framlag, sem ríkið skuldar bænum þegar.