04.04.1949
Sameinað þing: 62. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í B-deild Alþingistíðinda. (1416)

42. mál, fjárlög 1949

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég býst ekki við, að ég hefði kvatt mér hljóðs við þessa umr. nema að gefnu tilefni. Hæstv. fjmrh. vék að því í ræðu sinni fyrir nokkrum dögum, að í nál. meiri hl. fjvn. hefði ekki verið getið um starfsmannaskýrslu, sem barst í hendur n. Ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh. þarf að kvarta yfir þessu. Þessi starfsmannaskýrsla kom það seint til n., að ekki urðu þau not af henni, sem fyrir n. vakti, þegar hún óskaði eftir slíkri skýrslu, og hefur hv. form. og frsm. meiri hl. fjvn. vikið nokkrum orðum að því. Hæstv. fjmrh. vék að því, að fulltrúar Framsfl. í n. hefðu gert, eftir því sem honum skildist á form. fjvn., það að svo miklu atriði, að þessi starfsmannaskýrsla yrði lögð fyrir n., að þeir hefðu látið í það skína, að þeir mundu ógjarna vinna í n., ef hún ekki fengist. Ég geri ráð fyrir því, að hér sé um misskilning að ræða. Fulltrúar Framsfl. lögðu áherzlu á það, að skýrslan kæmi á þeim tíma, að hún gæti komið að þeim notum, sem fyrir n. vakti. En ég veit það, að hv. form. fjvn. hefur aldrei sagt það, að þeir hafi sett þetta skilyrði fyrir því að vilja vinna í n. áfram. Hæstv. fjmrh. hélt því fram, að n. hefði fengið þessa skýrslu jafnvel fyrir áramót, eða nokkrum mánuðum áður en n. lauk störfum. Hæstv. fjmrh. veit nú, að þetta er rangt, en ég geri ráð fyrir því, að hann hafði staðið í þeirri meiningu, að svo væri. Ég vil upplýsa það, að það var ekki einu sinni einn mánuður, sem fjvn. hafði yfir þessari skýrslu að ráða, áður en hún lauk störfum sínum. Þegar þessar skýrslur koma til n., er þar, eins og form. fjvn. gat um, allt öðruvísi en n. hafði óskað. N. hafði m.a. óskað eftir, að í þeim kæmi fram, hvað hver starfsmaður fengi mikið fé frá ríkinu fyrir margs konar störf, ekki beint hvað hann fengi í kaup, heldur hvað hann fengi samtals. Þetta lagði n. áherzlu á, eins og hv. frsm. meiri hl. gat um í ræðu sinni í kvöld. Þegar skýrslurnar komu til n., var hún byrjuð að leggja síðustu hönd á þetta frv. og vann við það alla tíma dagsins, sem hún hafði yfir að ráða, þá voru engin tækifæri til þess að vinna úr skýrslunum, svo að það gæti orðið til gagns á þann hátt, sem fyrir n. vakti. Það er þess vegna útilokað, að við því sé að búast, að það komi fram í störfum n. nokkuð, sem marki spor í sambandi við þær upplýsingar, sem fyrir liggja. Þetta vildi ég aðeins upplýsa, en skal taka það fram aftur, að það er fjarri mér að halda því fram, að hæstv. fjmrh. hafi farið með vísvitandi rangt mál. Ég geri ráð fyrir því, að hæstv. fjmrh. hafi ætlazt til þess og lagt svo fyrir, að fjvn. fengi þessar skýrslur svo snemma sem hann tiltók. En þá vil ég benda hæstv. fjmrh. á það, að það hefur verið of lítið fylgzt með því af honum, að þessu væri framfylgt, sem ég geri ráð fyrir, að hann hafi lagt fyrir sitt rn. að vinna, og mætti þá segja, að hér væri um hans sök að ræða að einhverju leyti, að þessar skýrslur komu svona seint til n. Þetta vildi ég taka fram, vegna þess að hæstv. fjmrh. virðist undirstrika það, að fulltrúar Framsfl. í n. hafi talið það eitthvert sérstakt bjargræði, að fjvn. fengi þessar skýrslur. Það má vel vera, að það hefði orðið að einhverju leyti, ef skýrslurnar hefðu komið í tæka tíð, en það voru engin skilyrði til þess, að svo gæti orðið, eftir að þær komu fram.

Þá spurði hæstv. fjmrh. um það, hverjir það væru í fjvn., sem vildu láta ríkisútvarpið hafa að óþörfu allar tekjur viðtækjaverzlunarinnar. Ég held, að það sé enginn einasti maður, sem vildi láta útvarpið halda þessum tekjum að óþörfu. En hitt er annað mál, að meiri hl. fjvn. vildi láta það haldast óbreytt, að ríkisútvarpið fengi þær tekjur, sem af viðtækjaverzluninni fengjust, og af þeirri einföldu ástæðu, eftir því sem ég bezt veit, að ég tel það upplýst, að missi ríkisútvarpið þessar tekjur, þá hefur það í raun og veru ekki nægilegt rekstrarfé. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir því að afnotagjöld viðtækja séu 31/2 millj., en það er í raun og veru ekki nema 2.1 millj. kr., sem ríkisútvarpið má nota af þeirri upphæð til síns rekstrar. Það er kunnugt, að fyrir nokkrum árum var árgjald viðtækja hækkað úr 60 kr. og upp í 100 kr. Mér skildist, að þessi hækkun ætti beinlínis að fara í sérstakan sjóð, framkvæmdasjóð útvarpsins, og að það fé ætti að ganga til þess að byggja yfir útvarpið. Mér skildist, að þessi hækkun afnotagjalda væri bráðabirgðahækkun, sem ekki ætti að gilda lengur en þann tíma, sem það tæki að safna saman á þennan hátt fé til þess að byggja fyrir yfir útvarpið. Þegar því marki er náð, lít ég svo á, að árgjöldin eigi að lækka, og sé litið á rekstrarkostnað útvarpsins með 60 kr. árgjaldi afnotagjalda, er það augljóst mál, að sú upphæð hrekkur ekki til þess að dekka árlegan rekstrarkostnað þessarar stofnunar. Af því að það eru tengsli milli viðtækjaverzlunar ríkisins og útvarpsins, greiddi ég atkv. móti því að slíta þau sundur.

Fyrst ég stóð upp, tel ég ástæðu til að víkja að einni brtt. Það er brtt. 494 XIV, frá hv. þm. Dal., þar sem hann leggur til, að eftirlaun til fyrrverandi ljósmóður, Jónu Jónsdóttur, falli niður. Ég heyrði í ræðu hæstv. fjmrh. fyrir nokkrum dögum, að hann taldi, að fjvn. hefði ekki lagfært 18. gr. Það er viðurkennt af fjvn., að 18. gr. er á margan hátt gölluð og mjög mikið misræmi á ýmsu þar, en ég skal ekki mikið út í það fara, hv. frsm. meiri hl. vék nokkrum orðum að því, t.d. að því, að menn eru þar með meira en full þau laun, sem þeir höfðu, þá er þeir létu af störfum. Ég get tekið undir það með hv. frsm., að þær lagfæringar, sem eiga að koma á þessari gr., eiga að koma frá hæstv. fjmrh. og fjmrn. Ég get upplýst í sambandi við það, að undirnefnd úr fjvn., sem sérstaklega hafði með þetta að gera, kom fram með till. við fjmrn., sem gengu að nokkru í þá átt að lagfæra þessa gr. Við höfðum ekkert tækifæri til að tala um þetta við hæstv. fjmrh., en við töluðum við skrifstofustjóra hans, og mér virtist, að honum þættu þessar till. athyglisverðar. Ég geri ráð fyrir, að það megi búast við einhverri athugun á 18. gr., m.a. í sambandi við þessar till. okkar tveggja úr fjvn., milli 2. og 3. umr.

En það, sem ég ætlaði að segja í sambandi við 18. gr., var það, að hv. þm. Dal. gerði till. um að fella niður eftirlaun einnar ljósmóður úr 18. gr. Það má segja, að þetta sé virðingarverð tilraun til að lagfæra þessa gr., en það er furðulegt, að hv. þm. Dal. skyldi byrja lagfæringu sína á að fella niður þessa konu, ekki sízt þegar tillit er tekið til þess, að hann var einu sinni starfandi í fjvn. og var þá talinn sérfræðingur í öllu, sem við kom 18. gr. Það mætti því búast við, að hann gerði ekki slíkar till. út í bláinn. En um þessa ljósmóður er þannig varið, að fyrir allmörgum árum slasaðist hún svo við skyldustörf sín, að hún hefur ekki beðið þess bætur. Hún fékk svo mikið áfall, að í 3–4 ár lá hún rúmföst. Það má segja, að hún sé nú aðeins rólfær milli herbergja, og er líklegt að hún nái sér aldrei af þessu áfalli. Þessi kona leggur hv. þm. Dal. til, að verði felld niður af 18. gr. Þetta er hans lagfæring, að byrja þarna. Eins og ég sagði áður, er þörf að lagfæra margt í 18. gr., en ég tel, að lágt sé lotið að byrja á þessum stað, á konu, sem vel metin í starfi sínu hlýtur það áfall, að hún bíður þess aldrei bætur á heilsu sinni. Hv. þm. Dal. leggur til, að einar 490 kr., sem þessi kona hefur fengið í 18. gr., verði felldar niður. Allt annað virðist hann telja í lagi í 18. gr. Ég vona, þegar til afgreiðslu þessarar till. kemur, að hv. þm. lúti ekki svo lágt að greiða þessari till. atkv., jafnvel þó að eitt og annað þurfi að lagfæra við gr.