12.05.1949
Sameinað þing: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í B-deild Alþingistíðinda. (1484)

42. mál, fjárlög 1949

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég hef heyrt, að sumir hv. þm., sem talað hafa á undan mér, hafa rökstutt sínar till. með því, að þær væru byggðar á fullkominni sanngirni. Ég vona, að ég geti viðhaft svipuð orð í sambandi við till., sem ég flyt ásamt tveimur öðrum hv. þm. á þskj. 712, VI. Það hafa aðrir hv. þm. gert grein fyrir till., sem þeir flytja um byggingarstyrk fyrir listamenn, og satt að segja er tillöguflutningur okkar þremenninganna þannig til kominn, að fyrst farið var að flytja till. um byggingarstyrk til handa listamönnum, þá þótti okkur ekki mega við svo búið standa. Við flytjum því hér till. um, að Sveinn Þórarinsson listmálari fái byggingarstyrk. Fyrir nokkrum árum samþ. Alþingi 20 þús. kr. byggingarstyrk honum til handa. En þá bauðst honum húsnæði í leiguíbúð, svo að hann hætti við bygginguna og hagnýtti sér ekki þennan styrk. Hér er því í raun og veru um endurveitingu að ræða, þegar við förum fram á byggingarstyrk handa honum, að vísu ekki 20 þús. kr., heldur sömu upphæð og hinir, 15 þús. Og þegar um endurveitingu er að ræða til þessa listmálara, þá vil ég fastlega vænta þess, að þessi listamaður gleymist sízt af þeim, sem hér er stungið upp á.

Ég hef svo ekki meira um þetta að segja, en það er ein önnur lítil till., sem ég flyt ásamt hv. þm. Ak. og hv. þm. Ísaf., að veita 600 kr. ekkju Steingríms Matthíassonar læknis. Það er svo lítil fjárhæð, að ég sé ekki ástæðu sérstaklega að hafa neinn formála fyrir því, en ég býst við, að hv. þm. geti, þegar á allt er litið, fallizt á að styðja þessa litlu liðsbón, því að þessi fjárhæð, þótt lítil sé, mundi koma þessari konu að nokkru liði.