12.05.1949
Sameinað þing: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (1479)

42. mál, fjárlög 1949

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég flyt hér nokkrar till. Á þskj. 721. IV. flyt ég till. ásamt hv. 6. þm. Reykv. um 750 þús. kr. framlag til útrýmingar heilsuspillandi íbúða. Við 2. umr. fluttum við till. sama eðlis að veita 2 millj. og til vara 1 millj. Í l. nr. 44 frá 1946, um aðstoð við byggingu íbúðarhúsa, er í III. kafla gert ráð fyrir, að ríki og bæir skuli vinna í sameiningu að byggingu yfir fólk, sem býr í heilsuspillandi íbúðum, en skömmu eftir að núverandi ríkisstj. tók við, var þessu breytt þannig, að þetta skyldi gert, ef fé væri veitt til þess á fjárl., en nú hefur ekki verið veittur einn eyrir í þessu skyni, og er því verið að afnema þennan merka kafla, sem á sínum tíma var eitt aðaláhugamál Alþfl. Það er ekki vansalaust að veita ekki neitt í þessu skyni og ófært að afnema þennan merka kafla á svo vesalmannlegan hátt.

Þá flyt ég fjórar till. vegna kjördæmis míns. Til Siglufjarðarskarðsvegar komi 100 þús. í stað 20 þús. Það er töluverður kafli uppi á skarðinu, sem er óofaníborinn, og er 20 þús. kr. fjárveiting gagnslaus, en það væri hægt að gera við verstu holurnar, ef fengjust 100 þús. kr. — Þá legg ég til, að framlag til Siglufjarðarhafnar verði hækkað úr 100 þús. í 145 þús. Hafnarsjóður hefur síðastliðið ár látið vinna fyrir hátt í 900 þús. kr. á innri höfninni, og hefur það mikla þýðingu fyrir síldarsöltun. — Þá legg ég til, að veitt verði 150 þús. til byggingar sjúkrahúss á Siglufirði, og er mikil þörf á því fyrir Siglfirðinga og aðkomufólk, sem þar vinnur, og sjómenn, sem eru lagðir þar á land. — Loks legg ég til, að veitt verði 12.235 kr. til Bókasafns Siglufjarðar, og er það til samræmingar við styrk þann, sem bókasöfnin á Ísafirði, Hafnarfirði og Akureyri hafa, og þykir mér ekki rétt, að bókasafnið á Siglufirði fái ekki sömu upphæð og bókasöfn hinna 3 kaupstaðanna, og er þetta því til samræmis. Ég skal svo ekki fjölyrða um þessar till. varðandi kjördæmi mitt, þær eru allar, nema sú síðasta endurtekning frá 2. umr., aðeins með lægri upphæðum.