16.05.1949
Sameinað þing: 74. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (1562)

42. mál, fjárlög 1949

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Í þingsköpum Alþingis er svo ráð fyrir gert, að útvarpað sé fjárlagaumræðu. Ástæðan mun sú, að afgreiðsla fjárlaga er talin svo mikilsvert atriði, að rétt sé og sanngjarnt, að þjóðin fái sem gleggst að vita, hvernig hún fer úr hendi. Þetta er rétt, því að fjárlögin eru aðalmál þingsins, og samkvæmt stjórnarskránni skulu þau afgr. fyrir upphaf þess árs, er þau gilda fyrir. En brot á þessu ákvæði virðist núverandi ríkisstj. ætla að gera að fastri reglu, þótt aldrei hafi keyrt svo um þverbak sem nú, þar sem stjórnað er fjárlagalaust hátt á fimmta mánuð. Sjálfur formaður Framsóknar sagði um þetta í þingræðu í vetur, að Ísland mundi eina lýðræðisríkið í veröldinni, þar sem slíkt ætti sér stað. En þess skal minnast, að núverandi ríkisstj. taldi það eitt af sínum aðal verkefnum að koma fjármálum ríkisins í betra horf, en áður.

Þessi fjárlög eru sérstæð um fleira en það að vera siðbúnari en nokkur önnur fjárlög, sem Alþingi hefur samþ. Þau eru líka hæstu fjárlög, sem samþ. hafa verið. Árið 1946 námu rekstrarútgjöld fjárlaga 127 millj. kr. Um það sagði Tíminn, blað þáverandi stjórnarandstöðu: „Framsfl. hefur verið í stjórnarandstöðu síðan 1944, vegna þess að hann hefur ekki viljað taka þátt í þeirri stigamennsku, sem hér hefur viðgengizt.“ Þessi fjárlög gera ráð fyrir rekstrarútgjöldum, er nema 263 millj. kr., eða 143 millj. hærri en 1946. Sæmileg viðbót á þremur árum hjá ríkisstj., sem taldi sitt aðalverkefni að lækka dýrtíðina og færa allt verðlag niður.

Til þess að fyrirbyggja misskilning vil ég strax taka það fram, að ca. 30 millj. af þessari hækkun er vegna löggjafar, er sett var í tíð fyrrverandi stj., en komið hefur til framkvæmda hin síðari ár. Þessi löggjöf er tryggingalögin, nýbyggðalögin, skólalögin og raforkulögin. Þetta er skylt að taka fram, en samt er eftir yfir 100 millj., sem önnur útgjöld hafa hækkað á tímabilinu.

Hafa þá verklegar framkvæmdir hækkað svo mjög? Ekki er það. Til vegamála og hafnarmála er aðeins mjög lítið hærra framlag. Til flugmála aftur nokkru hærra, á aðra millj. kr. Einnig er skylt að minna á framlög til sauðfjárveikivarna, hátt á fimmtu milljón króna, hækkun á lögboðnum jarðræktarstyrk og ýmis smáatriði, sem óviðáðanleg eru. Að öllu þessu frádregnu stendur samt eftir ca. 100 millj. kr. hækkun, er verður að skrifast á reikning þeirrar stj. og þeirra flokka, sem ráðið hafa síðustu ár.

Man nú þjóðin loforð stj. og flokka hennar, þegar hún var mynduð? Þau eru víða skjalfest, m. a, í blöðum þeirra frá þessum tíma. 21. jan. 1947 sagði Tíminn: „Framsfl. mun ekki skorast undan ábyrgð óvinsælla viðreisnarráðstafana, og hann er fús að teygja sig langt til samkomulags við gamla andstæðinga, ef hann telur það geta orðið þjóðinni til hagsbóta, en hann er sér þess líka fullkomlega meðvitandi, að sú skylda hvílir þyngra á honum, en hinum flokkunum, vegna fyrri baráttu hans og loforða um að berjast fyrir heilbrigðu fjármálalífi. Og fám dögum eftir stjórnarmyndunina segir Tíminn í leiðara, þar sem rætt er um stefnu stj.: „Eysteinsstefnan hefur þannig sigrað eins greinilega og verða má. Hún mun verða þjóðinni leiðarljós út úr þeim fjárhagsógöngum, sem hún hefur ratað í, alveg eins og hún barg þjóðinni yfir hin miklu kreppuár fyrir stríðið.“ Þá segir Alþýðublaðið tveim dögum eftir að stjórnin var mynduð: „Málefnasamningur ríkisstj. á vísar vinsældir þjóðarinnar. Með honum er tryggt, að samstarf lýðræðisflokkanna þriggja grundvallist á því, að haldið verði áfram nýsköpun atvinnulífsins, og markvisst og ákveðið stefnt í þá átt að búa þegnum lýðveldisins öryggi um atvinnu og afkomu og þá um leið lífskjör, sem hæfi menningarþjóð, er byggir land mikilla auðæfa og mikilla möguleika.

Þá er ekki lakara hljóðið í Vísi. Hann birti leiðara undir fyrirsögninni: „Á réttri leið“, og segir þar svo: „Nú hafa lýðræðisflokkarnir loksins hrist af sér hið andlega ok kommúnismans.... tekið höndum saman, hvað sem kommúnistar segja, til þess að stöðva þróun öfganna, sem ógna borgaralegu þjóðfélagi. Þetta er fyrsta skrefið, sem þjóðin þurfti að stíga til að komast á rétta leið.“ Ekki vantaði fullyrðingarnar um að nú væri búið að tryggja hag þjóðarinnar.

Samkvæmt tilkynningu Sjálfstfl. hafði nú verið stigið fyrsta sporið, sem stíga þurfti, til að „komast á rétta leið“, það sporið, að útiloka sósíalista frá áhrifum öllum. Samkvæmt tilkynningu Alþfl. höfðu „lýðræðisflokkarnir tekið höndum saman til að búa þegnum lýðveldisins öryggi um atvinnu og afkomu.“

Og tilkynning Framsóknar var hvorki minni né ómerkilegri en það, að nú hefði bara sjálf Eysteinsstefnan sigrað, svo greinilega sem verða mátti, og mundi nú bjarga þjóðinni frá áföllum öllum, ekki síður en í kreppunni fyrir stríðið. Já, sitt hvað má nú segja íslenzkum kjósendum. Víst er um það. En þá er vert að skoða betur hina réttu leið Sjálfstfl., atvinnu- og afkomuöryggi Alþfl. og sigurför Eysteinsstefnunnar, sjálft glansnúmer Framsfl.

Þess var áður getið, að hátt á fimmta mánuð hefur landinu verið stjórnað fjárlagalaust. Þingið, sem enn er að störfum, er þing ársins 1948 og hóf starf sitt 11. okt. s.l. Fyrr gat það ekki byrjað vegna þess, að nokkrir af þingmönnum Sjálfst.- og Framsfl. þurftu að slátra lömbum sínum, áður en þeir fóru að heiman:

En þótt störfin byrjuðu ekki fyrr, var ekkert fjáralagafrv. tilbúið frá hendi hæstv. ríkisstj. Það var fyrst lagt fram 1. nóv. og vísað til fjvn. 5. s. m. Var þá lítill tími eftir til jóla, en hefði þó vissulega mátt komast lengra með afgreiðsluna en varð, ef fulltrúar stjórnarflokkanna í fjvn. hefðu mátt stíga, þótt ekki hefði verið nema í annan fótinn, hvað ákvarðanir snerti. Það máttu þeir ekki vegna óvissu um afgreiðslu annarra mála og ósamkomulags innan sjálfrar ríkisstj.

Þegar frv. var lagt fram, var það með áætluðum 27 millj. kr. rekstrarhagnaði, sem virtist í fljótu bragði allglæsilegt. Við nánari athugun kom þó annað í ljós. Framlög til verklegra framkvæmda voru lækkuð um 12 millj. frá fjárlögum síðasta árs. Dýrtíðarráðstöfunum voru ætlaðar 33 millj. í stað 551/2 millj. í fyrra. Samt voru rekstrarútgjöld áætluð 213 millj. í stað 221 millj. í fyrra. En þegar tekið var tillit til 6,5 millj. aðstoðar við bátaútveginn, sem fyrirhuguð var, kom í ljós, að önnur gjöld voru áætluð 20 millj. hærri, en á síðasta ári,. 12 millj. af því átti að spara á verklegum framkvæmdum, og nú var látið í það skína, að það ætti að fara að lækka dýrtíðina og áætla því dýrtíðargreiðslurnar lægri. Það var auðvitað ekki vonum seinna, þótt fyrirhugað væri að lækka dýrtíðina, eftir allt sem ríkisstj., flokkar hennar og blöð hafa um það mál skrafað og skrifað. Hitt var miklu verra, að þegar á reyndi, kom strax í ljós, að þessum aðilum kom á engan hátt saman um, hvað gera skyldi. Það var rætt um verðhjöðnun. Það var rætt um gengislækkun, og það var rætt um niðurgreiðslur. Svo leið tíminn fram að jólum. Fáum dögum fyrir jól er kastað inn frv. um dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuvegunna. Þar voru ákveðnir nýir skattar er nema þessum upphæðum: Söluskattur hækkar um 17 millj. Ný gjöld af innflutningsleyfum 101/4 millj., og nýr söluskattur af bifreiðum 5 millj. Samtals 321/4 millj. Auk þess skyldi stofnaður dýrtíðarsjóður og í hann renna 74.6 millj. kr. Þetta var leiðin, sem farin var. 32 millj. skattahækkun, sem öll kemur ofan á vöruverðið. Greiðslur vegna dýrtíðar hækkaðar um 41.6 millj. kr. frá því, sem frv. gerði ráð fyrir. Og nú var ekki verið að hangsa við hlutina. Allt var hespað í gegnum báðar þd. á tveimur sólarhringum með öllum þeim afbrigðum, sem frekast eru heimil samkvæmt þingsköpum, enda reyndist löggjöfin ekki haldbærari en svo, að strax þegar til framkvæmda kom, varð ríkisstj. að semja um vissar undanþágur við ýmsa þá aðila, sem hún snerti mest, svo sem útgerðarmennina. Þó kom það berlega fram, að ýmsum stuðningsmönnum stjórnarliðsins leizt ekki á blikuna. 1. þm. Reykv., Björn Ólafsson, kvaðst vera á móti málinu vegna þess, að stefnan hlyti að skapa gengishrun.

Þannig var framkvæmd sú „rétta leið“, sem Vísir hafði talað um áður. Hannibal Valdimarsson kvað lögin tvímælalaust hækka dýrtíðina, enda hefðu verkalýðssamtökin, sem stjórnarflokkarnir nú hafa náð völdum í, tilkynnt, að þau mundu krefjast grunnkaupshækkana. Ekki voru það ófélegar efndir á loforðum Alþfl. um öryggi um atvinnu og afkomu. Og formaður Framsóknar, Hermann Jónasson, lýsti sinni skoðun þannig, að hér væri stefnt út í algera ófæru. Þannig var Eysteinsstefnan að bjarga þjóðinni frá glötun.

Þetta er þó munur eða stigamennskan í tíð fyrrverandi stjórnar, sem Tíminn talaði um og m.a. var í því fólgin, að dýrtíðargreiðslur ríkissjóðs lækkuðu úr 23 millj. árið 1945 niður í 16 millj. 1946. En þá voru líka rekstrarútgjöld ríkisins samkvæmt reikningi aðeins 170 millj. Nú duga ekki minna en 263 millj. samkvæmt áætlun, og má áreiðanlega gott þykja, ef reikningur þessa árs fer ekki yfir 300 millj.

Það virðist sannarlega ekki hafa verið árangurslaust að útiloka Sósl. frá áhrifum í ríkisstjórn.

Þannig var sú viðbót við fjárlagafrv., sem fjvn. tók við í janúarlok, þegar þing hófst aftur. Það voru lög um aukin útgjöld milli 40 og 50 millj. kr. Þar með var ákveðin sú stefna, sem einn af aðaltrúnaðarmönnum Sjálfstfl., sjálfur frsm. fjvn., lýsti á þessa leið í framsöguræðu: „Þetta er fjárfrekasta stefnan fyrir ríkissjóð, sem sjá má af því, að hækka verður framlag til dýrtíðarmálanna úr 33 millj. í 74 millj., eða um 41 millj. kr., og mun þó hvergi nærri nægjanlegt til að fullnægja kvöðum, sem ríkissjóður batt sér með því að halda eitt árið enn þessu fyrirkomulagi. Það er líka hreinn misskilningur að halda, að með þessu séu kjör almennings í landinu óskert eða að fullu tryggð, því það eru engir aðrir aðilar til en almenningur, sem greiða verður af þessum enn óskertu launatekjum þær rúml. 41 millj. kr., sem ríkissjóður verður að afla sér á einn eða annan hátt við það að fara þessa stjórnarforustuleið, fram yfir þær 33 millj., sem þurft hefði, ef leið sú, sem hæstv. fjmrh. benti á, (gengislækkun) hefði verið farin eða einhver önnur hliðstæð. Lakast af öllu er þó, að þessi leið, sem valin hefur verið og stjórnarforustan og Alþfl. tileinka sér, gefur engar minnstu vonir til að leysa vandann, nema síður sé, heldur leiðir hún lengra og lengra út í óvissuna og skapar meiri og meiri erfiðleika til viðreisnar, sem verður að koma og þjóðin gerir kröfu til, að komi fyrst og fremst frá þingi og stjórn.“

Þessar lýsingar, úr munni eða penna okkar sósíalista, mundu náttúrlega fyrir fram dæmdar áróður og lygi af mörgum trúum flokksmönnum þessara flokka. En hér hafa sjálfir trúnaðarmenn þeirra talað. Hvað þarf svo fleiri vitna við?

Eins og áður er sagt. gerði frv. ráð fyrir 20 millj. kr. hækkun á rekstrarútgjöldum ríkis og ríkisstofnana frá fjárlögum síðasta árs. Um þetta sagði hv. form. fjvn. í ræðu þeirri, sem ég vitnaði í áðan: „Sú stjórn, sem ætlaði sér að gera gildandi festingu vísitölunnar, mátti sízt af öllu hækka á einu ári rekstrarútgjöld ríkisins um 20 millj. kr., eða 22%, og þenja þannig út takmarkalitið ýmsar stofnanir á kostnað þegnanna.“

Samkvæmt till. þeim, sem meiri hl. n. lagði fram, þegar n. hafði lokið störfum, skyldu tekjur hækka um 18.6 millj. rúmlega, gjaldahækkun 52.553 millj. rúmlega. Af þessari gjaldahækkun eru um 42 millj. samkv. ákvæðum dýrtíðarlaganna, 2 millj. samkv. öðrum lögum eða leiðréttingar og 8.5 millj. hækkun til verklegra framkvæmda. Eru það ekki nema rúmlega 2/3 þeirrar lækkunar, sem áætluð var, og kemur skerðingin aðallega niður á skólabyggingum. Um þann niðurskurð var ágreiningur í n. milli okkar sósíalista og stjórnarmeirihlutans.

Fjvn. lagði til nokkra lækkun á öðrum útgjaldaliðum, er samtals nam tæpum 6 millj. kr. Um þær till., er til sparnaðar horfðu í sjálfu embættiskerfinu, var enginn ágreiningur í n. En þegar á hólminn kom, þá sýndi það sig greinilega, að fulltrúar flokkanna í fjvn. höfðu alls ekki vísan stuðning sinna flokka með sínum eigin sparnaðartillögum. Fyrst var atkvgr. 2. umr. dregin nærri hálfan mánuð, eftir að umr. var lokið, sem alveg er óvenjulegt, vegna ósamkomulags innan ríkisstj. og hennar stuðningsflokka, og loksins þegar hún fór fram, var hver höndin upp á móti annarri, svo að stefnuleysið hefði tæpast orðið meir áberandi, þótt hlutkesti hefði verið látið ráða um úrslit hinna einstöku mála. Sparnaðartill. stjórnarmeirihlutans í n. á embættiskerfinu, sem samþykki náðu, fengu þetta kringum 26–30 atkv., þótt Sósfl. fylgdi þeim allur. Það sýnir, að meiri hl. stjórnarliðsins ýmist sat hjá eða greiddi atkv. á móti. Hins vegar virtist einhver meðfædd eðlisávísun sameina þetta lið mjög vel til að standa fast á móti öllum sparnaði í sakamálum og lögreglumálum, þótt sá kostnaður blási nú út meir en flest annað. En til heilbrigðismála og menningarmála mátti lækka. Áreiðanlega mun það einsdæmi, að svo mikið hafi verið fellt af till. þess hluta fjvn., er stj. fylgir að málum, og því síður þess dæmi eins og nú skeði, að um stórar fjárveitingar væri jafnvel öll stj. á móti stjórnarmeirihlutanum í fjvn.

Það, sem einkennir þessa fjárlagaafgreiðslu, er því þrennt, og allt er þegar þrennt er, segir gamall íslenzkur málsháttur:

1. Þau eru síðbúnustu fjárlög, sem Alþingi hefur samþykkt.

2. Þau eru hæstu fjárlög, sem Alþingi hefur samþykkt.

3. Afgreiðsla þeirra einkennist meira af ráðaleysi, fálmi og handahófi en nokkurra annarra fjárlaga, sem Alþingi hefur samþykkt, a.m.k. hin síðari ár.

Þetta síðasta er auðvitað eðlileg afleiðing af því ósamkomulagi, sem áður er lýst. En hver eru nú loforð stjórnarsamningsins fræga um bætta fjármálastjórn og efndir þeirra? Þær birtast í áætlun, sem er 100 millj. hærri en ríkisreikningurinn var fyrir þremur árum. Björgunarstarf Eysteinsstefnunnar virðist sannarlega ætla að verða þjóðinni dýrt.

17. febr. 1947, tæpum hálfum mánuði eftir að stj. var mynduð, sigldi fyrsti nýsköpunartogarinn, Ingólfur Arnarson, inn á Reykjavíkurhöfn. Áður hafði vélbátaflotinn verið tvöfaldaður að rúmlestatölu.

En á 17 árum næst á undan hafði eitt skip nýtt bætzt í íslenzka togaraflotann. Á þeim árum hafði líka togurunum fækkað úr 48 niður í 27. Síðan hafa nýsköpunartogararnir siglt í höfn í stöðugum straumi, einn til tveir á mánuði fram á þennan dag. Þessi nýi floti hefur malað þjóðinni meira gull, en nokkur hennar atvinnutæki hafa áður gert. Nú er svo komið, að þeir, sem eftir eru af gömlu togurunum, eru alls ekki starfræktir og mjög í ráði að selja þá úr landi alla með tölu, því að rekstur þeirra borgar sig svo miklu verr, en hinna nýju. Nýja síldarverksmiðjan á Siglufirði malaði Hvalfjarðarsíld í fyrravetur fyrir ca. 40 millj. kr. í útflutningsverðmæti.

Það er fróðlegt að bera saman útflutningsskýrslur síðari ára og sjá þá hækkun þjóðartekna, sem orðið hefur.

1942 200 millj.

1943 233 –

1944 254 –

1945 267 –

1946 291 –

1947 290 –

1948 400 –

Á hverju byggist þessi gífurlega aukning öðru en þeim nýsköpunarframkvæmdum, sem fyrrverandi stj. gerði, þeim nýsköpunarframkvæmdum, sem Sósfl. átti frumkvæðið að og hinir flokkarnir hafa brugðizt, síðan honum var sparkað úr ríkisstj.? Hún byggist á þeim tækjum, sem Vísir sagði, að væri glæpur að kaupa, meðan ekki væri búið að lækka kaupið í landinu. Hún byggist á þeim framkvæmdum, sem Alþýðublaðið sagði, að væru skýjaborgir, byggðar úr froðunni einni saman. Hún byggist á þeim veiðiskipaflota, sem Framsfl. fullyrti, að aldrei mundi fara í ganginn (sbr. ræðu Skúla Guðmundssonar í útvarpið 1946). Nú getur þjóðin áþreifanlega dæmt um það, hvers virði það er að eiga þessi atvinnutæki, tilbúin til þess að halda áfram að mala verðmæti, eða það, sem orðið hefði, ef ekki hefði verið ráðizt í nýsköpunarframkvæmdirnar á réttum tíma, það, að andvirði þeirra hefði verið eytt fyrir algengustu lífsnauðsynjar, en við hefðum staðið uppi með atvinnutæki í svipuðu ástandi og fyrir 30 árum síðan.

Hvernig hefur svo núverandi ríkisstj. tekizt að efna önnur loforð, þau er hún gaf, er hún tók við völdum? Fjárlögunum er áður lýst. En hvernig hefur verið búið að launa- og framleiðslustéttum? Lofað var að lækka dýrtíðina í landinu eða að minnsta kosti að halda henni í skefjum. Efndir þeirra loforða eru þannig að vísitalan var skrifuð niður á pappírnum, en vöruverð allt hefur hækkað og dýrtíðin stóraukizt. Nú er svo komið, að venjulegur launastarfsmaður í þjónustu ríkisins getur ekki séð fjölskyldu farborða með lögákveðnum launum. Það eru aðeins þeir, sem hafa dottið í þann lukkupott að fá fleiri en eitt embætti og þannig tvöföld laun, sem komast sæmilega af fjárhagslega. Lofað var að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Efndirnar eru: Allmikið og vaxandi atvinnuleysi víðs vegar um land, sem ásamt dýrtíðinni hefur þegar valdið fjárþröng og jafnvel skorti á fjölda verkamannaheimila. Þetta snýr að launastéttum og hefur þegar skapað vinnudeilur, sem horfur eru á, að fari vaxandi. Og opinberir starfsmenn krefjast nú allmikillar launahækkunar, sem enginn neitar, að sé réttmæt.

En hvað snýr að framleiðslustéttunum? Lofað var, að vel skyldi búið að framleiðslunni. Hvað hefur verið gert fyrir sjávarútveginn? Hækkaðir vextir, hækkað verð útgerðarnauðsynja, lánsfjárkreppa. Eftir hverja vertíð stendur í stímabraki um það, hvort vélbátaflotinn eigi að stöðvast eða ekki. Við hver áramót hafa verið samþ. dýrtíðarlög, sem hafa átt að endast til að fleyta stj. næsta ár. Og nú er svo komið, að hin síðustu endast sýnilega ekki nema fram á mitt ár. Og síðasta afrekið var að láta togaraflotann liggja bundinn á Reykjavíkurhöfn í 7 vikur á bezta veiðitíma ársins, stöðva hann, þegar fram fóru mestu toppsölur á ísfiski, sem gerðar hafa verið. Og sjálf ríkisstj. lét sér sæma að koma hvergi nærri lausn þeirrar deilu, er þessu var valdandi. Hún hafði víst nauðsynlegri erindum að gegna í annarri heimsálfu á meðan. En íslenzka þjóðarbúið mátti tapa milli 20 og 30 millj. kr. í erlendum gjaldeyri fyrir vikið. Þannig hafa verið efnd loforðin við sjávarútveginn.

Þá var lofað umbótum á verzluninni, enda hafði Framsfl. marglýst því yfir, að hann tæki ekki þátt í neinni stj., sem ekki gerði róttækar umbætur í þeim málum. Efndirnar eru: Lög um fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit. Samkvæmt þeim lögum hefur verið byggt upp embættisbákn, sem á engan sinn líka í sögu íslenzka ríkisins áður. Með því skömmtunarskrifstofubákni, sem ríkisstj. bætti síðar við, hefur þetta kostað hátt á 4. millj. kr., eða hér um bil 1% af þjóðartekjunum s.l. ár.

Því var lofað, að verzlunarástandið skyldi lagfært með því að veita þeim innflutningsleyfi, sem sýndu skilríki fyrir því, að þeir gætu flutt inn ódýrastar vörur. Nú er almennt hlegið að þessu loforði. Á miðöldum var sá háttur algengur á umráðarétti jarða í þjóðfélögum Evrópu, að konungarnir leigðu aðalsmönnum víss landssvæði fyrir ákveðið gjald, en aðalsmaðurinn eða lénsherrann hafði síðan rétt á að arðræna íbúana eftir eigin geðþótta. Íslendingar fóru ekki alveg varhluta af þessu fyrirkomulagi undir stjórn hinna erlendu konunga. Hliðstæð þróun hefur verið að gerast í verzlunarmálum Íslendinga nú í meira en hálfan annan áratug. Sú þróun hófst með skipun innflutnings- og gjaldeyrisnefndar árið 1933. Þá var tekin upp sú stefna að úthluta gjaldeyri þjóðarinnar til ákveðinna aðila og gefa þeim þannig rétt til vöruinnflutnings í landið. En þar sem alltaf hefur verið tryggt, að vörueftirspurn hefur verið meiri en framboð, var innflutningsverzlunin hér með gerð að áhættuminnsta atvinnuvegi í þjóðarbúskapnum. Þetta hefur skapað öran straum fjármagnsins í verzlunina, svo að hún hefur sífellt verið að vaxa öðrum atvinnuvegum yfir höfuð. Þeir, sem hafa notið þeirra fríðinda að fá að verzla með þann gjaldeyri, sem atvinnuvegirnir hafa skapað, eru öruggir um að geta tekið allt sitt á þurru, hvernig sem allt annað veltist. Nú er svo komið, að mestur hluti af innflutningsverzluninni er falinn nokkrum aðilum, sem eru sérstakrar náðar aðnjótandi hjá hæstvirtum innflutningsyfirvöldum. Fólkinu er skipt á milli þeirra á svipaðan hátt og gert var í lénsríkjum miðaldanna með landleigusöluaðferð þeirri, sem þá tíðkaðist. Að fá gjaldeyris- og innflutningsleyfi fyrir vörum fyrir ákveðinn hóp af fólki er að fá lögverndað leyfi til að skattleggja það fólk um vissar upphæðir, sem ekki hafa verið skornar við neglur. Það sýnir straumur fjármagnsins í verzlunina, það sýnir straumur fólksins í verzlunina, og þó er gleggsta dæmið það, að sjálf innflutnings- og gjaldeyrisleyfin eru eftirsóttasta varan, sem á boðstólum er í landinu. Og það embættis- og skrifstofubákn, sem utan um þetta stendur og kostar nærri eina kr. af hverjum 100 af öllum þeim tekjum, er þjóðin vinnur sér inn, er hámark skriffinnskunnar í þjóðfélagi, þar sem ríkisstj. og þeir flokkar, sem að henni standa, hafa gefizt upp við lausn þeirra mála, er halda atvinnulífi þjóðarinnar gangandi. Nú veit ég, að hv. ræðumenn stjórnarflokkanna munu koma hér hver eftir annan og lýsa þetta ósannindi ein, segja, að hér sé um einberan kommúnistaáróður að ræða, fluttan eftir fyrirskipun frá Moskvu til að skaða þjóðfélagið og skapa glundroða og öngþveiti. En kjósendur hafa kannske gaman af að heyra ummæli form. fjvn. um störf þessa skrifstofubákns og áhrif þess á atvinnulífið. Í framsöguræðu sinni um fjárlögin sagði hann m.a. um þetta atriði:

„Vart getur nokkur maður hreyft sig til athafna eða öflunar verðmæta, nema hafa áður gengið í gegnum voðalegasta hreinsunareld skriffinnsku og leyfa, sem samfara því að glata þúsundum dagsverka og enn fleiri þús. tækifæra kosta þegnana og ríkissjóðinn milljónir króna.“

Hér heyra sjálfstæðiskjósendur dóminn um „hina réttu leið“, er stigið var inn á með myndun stj., eftir því sem blöðin þeirra sögðu. Framsóknarkjósendur geta huggað sig við það, að Eysteinsstefnan er að bjarga þjóðinni út úr ógöngum, og Alþýðuflokkskjósendur geta huggað sig við það, að þeirra leiðtogar hafa yfirstjórn framkvæmdanna á hendi.

Það verkar blátt áfram hlægilega, þegar þingmenn Sjálfstfl. eru að leggja fram till. um að minnka íhlutun ríkisins í opinberum rekstri, afnám ríkisfyrirtækja, afnám hafta og nefndavalds, eða þegar framsóknarmenn flytja frumvörp um breytingar á þessu fyrirkomulagi, gera skömmtunarseðla að innkaupaheimild o.fl., o.fl., því að reynslan hefur margsýnt, að sá skollaleikur er eingöngu til þess gerður að blekkja landslýðinn. Í innstu flokksklíkum þessara flokka er málunum ráðið til lykta á þann hátt, sem hér hefur verið lýst, með innilegu samkomulagi, því að öllu skal fórnað, afkomu atvinnuveganna, fjárhag ríkissjóðs, hagsmunum þjóðarinnar, til þess að stj. fái lafað við völd í lengstu lög og sérréttindastéttir þær, er tryggt hafa sína aðstöðu með þessum ráðstöfunum, fái haldið þeim, hvað sem öðru líður.

Svo virðist sem Framsfl. sé stundum nokkuð órótt út af hv. kjósendum. Fyrir nokkru hélt hann miðstjórnarfund og sendi frá honum opinbera ályktun. Segir þar m.a. um landbúnaðarmálin:

„Í málefnum landbúnaðarins hefur það áunnizt, að stéttarsamtökum bænda hefur með lögum verið falið að hafa með höndum afurðasölumál landbúnaðarins. Á þennan hátt hafa fengizt fram mikilsverðar endurbætur á verðlagsmálunum. Fjárframlög til ræktunar og bygginga í sveitum hafa fengizt aukin og hagsmunamála landbúnaðarins í hvívetna betur gætt, en í tíð fyrrverandi stjórnar.“

Það þarf vægast sagt furðulega ósvífni til þess, að miðstjórnarfundur þess stjórnmálaflokksins, er var í andstöðu við fyrrverandi stj., en pottur og panna í myndun núv. stj., sendi frá sér yfirlýsingu sem þessa. Það mál er þess vert að gera því sérstök skil og þá jafnframt ferli flokksins í þeim málum s.l. ár.

Árið 1941 flutti hann frv. um landnám ríkisins, þar sem aðeins var heimilað, að ríkið léti rækta land í nánd við þorp og kaupstaði, og heimilað að leggja til þeirra framkvæmda 250 þús. kr. árlega. Svo mikill var stórhugurinn þá. En þótt Framsókn hefði landbrh. fram til loka ársins 1944, þá datt honum ekki í hug að framkvæma þessi lög og ekki heldur að leggja til hliðar það fé, sem til þess var heimilað. Það var fyrst í árslok 1944, þegar Framsókn var komin í stjórnarandstöðu, að hún mundi eftir, að þetta hefði gleymzt, og krafðist þess, að þá yrði úr því bætt og þriggja ára framlagið greitt í einu. Á því þingi fluttu sósíalistar í Ed. frv. um nýbyggðir og nýbyggðasjóð, þar sem í fyrsta sinn var sett fram í frumvarpsformi tillagan um breytt skipulag og stórframkvæmdir í ræktunar- og byggingarmálum sveitanna ásamt stórauknu fjármagni til þeirra hluta. Framsókn sýndi þessu máli ekkert annað en úlfúð í fyrstu, og er Tíminn til vitnis um það. Málinu var vísað til nýbyggingaráðs, sem bjó til úr því tvö frv., annað um landnámsnýbyggðir og endurbyggingar í sveitum, en hitt um ræktunarsjóð. Og fyrst þegar Framsfl. sá, að það var alvara að gera þessi mál Sósfl. að lögum, drattaðist hann með, en dragbítur þó, enda var málinu spillt að ýmsu leyti í meðferðinni. Lögin um landnám og nýbyggðir voru samþykkt 1946 í tíð fyrrv. stjórnar, en lögin um ræktunarsjóð að vísu ekki fyrr en stjórnarskiptin höfðu orðið, en undirbúin að fullu áður. Síðan hefur Tíminn og raunar mikill hluti stjórnarliðsins talið þessa löggjöf með því, sem kallað hefur verið eyðslulöggjöf fyrrv. stj., sem sé orsök þeirrar fjárhagskreppu, sem nú er ríkjandi.

Framsfl. hefur líka fengið í sínar hendur framkvæmd þessarar löggjafar með því að fá embætti landbrh. Og hvernig hefur svo verið starfað að því af núv. stj.? Fyrsta árið var hið lögboðna framlag landnáms- og nýbyggðalaganna greitt nokkurn veginn reglulega, sem var 2.5 millj. til landnámsins og 2.5 millj. til byggingarsjóðsins. Annað árið voru samþ. sérstök lög um 10 ára frestun á einni millj. til landnámsins. Og nú er þriðjungur þriðja ársins liðinn og ekki verið greidd ein króna, hvorki til landnámsins né byggingarsjóðsins, sem ber þó að greiða mánaðarlega. Umsóknir bændanna um byggingarlán safnast fyrir í Búnaðarbankanum í hrúgur, en svör við þeim fást engin. Þó er ótalið það, að engin tilraun hefur verið gerð til þess að auka fé byggingarsjóðsins með útgáfu bankavaxtabréfa, sem heimild er til fyrir í lögum og vitanlega er eina leiðin til að fullnægja byggingarlánaþörfinni. Það er ekki furða, þótt aðalfundur miðstjórnar Framsfl. sendi frá sér þá tilkynningu, að í tíð þessarar stj. hafi fjárframlög til ræktunar og bygginga fengizt aukin og hagsmuna landbúnaðarins gætt betur, en í tíð fyrrv. stj. Finnst ykkur nú ekki, hlustendur góðir, að um þvílíka óskammfeilni megi segja hið fornkveðna: Fyrr má nú rota en dauðrota? En áætlun fjárlaganna er 100 millj. kr. hærri en ríkisreikningurinn 1946 og 140 millj. hærri en fjárlög þessa árs.

Það er fleira fróðlegt í þessari miðstjórnarályktun. Í öðrum málum flestum er talað um þörf á stefnubreytingu og stórkostlegum viðreisnarráðstöfunum. Þannig er talað um verzlunarmál, iðnaðarmál, húsnæðismál, fjármál ríkisins o. m. fl. En í þessum málum telur miðstj. stefnuna góða og ávinning mikinn. Og stefnan er, eins og staðreyndirnar sýna, að lögbjóða lækkun á þeim fjárframlögum, er ákveðin voru til stórvirkari ræktunar en nokkru sinni fyrr, alger stöðvun á byggingarlánum, með því að standa ekki við lögákveðin framlög til byggingarsjóðsins. En e.t.v. er miðstjórninni vorkunn, því að það er víst Eysteinsstefnan, sem hér er verið að framkvæma.

En þótt ekki sé samkomulag um sparnað í rekstrarútgjöldum ríkisins, er fullkomið samkomulag innan stj. um að hjálpa einstaklingum til að græða á kostnað ríkisins. Meðferðin á drykkjumannahælinu í Kaldaðarnesi er orðin þjóðfrægt mál og ráðstöfun þeirra eigna til eins af þm. Framsfl. Sömuleiðis kaupin á trésmíðaverksmiðjunni við Silfurtún af einum voldugum manni í Sjálfstfl., á sama tíma sem annað trésmíðaverkstæði miklu stærra, sem ríkið átti fyrir, var lagt niður, húseign þess skrifuð niður í verði úr tæpum 800 þús. niður í 200 þús., til þess að leigja svo Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda bygginguna til fiskþurrkunar, og þetta verð miðað við þá leigu, sem það vildi borga.

Ef lítið sveitarfélag þarf að fá keypta landspildu úr eign ríkisins, sem er nokkur þús. kr. virði, þá þarf það mál að fara gegnum 6 umræður á Alþingi eða jafnvel fleiri. Þetta skal út af fyrir sig ekki lastað og má telja fyllilega sjálfsagt. En svona meðferð á eignum ríkisins, sem nemur milljónum króna, er ráðið til lykta með góðu samkomulagi ráðherra innan fjögurra veggja stjórnarráðsins. Svo koma háttvirtir íhaldsþingmenn og geta ekki opnað munninn í neinu máli án þess að tala um óheilbrigði ríkisrekstrarins. Það er svo munur eða einkaframtakið. En þessi þrjú dæmi, sem ég hef hér nefnt, sýna einmitt ljóslega stefnu Sjálfstfl. í þessu máli. Þegar einstaklingarnir telja sér henta að komast yfir eignir eða fyrirtæki ríkisins, vegna þess að þeir telji sig hafa hag af því, þá á ríkið að láta þær af hendi, eins og Kaldaðarnes og bátasmíðastöðina; þegar einstaklingsframtakið er komið í þrot með sinn atvinnurekstur, eins og tilfellið var með Silfurtún, þá á ríkið að kaupa draslið til að taka skellinn á sig.

Þannig eru horfur og ástand atvinnulífsins þrátt fyrir 400 millj. gjaldeyristekjur s.l. árs, nærri 40 millj. í viðbót þóknaðist Bandaríkjastjórn að gefa Íslendingum og lána sem Marshallhjálp. Svo hefur tekizt á ekki lengri tíma að fara með atvinnulífið, að hin gjöfula yfir þjóð telur okkur vera þriðju bágstöddustu þjóð veraldar samkvæmt gleiðletruðum fregnum stjórnarblaðanna og hagar aðstoð sinni samkvæmt því. Og ekki vantar það, að stjórnarblöðin íslenzku bendi á þetta eindæma göfuglyndi. Það má einnig benda á aðra staðreynd. Þegar fyrrverandi stjórnarsamvinnu sleit haustið 1946, sýndu vikulegar skýrslur bankanna að gjaldeyriseign þeirra erlendis nam rúmum 300 millj. kr., eða meira en helmingi allra þeirra innstæðna, er til voru um áramót 1944 og 1945. Af þessu voru 160 millj. á nýbyggingarreikningi, en rúm 140 á óbundnum reikningi. Það þýðir, að þá höfðu verið notaðar 260 millj. af heildarupphæðinni, þrátt fyrir alla þá uppbyggingu, sem þá var búið að gera. Af því, sem eftir stóð á nýbyggingarreikningi, var allstór upphæð bundin til togarakaupa, og eitthvað af leyfum í umferð á annað fé. Öll þau leyfi, sem ekki notuðust fyrir áramót, féllu þá niður. Næstum heilu ári síðar, þegar fjárhagsráð kom með sínar skýrslur, þá var ástandið orðið allt annað og verra. En þá var líka núverandi stj. búin að vera við völd í meira en hálft ár og hinn tímann réð Sjálfstfl. fjármálunum og viðskiptamálum einn, meðan Framsókn var að semja við heildsalana um myndun hennar. Þessar staðreyndir sýna greinilega, að sú margumtalaða gjaldeyrissóun, sem átt hefur sér stað, hún verður að skrifast á ábyrgð núverandi stjórnarflokka allra, Sjálfstfl., sem réð fjár- og viðskiptamálunum einn, meðan á stjórnarkreppunni stóð, og allra hinna síðan.

Fyrir þær 260 millj., sem notaðar voru til septemberloka 1946, var keyptur nýi bátaflotinn mestallur, byggðar síldarverksmiðjur, mörg hraðfrystihús og niðursuðuverksmiðjur, fjöldi íbúðarhúsa, vélar margs konar keyptar inn o.m.fl. En svo miklum blekkingum hefur verið þyrlað upp af Framsfl. um, að öllum gjaldeyrisinnstæðunum hafi verið sóað, er stjórnarsamvinnunni lauk, að slíkt má áreiðanlega teljast hámark ósvífninnar í málsmeðferð. Svo gersamlega eru stjórnarflokkarnir komnir í þrot með lausn innanlandsmálanna, að þeir komast ekki hjá að viðurkenna það sjálfir.

Og nú í fyrsta sinn lætur Framsfl. í það skina að hann sé fáanlegur til að ganga inn á gengislækkun til þess að bjarga einhverju. Það er þó ekki lengra síðan en 27. sept. 1947, að Tíminn sagði í forustugrein um gengislækkun: „Því aumari og veikari fjármálastjórn, sem verið hefur í löndunum, því rækilegar hefur það ráð verið notað, því að það er einna auðveldast og lítilmannlegast.“ Alþýðublaðið segir nú fyrir fáum dögum í leiðara, að dýrtíðarlögin, sem sett voru í fyrra, hafi verið sett til að auka dýrtíðina, en af illri nauðsyn vegna atvinnuveganna. Blaðið Vísir segir nýlega úr þingræðu Björns Ólafssonar, að söluskatturinn einn hækki verðlag á aðalneyzluvörum almennings um 35–50%. Og miðstjórn Framsfl. sér nú ekkert annað ráð vænna en gengislækkun, þetta lítilmannlegasta og auðveldasta, sem til var fyrir hálfu öðru ári. En í upphafi taldi stj. það vera sitt aðalhlutverk að vinna bug á dýrtíðinni. Þannig hefur verið framkvæmd „hin rétta leið“, sem Vísir lofaði fyrir hönd Sjálfstfl. Þannig eru efndirnar. Algert öngþveiti í efnahags- og fjármálum, algert þrot, viðurkennt af þeim sjálfum, svo að hver einasta stj. með nokkra sómatilfinningu hefði verið farin frá völdum. En það er ekkert því líkt, að stj. eða hennar stuðningsfl. hyggist láta af völdum. Hún streitist við að sitja, og ástæðan er nú að verða þjóðinni ljós. Hún var barin saman á sínum tíma af braskaralýðnum í Reykjavík og þröngsýnustu íhaldsklíkunum í Framsfl. og Alþfl. Alþýðan á Íslandi hafði verið í sókn, frá því að stríðið hófst, og hér skapaðist næg atvinna og viðunandi lífsskilyrði. En jafnframt því sem alþýðan var í sókn, hlaut sérréttindastéttin að hörfa, sérréttindastétt, sem er ráðandi afl í öllum auðvaldsþjóðfélögum. Hún varð að hörfa, þegar ákveðið var, að 300 millj. kr. af erlendu innstæðunum skyldu festar í atvinnutækjum. Hún varð að hörfa, þegar ákveðið var, að stór hluti nýju togaranna skyldi afhentur bæjarfélögum úti á landi, en ekki auðmönnum í Reykjavík. Hún varð að hörfa, þegar ákveðið var með lögum að byggja skólakerfi landsins, fullkomnara en áður. Hún varð að hörfa, þegar stefnt var að skipulagðari framkvæmdum og meiri fjárframlögum í landbúnaðinn, en áður. Og hún varð að hörfa, þegar stofnað var til almannatrygginganna á borð við það, sem bezt þekktist annars staðar. Þetta tókst að fá fyrir forgöngu Sósfl. með stuðningi alþýðusamtakanna og samstarfi við frjálslyndustu öflin í Alþfl. og Sjálfstfl.

En það var beðið eftir tækifæri til að hefja sókn að nýju. Og það tækifæri var engu síður kærkomið, þótt það kæmi utan yfir pollinn. Til frekari skýringar má minna á þá staðreynd, að ekkert afl í veröldinni er eins alþjóðlegt og kapítalisminn. Formaður Framsfl. komst þannig að orði í áramótagrein sinni um síðustu áramót, að „þar, sem forréttindastéttir óttist fall sitt og ónáð þjóðarinnar við reikningsskil, taki þær að svipast um eftir erlendu valdi til þess að framlengja og vernda sérréttindi sin og völd, er ekki verður haldið með öðru móti.“ Það var vegna svipaðs hugsunarháttar, sem við glötuðum sjálfstæði okkar forðum. Og fyrsta tækifærið af því tagi, sem forréttindastéttinni íslenzku barst í hendur, kom haustið 1945, þegar Bandaríkin kröfðust herstöðva á Íslandi til 99 ára. Það var fyrir eindregin mótmæli þjóðarinnar undir merkjum Sósfl. og þjóðvarnarhreyfingarinnar, að ekki var þorað að ganga að þeim kostum þá. Og af því að kosningar voru fyrir dyrum, sóru allir núverandi alþingismenn að einum undanteknum, að þeir skyldu aldrei ljá máls á neinum slíkum ívilnunum. En haustið 1946 voru kosningar nýafstaðnar, þá var tækifærið notað, þá vann íslenzka forréttindastéttin sinn fyrsta sigur eftir undanhaldið. Sá sigur var Keflavíkursamningurinn. Þar naut hún stuðnings Sjálfs.- og Alþfl. óskiptra og hálfs Framsfl. Næsti sigurinn var myndun þessarar stj. hinna þriggja ábyrgu stjórnmálaflokka, sem þeir vilja heita. Hún hefur dyggilega unnið að því að skapa það fjárhagslega ósjálfstæði, sem á að láta þjóðina fagna þeirri fregn, að nú hafi hún notið þeirrar náðar að fá þriðja hæsta framlag af hinu marglofaða Marshallfé, miðað við íbúafjölda. Það er minna bent á hitt, að þrátt fyrir 400 millj. útflutninginn fóru hinar 40 Marshallmilljónir að mestu í hreinan eyðslueyri. Það er hins vegar vitað, að okkur eru ætlaðar yfir 200 millj. í viðbót á næstu þremur árum. En það er minna talað um, hvernig komið verði hinu fjárhagslega sjálfstæði, þegar þær verða einnig uppétnar, án þess að með þeim sé lagður grundvöllur að meiri framleiðslu og meiri útflutningstekjum.

Marshallféð er þriðji sigur sérréttindastéttarinnar íslenzku. Með þeim gjöfum og lánum skal binda þjóðina fjármálalega við sterkasta kapítalisma veraldarinnar og siðferðilega gera hana skuldbundna til að þægja drottnum sínum fyrir gjafirnar. Gleggsta dæmið: 13. marz er birt tilkynning um, að Íslandi hefði verið veitt nýtt Marshallfé, ca. 16 millj. kr., 14. marz önnur fregn: Hálf ríkisstj. flogin til Ameríku til að semja um þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu. Það bandalag er fjórði sigurinn, sem forréttindastéttin íslenzka hefur unnið. Með þátttöku okkar í því hyggst hún að tryggja sér hið erlenda vald til að framlengja og vernda sérréttindi sín og völd þegar þeim ekki verður haldið með öðru móti eins og Hermann Jónasson komst að orði í áramótagrein sinni. Og það er fróðlegt fyrir framsóknarmenn að athuga þátt Framsfl. í þessari þróun. 30. marz 1949 er sá dagur, er aldahvörfum getur valdið í lífi íslenzku þjóðarinnar, e.t.v. miklu örlagaríkari aldahvörfum en samþykktardagur Gamla sáttmála, og kostaði það þó 682 ára baráttu að afmá spor þess dags.

Mánuðum saman hafa þrír stjórnmálaflokkar keppzt við að telja þjóðinni trú um, að þær 320 millj. manna, sem að bandalagi þessu standa, geti ekki treyst öryggi sitt nægilega vel, nema þær 130 þús. sálir, sem á Íslandi búa, gerist þátttakendur. Mánuðum saman hefur íslenzka útvarpið hamrað á ímyndaðri styrjaldarhættu til að trylla íslenzku þjóðina, svo að hún byðist til þess af frjálsum vilja að gerast peð á taflborðinu fyrir framan auðkónginn ameríska, honum til verndar í þeim ægilegustu átökum, sem fram hafa farið á jörðu hér, ef þau á annað borð eiga sér stað. Og árum saman hefur allur blaðakostur þessara flokka, tvítugfaldur að megni á við blaðakost andstæðinganna, reynt að blinda þjóðina í hennar eigin málum með því að reyna að æra hana út af kardínála austur í Ungverjalandi, flokksdeilum í Júgóslavíu, stjórnarskiptum í Tékkóslóvakíu, svo að maður tali nú ekki um það, sem í sjálfum Sovétríkjunum gerist. Með þessum skrifum átti að stinga þjóðina svefnþorni, svo að næði gæfist til að útvega hina erlendu aðstoð, sem forréttindastéttin telur sig þurfa til að tryggja sérréttindi sin og völd. En nú liggur sú staðreynd fyrir, að svæfingin hefur mistekizt. Vissan um það, ásamt sektarmeðvitundinni um að vera Gissurar Þorvaldssynir 20. aldar á 5. ári hins íslenzka lýðveldis, hefur magnað þá til að espa fram atburðina 30. marz í þeim tilgangi að skapa sér átyllu til að beita ofbeldi við andstæðinga sína.

Í fyrsta sinn í sögu Íslands skeði það, að ráðherrar ferðuðust undir hervernd, sem sýnir ljóst þeirra eigið mat á verkum þeirra. Vikum saman var æft hvítlið í kylfubarsmíð, valið lið úr stjórnmálafélögum Sjálfstfl., Heimdalli og Óðni. Sumu af því liði hefur sennilega reynzt létt að rifja upp gamlar aðferðir frá mektarárum nazismans, þegar Heimdellingar æfðu vopnaburð og klæddust einkennisbúningum. Morgunblaðið hefur sjálft nefnt töluna á þessu liði 927 manns. Dylst engum meðalgreindum manni, hvaða fyrirætlanir liggja bak við slíkan liðssafnað og slíkar æfingar. Mörgum dögum áður en málið var tekið til meðferðar, voru fulltrúar frá lögreglunni sendir um alþingishúsið til rannsóknar á húsaskipun allri, því að tímanlega þurfti að skipuleggja, hvar liðið skyldi geymt. Strax að morgni hins 29. marz, þegar málið átti fyrst að takast fyrir, var vopnaður lögregluvörður settur kringum þinghúsið. Hefðu Reykvíkingar ekki áður vanizt herliði, mundi þeim hafa þótt nýstárlegt að sjá sólina skína á stálmhjálma þessara stríðshetja nýfasismans á Íslandi. Inni í húsinu var svo hið æfða varalið úr flokksfélögum Sjálfstfl. geymt í flokksherbergjum Framsfl. og Alþfl. Þá hafði einnig verið flutt þangað nægilegt magn af gasbirgðum, er nota skyldi, ef kylfurnar ekki dygðu. Og til hvers var svo allur þessi viðbúnaður?

Reykvíkingar gengu þennan dag að störfum sínum, eins og vant var. Það er fyrst undir kvöld, að nokkur verulegur hópur af fólki safnast saman við alþingishúsið. Sá mannsöfnuður var eðlileg afleiðing þess, að fregnir um þennan vígbúnað allan bárust auðvitað um bæinn, og nokkrir strákar sáu sér leik á borði að skemmta sér nú með því að glettast við lögregluna með því að kasta nokkrum fúleggjum og steinvölum í þinghúsið.

Það var nú allt, sem gerðist þennan dag úti. En inni var svo rekið eftir með að koma Íslandi í hernaðarbandalag, að umræður voru skornar niður, eins og þingsköp framast leyfa, og látið í veðri vaka, að málinu skyldi að fullu lokið þá um kvöldið. Við það var þó hætt á síðustu stundu, líklega vegna þess, að mistekizt hafði að æsa fólkið upp til slagsmála við hinn vígbúna her. Næsti dagur kynni að verða örlagaríkari, enda var þá viðbúnaður sýnu meiri. Nú var ferfaldri röð af Heimdellingum raðað kringum húsið og framan við þá þéttskipað lögreglumönnum með kylfur, hjálma og gasgrímur. Inni náttúrlega sami viðbúnaður og sami mannsöfnuður sem fyrr. En ekki var látíð þar við sitja. Daginn áður hafði verið svo að segja mannlaust á Austurvelli alveg fram undir kvöld. Nú skyldi bætt úr því. Formenn stjórnarþingflokkanna sendu út bæði dreifimiða og útvarpsauglýsingu, þar sem skorað var á friðsama borgara að fjölmenna niður á Austurvöll til þess að sjá um, að Alþingi hefði starfsfrið. Til hvers var lögreglan? Til hvers var hið borðalagða hvítlið, sem flokksherbergin í alþingishúsinu voru full af? Til hvers var hið 927 manna æfða lið úr Heimdalli og Óðni, sem flest var víst geymt í Sjálfstæðishúsinu? Hvað áttu hinir friðsömu borgarar að gera? Þetta útboð var reynt að réttlæta með því, að Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna og Dagsbrún hefðu boðað til útifundar. Sá fundur var boðaður á allt öðrum stað og haldinn þar og fór fram með fullkominni ró, samþykkti ályktun, þar sem skorað var á þingið að láta fara fram þjóðaratkvæði um málið, og talaði þar áreiðanlega fyrir hönd alls þorra þjóðarinnar. Þá áskorun sendi fundurinn til formanna stjórnarflokkanna, sem neituðu að taka hana til greina. E.t.v. hafa hinir friðsömu borgarar átt að vernda þingið fyrir þeirri ályktun. En borgarar Reykjavíkur voru virkilega friðsamir þennan dag eins og aðra. Þótt fáeinir galgopastrákar eða e.t.v. keyptir Heimdellingar köstuðu nokkrum eggjum og moldarhnausum í húsið, svo að nokkrar rúður brotnuðu, þá var ekkert hægara fyrir lögregluna en að hafa hemil á þeim, en til þess gerði hún enga tilraun. Hitt er vottfest staðreynd, að nokkrir forustumenn verkalýðshreyfingarinnar reyndu að hafa hemil á óeirðarseggjunum og það með nokkrum árangri. Inni í húsinu voru þingsköp brotin til þess að hindra umræður um málið og atkvgr. hespuð af svo fljótt sem unnt var. Ekki var verið að tilkynna hinum friðsömu borgurum, er þarna voru í boði stjórnarflokkanna, frá því, sem inni gerðist. Næsta staðreyndin er, að húsið, sem hafði verið harðlæst, var opnað og út streymdi kylfu- og hjálmbúið lið, merkt hvítum borða um hægri handlegg, og réðst þetta lið fyrirvaralaust á mannfjöldann með barsmíð, konur og börn, eftir því sem á stóð. Hér var komið úrval hins hvíta liðs, hinna 927, sem Morgunblaðið talaði um og geymt var í flokksherbergi Framsóknar. Svo má brýna deigt járn að bíti, og hver getur láð hinum friðsömu borgurum, þótt þeir snerust til varnar jafnþrælslegri árás sem þessari? Staðreyndirnar eru þessar: Úti fyrir eru þúsundir friðsamra borgara í boði formanna stjórnarflokkanna, allslausir og óviðbúnir átökum, margir foreldrar með ung börn sín, að vísu nokkrir strákar með fúlegg í vösunum.

Inni fyrir er margt vopnað lið með kylfur og gassprengjur, undir stjórn lögreglustjóra. Eftir hans skipun gerir þetta lið útrás og beitir öllum vopnum. Hvað á svo annað að ske en hinn vopnlausi hópur grípi það, sem hendi er næst, sem var hraungrýtið fram með gangstéttunum, enda er það fyrst við árásina, sem steinkastið á húsið magnast? Sú fyrirhugaða og undirbúna tilraun til að æsa til óspekta, svo að hægt væri síðar að nota þær til frekari árása á stjórnarandstöðuna og andstæðinga bandalagsins, mistókst svo gersamlega, að jafnvel Tíminn og Alþýðublaðið hafa ekki þorað að ræða málið síðan. Ég lýsi sökum á hendur ríkisstj. og flokkum hennar fyrir að hafa af ásettu ráði reynt að stofna til mörgum sinnum hættulegri átaka þennan dag en urðu og þar með fullri ábyrgð á hendur henni fyrir það, sem gerðist.

Með inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið er verið að tryggja það erlenda vald, sem forréttindastéttin íslenzka telur sig þurfa til að tryggja sérréttindi sín og völd, svo að notuð sé lýsing Hermanns Jónassonar. Og með Marshallfénu á að tryggja völd ríkisstj. um óákveðinn tíma, þótt hún leiki innanlandsmálunum í strand. Þetta er skiljanleg afstaða Sjálfstfl., því að núna ráða stórgróðamennirnir honum. En hvernig stendur á því, að Framsókn og Alþfl. leika þennan sama leik? Um Alþfl. er það vitað, að leiðtogar hans eru meira og minna tengdir forréttindastéttinni, enda flokkurinn seldur íhaldinu á svörtum markaði. Í Tímanum nýlega segir Hermann Jónasson, að „brigð núverandi ríkisstj. stafi af því, að ef Alþfl. snertir hár á höfði sérhagsmunaklíku Sjálfstfl., hverfi ráðherrar hans úr stólunum.“ Þetta er rétt, en nákvæmlega sama gildir um Framsóknarráðherrana. Með stuðningi sínum við Atlantshafsbandalagið hefur Framsókn lagt þessari klíku það mesta lið, sem hún gat. Það er gert undir forustu Eysteins Jónssonar, á sama tíma og Hermann Jónasson skrifar sínar frægu greinar í Tímann og hefur með sér hin frjálslyndari öfl flokksins. Svo þrælklofinn er Framsfl. Og vilja ekki kjósendur Framsóknar og Alþfl. athuga það, hvað er að gerast í stjórnmálaheiminum, þegar þeirra eigin foringjar ganga inn á það, að stjórnmálafélög Sjálfstfl. séu vopnuð og æfð undir bardaga og gefin lögreglumannaréttindi? Svo flatur hefur Eysteinn Jónsson lagzt fyrir þessari sérréttindaklíku, að hann ekki aðeins flýgur til Ameríku til samninga um sölu íslenzkra landsréttinda. Þegar hann þykist þurfa vernd gegn þjóðinni eftir afrekin, þá lætur hann ekki unga framsóknarmenn verja sig. Hvers vegna ekki? Af því að þeir vilja ekki verja hann og hans gerðir. Þannig er ástandið í flokknum.

Hermann Jónasson sagði enn fremur í áramótaræðu sinni, að Framsókn hefði ekki slitið þessari stjórnarsamvinnu, af því að hún hefði tekið þann kost að taka við því skásta, sem fengizt gæti. Og hvað er svo þetta skásta? Í fáum orðum þetta: Framsóknarmenn fengu að flytja tillögur í fjárhagsráði um breytingar á verzluninni, til þess að þær yrðu felldar í ríkisstj. Framsóknarmenn fengu að flytja frv. um stóribúðarskatt í þinginu, sem aldrei var skilað úr nefnd. Framsóknarmenn fengu að flytja frv. um breyt. á l. um fjárhagsráð, sem dagað hefur uppi á tveimur þingum. Hermann Jónasson fær nú að skrifa skammir í Tímann um ríkisstj., án þess að nokkur snurða komi á þráðinn við það. Eysteinn Jónsson fær að fljúga til Ameríku með Bjarna Benediktssyni og Emil Jónssyni til viðtals við Acheson, og að launum fyrir allt þetta fær Eysteinn að skríða undir verndarvæng Heimdellinga, gömlu vasabókarþjófanna, sem hann var einu sinni að lögsækja. Þeir geta sannarlega tekið sér í munn hið fornkveðna: Sá hlær bezt, sem síðast hlær.

Finnst ykkur nú ekki, framsóknarmenn góðir, að Eysteinn sé kominn hættulega langt með að selja flokkinn á svörtum markaði, eins og Alþfl. var áður seldur.

Afreka þessarar ríkisstj. mun lengi verða minnzt í íslenzkri þjóðarsögu. Hún lofaði sterkri og heilbrigðri fjármálastjórn. Efndirnar eru: Hækkun ríkisútgjaldanna um helming frá því, sem var fyrir þrem árum. Hún lofaði að láta þá ríkustu taka sinn hluta af byrðunum, sbr. eignaaukaskattinn. Efndirnar eru: Út úr honum hefur ekkert komið enn þá, en nokkuð á annað hundrað millj. af nýjum sköttum og tollum hefur verið lagt á almenning í landinu. Hún lofaði að halda áfram uppbyggingu atvinnulífsins. Efndirnar eru: Stöðvun, kreppa og vaxandi atvinnuleysi. Hún lofaði að standa vörð um hlutleysi og sjálfstæði þjóðarinnar á alþjóðavettvangi. Efndirnar eru: Ef til styrjaldar kemur, verða Íslendingar yfirlýst stríðsþjóð þegar frá byrjun og að öllum líkindum í fremstu víglínu þegar í stað.

Þannig eru staðreyndirnar í dag. Þannig fer Alþfl. að því að tryggja þegnum lýðveldisins öryggi. Þannig fer Sjálfstfl. að því að „stöðva þróun öfganna og losa af sér hið andlega ok kommúnismans“, eins og Vísir sagði. Þannig fer Eysteinsstefnan að því að bjarga þjóðinni. Þannig eru öll fögru loforðin orðin að logandi háði, er bergmálar vaxandi óvinsældir stj. og stuðningsflokka hennar frá manni til manns, frá yztu nesjum til innstu dala.