12.05.1949
Sameinað þing: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1148 í B-deild Alþingistíðinda. (1501)

42. mál, fjárlög 1949

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég sé nú ekki ástæðu til þess að taka alvarlega spjall hv. þm. Barð. viðvíkjandi till. þeim, sem ég flutti um athugasemdir við ríkisverzlunina. Það er ekki óalgengt, að athugasemdir, skýringar og skilyrði séu sett í fjárl. Slíkt finnst hér í eldri fjárl. Hv. frsm. sagði, að það hefði átt að flytja þetta sem brtt. við viðkomandi l. Ég held, að það sé hvergi í l. að láta einstaka menn hafa tóbak og áfengi við lægra verði en almennt er greitt fyrir þessar vörur. Hv. þm. segir, að ég hafi talað um þetta sem sparnað. Ég sagði, að þetta væri tekjuauki fyrir ríkissjóð, og þannig er það líka, ef maður reiknar með því, að þessir menn fái sér sopa við og við, eins og þeir hafa gert. Þá talaði hv. þm. um, að auka þyrfti risnufé. Um það geta auðvitað verið skiptar skoðanir, en jafnvel þótt veita þyrfti vín af hálfu hins opinbera, þá er það enginn skaði fyrir ríkissjóð, þótt það sé reiknað á réttu verði. En við vitum báðir, að þetta vín er ekki eingöngu notað til risnu, heldur nota menn þetta til eigin þarfa, og svo framarlega sem þessir menn halda áfram að nota vín, þá er þetta tekjuauki fyrir ríkissjóð.

Mér virðist, að till. mín um vínið hafi farið í kollinn á hv. þm. Hann fór að tala um ríkisbú og heilsuhæli, og í þessu sambandi minntist hann einnig á Skriðuklaustur og Bessastaði. Þó held ég, að hv. þm. sé ekki fullur, en hann talar eins og hann sé augafullur. — Þá talaði hann einnig um blóðbanka, sem hér ætti að fara að stofna, en ef svo er, þá ætti flokkur hans að fá handa honum skammt af nýju blóði, og það stóran skammt, og gefa honum hann inn, áður en hv. þm. byrjar að tala um fjárl.