12.05.1949
Sameinað þing: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í B-deild Alþingistíðinda. (1486)

42. mál, fjárlög 1949

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Á fyrstu dögum þingsins bar ég ásamt fleiri hv. þm. fram till. um afnám sérréttinda í tóbaks- og áfengiskaupum, og var þetta 24. mál þingsins. Till. var útbýtt 19. okt. og vísað til fjvn. 25. jan. Nál. frá meiri og minni hlutum komu um mánaðamótin marz–apríl. Síðan hefur till. verið einu sinni eða tvisvar á dagskrá, en þó svo neðarlega, að aldrei hefur komið til frh. 1. umr., og ég sé engar líkur til þess, að um hana fáist úrslitaatkvgr. á þessu þingi. Þetta er í þriðja skiptíð, sem svipaðar till. eru fluttar, en ekki hefur blásið byrlegar fyrir þeim en svo, að þær hafa aldrei komið til lokaafgreiðslu. Því þótti okkur flm. rétt að flytja um þetta efni brtt. við fjárlagafrv., og höfum við flutt brtt. við 3. gr. þess efnis, sem segir á þskj. 681,I, að engir viðskiptavinir tóbaks- né áfengiseinkasölunnar megi njóta sérréttinda þar, nema sérstaklega sé ákveðið í löggjöf. Ég heyrði á hv. form. fjvn., að honum þótti nokkuð einkennilegt að flytja þessa till. í sambandi við fjárlögin. En þegar hann athugar, hversu erfiðlega hefur gengið að fá úrslitaatkvæðagreiðslu um slíkar till., þá held ég hann undrist ekki þessa aðferð, enda má segja, að eðlilegra sé að útkljá þetta í sambandi við fjárlögin, og hefðum við flm. átt að hafa þessa aðferð í upphafi. Mér skildist og á hv. form. fjvn., að samkomulag væri milli fjvn. og ríkisstj. um að fella allar till. einstakra þm. (GJ: Það á ekki við um þessa sérstæðu till.) Það væri og undarlegt, að hæstv. ríkisstj. væri á móti till., sem miða að því að auka tekjur ríkissjóðs, en þessi till. miðar óneitanlega að því. Vænti ég því, að bæði hv. fjvn. og hæstv. ríkisstj. styðji þessa till. — Skal ég svo ekki hafa fleiri orð um þetta, en þegar ég er flm.till., sem miðar að því að auka tekjur ríkissjóðs, þá vona ég, að mér fyrirgefist, þótt ég flytji smáútgjaldatill. ásamt hv. þm. A-Húnv., en sú till. er um að veita 5 þús. kr. til endurbóta á Borgarvirki í Víðidal. Við fórum í fyrra fram á 10 þús. og til vara 8 þús. kr. Mér láðist að vísu að senda beiðni þessa efnis til fjvn., meðan hún starfaði, en þrátt fyrir það vona ég, að hv. þm. geti fallizt á þessa litlu till. Ég gerði grein fyrir þessu máli á síðasta þingi, og er það á þann veg, að Húnvetningar, bæði heima í héraði og Húnvetningafélagið hér, hafa bundizt samtökum um að reyna að endurbæta þetta forna virki, en málaleitun okkar létum við flm. í fyrra fylgja álitsgerð fornminjavarðar, Kristjáns Eldjárns, og sagði hann m.a., að Borgarvirki sé einstætt meðal íslenzkra fornleifa, og telur það líklega eitt elzta mannvirki á landi hér og sennilega til orðið fyrir samtök heils héraðs á landnámsöld, og eftir að hann hefur mælt með að endurbæta virkið, segir hann, að því megi koma alveg í sína fornu mynd. Það er þegar hafin fjársöfnun meðal Húnvetninga til þessarar endurbótar á virkinu, en ég tel mjög sanngjarnt, að nokkur styrkur verði hér veittur af hálfu hins opinbera. Skal ég svo ekki fara um þetta fleiri orðum.