03.04.1949
Sameinað þing: 61. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í B-deild Alþingistíðinda. (1406)

42. mál, fjárlög 1949

Steingrímur Steinþórsson:

Við þm. Skagf. eigum þrjár brtt. á þskj. 488. Hv. meðflm. minn hefur mælt fyrir II. lið á þessu þskj., það er um lítils háttar hækkað framlag til Skagafjarðarvegar um Lýtingsstaðahrepp, og mælti hann svo skörulega fyrir þeirri till., að ég hef þar engu við að bæta. En ég vænti þess, að hv. form. fjvn., sem er sennilega eini þingmaðurinn, sem heyrir allt, sem hér er sagt í deildinni, hafi sannfærzt að einhverju leyti um, að nauðsynlegt sé að bæta við þetta vegafé. Þarna hefur verið lagt geysilegt fé í vegagerð og tekið að láni til að ljúka veginum sem fyrst og koma afurðum bænda á markaðinn, en þarna eru hin beztu framleiðsluskilyrði.

Ég er 1. flm. að IX. lið á sama þskj., það er um að hækka fjárframlag til hafnargerðar á Hofsósi um 50 þús. kr., úr 100 í 150 þús. Ég vil leyfa mér að skýra þessa hækkunartillögu, og teljum við flm. hana óumflýjanlega. Fyrir 10–12 árum var byrjað á hafnargerð á Hofsósi og þátti takast vel, gerður var krókur til skjóls fyrir fiskibáta, og var búið að greiða upp kostnað við þá framkvæmd. En sumarið 1948 var ráðizt í að lengja skjólgarðinn eða hafnargarðinn allverulega, og var áætlað, að það verk mundi kosta 700–800 þús. kr., en s.l. sumar varð kostnaður við þetta 1,3 millj. kr., og þar að auki tókst svo slysalega til, að fremsti hluti garðsins eyðilagðist. Hv. form. fjvn. nefndi Hofsós í framsöguræðu sinni meðal staða, þar sem orðið hefðu slys eða stórkostlegar skemmdir á hafnarmannvirkjum í byggingu, og tek ég undir það, að hér er um hið mesta alvörumál að ræða. Þar að auki er það, að ekki skuli vera hægt að treysta kostnaðaráætlunum um slík mannvirki, þótt unnið sé undir verkstjórn vitamálaskrifstofunnar, sem jafnframt hefur gert áætlun um verkið, og eru fátæk sveitarfélög tæld út í þessar framkvæmdir, ef svo mætti segja, þar sem þær reynast kannske helmingi dýrari en áætlað er, og svo verða bæði staðirnir og ríkið févana út úr öllu saman. En nú er sem sagt svo ástatt, að ljúka þarf þessu verki í sumar, og er áætlað, að það kosti 500 þús. kr., og verði ekki lokið við verkið, hygg ég, að allt, sem gert hefur verið til þessa, sé í hættu. Það er mergurinn málsins, og er hér um geysiupphæðir að ræða. Nú hefur ríkið lagt fram 178 þús. kr., þar af er mikið bein lán úr hafnarbótasjóði, svo að beint framlag ríkisins er um 100 þús. kr. til þessarar framkvæmdar, og eru því ógreiddar 340 þús. af framlagi ríkisins til þess, sem gert var í fyrra. Nú hefur Hofsóskauptún tekið stórlán vegna þessa, eða 450 þús. kr., en alla þá upphæð þarf að greiða á næstu þremur árum. Samgmrn. hefur leyft lántökur og ábyrgð, og samkvæmt bréfi frá oddvita hreppsins hefur hæstv. samgmrh. lofað 150 þús. kr. framlagi í þrjú ár. Það er því út frá þessum forsendum, að við fórum fram á hækkunina. Ég leyfi mér að beina því til hv. form. fjvn., að hann hafi samband við hæstv. ráðh. um þetta, því að ég vona, að hæstv. ráðh. minnist þessa loforðs um a.m.k. 150 þús. kr. framlag næstu þrjú árin. Að öðrum kosti getur þetta litla sveitarfélag ekki staðið undir þessum gífurlega kostnaði, þar eð margt annað er með fé að gera eins og gefur að skilja. Þetta munu nú vera allsterk rök, og vænti ég þess, að hv. form. fjvn. lofi okkur flm. að hafa tal af sér, áður en hann tekur ákvörðun um að sinna þessari tillögu í engu.

Þá flytjum við aðra brtt. á sama þskj. Það er viðvíkjandi 400 þús. kr. upphæð, sem veitt er til byggingar húsmæðraskóla. Þessa upphæð viljum við hækka um 50 þús. kr. og að þær 50 þús. kr. verði veittar til húsmæðraskólans á Löngumýri. Skóli þessi er að vísu ekki í lögum um húsmæðraskóla og fær því ekki fé samkv. þeim, svo að ef hann á ekki að verða algerlega afskiptur, þarf sérstaka fjárupphæð handa honum. Annars skal ég skýra hér málið að öðru leyti. Fyrir frumkvæði Ingibjargar Jóhannsdóttur, sem er uppalin á Löngumýri, er skóli þessi reistur, og undrast allir dugnað hennar við að koma upp þessum skóla svo að segja hjálparlaust. Samkvæmt skýrslu frá byggingarmeistara þeim, er sá um byggingarnar, mun þegar hafa verið lagt fram á 5. hundrað þús. kr., en þar af hefur ríkið aðeins greitt einu sinni 50 þús. kr., sem þá fengust teknar á fjárlög. Allir hljóta að sjá, hve lítill hluti þetta er í hlutfalli við framlög ríkissjóðs til skóla, sem sums staðar nemur af kostnaðinum. Það orkar varla tvímælis, að einstaklingur, sem rekur slíkt fyrirtæki, á sannarlega skilið af hendi hins opinbera lítils háttar styrk eða verðlaun fyrir dugnað sinn, og aðsóknin að skólanum, sem alltaf er fullskipaður, sýnir bezt þörfina fyrir slíkan skóla. Hitt geta menn auðvitað deilt um heima í héraðinu, hvort þetta sé heppilegasti staðurinn, en það er óhætt að fullyrða það, að þetta verður eini húsmæðraskólinn í Skagafirði fyrst um sinn. Okkur finnst því réttmætt að aðstoða Ingibjörgu lítils háttar, en fram á mikla fjárupphæð förum við ekki, því að þrátt fyrir það þótt byggingin sé að mestu leyti fullgerð, er þó margt, sem vantar, og hygg ég, að flestir fjáröflunarmöguleikar heima í héraði hafi nú verið notaðir til hlítar. — Ég veitti því athygli, að þm. Árn. hafa farið fram á styrk til skóla Árnýjar Filippusdóttur og að fjvn. hafi fallizt á að taka það mál aftur til 3. umr. Við þm. Skagf. væntum þess, að við fáum ekki verri undirtektir hjá hv. fjvn., og ég vænti þess, að mér hafi tekizt að sannfæra menn um, að það er ekki að nauðsynjalausu, að við berum þetta fram.

Ég ætla mér ekki að ræða mikið brtt. fjvn. núna, yfirleitt virðist mér, að þar komi fram viðleitni til þess að skera niður ýmiss konar skrifstofukostnað, og er það vel, því að af honum er nú orðið meira en okkar litla þjóðfélag getur borið. Hins vegar hefur n. aukið fjárframlög til ýmissa framkvæmda, svo sem vegagerðar og sveitasíma. Ég er yfirleitt þakklátur fjvn. fyrir viðleitni hennar í þessum efnum, þótt sjálfsagt þyrfti að ganga lengra. Hins vegar getur vel verið, að eitthvað af þessum till. sé til þess eins að sýnast, eins og imprað hefur nú verið á hér í umræðunum. Sums staðar hefur n. lækkað lögboðnar greiðslur, en það er auðvitað mjög varasamt og fær alls ekki staðizt.

Í 112. brtt. n. er fjárveiting til framræslu lækkuð úr 600 þús. kr. í 500 þús. kr. Þetta fé er greitt til skurðgröfuframkvæmda og er lögbundin upphæð, og nær því auðvitað engri átt að lækka það. Búnaðarfélag Íslands lagði til, að til þessa yrðu veittar 600 þús. kr., og er það að mínum dómi mjög sanngjarnt. En svo skeður það, að búið er að færa 170 þús. kr. kostnað frá fyrra ári yfir til þessa árs, og þar af leiðir, að af þessum 500 þús. kr., sem ætlaðar eru til þessa árs, hefur þegar verið eytt 170 þús. kr. Ég tel því, að þessi fjárupphæð þurfi að nema 800 þús. kr., eða a.m.k. 770 þús. kr., svo að aðeins sé tekið tillit til skulda frá fyrra ári. Þá vil ég aðeins benda á, að í e-liðnum í 112. brtt. er lagt til, að framlag til verkfærakaupasjóðs falli niður. Ég er ekki beinlínis á móti þessu. Þetta var líka gert í fyrra, þótt þetta séu lögboðin gjöld, og við í Búnaðarfélaginu sögðum fjvn., að þetta væri svo lítið, að við mundum ekki gera neitt veður út af því og reiknuðum með, að það félli niður. Hitt er það, að það er mjög óeðlilegt, að lögboðin framlög falli niður ár eftir ár, og ef einhver bóndi vildi fara í mál út af þessu, þá mundi hann sennilega vinna það, en hitt er það, að þetta er svo lítil upphæð, að það mundi ekki borga sig að fara í mál út af henni. Annars mun ég ekki gera þetta að stórmáli hér, þrátt fyrir það að bændur eigi tvímælalaust rétt til þessarar greiðslu.

Þá leggur fjvn. til, að styrkur til Loðdýraræktarfélags Íslands, 10 þús. kr., verði felldur niður. Þetta er að vísu lítil upphæð, en ég vil þó mótmæla því, að þetta verði fellt niður, og þrátt fyrir það að þessi atvinnuvegur hefur dregizt saman um skeið, þá vil ég eindregið leggja til, að félagið, sem er skipað mörgum áhugasömum dugnaðarmönnum, verði ekki svipt þessum styrk.