12.05.1949
Sameinað þing: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1110 í B-deild Alþingistíðinda. (1485)

42. mál, fjárlög 1949

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég hef setið hér og hlustað á mál manna í sambandi við þær fram komnu till. og óskir og þarf ekki að svara miklu. Mest af þessu er endurtekning frá fyrri umr. Skal ég þó aðeins minnast á örfá atriði.

Hæstv. fjmrh. tók fram í sínum örfáu orðum, að það mundi ofmælt hjá mér, að fjárl. væru með 47 millj. kr. greiðsluhalla. Ég vil benda á, að ef reiknaðar eru til útgjalda, hvort sem lán er tekið til þess eða ekki, allar upphæðir, sem eru í 22. gr., og annað er ekki hægt, úr því að við lántökurnar er bundið, að því fé verði varið til útgjalda, þá verða fjárl. afgr. með 47 millj. kr. halla, svo framarlega sem ekki verður breyt. á tekjuöfluninni, og þó betur, ef eitthvað verður samþ. af þeim till., sem hér liggja fyrir, og má búast við, að eitthvað af því flækist inn við þessa umr. Ég skal í sambandi við þetta minna á, að ég hygg, að hæstv. ríkisstj. hugsi sér að koma með brtt. til öflunar tekna, en að sjálfsögðu er það ekki tilbúið enn, vegna þess að þau frv., sem fyrir liggja í sambandi við þá tekjuöflun, eru ekki enn þá orðin að l., og hygg ég, að hæstv. ráðh. muni ræða um það við fjvn., áður en þær till. verða bornar fram, eins og hann minntist á.

Ég vil í sambandi við eitt mál, sem hæstv. atvmrh. minntist á fyrr við umr., að hann fengi sérstaka heimild til að verja 150 þús. kr. af því fé, sem lagt er til raforkumála, til þess að greiða kostnað við rannsókn á raforkuveitum fyrir einstaklinga, leyfa mér að benda á, að slík heimild er í raforkulögunum, og þarf ekki að setja þessa heimild sérstaklega hér í fjárl. Þar er skýrt tekið fram, að það megi verja fé úr raforkusjóði til að greiða kostnað við rannsókn á slíkum mannvirkjum, áður en byrjað er á þeim. Ég vænti því, að hæstv. ráðh. geti fallizt á, að það sé ekki nauðsynlegt að taka þetta upp í fjárlagafrv., enda hef ég rætt um þetta við hann utan funda og hann fallizt á, að þetta væri rétt, og haft við orð, að hann mundi lýsa yfir því á Alþingi. áður en umr. lyki.

Hæstv. ráðh. hefur einnig í dag minnzt á það við fjvn., hvort hún sæi sér fært að taka upp nokkurt fé eða heimila nokkurt fé til að mæta frekari kostnaði við mæðiveikivarnir og fjárskipti, en n. hefur ekki séð sér fært að taka þetta upp í till. sínar, og ræður þá hæstv. ráðh. og metur, hvort hann vill sjálfur bera fram till., því að ekki hefur fengizt meiri hl. fyrir því í fjvn. að bera fram slíka till. Það er þegar ætlað nær 6 millj. kr. til þessara útgjalda á ári. Ég tók það sérstaklega fram við fyrri umr., að þess væri að vænta, að stjórn þessara mála sæi sér fært að draga svo úr þessum kostnaði, að þetta fé gæti dugað, ekki aðeins til þess að mæta þeim kostnaði, sem yrði í ár, heldur einnig til að greiða þær eftirstöðvar, sem væru frá fyrra ári og ekki hefðu verið enn þá greiddar. Þetta þótti mér rétt að láta koma fram, áður en þingið gengi til atkv. um þessa till.

Hv. frsm. minni hl. sagði í dag, að stjórnarandstaðan hefði ekki getað fylgt till., sem komið hefðu fram frá meiri hl. fjvn., vegna þess að þar væri ekki kostnaður við lögbundnar skuldbindingar til skólabygginga, eins og hann tók til orða, þrátt fyrir það að fjárhagsráð hefði gefið leyfi til þessara bygginga. Ég vil út af þessu benda á, að Alþingi er engan veginn bundið við að láta það fé á einu ári eða sérstökum tíma, sem látið er til skóla. Það er alveg á valdi Alþingis á hverjum tíma, og nú treystir þingið sér ekki einu sinni til að láta nægilegt fé til skólabygginga upp í ógreitt framlag, sem átti að vera greitt um síðustu áramót. En þó að það framlag, sem hér er ákveðið, sé ekki nægilegt til að greiða upp allt það, sem fallið er í gjalddaga, þá skilst mér, að hæstv. menntmrh. treysti sér ekki einu sinni til að verja þessu fé öllu og kannske ekki einu sinni meiri hlutanum til að greiða þessi ógreiddu gjöld. Mér hefur skilizt á hans ræðu, að hann treysti sér ekki til að skipta þessu milli þeirra, sem eiga kröfu á að fá sín framlög. Hér var flutt till., að þessu fé yrði skipt hlutfallslega milli þeirra, sem eiga kröfu á ríkissjóð fyrir framkvæmd á skólabyggingum. Þetta mun vera gert af því, að þörfin sé svo mikil, að það sé enn meiri þörf að fara út í nýbyggingar á skólahúsum en að ríkissjóður láti féð ganga til að greiða þær upphæðir, sem enn eru vangoldnar, og ég hygg, að það sama liggi til grundvallar, þegar sami hæstv. ráðh. óskar eftir því, að af tvennu illu, að skera niður framlag til skóla eða prestabústaða, þá vill hann heldur skera niður skólabyggingar og fá fé til að halda áfram að byggja prestabústaði, sem mér skilst, að búið sé að framkvæma, en hér sé ekki um að ræða nægilegt fé til að greiða þær framkvæmdir, sem þegar hafa verið gerðar. Mér þykir rétt að láta þetta koma fram. Það er engan veginn lítið atriði fyrir viðkomandi sveitarfélag, hvort það getur hýst sinn prest. Það sýnist svo, að það sé kannske miklu meira virði fyrir sveitina að geta haft slíkan embættismann í héraðinu heldur en að hafa hann ekki, og ef menn vilja tryggja hans veru í héraðinu, þá verður að tryggja honum sæmileg húsakynni, eða a.m.k. einhver húsakynni. Er það gleðilegt fyrir mig, sem bar eitt sinn fram á Alþingi brtt. um, að byggingar prestabústaða úti um sveitir landsins skyldu ganga fyrir, að vita, að sá skilningur á að fá að ráða hér á þingi, því að á þeim tíma var sú till. drepin, að láta ganga fyrir að byggja prestsseturshús úti um land, og teknar yfir 200 þús. kr. til að byggja hér í Reykjavík, sem ég tel mjög misráðið. En batnandi manni er bezt að lifa, og er það mér gleðiefni, að augu þessara manna hafa nú opnazt fyrir þörfinni.****

Ég þarf ekki að bera fram frekari skýringu á því, hvers vegna lagt er til að lækka framlag til fávitahælis, ég tók það fram í framsöguræðu minni, og væri það ekkert nema endurtekning að fara að taka það upp aftur.

Þá vil ég ræða nokkuð við 1. þm. N–M., vegna þess að hans brtt. eru nokkuð sérstæðar, borið saman við aðrar till., því að þær eru flestar til lækkunar, og skal ég fara um það nokkrum orðum.

Hann leggur til, að við 10. gr. verði liðurinn „risna“ lækkaður um 15 þús. kr. Fjvn. bar fram við 2. umr. brtt. í þá átt að taka af svo að segja alla risnu, þó ekki til forseta Íslands og forsætisráðherra. Sú till. byrjaði á því að taka af risnu til forseta hæstaréttar, því að n. taldi, að það væri ekki eðlilegt, að forseti hæstaréttar fengi risnufé, því að það er enginn samanburður, hvað meiri risna hvílir á forseta Íslands og forsætisráðherra en forseta hæstaréttar. En meiri hluti Alþingis felldi þessa viðleitni fjvn. að fella niður risnu almennt. Þess vegna getur n. með engu móti fallizt á, að það sé verið að taka risnuna einmitt af forsætisráðherra. Ég get því ekki undir neinum kringumstæðum lagt til, að þessi brtt. verði samþ.

2. till. er um að fella niður kostnað við ríkisráð. Þetta er samkvæmt l. Í þessari upphæð er hluti af launum ríkisráðsritara, sem er um leið ritari forseta Íslands, og er laununum skipt á milli. Hann mun hafa 15 þús. kr. hjá forsetaskrifstofunni, en 9 þús. kr. hjá ríkisráði. Ég held, að það væri aðeins að flytja á milli, ef ætti að setja laun ritara öll yfir á forsetaembættið, en komi í sama stað niður. Þetta er bókfærsluatriði, sem ég sé ekki, að hafi nokkra þýðingu.

Um kostnað við fálkaorðuna liggja fyrir upplýsingar frá forsetaskrifstofunni. Kostnaðurinn á síðasta ári var rúmlega 26 þús. kr. Það stafar mest af því, að n. hafði talið nauðsynlegt að láta skrautrita orðubréfin. Með tilvísun til þessara upplýsinga sá fjvn. ekki ástæðu til annars en að mæta þessum kostnaði og getur því ekki fallizt á þessa till.

Allt eru þetta smáar till. Þetta yrði um 39 þús. kr. En hér er veigamikil till., að fella niður kostnað við sendiráðið í Moskva. Fjvn. ræddi þetta mál mjög ýtarlega við hæstv. utanrrh. og utanríkisskrifstofuna. N. fannst þessi kostnaður vera mjög mikill, en að athuguðu máli komst hún að þeirri niðurstöðu, að það mundi ekki vera hægt að draga úr þessum kostnaði, enda er það svo, að það er kominn kostnaður á það, sem liðið er af þessu ári, svo að það er ekki hægt að fella liðinn alveg niður, auk þess sem hæstv. utanrrh. hélt fram, að það mundi verða nauðsynlegt að setja sendiherra í Rússlandi í staðinn fyrir sendiráðsfulltrúa, og það mundi enn auka kostnaðinn. Það hefur legið fyrir þinginu frv. um, hvort það eigi að minnka utanríkisþjónustuna. Ég er á móti að minnka hana. Ég tel, að eitt af því nauðsynlegasta fyrir landið sé að hafa sem allra bezta utanríkisþjónustu. Þar veltur á miklu, hvort góðir menn veljist í þær stöður, en ég tei, að það fé komi einna fyrst og bezt aftur, sem varið er til virkilega góðra sendiherra og sendifulltrúa. Ég er því persónulega á móti þessari till., og eftir því sem atkvgr. gekk í n., þá tel ég, að nm. séu einnig á móti henni. Það voru í n. menn, sem vildu minnka verulega framlag til sendiráðanna, framsóknarmenn, flokksmenn hv. flm. þessarar till., þeir töldu það bjarga ákaflega mikið öllum fjárl., ef hægt væri að draga úr kostnaði. Ég hef ekki verið þeirrar skoðunar, nema síður sé.

Um 5. till. þarf ég ekki að ræða, það var, eins og ég gat um áðan, athugað í sambandi við aðrar till. um risnu.

Um 6. till., að fella niður skattdómara, er það að segja, að það er bundið með l. Annars vil ég upplýsa, að fjvn. ritaði til stjórnarráðsins um að taka til athugunar, hvort ekki væri hægt að spara þetta í framtíðinni. Það er ekki hægt að spara þennan lið nema með því að víkja þessum manni úr starfi. Annað og meira hefur n. ekki gert í því sambandi.

Í sambandi við 7. till. hefur verið athugað af fjvn. að lækka þessar upphæðir til vegagerðarinnar, en þær hafa verið samþ., svo að meiri hl. fjvn. sér ekki ástæðu til að lækka það meira, en hefur verið gert. Ég er ekki alveg sammála hv. flm., að það sé ávinningur að fækka þarna verkfræðingum, því að það fé getur vel komið aftur, sem varið er til að undirbúa framkvæmdir sem bezt. Það getur komið margfaldlega aftur. Ég skal hins vegar ekki fara langt út í þetta atriði út af fyrir sig, hvort þarna er þörf á fleiri eða færri verkfræðingum. N. hefur gengið frá sínum till. um þetta mál og sér því ekki ástæðu til að hallast að annarri brtt. þar að lútandi.

Þá koma till. undir III. lið frá þessum hv. þm. Ég vil benda hv. þm. á, að í okkar till., þskj. 460, 91, var þessi vegur rétt nefndur, Úthéraðsvegur. Ef hv. þm. hefur vel athugað það, þá sér hann því, að fjvn. hefur farið rétt með þetta atriði. Það hefur sennilega skolazt til í prentun á þskj. 556 og er vitanlega hrein prentvilla, því að eins og hann getur séð, hafði n. þetta nafn rétt. Hér er því aðeins um leiðréttingu að ræða, sem hæstv. forseti gæti gert án atkvgr. Ég hef þó vitanlega ekkert á móti því, að þessi till. komi til atkv., en þetta er ekki nema sjálfsögð leiðrétting.

Um till. hans að fella niður ræktunarvegina verð ég að lýsa yfir, að ég sem frsm. meiri hl. n. er á móti þessari till. hans og eins till. að fella niður vegalagninguna í Kópavogi. Ég skil ekki þessa tilhneigingu hv. þm. að vilja spara þarna 80 þús. kr. á vegalagningu í Kópavogi. Hvers vegna má þessi hreppur ekki fá fé til vegagerðar, þó að það sé ekki þjóðvegur? Hér er þó verið að leggja veg um lönd ríkisins, og ríkið fær talsverða leigu eftir þessi lönd. Mér finnst þessi till. því einkennileg. (PZ: Hvað mikla?) Ég veit það ekki, en ég geri ráð fyrir, að eftir því sem byggðin eykst, þá vaxi leigan. Það má kannske breyta þessu í framtíðinni, að leigan fari til vegagerðar. Mér finnst smátt skorið að vilja taka þetta burt, því að það er mikil þörf á þessari vegagerð.

Um VII. till. vil ég benda hv. þm. á, að 1. liður þessarar till. var til umr. við 2. umr., en var þá tekinn til baka, eftir að búið var að flytja aðra till. um að taka sams konar framlag til vegagerðar í Hvalfirði. Eins og ég skýrði frá þá, var þetta byggt á því, að vegamálastjóri hafði lagt til, að 235 þús. kr. yrðu teknar í veginn. Þm. kjördæmisins óskaði heldur að setja þetta fé í ferjuna taldi það betra, ekki eingöngu fyrir héraðið, heldur fyrir allar samgöngurnar, og fjvn. sá ekki ástæðu til að ganga þar á móti vilja þm., sem átti að hafa bezta þekkingu á því máli, auk þess sem ég vil benda á, að það var á sínum tíma ákveðið af Alþingi, miklum meiri hl. alþm., að byrja þetta mannvirki. Ég var ekki þeirrar skoðunar, en hef þar beygt mig fyrir sterkum meiri hl.

Ég veit ekki um Hornafjörð, hvort hv. þm. telur, að þessi 100 þús. nægi til ferjuhafnarinnar þar, eða vill hann, að þetta sé byrjunarframlag? Hér fór n. eftir nákvæmum upplýsingum frá vegamálastjóra. En svo framarlega sem 100 þús. kr. nægja ekki, getur ekki komið til mála að lækka þetta framlag fremur en t.d. vegaframlag í hans Norður-Múlasýslu.

3. liður er um að lækka framlagið til Brjánslækjar úr 50 þús. kr. í 30 þús. Nú er það svo, að 50 þús. nægja þar ekki, það þarf sennilega þrisvar sinnum 50 þús., svo að ég veit ekki, á hverju hann byggir sína lækkunartill.

4. till. er um, að styrkur til námsmanna falli niður. Var þetta rætt nokkuð í fjvn., m.a. var þar rætt um till., sem kom fram um að hækka þennan lið allverulega. Ég verð að segja það, að það situr illa á hv. þm., eftir að synir hans hafa notið slíks styrks, að bera fram till. um, að aðrir megi ekki njóta sömu hlunninda. Hans ágæti sonur hefur þó fengið meira fé en þessir menn, og ég tel ekki rétt að koma nú með till. um að taka þennan styrk af þeim. Ég skal hins vegar upplýsa, að okkur þótti óeðlilegt, að menntamálaráð skuli úthluta þessum styrkjum til barna stórefnamanna. Það hefur sýnt sig við síðustu úthlutun, að það eru ekki fyrst og fremst börn fátækari foreldra, sem styrkja njóta. Fyrir því vildi meiri hl. fjvn. ekki hækka þennan lið. — Ég þarf ekki að ræða um 5., 6. og 7. lið. — Nú, þetta er í sambandi við flugmál. Jæja, Í fyrsta lagi liggur fyrir till. um, að þessi tillgr. skuli öll breytast. Málið hefur verið rætt við flugmálastjóra, og það er talin þörf á að veita nokkurt fé til að styrkja menn til flugnáms. Það verður ódýrara en að setja hér upp flugskóla, og það eru nú ekki nema 80 þús. kr., sem veittar eru til þessa. Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta nánar, en skal þó að síðustu minnast á XXI, mér virðist, að till. geti tæplega staðizt eins og hún er orðuð. Það er sagt í gr., að það eigi að taka lán, en ekki hjá þeim, sem eiga að fá síma. A.m.k. er ekki bannað að taka lán í Landsbankanum. En ég skil, hvað hv. þm. meinar, hann meinar það, að þeir hreppar eða þeir bændur, sem vilja leggja fram féð, fái síma í staðinn. En það felst tæplega í orðunum eins og þau hljóða, og ég er ekki viss um, að þetta yrði eins heppilegt og það lítur út fyrir, og hætt er við, að í framkvæmdinni yrði það þannig, að síðast kæmi síminn til hinna fátækustu. Ýmsir eru svo settir, að þeir eru inni í símakerfinu, og kostar litið að leggja línur til þeirra, en svo búa aðrir á útkjálkum, þar sem síminn er hin mesta nauðsyn vegna langvega, bæði mikill vinnusparnaður og öryggisatriði. En með þessu fyrirkomulagi er hætt við, að síminn yrði síðast lagður á þessa staði.

Ef allar till. hv. þm. yrðu samþ., yrði greiðsluhallinn á fjárl. yfir 2 millj. króna meiri en hann er í dag. Af sparnaðartill. er um 410 þús. kr. niðurskurður á verklegum framkvæmdum. Þessi hv. þm., sem sí og æ hefur boðað, að ekki megi fara út í niðurskurð á verklegum framkvæmdum, ber þetta fram. Ég mun ekki geta lagt til fyrir hönd n., að þessar till. verði samþ.

Hér er brtt. á þskj. 704 frá hv. þm. V-Sk. (IV), og er þar um að ræða leiðréttingu, sem sjálfsagt er að samþ.

V. lið get ég ekki mælt með og ekki heldur VI. eða Vlll., né heldur IX. og X. lið, og hef ég gert grein fyrir því áður, hvers vegna n. vill ekki sinna þessu.

Um XI. liðinn vil ég segja það, að mér er ókunnugt um, að Ólafur Sigurðsson sé á launum hjá ríkissjóði og till. um fjárveitingu til að auka æðarvarp var engan veginn bundin við nafn Ólafs Sigurðssonar. Okkur skildist, að hann væri á reipum Búnaðarfélags Íslands. Það var rætt um, að nokkuð af þessu fé færi til æðarvarpanna á Bessastöðum og Reykhólum. En um varpið í Reykhólum er t.d. það að segja, að þar er árangurinn sorglegur, því að varpið er komið niður í helming af því, sem það var. Ólafur Sigurðsson hefur engin afskipti haft þar af, e.t.v. af því, að tíma hafi skort. En fjvn. vildi ekki eyða fé í þessar rannsóknir, hvort sem það hefur verið rétt eða rangt. Það er svo mál Búnaðarfélags Íslands, hvernig gerð verða upp laun Ólafs Sigurðssonar, sem ég tel, að aldrei hefði átt að fara frá starfi sínu við fiskiræktina og nota sína þekkingu á þeim málum, sem hann hefur mikla og góða, en hann er nú horfinn frá því starfi, af hvaða ástæðum sem það hefur verið.

Liðinn um loðdýrarækt get ég ekki fallizt á að samþykkja. Það kom til umræðu í n. að fá Búnaðarfélag Íslands til að taka það mál að sér. Og ég vil beina því til hv. 1. þm. Skagf., hvort það væri ekki eðlilegast, að það væri ekki sérliður á fjárl.

Um XII. liðinn er það að segja, að fjvn. samþ. till. um að fella niður þetta framlag til Kvenréttindafélags Íslands vegna þess, að þetta kom inn í fjárlög í fyrra til þess að bera kostnað af ákveðinni starfsemi, sem bundin var við það ár, og var það sett að skilyrði fyrir styrkveitingunni, að ekki yrði sótt um styrkinn aftur, og þess vegna vildi fjvn. ekki fallast á þetta.

Í sambandi við XIII. liðinn samþ. fjvn. að veita Benedikt Benjamínssyni fyrrverandi pósti 815 kr.styrk.

XIV. liðinn ræddi ég við 2. umr. Í sambandi við XV. liðinn vil ég geta þess, að n. hefur ekki séð sér fært að taka þetta upp vegna þess, að konan var að lögum skilin við mann sinn, áður en hann féll frá.

Liður nr. XVI. fjallar um það, að á eftir orðunum „síldarverksmiðjur ríkisins“ komi: „og síldarverksmiðjan á Seyðisfirði.“ Fjvn. hefur ekki viljað mæla með, að þetta yrði tekið upp. Ef farið yrði inn á þessa braut, að borga með einkaverksmiðjum og láta þær fá uppbót á síldarvinnsluna, þá yrði erfitt að neita öðrum, ef tap þeirra væri svipað, hvað þá meira. En það þarf að athuga, hvort þessi verksmiðja og aðrar gætu ekki og hefðu getað selt afurðir sínar fyrir hærra verð, t.d. lýsi til Frakklands, og þá væri a.m.k. ekki ástæða til jafnstórra uppbóta.

Um XVII. liðinn hef ég skýrt frá áður, að n. vill ekki leggja til, að hann verði samþ., og sama er að segja um byggingarstyrkinn til listamannanna.

Um brtt. undir XX. vil ég segja hv. 3. landsk., að ég hef borið hana undir fund og meiri hl. n. hefur ekki viljað fallast á, að hún yrði samþ., né heldur hæstv. menntmrh.

Varðandi brtt., sem merkt er með XXIV, vildi ég benda hv. 1. þm. Skagf. á, að ég persónulega get ekki fallizt á þau rök, að greiðsluskylda hvíli þarna á ríkissjóði, þó að tekjur hafi minnkað vegna þess, að vegurinn hafi opnazt. Og ég er undrandi yfir, að samvinnun. samgöngumála skyldi fara inn á þessa braut. Ég verð að segja, að ef fara á inn á hana — ja, hvar endar það þá? Það hefur hver flóabátur tapað á þessum árum — Konráð á Breiðafirði hefur t.d. alltaf verið rekinn með tapi, sem sýslan eða héraðið greiðir. Kann að vera, að orsökin til þess, að n. lagði til að taka upp rekstrartapið á „Víði“, sé í sambandi við loforð eða samninga frá 1947, sem gerðir hafa verið við félagið, en þau gögn hafa ekki legið fyrir í n. Um hafnarmannvirkin á Hofsósi er öðru máli að gegna, og ég hef minnzt á, hvernig samkomulag hefur orðið um að leysa þau mál. Varðandi ummæli hv. 6. landsk. um Akureyrarhöfn vil ég segja, .að fjvn. á engan þátt í að ákveða fjárframlög úr hafnarbótasjóði til þessa hafnarmannvirkis. Hún hefur ekki einu sinni séð þann lista, sem ráðh. talaði um. Hins vegar er það ósk n., að þetta fé verði nú notað til þess að greiða úr aðkallandi þörfum og jafnt til þeirra hafna, sem eiga mest ógreitt. Það er rétt, að ríkissjóður á vangoldnar um 370 þús. kr. til þessarar hafnar, en hafnarbótasjóður á að vera fær um að jafna það. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. sjái sér fært að taka til greina, hvaða hafnir eiga mest inni hjá ríkinu, og líta síðan á það, hvar þörfin er mest. N. leggur þetta í vald ráðh., enda þótt skýrslur hans sýni nú raunar, að Faxaflói hafi nú fengið bróðurpartinn — og felst engin ásökun í því. En ég get ekki fallizt á, að till. hv. 6. landsk. verði samþ.; hún mundi raska því samkomulagi, sem um þetta hefur orðið á milli n. og ríkisstj. Mér skilst, að hv. 1. þm. Skagf. þykist hafa fengið einhver loforð hjá ráðh., en****

ég tek það fram, að það er von okkar í n., að hafnarbótasjóði verði varið eins og ég sagði. Við væntum þess, að hæstv. ráðh. með sína miklu þekkingu á þessum málum muni gera eins vel og hann getur við þessa aðila og hafi þá jafnan helzt í huga staði þá, sem mest eiga hjá ríkissjóði, t.d. Akureyri og þá staði, sem orðið hafa fyrir mestum áföllum. Ég geri ekki ráð fyrir, að hæstv. ráðh. geti í dag sagt nákvæmlega, hvað veitt muni í hverja höfn, og óska ég heldur ekkert sérstaklega eftir því, og sem sagt, fjvn. treystir hæstv. ráðh. til þess að leysa þessi mál eins og bezt verður á kosið.

Brtt. á þskj. 681 skal ég ekki ræða neitt sérstaklega, en vil aðeins benda hv.1. þm. Skagf. á, að það hefur ekkert að gera með trú manna á einstaklingsframtakinu, hvort þeir samþ. VIII. brtt. eða ekki. Þessir skólar eru utan við fræðslukerfið, og fræðslumálastjórnin er á móti slíkum skólum. Ef hér væri um að ræða samstarf milli ríkis og einstaklinga, þá væri öðru máli að gegna, en ég vil taka það fram, að ég ber að sjálfsögðu fulla virðingu fyrir þeim einstaklingum, sem ráðizt hafa í þessar skólabyggingar. Það er aðeins sú stefna, sem hér ræður um heildarskólakerfi, sem veldur því, að till. sem þessi eiga erfitt uppdráttar.

Varðandi IX. brtt. á þskj. 681 vil ég benda hæstv. samgmrh. á, að til n. hafa borizt ýmis erindi í sambandi við rekstur gistihúsa úti um land, en n. hefur ekki treyst sér til að sinna þeim erindum af þeirri ástæðu, að þetta er hlutverk sérleyfissjóðs að styrkja þessi gistihús. Það er sérstaklega eftirgjöf á veitingaskatti, sem beðið hefur verið um, en það er náttúrlega styrkur, og vildi ég gjarna heyra hjá hæstv. ráðh., hvort hann treysti sér ekki til þess að hlúa betur að þessum gistihúsum með framlagi úr sérleyfissjóði. Það er sótt ákaflega hart á frá ýmsum þessara staða, t.d. Bjarkarlundi, sem er á alfaraleið, og það horfir til fullkomins öngþveitis, ef húsinu verður lokað. Þessi stofnun er ekki reist í gróðaskyni, heldur er þetta menningarstofnun, og hafa aðstandendur hennar tekið á sig miklar byrðar, og ég vona því, að hæstv. ráðh. sjái sér fært að styrkja gistihúsið að Bjarkarlundi sem og aðra slíka staði, t.d. Vegamót á Snæfellsnesi, á þessu ári með fjárframlögum úr sérleyfissjóði. Ég veit, að fé er til í sjóðnum, en að vísu hefur hann í fleiri horn að líta, en þetta er svo aðkallandi, að ekki er hægt að loka augunum fyrir þessari þörf, og það hefur hæstv. ráðh. ekki gert, en n. hefur ekki sinnt erindum þessara aðila, þar sem hún telur það vera hlutverk sérleyfissjóðs að styrkja þá. Get ég því ekki fyrir n. hönd lagt til, að þessi brtt. verði samþ.

I. brtt. á þskj. 712 er almenn vegatill., og skilst mér, að samkomulag sé um, að samþ. ekkert af þeim, og með II. brtt. á sama þskj. er farið inn á alveg nýja braut, og veit ég ekki, hvar stöðva á slík framlög, ef veita ætti 210 þús. kr. til að byggja brú yfir á, sem ríkissjóður hefur áður byggt brú yfir nokkrum metrum ofar. Ef ríkissjóður teldi sig hafa efni á slíku framlagi, þá væri þess áreiðanlega meiri þörf annars staðar. — Um IV. brtt. á sama þskj. er það að segja, að það er mál milli þessa aðila og hæstv. ríkisstj. að gera út um það. Ef loforð er fyrir hendi frá hæstv. ríkisstj. að greiða þetta, þá verður að eiga um þetta við hana, en ekki fjvn.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða mikið brtt. á þskj. 715. Þær eru flestar vegatill., sem ekki er hugsað, að nái fram að ganga. Þó vil ég aðeins minnast á V. till., sem er um að veita 40 þús. kr. til kaupa á snjóbíl. Svipað efni er í einhverri annarri brtt. Ég gat þess áður, að vegamálastjóri óskaði eftir heimild til þess að kaupa tvo snjóbíla á 80 þús. kr., en n. gat ekki á það fallizt og ekki á þessa till. heldur.

Þá er það till. á 685 frá hv. þm. V-Húnv. og fleirum, a- og b-liður, og verð ég að segja, að mér finnst þetta dálítið einkennilegt, að till. skuli koma fram, þegar nál. er komið um málið. Ég er ekkert að ásaka hv. þm., en mér finnst þetta dálítið einkennileg málsmeðferð. Fjvn. er á móti II. brtt. á sama þskj. Hún er tekin hér upp þannig, að 2000 kr. munur er frá því, sem fellt var við 2. umr., en ég held því fast fram, að fjvn. hafi haft fulla ástæðu til að lækka styrkinn til listamannanna vegna þess samnings, sem gerður var, þegar Ísland gekk í Bernarsambandið. Ef þeir hafa verið vel settir áður, þá eru þeir miklu betur settir nú, því að sá samningur skapar þeim mun betri kjör en áður. Engar upplýsingar lágu heldur fyrir hjá n. um það, hvort þessum hóp hefur fækkað eða fjölgað. N. getur því ekki mælt með því, að þessi till. verði samþ. Sama er að segja um III. brtt. á sama þskj. um að veita Helga Hjörvar skrifstofustjóra ársleyfi frá starfi með fullum launum, og ef þetta er samþ., lendir það náttúrlega á ríkissjóði, þótt það væri látið í veðri vaka við n., að útvarpið ætti að greiða þetta. En hvort sem er getur n. ekki fallizt á þessa till. — Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða mikið aðrar brtt. Hér er að vísu komið nýtt þskj., 721, en þar eru mest vega- og hafnatill., og svo ein till. um að veita 5 millj. kr. á árinu til atvinnuaukningar í landinu, en n. getur ekki mælt með henni.

Að síðustu vil ég svo aðeins taka fram, að það er skilningur n., að fullt samkomulag sé milli n. og ríkisstj. um að vera á móti öllum till. frá einstökum þm. Ef þetta er misskilningur hjá mér, þá vildi ég gjarna heyra um það frá hæstv. ríkisstj., og þá teldi ég n. óbundna um afstöðu til einstakra brtt., en þetta samkomulag er gert m.a. vegna þess, að báðum aðilum er ljóst, að í dag er greiðsluhallinn á fjárlagafrv. yfir 40 millj. kr. og mjög er óskað eftir því, að útgjöldin færu ekki fram úr tekjunum.