16.05.1949
Sameinað þing: 74. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í B-deild Alþingistíðinda. (1563)

42. mál, fjárlög 1949

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Þingheimur og þjóðin hefur nú hlustað á stjórnarandstöðuna, — íslenzka kommúnista. Fyrir okkur, sem í ríkisstj. og á þingi sitjum, var þar enginn nýr boðskapur, heldur þvert á móti síendurteknar gamlar fullyrðingar, sem við kunnum utan að og heyrum svo að segja daglega í þingsölunum og lesum, að svo miklu leyti sem við lesum blöð þessa flokks. Aðalatriðin í boðskap stjórnarandstöðunnar, íslenzkra kommúnista, eru þau yfirleitt, að ríkisstj. skipi landsölumenn, föðurlandssvikarar, sem keppi að því að selja íslenzkar afurðir svo lágu verði sem unnt er,. gangi fram hjá beztu mörkuðunum og keppi að því að kaupa inn á sem allra óhagkvæmustu verði, vinni að því að skerða svo sem unnt er kjör almennings í landinu og stefni beinlínis að því að koma hér á atvinnuleysi, að þessi ríkisstj. meini mönnum að vinna, banni að byggja hús og ráðast í framkvæmdir, skammti lífsnauðsynjar svo knappt, að neyð sé. Stefnumál ríkisstj. á fyrst og fremst að vera það að selja landið, og ef taka mætti þær yfirlýsingar kommúnista alvarlega, þá ættu flokkar þeir, sem að stj. standa, að vera búnir að selja landið nokkuð oft á undanförnum 3–4 árum. Það á einnig að vera stefna ríkisstj. að koma á fullkomnu hruni og öngþveiti. Sjálf segir stjórnarandstaðan — íslenzkir kommúnistar, að þeir séu einu trúu og fölskvalausu föðurlandsvinirnir, sem til séu í landinu, þeir einir vilji berjast fyrir bættum kjörum almennings, en eigi í höggi við þá höfuðfjendur, sem hafi þau stefnumál, er rakin hafa verið.

Til þess að varpa nokkru ljósi á fánýti þessara fullyrðinga, er greindar hafa verið, þykir mér rétt að víkja nokkrum almennum orðum að aðstöðu ríkisstj., þegar hún tók við völdum, og einnig að gerðum hennar. Ég mun þá einnig koma að því síðar í ræðu minni, hvað stjórnarandstaðan, íslenzkir kommúnistar, hefur til málanna lagt og hvernig þeir hafa hegðað sér í stjórnmálum yfirleitt.

En áður en ég sný mér að þessum venjulegu fullyrðingum kommúnista, sé ég ástæðu til þess að segja það eitt um ræðu þá, sem hv. 8. landsk., Ásmundur Sigurðsson, var nú að ljúka, að þar kom enn á ný í ljós löngun þessa hv. þm. til þess að snúa við myndum og láta þær vera öfugar. Hinn illræmda dag, 30. marz s.l., er sagt að þessi sami hv. þm. hafi, eftir að félagar hans úti á götunni höfðu grýtt alþingishúsið og brotið alla glugga, laumazt inn í herbergi í þinghúsinu, þar sem stendur stytta af Jóni Sigurðssyni, snúið henni við og látið hana snúa öfuga upp að vegg. Síðan lét hann taka ljósmynd af þessu afreki sínu, og birtist hún í Þjóðviljanum. Ræða þessa hv. þm. sýndi raunar það eitt, að hann hefur æfingu í því að snúa við myndum, og nú mun Þjóðviljinn aftur næstu daga birta þessa rangsnúnu mynd hans.

Engin ríkisstjórn er svo fullkomin, að ekki megi finna á henni marga galla. Engin ríkisstjórn er svo örugg á vegi réttlætisins, að ekki megi benda á einhver frávik frá þeim vandþrædda vegi. Vissulega má margt betur fara hjá núverandi ríkisstj. eins og öllum öðrum. En þess er þá einnig að gæta, að núverandi stj. hefur átt við óvenjumikla örðugleika að búa, — tók við þungum arfi, einkum vegna ýmissa ráðstafana kommúnista í fyrrv. ríkisstj. og vegna ýmissa óheillaáhrifa þeirra í stjórnmálum yfirleitt. Þess er og einnig rétt að geta í þessu sambandi, að ríkisstj. er sett saman af þremur flokkum með ólík sjónarmið. Það er því ekki nema eðlilegt, að í sumum framkvæmdum hennar hafi gætt þess, að samhæfa þurfti ólík viðhorf og að hver hinna þriggja flokka um sig mundi, ef hann hefði einn ráðið, hafa hagað framkvæmdum á annan veg.

Mér þykir rétt að bregða upp lítilli svipmynd af því, hvernig umhorfs var, þegar þessi stj. tók til starfa, hvernig hún hefur vikizt við vandanum og hversu hefur verið farið með þátt stjórnarandstöðunnar. Loks mun ég örlítið drepa á, hvað fram undan kann að vera.

Í fáum setningum sagt, eins og ég mun nánar rekja hér á eftir, var aðstaðan sú, er núverandi ríkisstj. tók við völdum, að erlendur gjaldeyrir var genginn til þurrðar, lánsfjárþenslan orðin gífurleg, mjög óhagstæður verzlunarjöfnuður, verðlag aðfluttra vara hækkandi, baggi bundinn með ábyrgðarverði útfluttra vara verðbólga vaxandi — og ofan á allt þetta komu óvenjuleg síldarleysisár.

Þegar stj. tók við, var vísitala framfærslukostnaðar 316 stig. Nokkru áður en stj. var mynduð, setti Alþingi lög um ábyrgðarverð á hraðfrystum fiski og saltfiski. Í landinu höfðu hrúgazt saman miklar vörubirgðir, sem að nokkru leyti höfðu verið fluttar inn leyfislaust, en að öðru leyti samkvæmt leyfum, en með báðum var það sameiginlegt, að erlendan gjaldeyri skorti til að leysa þær út og og þær lágu í vöruskemmum á hafnarbakkanum — „hafnarbakkavörur“ svonefndar.

Með ýmsum framkvæmdum og ráðstöfunum, þar á meðal niðurgreiðslu á verði nauðsynjavara með fé ríkissjóðs, og þrátt fyrir að verðlag á ýmsum aðfluttum vörum hækkaði verulega, einkum framan af, hefur þó tekizt að koma í veg fyrir það, að verðlagsvísitalan hækkaði meira en um 11 stig, eða úr 316 stigum í 327 stig, á þeim rúmum 2 árum, sem stj. hefur setið. Hefur því stj. vissulega gert sitt til, eftir því sem valdssvið hennar hefur leyft og fjárhagsástæður, að halda niðri dýrtíðinni. Hefur þar vissulega oft verið við ramman reip að draga, og mörg atriði, sem örðug voru viðfangs. En það orkar ekki tvímælis, að reynt hefur verið af stj. hálfu að spyrna af afli gegn vaxandi verðbólgu.

Eins og ég sagði áðan, hafði Alþingi rétt áður en stj. tók við völdum samþ. lög um fiskábyrgð ríkissjóðs, en ekkert fé var ætlað fjárlögum til þess að standa undir greiðslunum, enda var gert ráð fyrir, að þessi lög mundu ekki í framkvæmdinni reynast ríkissjóði þung í skauti. Alþingi taldi, að svokallaður „síldarkúfur“ yrði nægilegur til þess að mæta skakkaföllum vegna ábyrgðar ríkisins á sölu saltfisks og hraðfrysts fisks til útlanda. En síðan reyndist það svo, að síldarvertíðin 1947 brást að verulegu leyti. „Síldarkúfurinn“ varð enginn. En fiskábyrgðarlögin sköpuðu ríkissjóði á árinu 1947 21 millj. króna útgjöld. Í fjárlögum var ekki gert ráð fyrir neinum slíkum greiðslum, og má því ráða af líkum, hversu mjög slík útgjöld hafa orkað á fjárhag ríkissjóðs. Þetta leiddi til aukinna lausaskulda hjá ríkissjóði. En það var ekki einungis sumarið 1947, sem síldveiðin brást, þótt Faxaflóasíldin bætti þar nokkuð upp að haustinu. Sumarið 1948 var einnig aflabrestur á síldveiðum, miklu meiri en hið fyrra sumar. Af þessu hlaut óhjákvæmilega að leiða það, að minni möguleikar voru til öflunar erlends gjaldeyris og þar með til vörukaupa erlendis.

Eitt af fyrstu verkum núverandi stj. var að koma skipulagi á gjaldeyris-, innflutnings-, verðlags- og fjárfestingarmál. Í samræmi við það var sett löggjöf um fjárhagsráð, og hefur ráðið nú starfað síðan sumarið 1947. Má segja, að það hafi miklu til vegar komið, þótt að mörgu hafi verið fundið í framkvæmdum þess.

Þegar síldin brást sumarið 1947, þótti ríkisstj. einsætt, að grípa yrði til mikillar skömmtunar á aðfluttum nauðsynjavörum, bæði til þess að draga úr innflutningi og þá ekki síður til þess að skipta réttlátlega milli manna því, sem fengist. Það var einnig hugsunin með skömmtun að halda áfram sem mestum innflutningi á framleiðsluvörum, þ.e. „kapítalvörum“ og nauðsynjavörum, til þess að framleiðslunni yrði haldið áfram af fullu kappi. Það tókst að greiða upp vanskilaskuldirnar út á við og leysa út hinar svonefndu „hafnarbakkavörur“. Með því var að verulegu leyti endurheimt það traust á viðskiptum við Ísland, sem var áður skert vegna vanskila á greiðslum fyrir innfluttar vörur. En einnig tókst að auka þó nokkuð innflutning „kapítalvara“ og vara, sem þurfti til framleiðslustarfseminnar, svokallaðra rekstrarvara. Sést þetta bezt af stuttu yfirliti um innflutninginn árin 1946–49, incl., og er síðasta árið miðað við innflutningsáætlun, sem gerð hefur verið.

Árið 1946 voru fluttar inn neyzluvörur fyrir 145 millj. kr., eða 32,8% af öllum innflutningi til landsins. Sama ár voru fluttar inn rekstrarvörur fyrir 90 millj. kr., eða 20,3% af öllum innflutningi til landsins, og einnig voru fluttar inn „kapítalvörur“ fyrir 207 millj. kr.. eða 46,9% af öllum innflutningi til landsins.

Árið 1947 var innflutningur neyzluvara 125 millj., eða 20 millj. minni en árið áður, og ekki nema 22,6% af öllum innflutningi til landsins. þ.e. 10% minna af heildarinnflutningnum en 1946. Rekstrarvörur voru fluttar inn árið 1947 fyrir 137 millj., eða 47 millj. meira en 1946, og nam sá innflutningur 24,86% af öllum innflutningi til landsins árið 1947, þ.e. 4,5% meira en áður. „Kapítalvörur“ voru árið 1947 fluttar inn fyrir kr. 292 millj., eða 85 millj. kr. meira en árið 1946, og námu þær 52,6% af heildarinnflutningnum:

Árið 1948 var neyzluvöruinnflutningur 80 millj. kr., eða 45 millj. kr. minni en árið áður, og nam aðeins 20,1% af heildarinnflutningi til landsins. Rekstrarvörur hækkuðu nokkuð og urðu 150 millj. kr., eða 37,5% af heildarinnflutningi. Innfluttar voru „kapítalvörur“ fyrir 170 millj. kr., eða 42,4%. Og samkvæmt innflutningsáætluninni 1949 er gert ráð fyrir kaupum á neyzluvörum fyrir 83 millj. kr., eða 21,5% af heildarinnflutningi, rekstrarvörur er ráðgert að kaupa fyrir 131 millj. kr. eða 34%, og „kapítalvörur“ fyrir 171 millj. kr., eða 44,5%.

Af þessu yfirliti sést, að núverandi ríkisstj. hefur lagt allt kapp á að flytja til landsins sem mest af framleiðslutækjum og þá einnig vörum, sem nauðsynlegar reynast til að halda þeim starfandi. En sakir hins takmarkaða gjaldeyrisforða hlaut þessi stefna að ganga út yfir innflutning neyzluvara. Undan þessu hafa margir kvartað, og má með sanni segja, að gengið hafi verið langt á þessari braut og þurfi að breyta þar nokkuð til.

Það var sagt um nazistana í Þýzkalandi, að þeir hirtu meira um kanónur en smjör. Stj. hefur lagt meiri áherzlu á að flytja inn framleiðslutæki, sem aftur skapa auknar gjaldeyristekjur síðar, heldur en kaup á neyzluvörum. Með því móti taldi ríkisstj., að takast mundi að halda uppi blómlegu atvinnulífi, meiri vinnu en ella, og auka á skömmum tíma tekjuvonir þjóðarinnar í erlendum gjaldeyri.

En nú er ætlun stj. að auka nokkuð innflutning neyzluvara, þar sem hún telur, að þegar hafi verið flutt inn svo mikið af framleiðsluvörum hlutfallslega, að það verði e.t.v. úr þeim innflutningi að draga, og til þess að geta aukið innflutning nauðsynjavara til neyzlu. Í sambandi við aukningu á innfluttum nauðsynjavörum hefur ríkisstj. til athugunar að afnema skömmtun á benzíni, kaffi og kornvörum. Þá er það einnig tilætlun ríkisstj., að skömmtunarvörur verði eftirleiðis fluttar svo riflega inn, að öruggt megi telja, að alltaf verði til í landinu nægilegt magn af þessum vörum, til þess að hver og einn geti fengið þær keyptar í samræmi við skömmtunarseðla sína, hvar sem er á landinu, og þá einnig að það verði frjálst val, hvar menn vilji hafa þessi viðskipti sín.

Það má vafalaust gagnrýna það að leggja jafnhart að þjóðinni við kaup á framleiðslutækjum og gert hefur verið, en það var í samræmi við yfirlýsingar stj. og gert í framhaldi af nýsköpunarstefnu þeirri, er stjórn Ólafs Thors hóf, og telur núverandi ríkisstj. þetta hafa verið rétt og sjálfsagt og gert til þess að tryggja grundvöllinn að öruggu atvinnulífi í landinu, er stundir líða.

Með átökum þeim, sem ríkisstj. og fjárhagsráð hafa gert í þessum málum, hefur einnig tekizt á árinu 1948 að minnka hinn geysilega óhagstæða verzlunarjöfnuð við útlönd. Árið 1948 var verzlunarjöfnuðurinn óhagstæður um 61 millj. kr., en 1946 var hann óhagstæður um 157 millj. kr. Þó er þess að gæta, að á árinu 1948 kom til greiðslu mikið af andvirði nýju skipanna, bæði togaranna og hinna nýju skipa Eimskipafélagsins, en gjaldeyrir til þeirra greiðslna hafði verið lagður til hliðar áður af gjaldeyrissjóði fyrri ára. Raunverulega má því segja, að verzlunarjöfnuðurinn hafi verið óvenju hagstæður árið 1948. Stafaði það af tvennu: Öruggu eftirliti með innflutningi og takmörkun hans svo sem unnt hefur verið, og svo hinum miklu gjaldeyristekjum, sem nýi togaraflotinn hefur skilað. Þrátt fyrir það, að sumar- og haustsíldveiðin brygðust algerlega að heita mátti árið 1948, tókst að flytja út íslenzkar afurðir fyrir hartnær 396 millj. kr., og er það mesti útflutningur sem þekkist í sögu Íslands, þrátt fyrir það að síldveiðarnar væru aldrei lakari en það ár, a.m.k. miðað við skipafjölda.

Með aðgerðum ríkisstj. hefur þannig tekizt að koma í veg fyrir vaxandi óhagstæðan verzlunarjöfnuð í viðskiptunum við útlönd og afnema að mestu leyti vanskilaskuldir íslenzkra innflytjenda erlendis. Veit ég það með vissu. að þetta merkilega átak hefur skapað aukið traust og álit út á við. Þetta hefur ekki hvað sízt orðið með aukinni framleiðslu, með fleiri og fullkomnari tækjum, sem þá einnig hefur orðið til þess, sem ekki er minnst um vert og ríkisstj. telur eitt af aðalstefnumálum sínum, að halda uppi fullri atvinnu í landinu.

Ríkisstj. hefur kostað kapps um að halda áfram og auka nýsköpunina í íslenzku atvinnulífi. Samið hefur verið um smiði á a.m.k. 10 nýjum og fullkomnum togurum í Bretlandi, sem eiga að byrja að koma til landsins á næsta ári. Með aðstoð ríkisstj. hefur verið byggð ný og fullkomin verksmiðja í Örfirisey, og nokkrar síldar- og fiskimjölsverksmiðjur við Faxaflóa hafa verið stækkaðar mikið. Til landsins hefur verið keypt og útbúin fljótandi síldarverksmiðja, skipið „Hæringur“. En margt af þessu hefur því aðeins verið unnt að framkvæma, að Ísland hefur notið hinnar ágætustu aðstöðu í sambandi við Marshalláætlunina. Eru nú sköpuð góð skilyrði til þess að notfæra sér haust- og vetrarsíldina í Faxaflóa, og er þess að vænta, að hún bregðist ekki, eins og var s.l. haust.

Þá má geta þess, að óvenju mikið hefur þegar verið flutt inn og á að flytja inn af nýtízku, fullkomnum landbúnaðarvélum. Ætti það að valda verulegum straumhvörfum í íslenzkum landbúnaði.

Þó að orð hafi verið á því gert, að dregið hafi verið úr ýmsum byggingarframkvæmdum, þá er það þó mála sannast, að mikið hefur verið að því unnið að verða við óskum manna í þessum efnum. Hins vegar hefur verið stefnt að því að láta nauðsynlegar verksmiðjubyggingar og ódýr og hentug íbúðarhús sitja fyrir, en láta skrautbyggingar og íbúðarhallir sitja á hakanum.

Á árinu 1948 voru veitt leyfi fyrir byggingu 1594 íbúðarhúsa, og gert er ráð fyrir, að í ár verði þau 1576. Útihús voru leyfð 726 árið 1948 og 1517 árið 1949. Verzlunarbyggingar voru leyfðar 48 hvort árið um sig, iðnaðarbyggingar 68 árið 1948, en 73 árið 1949. Þannig mætti lengi telja. Sement til allra byggingarframkvæmdanna var talið 51.200 tonn árið 1948 og gert ráð fyrir, að það verði 52.500 tonn árið 1949. Um helmingur af sementinu fer til íbúðarhúsabygginga. Allur kostnaður til þessara byggingarframkvæmda er talinn 327 millj. kr. 1948 og 287,5 millj. 1949, þar af til íbúðarhúsabygginga 1948 163,7 millj. kr. og 118,6 millj. kr. 1949. Af þessu má sjá, hversu víðs fjarri þær fullyrðingar eru, að bannaðar hafi verið byggingarframkvæmdir í landinu.

Það hefur fyllilega komið í ljós, að þær stórstigu framkvæmdir og nýsköpun síðustu ára hefur mjög reynt á þanþol íslenzks fjármagns, og margt bendir til þess, að af ýmsum ástæðum verði frekar að stinga við fæti. Íslenzkt fjármagn er verulegum takmörkunum bundið, og það er engin lausn þessara mála að gefa út og prenta fleiri peningaseðla. Á síðustu fjórum árum hafa útlán bankanna aukizt um 554 millj. kr. Íslenzka þjóðin verður í þessu efni sem öðru að sníða sér stakk eftir vexti og ekki ráðast í meiri framkvæmdir, en geta og fjármagn leyfir. Bjartsýnin er góð, en henni verður að vera samfara raunhyggja, ef vel á að vera. Þar duga engin óp og óhljóð þeirra, sem alls krefjast í einu.

Í utanríkismálum má sérstaklega minna á tvennt, sem núverandi ríkisstj. hefur staðið að: Annars vegar þátttaka í viðreisn Vestur-Evrópu, Marshallhjálpinni svonefndu, og hins vegar aðild að Atlantshafsbandalaginu til að tryggja öryggi Íslands. Í sambandi við Marshallaðstoðina hefur verið gerð ýtarleg áætlun um framkvæmdir í landinu á næstu fjórum árum, þar sem sérstaklega er gert ráð fyrir aukningu fiskiflotans, síldariðnarins, byggingu lýsisherzluverksmiðju og fiskimjölsverksmiðja, aukningu kaupskipaflotans og hraðfrystihúsa, byggingu skipasmíðastöðva og þurrkvíar, kaupum á landbúnaðarvélum, byggingu áburðarverksmiðju, byggingu raforkuvera, sementsverksmiðju og kornmyllu. Er áætlað, að þessar framkvæmdir muni kosta í erlendum gjaldeyri á þessum fjórum árum ca. 361,69 millj. kr. og í íslenzkum gjaldeyri 181,11 millj, kr., eða samtals 542,8 millj. kr., og er þeim framkvæmdum ætlað að nema 135,7 millj. kr. á ári að meðaltali. Að vísu verður ekki um það sagt enn þá, hvort auðið verður að framkvæma þessa risaáætlun, en allt verður gert, sem unnt er, til þess af hálfu núverandi ríkisstj. Er raunar byrjað að starfa að sumu eftir þessari áætlun, en annað í vændum.

Það er ekki vafa undirorpið, að skynsamlegasta notkun þessa fjár, sem Íslendingar fá, bæði sem óafturkræft framlag, lán og sem andvirði íslenzkra afurða í sambandi við Marshallhjálpina, verður það að auka og stofna ný framleiðslutæki og með því móti leggja traustari grundvöll að auknu fjölbreyttari atvinnulífi í landinu.

Um Atlantshafssamninginn mun ég segja það eitt á þessu stigi, en vík að honum síðar, að ríkisstj. telur, að það hafi verið sjálfsagt og eðlilegt fyrir Íslendinga að gerast aðilar að honum til þess að tryggja sem bezt öryggi og sjálfstæði landsins og að Íslendingar megi vel við una að vera í hópi þeirra lýðræðisþjóða í Vestur-Evrópu, sem eru þátttakendur í því bandalagi. Það hefur strax komið í ljós, að Atlantshafssáttmálinn hefur nú þegar miklu til leiðar komið, þar sem hann án efa hefur átt sinn þátt í því að Rússar létu undan síga í Berlín, og a.m.k. í bráðina hefur nokkuð dregið úr taugastríðinu, þótt alltaf megi búast við, að einræðis- og ofstækisstefnan muni skjóta upp kollinum að nýju í einhverri mynd.

Ég hef hér á undan rakið í fáum og stórum dráttum þær framkvæmdir og þau úrræði út úr vandkvæðunum, sem núverandi ríkisstj. hefur staðið að, og við hvaða örðugleiks hún hefur átt að etja á starfstímabili sínu. En hver er þáttur stjórnarandstöðunnar — kommúnista — í þessu sambandi?

Í þeim óglæsilega arfi, sem stj. tók við frá fyrri tímum, voru einna þungbærastar framkvæmdir, er gerðar voru á vegum ráðherra kommúnista. Má þar fyrst nefna byggingu síldarverksmiðjanna á Skagaströnd og Siglufirði, sem kosta munu yfir 40 millj. kr., en voru áætlaðar 16 millj. kr. Ég hef getið þess á eldhúsdegi áður, hvílíkt bruðl var viðhaft í sambandi við þessar byggingar og óstjórn á öllum sviðum. Nú er nokkuð meira vitað en áður um þessar athafnir og það sukk, sem gerði verksmiðjurnar svo geigvænlegar dýrar, og hvíla mun langa hríð með miklum þunga á herðum útgerðarmanna og sjómanna, fyrir utan það, hvað ríkissjóði hafa verið bundnar örðugar klyfjar. Ég gæti talið upp ýmis atriði í það óendanlega sem dæmi um óreiðu, óstjórn og sukk í sambandi við framkvæmd þessa, en mun aðeins drepa á fátt eitt.

1 sambandi við byggingu síldarverksmiðjanna var skipið „Hrímfaxi“ leigt til þess að flytja sement frá Englandi. Leigan skyldi vera 5 þúsund krónur á dag, auk þess sem greiða skyldi losun, lestun, kol, yfirvinnu o.fl. Skipið fór aðeins tvær ferðir, frá 2. ágúst til 28. sept., eða ,á tæpum tveimur mánuðum. Leiga og kostnaður nam kr. 36594815, en þar frá dragast kr. 26.448,38 fyrir mjölflutninga, þannig að útgjöldin vegna sementsflutninganna urðu kr. 339.499.77. Skipið virðist hafa flutt alls 1219,2 tonn. Kostaði sementið kr. 491.536,60 cif., án tolla og uppskipunar, eða 403 kr. tonnið. Á sama tíma var sement keypt úr smáskipum fyrir 250 kr. tonnið, eða rösklega 150 kr. lægra hvert tonn heldur en byggingarnefndin fékk sementið keypt fyrir.

Í samningi þeim, sem gerður var við byggingarfélagið, sem hafði verkið með höndum, var ákveðið „að kaupa hér efni á því verði, sem það fæst fyrir“. Þetta fór mjög út í öfgar í framkvæmdinni, því að allan tímann var haldið áfram að kaupa ýmiss konar efni í smásölu: Seldi byggingarfélagið úr geymslum sínum fyrir 362.300 kr. og keypti af öðrum í smásölu fyrir kr. 292.400 eða alls fyrir kr. 654.700. Er það engum vafa undirorpið, að þessi kaup hafa verið stórlega óhagkvæm, en í samningnum er gefið undir fótinn með það að kaupa efnið á því verði, „sem það fæst fyrir“, eins og það er orðað. Og framkvæmdin varð sú, að kaupin voru að verulegu leyti frá smásölum.

Keyptir voru í því sambandi við byggingu verksmiðjanna 9 notaðir bílar, samtals fyrir kr. 290.572. Á rekstri þessara bíla var halli, sem nam kr. 235.131,08. Af þessum bifreiðum var einn jeppi, og var kaupverð hans um 11.560 kr., en rekstrarkostnaðurinn 29.432,90 kr., eða samtals kaupverð og kostnaður kr. 41 þúsund. Engar tekjur eru sjáanlegar af jeppanum. Þá var keypt sjö manna fólksbifreið fyrir 16 þús. kr., og varð rekstrarkostnaður hennar kr. 45.915,95, en tekjur 150 krónur, — kostnaður alls, kaup• verð og rekstur að frá dregnum tekjunum, varð kr. 61.800,00. Engin skýrsla hefur legið fyrir um notkun þessara keyptu bifreiða, en viðgerðarkostnaður þeirra hefur verið með ólíkindum. Auk þess sem bíar byggingarnefndar virðist hafa verið í flutningum með ýmsan varning frá Reykjavík til Skagastrandar, voru fluttar vörur fyrir 251 þús. kr. með leigubifreiðum til Skagastrandar og Hofsóss frá Reykjavík. Flutningskostnaður er rúmar 400 krónur á tonnið. Meðal annars eru flutt kol, sem keypt voru í smásölu í Reykjavík, til Skagastrandar, og nemur þá andvirði kolanna, þegar þau eru tekin til upphitunar þar, um 700 kr. tonnið. Síldarverksmiðjurnar áttu næg kol á Siglufirði, og stóðu þau til boða með kostnaðarverði, og flutningur þeirra frá Siglufirði til Skagastrandar hefði orðið ca. 80–100 kr. á tonn, þar með talin útskipun og uppskipun.

Þess má geta til gamans, að byggingarnefndin eyddi í risgjöld kr. 51.124,45. Virðist ekkert hafa verið til sparað.

En stærsta misfellan í þessu byggingarmáli er þó hrun mjölskemmunnar á Siglufirði, sem talið er, að muni kosta 3 millj. kr. að gera við við endurbyggingu kom í ljós, að jarðvegsrannsóknir höfðu engar verið gerðar áður en skemman var reist. Kostaði lagfæringin á grunninum 600 þús. kr.

Ég hef aðeins nefnt hér nokkur dæmi af mörgum um óstjórn og sleifarlag, sem ríkti í síldarverksmiðjum ríkisins á þeim tíma, er hv. þm. Siglf., Áki Jakobsson, var atvmrh. Og langan tíma munu útgerðarmenn og sjómenn súpa seyðið af þessum framkvæmdum.

Ég nefni síldarverksmiðjurnar sem þátt í þeim arfi, er kommúnistar létu eftir sig frá sinni stjórnartíð. Ég get nefnt til viðbótar, að fyrrv. atvmrh., Áki Jakobsson, lét kaupa án samráðs við ríkisstj. og án leyfis þáverandi fjmrh. lýsisherzluvélar í Englandi, án þess að nokkurt fé væri til þess að greiða þær, og hefur núv. ríkisstj. nú nýverið orðið að taka 1 millj. kr. lán til þess að ,kaupa hluta af þessum vélum, sem svo gálauslega voru keyptar inn. Þessi dæmi tala ljósu máli um sukkið og óreiðuna undir stjórn kommúnista og þau sýna einnig ljóslega, hvílíka örðugleika arfurinn hefur lagt núverandi stj. á herðar.

Það hefur ekki leynt sér, að síðan núverandi ríkisstj. tók til starfa hafa kommúnistar gert allt, sem hugsanlegt hefur verið, til þess að gera henni sem örðugast um vik. Í því skyni, hafa þeir reynt að misbeita verkalýðsfélögunum, t.d. í togaradeilunni, sem stóð fyrir skömmu. Þar gerðu þeir allt, sem í þeirra valdi stóð, til þess að spilla því, að sættir tækjust, og mörgum er minnisstætt, hve kommúnistar urðu fyrir miklum vonbrigðum, þegar deilan leystist. Þeirra ætlun var að reyna að stöðva togaraflotann miklu lengri tíma, unz algert öngþveiti hefði skapazt. En skynsemi íslenzkra sjómanna og útgerðarmanna var gæfuríkari, og deilan leystist fyrir nokkurn atbeina ríkisstj., áður en til slíks kæmi.

Við afgreiðslu fjárlaga nú hafa einstakir kommúnistaþingmenn og fulltrúar þeirra í fjvn. borið fram hækkunartillögur, sem nema samtals um 30 millj. kr., án þess að benda á nokkrar tekjur á móti. Menn beri þessa staðreynd saman við árásarhneigð hv. 8. landsk., Ásmundar Sigurðssonar, á aðra út af fjármálunum, en þessi hv. þm. er annar fulltrúi kommúnista í fjvn. Er þetta táknrænt fyrir alla starfsemi þeirra og lýsir þeim einkar vel. Þeir gera allt, sem þeir geta, til þess að torvelda viðreisnarstarf núverandi ríkisstj. og koma henni frá völdum, í þeirri fánýtu von, að þá mundi skapast tækifæri fyrir þá til þess að hafa áhrif á stjórn landsins. En vissulega verður ógæfa þjóðarinnar aldrei svo mikil, að sá draumur þeirra rætist.

Táknrænast af öllu starfi kommúnista er framferði þeirra í utanríkismálum, svo sem alkunnugt er. Þeir hafa hamast hér á Alþingi af öllu afli gegn því, að Íslendingar tækju þátt í Marshalláætluninni. Þeir vita með vissu, að með þeirri þátttöku skapa Íslendingar sér stórmikla möguleika til endurreisnar atvinnulífsins og aukinnar framleiðslustarfsemi.

Það er gagnslaust fyrir kommúnista að reyna að telja Íslendingum trú um, að þátttaka Íslands í Marshallaðstoðinni þýði sama sem undirokun undir Bandaríkin. Stóra-Bretland, Norðurlöndin og Vestur-Evrópuþjóðirnar allar, sem í samtökunum eru, munu vissulega ætla sér annað en verða undirlægjur annarra þjóða, þó að þær freisti þess að endurreisa fjárhagskerfi sitt og atvinnulíf með stuðningi Marshalláætlunarinnar. Það er vissulega verið að vinna á móti hagsmunum íslenzkrar alþýðu, atvinnuvonum hennar og afkomu með því að berjast gegn þátttöku Íslands í Marshallaðstoðinni.

En hvers vegna gera kommúnistar þetta? Það er vegna þess, að Sovét-Rússland hefur látið það boð út ganga til allra kommúnistaflokka í Vestur-Evrópu, að þeir skuli af öllu afli berjast gegn viðreisnaráformunum. Fyrirskipunin var nægileg til þess, að henni væri hlýtt og hagsmunir almennings á Íslandi yrðu algert aukaatriði.

Ég minntist aðeins á Atlantshafssáttmálann. Öllum er í fersku minni hin hamslausa barátta kommúnista gegn honum. Við, sem að þátttöku Íslands stóðum, höfum verið nefndir landsölumenn, föðurlandssvikarar, tuskur, leppar og ótal mörgum álíka orðum. Þetta orðbragð var óspart notað innan sala Alþingis og ekki í hvað minnstum mæli né prúðara orðavali af þeirri einu kvenpersónu, er á Alþingi situr. Það var engin tilviljun, að 30. marz s.l. varð viðburðaríkur dagur í stjórnmálasögu Íslands. Með taumlausum áróðri og ofbeldi söfnuðu kommúnistar saman liði sínu öllu í baráttunni gegn því, að Íslendingar yrðu aðilar að Atlantshafssáttmálanum. Það er einnig sorglegt að einstaka villtar eða auðtrúa sálir utan raða kommúnista tóku þátt í þessari baráttu með mjög óheppilegum hætti, en að því mun ég ekki víkja nánar hér. Þó get ég ekki stillt mig um að bæta því við, að þeir hinir sömu menn, sumir, er á sorglegan hátt gerðust handbendi kommúnista, í sambandi við uppþot, gauragang og hótanir út af Atlantshafsbandalaginu, virðast nú í innanlandsmálum einnig hafa tekið sér samstöðu með kommúnistum og í því skyni myndað hálfgerð eða algerð flokkssamtök, þar sem áhrif og yfirstjórn eru augsýnilega komin frá kommúnistum. Og ekki gerir það athafnir þessara ólánsmanna betri, þótt hvatirnar kynnu að vera þær af sumra hálfu, að þeim hafi fundizt þeir ekki ná þeim frama og áhrifum í eigin flokkum, sem þeir sóttu eftir og töldu sig réttborna til.

En ég sagði það áður og segi það enn, að 30. marz var táknrænn dagur fyrir kommúnista á Íslandi, baráttuaðferðir þeirra, ofstæki og ofbeldishneigð. Það voru ekki rökin, sem notuð voru í þingræðum og blöðum, heldur upphrópanir, ókvæðisorð og hótanir. Og það allt saman leiddi til þess, að ráðizt var á Alþingi Íslendinga 30. marz af æstum skríl, brotnar flestar rúður þinghússins, og munaði minnstu; að margir alþingismenn og starfslið þingsins yrðu fyrir stórkostlegum áverkum eða jafnvel biðu bana.

Ég minnist þess, að þegar ég að áliðnum degi 30. marz fór frá þinghúsinu út í bifreið, var þar hópur æstra manna skammt frá, sem hrópaði nafn mitt og æpti „grýtum, grýtum, drepum, drepum“. Og það var ekki látið sitja við orðin tóm. Grjóthríðin dundi þá litlu stund, sem ég var að ganga frá þinghúsinu til bifreiðarinnar, og var það ekki uppæstum skrílnum að þakka, að ég og hv. þm. V-Ísf., Ásgeir Ásgeirsson, skyldum ekki verða fyrir stórmeiðslum í það sinn. En þetta er táknrænt. Rökin eru grjótkast. Upphrópanirnar eru „grýtum, drepum“. Það er starfsaðferð kommúnista og þeirra manna, sem virða að vettugi allar siðaðra manna reglur, er gilda eiga í lýðræðisþjóðfélagi. Það er táknandi fyrir það, hvílík hætta er á ferðum, þegar stjórnmálaflokkur er haldinn slíku ofstæki, slíkri fyrirlitningu á háttum siðaðra manna, og hversu þetta þjóðfélag er illa komið, ef slíkur flokkur eflist til verulegra áhrifa á íslenzk stjórnmál.

Það er öllum ljóst, sem til þekkja, að verðbólgan á Íslandi er geigvænleg. Núverandi ríkisstj. setti sér það takmark að reyna að stöðva hana og draga úr henni, ef unnt reyndist. Það verður að segjast eins og það er, að þetta hefur orðið örðugt í framkvæmd. Valda því margs konar ástæður, sem óviðráðanlegar hafa reynzt, svo sem verðhækkanir á erlendum markaði og margs konar ástand, skilningsleysi og sérhagsmunir innanlands. Allir krefjast lausnar þessa máls, en það er um leið eftirtektarvert, að það er risið gegn hverri þeirri tilraun, sem gerð er til að halda verðbólgunni niðri. Hver krefst sér til handa, að ekki sé á sinn hlut gengið, um leið og krafizt er aðgerða og úrbóta til lækkunar.

Það er vissulega ekkí þessi ríkisstj., sem nú situr, er skapað hefur verðbólguna. Hún hefur þvert á móti reynt af fremsta megni að vinna gegn henni og draga úr henni með því að halda verðlagi svo mikið í skefjum sem unnt er og hindra aukinn framleiðslukostnað. Það hefur að vísu kostað það, að margir þjóðfélagsþegnar hafa orðið að taka auknar byrðar á herðar sínar, þar á meðal launastéttirnar. En því miður hefur ekki reynzt kleift að koma í veg fyrir það. Öðru verra hefur vissulega verið afstýrt, og það, sem mest er um vert, hefur tekizt að halda við fullkominni atvinnu og mikilli framleiðslu.

Alþfl. hefur ekki fyrir sitt leyti viljað ganga inn á gengislækkun eða víðtæka verðhjöðnun, jafnmikið og launastéttirnar hafa lýst andstöðu sinni gegn þessum úrræðum. Hefur því verið leitazt við að fara þá leið að reyna að halda í föstum skorðum verðlagi og vinnulaunum. Þetta hefur ekki tekizt til fulls, og valda því margar orsakir og vöntun á skilningi, án þess þó að bent hafi verið með gildum röká aðrar leiðir, er alþýðu manna væru hentari og heppilegri. Þetta er vissulega vandasamt og viðkvæmt mál, mál, sem þarfnast mjög náinnar rannsóknar, umhugsunar og samstarfs. Það. sem ekki hvað sízt ríður á, er að fá skilning launastéttanna á nauðsyn þess, að barizt verði með árangri gegn verðbólgunni. Launamenn eiga mest á hættu um, hvernig tekst til. Viðnámslítil alþýða verður harðast úti, ef atvinnuvegirnir dragast saman og vinna bregst.

En það er óhætt að fullyrða, að sá tími nálgast meir og meir, að allir sjá, sem á annað borð vilja nokkurn skilning á því hafa, hvernig ástatt er, að menn verða að taka höndum saman í þessu máli. Til þess þarf samstarf, víðtækt samstarf milli lýðræðis- og umbótaaflanna í íslenzkum stjórnmálum og samstarf við launastéttirnar og framleiðendur til lands og sjávar.

Því fer víðs fjarri, að ástæða sé til að örvænta né telja, að ekki sé unnt að viðhalda blómlegu atvinnulífi og mannsæmandi lífskjörum almennings í landinu. Við eigum mikil, mörg og vaxandi atvinnutæki í landinu, dugmikið og vel mannað fólk og land margra möguleika, með fiskisælum miðum umhverfis það. Það, sem umfram allt þarf á að halda, er þegnskapur og réttsýni til þess, með samtökum lýðræðis- og umbótaafla, að ráða þeim ráðum, er fleyta okkur yfir torfærur líðandi stundar í íslenzku athafna- og fjármálalífi.

Svo er högum háttað í íslenzkum stjórnmálum, og verður væntanlega í náinni framtíð, að enginn einn stjórnmálaflokkur fær meiri hluta á Alþingi. Það er því ekki nema um tvær leiðir að ræða í stjórn landsins: Samstarf flokka um ríkisstj., eða minnihlutastjórn eins flokks. hvort tveggja stjórnarhættirnir leiða til líkrar niðurstöðu. Minnihlutastjórn getur engum málum komið fram nema með samkomulagi við aðra flokka. Það leiðir aftur til þess, að hún verður í raun og veru að samhæfa sig skoðunum annarra flokka. Þetta þekkist vel t.d. frá Danmörku og Finnlandi, þar sem minnihlutastjórnir jafnaðarmanna fara nú með völd. Þeir verða að semja við aðra flokka til þess að koma fram málum og taka tillit til skoðana annarra flokka á þingi. Flokkar, sem vinna saman að ríkisstj., verða sín í milli að semja til þess að koma málum fram. Það, sem gert er, ber ekki öruggt svipmót eins flokks, heldur samstarfsins, meðalvegsins, sem farinn er af hinum ólíku flokkum. Þannig verður það einnig áreiðanlega hér á landi um framkvæmd þingræðis- og lýðræðisskipulagsins, hvort sem mönnum geðjast að því betur eða verr.

Ég er þeirrar skoðunar, og hef alltaf verið, að á örðugum tímum, eins og nú, sé heppilegt að ábyrgir lýðræðisflokkar hafi samstarf um stjórn landsins. En til þess að svo megi verða, þarf að samhæfa sjónarmiðin, sýna gagnkvæmt traust og skilning. En umfram allt verður þá að þoka til hliðar hagsmunum sérréttindastétta og veita þeim aðstoð og aukin réttindi, sem við bágust kjör eiga að búa. Ég álít, að lýðræðisflokkarnir einir geti starfað saman, ef vel á að fara.

Ég tel, að ekki komi til nokkurra mála, að samstarf um stjórn landsins sé haft við kommúnista. Ég vil taka það skýrt og ákveðið fram, og tel mig mæla þar fyrir munn míns flokks, að allt samstarf við kommúnista um stjórn landsins sé með öllu útilokað.

Að öðru leyti verður afstaða Alþfl. til stjórnar landsins á hverjum tíma að markast af málefnum og þeim einum. Svo hefur jafnan verið og mun verða. Til þess að Alþfl. geti staðið að ríkisstj., verða verkefni hennar að vera til hagsældar fyrir alþýðu landsins. Ég vil engu spá um framtíðina og samstarf núverandi stjórnarflokka, en vildi aðeins gefa þá yfirlýsingu, sem ég nú hef gert, og fer þá um afstöðu Alþfl. á sínum tíma til þessarar stj. og annarra eftir því, hvernig aðrir lýðræðisflokkar taka á málum af sinni hálfu.