12.05.1949
Sameinað þing: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1098 í B-deild Alþingistíðinda. (1475)

42. mál, fjárlög 1949

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ásamt 7 öðrum þm. hef ég leyft mér að flytja brtt. við fjárlfrv. um það, að Alþ. veiti Gunnlaugi Ó. Scheving listmálara 15 þús. kr. byggingarstyrk til þess að fullgera vinnustofu sína. Listamaðurinn ritaði Alþ. bréf um þessa málaleitan 11. okt. s.l., og með þessu bréfi fylgdu meðmæli frá tveim kunnustu listamönnum þjóðarinnar. Vil ég leyfa mér að lesa þau upp. Hér eru fyrst meðmæli frá Ásgrími Jónssyni listmálara:

„Hr. Gunnlaugur Ó. Scheving listmálari sækir um styrk til hv. Alþ. til þess að láta fullgera vinnustofu og íbúð, sem hann er að láta byggja í Hafnarfirði. Þessi vinnustofa ásamt íbúðinni verður dýr og ofviða honum að láta ljúka við hana án hjálpar. Þar sem „motiva val Schevings er nær eingöngu bundið við sjóinn, er nauðsynlegt, að hann geti haft vinnustofu og heimili þar, sem starfaskilyrði eru fyrir hendi. Undanfarið hefur hann málað í Hafnarfirði margar af beztu myndum sínum, og þar unir hann vel hag sínum og hefur þess vegna, af vanefnum þó, ráðizt í að byggja sér hús þar. Gunnlaugur Scheving er að mínu áliti einn af beztu listmálurum okkar, og mæli ég eindregið með því, að þessum gáfaða listamanni verði veittur hinn umbeðni styrkur.“

Hér eru enn fremur meðmæli frá Jóni Stefánssyni listmálara:

„Ég mæli eindregið með því, að Gunnlaugi Ó. Scheving, sem er einn okkar allra beztu málara, verið veittur styrkur til að koma upp húsi með vinnustofu, svo að hann þannig megi öðlast sæmileg vinnuskilyrði.“

Hér liggja fyrir meðmæli tveggja hinna helztu listmálara landsins með þessari umsókn, og vona ég, að hv. alþm. telji það vega talsvert. Með umsókninni fylgja einnig blaðaummæli erlendra blaða, sem bera þess vott, að erlendir listdómendur telja Gunnlaug Ó. Scheving meðal færustu listamanna Íslendinga. Ég ætla ekki að hafa þessi meðmælaorð mín með þessari till. fleiri. Ég vona, að nafn þessa listamanns sé svo vel þekkt meðal hv. þm., að till. hljóti náð fyrir augum þeirra og verði samþ.