12.05.1949
Sameinað þing: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1108 í B-deild Alþingistíðinda. (1482)

42. mál, fjárlög 1949

Jón Gíslason:

Herra forseti. Við 2. umr. fjárl. flutti ég brtt. um fjárframlag til sandgræðslu í Meðallandi, og nú flyt ég þessa brtt. hér aftur á þskj. 704, X. Ég gerði þá nokkuð ýtarlega grein fyrir hinni miklu þörf á því að hefjast handa og verja þessa sveit, bæði vegna sveitarinnar sjálfrar og vegna ýmiss konar annarra almennra viðhorfa, svo sem vegna björgunarstarfsemi og þess konar. Ég tel ekki ástæðu til að endurtaka það meginmál. Ég gat þess þá, að nú í vetur hefði komið þarna fyrir bilun á stíflu í sambandi við sandgræðsluna, veruleg bilun, sem gerir það að verkum, að 2 eða 3 garðar, sem eru ríkiseign, eru í mikilli hættu. En þannig eru málavextir, að hvergi virðist vera fyrir hendi handbært fé til þess að gera við þetta verk. En viðgerð á því verður að fara fram í sumar, og er það alveg nauðsynlegt. Ef þetta fé fengist til sandgræðslunnar, sem ég fór fram á og fer nú fram á, að veitt verði, mætti nota eitthvað af því til þessa verks. Nú flyt ég hér sem aðaltill., að veitt verði sama upphæð og ég fór fram á, að veitt yrði við 2. umr., eða 150 þús. kr., en til vara flyt ég till. um miklu lægri upphæð, í staðinn fyrir 150 þús. kr. komi 50 þús. kr., sem er sérstaklega miðuð við það, að ef hún væri samþ., þá væri þó alltaf hægt að gera við stífluna nú í sumar. Ég vonast endilega eftir því, að a.m.k. varatilI. hljóti náð fyrir augum hv. alþm. og verði samþ., ef svo illa tekst til, að aðaltilI. verður ekki samþ. Þá á ég líka brtt. á þskj. 704, IV, sem er aðeins leiðrétting á nafni, en skiptir ekki máli hvað fjárhæð snertir, svo að ég get vel hugsað, að hv. fjvn. taki þessa till. til athugunar við prentun á fjárl. Ég ætla svo ekki að orðlengja um þetta frekar, en vonast eftir því, að brtt. mín á þskj. 704, a.m.k. varatill., fái góðar undirtektir hv. alþm.