16.05.1949
Sameinað þing: 74. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1201 í B-deild Alþingistíðinda. (1565)

42. mál, fjárlög 1949

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

„Er það hækkunartillaga?“ Þannig spurði hv. landsk. þm., Brynjólfur Bjarnason, fyrir tveimur árum við afgreiðslu fjárlaga. Hann hafði vikið sér frá, en vildi nú greiða atkvæði á ný og þess vegna fá að vita, hvers eðlis till., sem til atkv. var, væri. Hann spurði ekki um, hvort tillagan væri þörf eða óþörf, hvort hún væri til styrktar góðu máli eða illu. Hið eina, sem Brynjólfur Bjarnason taldi hafa þýðingu og réð atkvæði hans, var, hvort um væri að ræða hækkun útgjalda eða ekki. Þegar hann heyrði, að um hækkunartillögu var að ræða, greiddi hann henni hiklaust atkvæði sitt. Þetta atvik hefur orðið minnisstætt flestum eða öllum, sem viðstaddir voru. En þess mun einnig verða getið í sögu þjóðarinnar, því að fáir atburðir sýna í einu vetfangi ljósar meginstefnu kommúnista í fjármálum. Alls staðar hafa þeir verið með hækkunum útgjalda, hvergi með lækkunum, a.m.k. hvergi þar, sem þýðingu hafði.

En engin regla er án undantekninga. Við afgreiðslu fjárl. að þessu sinni greiddu kommúnistar atkvæði með einstaka lækkunartillögum. Eftirtektarverðast um þá afstöðu þeirra var, að þeir vildu lækka útgjöld til löggæzlu, rannsóknar sakamála og hætta útgáfu hæstaréttardóma. Þarf ekki skýringar við, af hverju kommúnistar taka þessa þætti út úr og vilja umfram allt koma í veg fyrir, að hafðar séu hendur í hári sakamanna og frásagnir af athæfi þeirra birtar í hæstaréttardómum. Fjandskapur þeirra við réttarrannsóknina út af ofbeldisverkunum 30. marz s.l. er af sama toga spunninn. Þeir óttast, að þar muni sitt hvað sannast, sem þeir vilja hafa dulið. Sá ótti þeirra er skiljanlegur, því að þó að þar muni ekki sannast öll launráð þeirra og vina þeirra til undirbúnings árásinni á Alþingi, mun hlutur þeirra verða ærið slæmur fyrir því. Vitanlega reyna kommúnistar að hræða menn frá að segja satt um það, er þeir sáu til tiltekta kommúnista þennan dag, og reyna eftir föngum að skjóta undan sönnunargögnum. Þess vegna vona þeir einnig, að kvikmyndirnar, sem teknar voru þennan dag, verði ekki sýndar, og reyna að telja kjark í lið sitt með því að skrökva því upp, að banna eigi sýningu mynda þessara. Sú skröksaga verður hinum seku mönnum skammgóður vermir. Myndirnar munu verða sýndar, og umfram allt verður að sýna þær óstyttar, því að þótt þær að sjálfsögðu nái ekki nema litlu af þeim ljótu afbrotum, sem kommúnistar og vinir þeirra frömdu 30. marz, þá sést þar þó margt, sem kommúnistar kviða, að komi fyrir augu almennings.

Kommúnistar kvíða sannleikanum. Þeir vita, að hann muni eyða slíkum söguburði og hv. þm., Ásm. Sigurðsson, maðurinn, sem sneri við mynd Jóns Sigurðssonar, viðhafði hér áðan. Öfugmæli hans um atburðinn 30. marz eru sýnishorn af sagnfræði kommúnista. Sumu því ljótasta úr Þjóðviljanum sleppti hann þó. — T.d. hinni lubbalegu árás á nafngreindan Íslending, sem starfaði með Þjóðverjum í Noregi fyrri hluta stríðsáranna og hlaut fyrir það þunga refsingu í Noregi að ófriðnum loknum og var þó sleppt þaðan úr haldi. Þjóðviljinn hefur dag eftir dag fullyrt, að þessi maður hafi verið í liði lögreglunnar eða a.m.k. lýðræðisflokkanna 30. marz. Sannleikurinn er sá, að þessi maður kom þar hvergi nærri, og er sannast sagt furðu níðingslegt að rífa stöðugt upp á ný sár hans. Allra sízt situr það þó á kommúnistum að brigzla manni þessum, því að afstaða hans í upphafi stríðsins var einmitt hin sama og Molotovs, sem óskaði sendiherra Þjóðverja til hamingju, þegar hann sagði honum frá innrás Þjóðverja í Noreg.

Allir þykjast vera á móti útgjaldahæð fjárlaganna, meðan ekki er vikið að því í einstökum atriðum, hvað eigi að spara. Mikið er talað um aukningu ríkisbáknsins í því sambandi. Sízt skyldi ég verða til þess að verja vöxt þess. Sjálfstfl. er eini flokkurinn, sem er í beinni andstöðu við of mikil ríkisafskipti af atvinnuvegum landsmanna og framkvæmdum. En flokkurinn hefur því miður ekki meiri hluta atkvæða með kjósendum landsins og ræður þess vegna ekki einn stefnunni, heldur verður hann að semja við aðra flokka, gerólíka að skoðunum, um framgang allra mála og hverri meginstefnu skuli fylgt. Allir þessir flokkar, andstöðuflokkar sjálfstæðismanna, vilja meiri og minni ríkisafskipti, kommúnistaflokkurinn þó mest. Á engum flokki situr því síður en honum að ásaka aðra um útþenslu ríkisstarfseminnar, ríkisafskipti, skrifstofubákn og skriffinnsku. Sannleikurinn er sá, að þó að ýmsum þyki að vonum of mikið um þvílíka iðju hér á landi nú, þá er hún ekki nema svipur sjá sjón miðað við ástandið í þeim löndum, þar sem sósíalismi, hvað þá kommúnismi, hefur fengið öll ráð. Þegar kommúnistar þess vegna lýsa andstöðu sinni við þvílíka stjórnarhætti, tala þeir þvert um hug sér sem endranær. Þar ráðast þeir einmitt á þau stjórnareinkenni, sem öllu öðru fremur eru ráðandi í því þjóðfélagsformi, sem þeir vilja koma á.

En þó að rétt sé, að hér á landi sé nú of mikið um skriffinnsku og úr öllu því fargani verði seint bætt til hlítar, nema Sjálfstfl. einn fái hreinan meiri hluta við kosningar, þá verður þó að segja söguna eins og hún er, og hún er sú, að hækkun útgjalda ríkissjóðs stafar ekki fyrst og fremst af þessum sökum. Það eru aðrar ástæður en fjölgun starfsmanna ríkisbáknsins, sem mestu ráða um þetta.

Eftir 2. umr. fjárl. voru heildarútgjöld fjárlaga rúmlega 293 millj. kr. Í hverju var meginhluti útgjaldanna fólginn? Var það hin eiginlega starfsræksla ríkisins, embættismannafjöldinn, sem gleypti allt þetta fé? Nei, það voru örfáir liðir, þessu í rauninni óviðkomandi, sem tóku mest af fénu. Til verklegra framkvæmda, samgöngumála, kennslumála, landbúnaðarmála, raforkumála, almannatrygginga, dýrtíðarmála og skuldaniðurgreiðslna var varið h. u. b. 225 millj. kr.

Þegar við lítum á einstakar fjárhæðir fjárlaganna, sjáum við, að samgöngumál, en þar eru taldar flestar verklegar framkvæmdir, voru þar með h. u. b. 371/2 millj. kr., sem hækkuðu um milljónir við 3. umr. Við þetta má bæta 5 millj. til raforkumála og a.m.k. 800 þús. til notendasíma hjá Landssímanum, sem ekki er talið til eignaaukninga. Þá eru í 20. gr. taldar auk skuldaniðurgreiðslu 10 millj. til ýmiss konar eignaaukninga, nær allt verklegar framkvæmdir.

Vilja kommúnistar lækka verklegar framkvæmdir frá því, sem nú er? Þvert á móti. Þeir vilja auka þær og ásaka núverandi meiri hluta Alþingis og núverandi ríkisstj. um allt of mikið aðgerðarleysi í þessum efnum.

Þá eru h.u.b. 20 millj. kr. ætlaðar til ýmiss konar landbúnaðarframkvæmda, mæðiveikivarna, fjárskipta og annars slíks. Ekki hef ég orðið þess var, að kommúnistar hafi flutt neinar tillögur til lækkunar þessum liðum, heldur hafa þeir viljað hækka þá svo hundruðum þúsunda skipti.

Til skólamála eru ætlaðar h.u.b. 28 millj. og 300 þús. Mjög verulegur liður í þessari geipifjárhæð er kostnaður af fræðslulögunum nýju. Ég skal ekki ræða um það, hvort þessi löggjöf, með hinu langa skólanámi fyrir alla unglinga, hvernig sem námshæfileikum og löngun þeirra er varið, horfi til góðs eða ills. Hitt þori ég að fullyrða, að kommúnistaflokkurinn, og þó einkum fyrrv. menntmrh., Brynjólfur Bjarnason, mundi telja mjög á hlut sinn gengið, ef neitað væri, að hann hefði átt verulegan þátt í, að löggjöf þessi var sett. En úr því að kommúnistar vilja þakka sér sinn hlut í setningu laganna, þá komast þeir heldur ekki undan að taka ábyrgðina af kostnaðinum að sínum hluta.

Til almannatrygginganna er varið h.u.b. 21 millj. kr. Út af fyrir sig vildu allir landsmenn, að sú löggjöf væri sett. Það eina, sem ýmsir efuðust um, var, hvort Íslendingar hefðu efni á að standa undir svo stórfelldum almannatryggingum. Einn hópur var þó, sem ekki taldi kostnaðinn nægan, heldur vildi enn þar á auka og eyða stórfé umfram það, sem ákveðið var. Þetta voru kommúnistar, mennirnir, sem nú hamast mest yfir, hve ríkisútgjöldin séu orðin mikil.

Þá eru það dýrtíðarmálin. Til þeirra var eftir 2. umr. samtals áætlað h. u. b. 75 millj. kr., og þar við bætast 61/2 millj. kr. vegna veiðibrests 1948 og í raun réttri einnig mest af niðurgreiðslum á skuldum og ábyrgðum ríkissjóðs, samtals krónur 20 millj. fyrir utan 7 millj. kr. vaxtagreiðslur, því að þessar skuldbindingar hafa flestar orðið til í sambandi við verðlags- og dýrtíðarmálin. Er þá til þessara mála varið meira en 100 millj., eða rúmlega þriðjungi af öllum útgjöldum ríkisins.

Rétt er að vísu, að útgjöldin vegna dýrtíðarráðstafana eru nú miklu hærri, en var á meðan kommúnistar voru í stjórn. Fyrir sitt leyti samþykktu þeir þó alla meginliði þeirra útgjalda, sem enn eru uppistaðan í þessum gífurlega kostnaði. En afstaða kommúnista kom glögglega fram í því, að þeir vildu t.d. í árslok 1946 samþykkja fiskábyrgðina, sem þá var nýung og reyndist kosta rúmlega tvo milljónatugi, en vildu hins vegar hvorki sjá fyrir sérstökum tekjustofni til að standa undir þessum útgjöldum, né heldur gerðu þeir ráðstafanir til að veita fé til þeirra af almennri fjárhæð fjárlaganna. Þarna kemur enn glögglega fram hin kommúnistíska aðferð. Þeir samþykkja hækkanir og fjáraustur úr ríkissjóði, en vilja ekki með neinu móti gera honum fært að standa við skuldbindingar sínar.

Með þeirri löggjöf, sem kommúnistar áttu þátt í að setja og þakka sér að verulegu forgöngu um, svo sem t.d. fiskábyrgðina, var sem sagt smíðuð aðaluppistaðan í dýrtíðarútgjöldunum gífurlegu nú. Hitt er rétt, að þau hafa enn aukizt frá því, sem var, jafnvel þótt tillit sé tekið til fiskábyrgðarinnar, sem sett var í árslok 1946, áður en núverandi stj. tók við.

En af hverju stafar þessi hækkun? Ýmist af verðbreytingum út á við, sem Íslendingar ráða ekki að neinu leyti yfir, eða af hækkandi verðlagi innanlands, og það á mestan hlut að máli.

Skömmu eftir að núverandi stjórn tók við völdum, efndu kommúnistar til víðtækra verkfalla, og var verkamannafélagið Dagsbrún látið vera þar í forustu. Því var að vísu yfirlýst af kommúnistum, að verkföll þessi væru ekki fyrst og fremst vegna hagsmuna verkamanna, heldur til að steypa ríkisstj., hrunstjórninni, sem þeir kölluðu svo. Verkföll þessi stóðu lengi, og þeim lyktaði þannig, að nokkrar kauphækkanir voru veittar, þó hvergi nærri eins miklar og kommúnistar höfðu ætlað að knýja fram.

Nú var það auðvitað svo, að allir hefðu út af fyrir sig óskað eftir, að unnt væri að bæta kjör verkamanna og alls almennings. Andstaðan, sem veitt var þessum kaupkröfum, kom hins vegar af því, að menn voru sannfærðir um, að atvinnuvegir landsmanna mundu ekki geta staðið undir hærra kaupgjaldi, en þá var.

Sumir hafa sagt: Kaupgjaldið var hækkað, en stöðvun atvinnunnar varð ekki. Þess vegna var andstaðan gegn kauphækkunum 1947 ástæðulaus. Það er rétt, að forða tókst frá stöðvun atvinnuveganna. Aðferðin til þess var sú, að ríkið tók á sig baggann.

Afstaða atvinnuveganna út á við varð verri og verri. Atvinnuvegunum var hjálpað til að starfa áfram með fernu móti:

1) Innlendar framleiðsluafurðir, einkum landbúnaðarins, voru borgaðar stórkostlega niður til þess að halda verðlaginu innanlands lægra en ella hefði orðið.

2) Sumar aðfluttar vörur voru einnig greiddar niður í sama tilgangi.

3) Vegna þess, að verðlagið innanlands var of hátt þrátt fyrir þessar stórkostlegu niðurgreiðslur, varð að taka ábyrgð á hærra söluverði útflutningsafurðanna, en fáanlegt var erlendis.

4) Ríkið tók að sér að greiða eftir á halla þeirra, sem verst hafa orðið úti, sbr. síldarkreppuráðstafanirnar.

Kauphækkanirnar, sem hér urðu 1947, þegar kommúnistar ætluðu að steypa ríkisstj., náðu að vísu ekki þeim megintilgangi, heldur þvert á móti þjöppuðu almenningi saman til fylgis við ríkisstj. Þær megnuðu heldur ekki að stöðva atvinnuvegina, eins og kommúnistar vonuðu. En þingmenn kommúnista fóru ekki dult með það vorið 1947, að vegna verkfallanna mundi strax þá um haustið verða komin svo mikil dýrtíð, að atvinnuvegirnir af þeim sökum mundu stöðvast. Þetta mark náðist ekki. En hitt tókst, að leggja óhæfilegar byrðar á ríkissjóð. Þetta hefur leitt til þess, að ríkissjóður hefur stofnað til milljónatuga skulda, svo að lengur er ekki unnt að halda áfram á þeirri braut. Enn fremur hefur af þessu leitt, að nýjar og nýjar álögur verður að leggja á landsmenn til að standa undir beinum og óbeinum hallarekstri atvinnuveganna.

Nú eru kommúnistar að reyna að koma af stað nýrri stórkostlegri dýrtíðar- og kaupgjaldskröfuöldu. Kommúnistar styðja þá kröfugerð við hækkandi dýrtíð. Þetta er einmitt sú afleiðing verkfallanna 1947, sem ríkisstj. og styðjendur hennar sögðu þá fyrir. Þeir bentu strax á, að kauphækkanir slíkar sem þá voru fram knúnar mundu ekki koma almenningi að neinu gagni, heldur einungis leiða til vaxandi vandræða og aukins ófarnaðar.

Ef kommúnistum tekst nú áform sitt, leiðir það sennilega til þeirrar stöðvunar atvinnuveganna, sem þeir sækjast eftir, eða til þess, að ómögulegt verður með öllu að halda lengur uppi gengi íslenzku krónunnar, svo sem núverandi ríkisstj. hefur umfram allt lagt kapp á.

Annars er augljóst, að kommúnistar eru orðnir ærið langeygir eftir stöðvun atvinnuveganna, hruni og atvinnuleysi. Strax 6.febr. 1947, þegar Einar Olgeirsson lýsti andstöðu flokks síns við ríkisstj. á Alþingi, er stj. var nýmynduð, sagði hann, að ætlunin væri „að leiða aftur atvinnuleysi — yfir fólkið“. 19. marz 1947 sagði Þjóðviljinn, að unnið væri að „skipulagningu atvinnuleysis á Íslandi“. 30. ágúst 1947, eftir hið mikla síldarleysisár, segir Þjóðviljinn: „Einmitt nú með haustinu finna þúsundir manna óþyrmilega til þess, hvernig hrunstjórnin er að skapa kreppu og atvinnuleysi“.

Þjóðviljinn var og ekki í vafa um, hvað það var, sem kom í veg fyrir „fyrirætlanir ríkisstj. og fjárhagsráðs um atvinnuleysi“ veturinn 1948. Hinn 10. febr. 1948 sagði Þjóðviljinn, að það hefði verið Faxaflóasíldin, sem „hindraði“ þessar fyrirætlanir, sem vissulega hefði mátt kalla djöfullegar, ef sannar hefðu verið. Hinn 11. maí 1948 sagði blaðið, að „stefna ríkisstj. væri kreppa, atvinnuleysi“. Þannig mætti lengi halda áfram. Sem betur fer hafa þessir spádómar ekki rætzt. Faxaflóasíldin brást í vetur. Þrátt fyrir það hefur tekizt að halda uppi fullri atvinnu hér á landi og þá einkum hér í höfuðborginni. Þó að kommúnistar hafi skorað á menn og reynt að smala mönnum við atvinnuleysisskráningar hefur það lítið dugað, því að sem betur fer hefur ekkert raunverulegt atvinnuleysi skapazt. Í mestu harðindunum í vetur, þegar bátar komust ekki á sjó og erfiðast var með útivinnu, létu 135 menn skrá sig atvinnulausa af 55 þúsund íbúum Reykjavíkur.

En hvernig stendur á því, að kommúnistar hafa verið svona ósparir á þessa spádóma, þó að þeir hafi hvað eftir annað látið sér til skammar verða?

Skýringin á því er ofur einföld. Við vitum, að á árunum fyrir síðari heimsstyrjöldina, allt fram á árin 1939 og 1940, var mikil fátækt og atvinnuleysi hér á landi. Þá ríkti hér það ástand, sem allir, er það muna, hljóta að vona og biðja, að slíkt komi aldrei aftur yfir íslenzka þjóð. Það voru tvær meginorsakir, sem bættu úr þessu hörmungarástandi. Annars vegar var hin aukna eftirspurn fiskafurða okkar, sem af stríðsástandinu stafaði. Hins vegar setuliðsvinnan. Hvort tveggja þetta leiddi til mikillar eftirspurnar eftir vinnuafli og til þeirra miklu kauphækkana, sem hér urðu á stríðsárunum, en kommúnistar hafa þakkað sínum tiltektum. Sannleikurinn er sá, að þó að tekjurnar ef eðlilegum atvinnurekstri landsmanna væru gífurlegar á þessum árum, er þó vafasamt, að allir hefðu fengið næga atvinnu, ef við þær einar hefði verið stuðzt. Það, sem úrslitamuninn gerði, var setuliðsvinnan. Innstæðurnar, sem söfnuðust erlendis á ófriðarárunum, nema hér um bil sömu upphæð eins og kaupgreiðslur í setuliðsvinnunni voru. Ef setuliðsvinnan hefði því ekki verið, hefðu engar innstæður erlendis safnazt, engir nýsköpunartogarar verið keyptir fyrir þessa peninga eða aðrar umbætur gerðar, sem fengust fyrir þessa miklu fjármuni.

Að stríðinu loknu hvarf setuliðsvinnan og tekjurnar af henni. En þá voru innstæðurnar enn til. Það stóðst hins vegar nokkurn veginn á endum, að innstæðunum var lokið, þegar kommúnistar hurfu úr stjórn. Á meðan þetta fé var fyrir hendi, var hægt að ráðast í ýmsar framkvæmdir, þarfar og óþarfar. Sem betur fer, var meginhlutinn af þeim þarfur. Fyrir forgöngu sjálfstæðismanna voru nýsköpunartogararnir keyptir og í margvíslegar uppbyggingarframkvæmdir ráðizt. Af öllum þessum fjárstraumi leiddi mikil atvinna. En öllum var auðsætt, að þegar honum lyki, tækju við erfiðir tímar. Það er m.a. og ekki sízt af þeim sökum, sem kommúnistar stukku fyrir borð af stjórnarfleyinu um áramótin 1947. Þeir vildu njóta vinsældanna af því að hafa eytt þeim fjármunum, sem safnazt höfðu fyrir annarra tilverknað en þeirra. Þeir vildu hins vegar ekki taka þátt í að leysa örðugleikana eða bera ábyrgð á ástandinu, sem hlaut að verða, þangað til öll nýsköpunartækin væru komin í notkun, en eftir að erlendu innstæðurnar voru úr sögunni: Þetta tímabil hlaut ætíð að verða örðugt, og ekki sízt í samanburði við velsældartímana fyrst eftir ófriðinn. Var og öllum ljóst, að meira en vafasamt væri, að mögulegt yrði, jafnvel eftir að nýsköpunartækin væru öll orðin að fullu gagni, að halda við sömu lífskjörum í landinu og verið hafði, meðan menn voru á skammri stundu að eyða hinu mikla fé, sem safnazt hafði á stríðsárunum.

Allir nýsköpunartogararnir eru ekki komnir til landsins enn í dag, og sá atvinnuvegur, sem óhemju fé var lagt í síldarútvegurinn, hefur orðið fyrir stöðugum hrakföllum allt frá því þessi mikla fjárfesting átti sér stað. Nægir þar að minna á fjögur síldarleysissumur í röð, og hrekkur ein ágæt Hvalfjarðarsíldarvertíð skammt til að bæta upp öll þau skakkaföll, enda er allt of kunnugt, að síldin lét einnig á sér standa á þeim slóðum á s.l. vetri, eftir að miklu fé hafði verið varið til að undirbúa móttöku hennar. Að svo vöxnu máli var því óumflýjanlegt, að hér hlaut að verða örðugur tími um skeið. Auðvitað sáu kommúnistar ekki síldarleysið fyrir. Það var í þeirra augum óvæntur hvalreki, sem þeir höfðu ekki reiknað með. En þeir sáu hitt og reiknuðu rétt, að þessi ár hlutu að verða erfiðleikaár og jafnvel líklegt, að um skeið kæmi hér atvinnuleysi og vandræði. Þannig hlaut það í raun réttri að verða eftir þeim hagfræðilögmálum, sem kommúnistar reiknuðu með. Það var þess vegna engan veginn út í bláinn, heldur byggt á ákveðnum staðreyndum, þegar kommúnistar æ ofan í æ hafa spáð atvinnuleysi og hruni þessi ár. En hér hefur farið á allt annan veg en kommúnistar sögðu fyrir. Atvinnuleysið og hrunið hafa hvort tveggja, sem betur fer, látið á sér standa. Hér hafa auðvitað orðið örðugleikar, en miklu minni en kommúnistar sögðu fyrir.

Á sama tíma og aðrar þjóðir eru að keppast við að ná jafngóðum lífskjörum og þær höfðu fyrir síðustu styrjöld, hefur fróðum mönnum talizt svo til, að raunverulegar gjaldeyristekjur þjóðarinnar á mann hafi á síðasta ári orðið tvöfalt meiri, en þær voru fyrir stríðið og innflutningur almennra neyzluvara hafi þá verið 179 á mann á móti 100 fyrir stríð. Að hlutfall slíks neyzluvarnings var þó ekki enn hærra, kemur af því, hve miklu fé hefur verið og er enn varið til nýsköpunar.

Sem betur fer sýna staðreyndir, að hlutur okkar er engan veginn eins slæmar og kommúnistar vilja vera láta og sumir leiðast til að taka undir í eðlilegri óánægju yfir, að við ekki getum veitt okkur jafnmikið af ýmsum lífsins gæðum og á meðan við áttum á sjötta hundrað milljónir króna í erlendum varasjóði og vorum að eyða honum.

Ýmsum þeim örðugleikum, sem menn nú kvarta undan, hefði verið unnt að eyða, ef samkomulag hefði náðst um róttækari lækning á dýrtíðar- og verðlagsmálunum, en tekizt hefur. Úr því að menn hafa ekki fengizt til þessara aðgerða, og engir hafa verið hamrammari á móti þeim, en kommúnistar og öll þau öfl í þjóðfélaginu, er þeir hafa áhrif á, þá hefur eina ráðið til að halda sæmilegu jafnvægi í þjóðfélaginu verið svipaðar aðgerðir og reyndar hafa verið. Sannast sagt hefur það tekizt vonum framar, þó að þar sé auðvitað ýmsu ábótavant.

Auðvitað er þetta ekki eingöngu að þakka aðgerðum stjórnarvaldanna inn á við, heldur einnig utanríkisstefnu stj. Staðreynd er og, að afkoma og vellíðan almennings er nú engu síður undir því komin, að rétt sé haldið á málefnum þjóðarinnar út á við en inn á við.

Í þessum efnum hefur mikið áunnizt. Á árinu 1948 var útflutningsverðmæti íslenzkra afurða 104,3 millj. kr., eða 36% meiri en ársins 1946, síðasta ársins, sem kommúnistar voru í ríkisstj. Þessi aukning er fyrst og fremst að þakka nýsköpuninni. Án hennar hefði hún vissulega ekki orðið neitt svipað því, sem varð. En hún er einnig árangur framsýni, snarræðis og dugnaðar stjórnarvaldanna við að hagnýta sér Hvalfjarðarsíldina 1947 og 1948 svo vel sem raun varð á. Og þó að mikill framleiðsla sé undirstaðan, þá er hún ekki einhlít. Án markaðsöflunar verður hún ekki að gagni. Reynslan hefur nú þegar t.d. sýnt, að okkar gamli fiskmarkaður í Bretlandi mundi ekki hafa tekið við öllum afla nýsköpunartogaranna. Kommúnistar segja auðvitað, að það mundi ekki hafa komið að sök, ef við hefðum skipt við Sovét-Rússland, því að það mundi hafa keypt af okkur allan fisk. Nú hefur oft áður verið sýnt, að ekki hefur staðið á okkur um skiptin við Rússa, heldur á þeim. Varðandi ísfiskinn liggja og fyrir yfirlýsingar þeirra um, að hann vilji þeir alls ekki kaupa. Í skýrslu íslenzku samninganefndarinnar við Rússa frá 1947 segir um ísvarinn fisk, — en þessi skýrsla var m.a. undirskrifuð af samningamanni kommúnista, hr. Ársæli Sigurðssyni, fyrrv. formanni Sósíalistafélags Reykjavíkur:

„Tilraunir til þess að fá Rússa til kaupa á ísvörðum fiski, sem fluttur væri í íslenzkum togurum til Kaliningrad (áður Königsberg), mistókust alveg. Rússar treystu sér ekki til að koma fiskinum óskemmdum til neytenda, og kom því aldrei til að þrátta um verð. Við urðum jafnvel að gefast upp við tilraunir okkar til að fá þá til að kaupa 2–3 togarafarma til reynslu“.

Sömu sögu er að segja um tilraunir til að selja ísfisk til Póllands. Í skýrslu íslenzka sendiherrans um samninga við Pólverja um haustið 1946 segir, að strax hafi komið í ljós á fyrsta fundinum, að tilgangslaust var að reyna að selja þangað ísflsk, og höfðu þó sendimenn Áka Jakobssonar, þeir Ársæll Sigurðsson og Helgi Zoega, þá dvalið í Póllandi um hálfs árs skeið, m.a. til að selja ísfisk. Allar síðari tilraunir um sölu á ísfiski til Póllands hafa algerlega misheppnazt, enda eru Pólverjar sjálfir mikil fiskveiðaþjóð og fiskútflytjendur.

Sumarið 1948 átti fulltrúi frá ríkisstj. (dr. Oddur Guðjónsson) viðræður við hernámsyfirvöld Rússa í Austur-Þýzkalandi um möguleika á sölu íslenzkra afurða, þ. á m. ísfisks. Við þær umræður kom í ljós, að þýzku Eystrasaltshafnirnar gátu ekki afgreitt nýsköpunartogarana á skaplegum tíma.

Um Rússa er það einnig vitað, að fáar eða engar þjóðir hyggja á jafnstórkostlega aukningu fiskveiða sinna eins og þeir. Segir í lögunum um hina núgildandi fimm ára áætlun orðrétt á þessa leið:

„Árið 1947 skal hafa náðst sama veiðimagn og fiskafurðaframleiðsla og fyrir stríð, og árið 1950 á veiðin að vera orðin 1,5 sinnum, framleiðslan á frystum fiski 1,8 sinnum og framleiðsla á frosnum fiskflökum 3 sinnum það, sem var fyrir stríð. Auka skal mjög veiðar við norðurströndina......“ Ennfremur....... „Endurreisa skal fiskiflotann og stækka hann, miðað við það, sem hann var fyrir stríð. Taka skal í notkun á þessum fimm árum 150 fiskitogara, byggja 13 fiskniðursuðuverksmiðjur og 30 kælihús ....“

Samkvæmt sömu lögum á fiskaflinn árið 1950 að vera orðinn nálega 2,2 milljón tonn.

Af öllum þessum ástæðum var það því lífsskilyrði fyrir afkomu, ekki aðeins togaraflotans og togarasjómanna, heldur íslenzku þjóðarinnar, að Þýzkalandsmarkaðurinn, sem okkur reyndist ómetanlegur áður fyrr, opnaðist á ný. Ríkisstj. tókst þetta, með atbeina margra góðra manna, innlendra og útlendra, vegna þess að utanríkisstefna stj. var rétt. Þess vegna seldum við 60 þúsund tonn af ísfiski til Þýzkalands á s.l. ári fyrir 41,7 millj. kr. og höfum gert samning um að selja á þessu ári 67 þús. tonn. Ef þessir samningar hefðu ekki náðst, mundu nýsköpunartogararnir hafa orðið að liggja verulegan hluta ársins og tekjur þjóðarheildarinnar orðið mörgum milljónatugum minni, en þær voru, enda hefði enski fiskmarkaðurinn þá orðið mun ótryggari, en hann reyndist.

Á sama veg hafa markaðir okkar við aðrar þjóðir á meginlandi Evrópu verið efldir:

Árið 1946 var útflutningurinn til Póllands innan við 1 millj. ísl. kr. Árið 1947 nam útflutningurinn 4,6 millj. kr. og á s.l. ári nam útflutningurinn 8,2 millj. kr., og nú nýverið hefur verið samið um sölu á íslenzkum afurðum til Póllands fyrir a.m.k. 10 millj. kr.

Útflutningurinn á íslenzkum afurðum til Tékkóslóvakíu nam 1946 8,5 millj. kr., 1947 14,1 millj. kr. og 1948 29,7 millj. kr. Á þessu ári er gert ráð fyrir, að útflutningurinn til Tékkóslóvakíu muni jafnvel enn aukast. Skýra má frá, að í samningaviðræðunum við Tékka nú nýverið komst formaður tékknesku sendinefndarinnar svo að orði, að Ísland væri miðað við stærð og allar aðstæður langbezta viðskiptaland Tékka.

Til Hollands nam útflutningurinn 1946 tæpum 3 millj. kr. Árið 1947 varð hann 6 millj. kr. og árið 1948 34,7 millj. kr.

Til Frakklands varð útflutningurinn 1946 8,7 millj. kr., árið 1947 12,2 millj. kr. og s.l. ár 16,8 millj. kr.

Af þessu sést, að í tíð núverandi ríkisstj. hefur ekki verið legið á liði sínu um að efla markaði okkar við þjóðir á meginlandi Evrópu.

En kommúnistar segja, að markaðurinn við Rússland hafi verið eyðilagður. Þetta sögðu þeir strax 1947, þó að á því ári væri gerður stærri samningur við Rússland en árið áður, meðan Áki Jakobsson var ráðherra. Þeir vissu því um, að einhverjir örðugleikar mundu verða á Rússlandsviðskiptum. Á þeim viðskiptum hefur aldrei staðið af Íslendinga hálfu.

Örðugleikinn, sem flokksdeild kommúnista á Íslandi bjóst við, var sá, að rússnesku valdhafarnir vildu ekki semja við aðrar ríkisstjórnir, en þær, er þeim væri geðþekkar. Ef til vill er þetta skýringin á því, að Íslendingum hefur ekki tekizt að selja Rússum afurðir, hvorki 1948 né það, sem af er þessu ári. Yfirlýsingin, sem gefin var í Moskva 31. desember s.l., um viðskipti Rússlands við Júgóslavíu, þegar tilkynnt var, að þau skyldu á þessu ári aðeins verða 1/8 þess, sem var 1948, einungis vegna þess, að rússnesku stj. líkaði ekki stjórnmálastefna stj. í Júgóslavíu, bendir til þess, að þessi getgáta íslenzku flokksdeildarinnar hafi verið rétt. Ráðagerð flokksdeildarinnar hér á landi var sú að gera Íslendinga svo háða Rússum í viðskiptum, að við þyrðum ekki að eiga undir því að missa útflutning okkar til Rússlands og neyddumst til að hafa kommúnista í ríkisstj. til að tryggja þau viðskipti. Ekki var sú fyrirætlun fögur, en kommúnistar hafa með öllu hátterni sínu sýnt, að það var þetta, sem fyrir þeim vakti.

Annað mál er hitt, að við Íslendingar getum ekki ásakað Rússa, þótt þeir vilji ekki skipta við okkur. Þeir ráða sjálfir sínum verzlunarviðskiptum, og í samningnum 1947 tóku þeir mjög skýrt fram, að einn af örðugleikunum á kaupum af Íslendingum væri sá, að við seldum of háu verði. Í skýrslu íslenzku samninganefndarinnar, sem m.a. er undirrituð af Ársæli Sigurðssyni, segir um þetta orðrétt:

„Sömdum við sérstaka greinargerð til þess að sýna fram á, að þetta verð yrðum við að fá, ef ríkissjóður ætti ekki að bera skarðan hlut frá borði. Ekki hafði þetta mikil áhrif á viðsemjendur okkar. Þeir sögðust sem góðir kaupmenn gera kaupin þar, sem þau væru hagkvæmust, við yrðum að vera samkeppnisfærir í verði, ef við vildum selja varning okkar. Verðlagið á Íslandi þótti þeim vera vandi stj. þar, en ekki ráðstjórnarinnar í Moskva.“

Hvað sem um það er, þá hefur íslenzka stj. æ ofan í æ leitað eftir endurnýjun á þessum viðskiptum, en ýmist fengið lítil svör eða engin, oftast verið sagt, að málin væru í athugun. Í þessu þarf engan veginn að felast fjandskapur af hálfu Rússa í garð íslenzkra stjórnarvalda. Jafnvel í þeim forgarði skriffinnsku og ofstjórnar, sem við Íslendingar erum nú staddir í, vitum við, að oft verður ærið seint um svör. Má þá nærri geta, hversu skjót afgreiðsla muni í hinu allra helgasta þessara stjórnarhátta, sjálfu musterinu, Rússlandi, þar sem skipulagning, skriffinnska og embættismennska eru allsráðandi, enda segir Bernadotte heitinn greifi í nýútkomnum minningum sínum, að rússnesk stjórnarvöld hafi „rótgróna andúð á að svara bréfum“. En það er þeirra mál, en ekki okkar. Við ráðum ekki, hverjar ákvarðanir valdhafar austur þar taka um afurðakaup eða önnur efni.

Jafnframt því, sem aflað hefur verið nýrra mikilsverðra markaða og aðrir efldir, þá hefur einnig tekizt að halda áfram vinsamlegum og Íslendingum hagkvæmum viðskiptum við brezku ríkisstj. Kommúnistar segja að vísu, að síðustu brezku samningarnir séu hraksmánarlegir og þeir lökustu samningar, sem Íslendingar nokkru sinni hafi gert. En þetta er sami söngurinn og þaðan hefur kveðið við um samninga við brezku stjórnina. Þjóðviljinn kallaði nýjan viðskiptasamning við Breta hinn 25. jan. 1940 „landráð“. Fyrri hluta vors 1941 vildi hann heldur alls ekki selja Bretum fisk, heldur „sigla til Rússlands“ eða jafnvel flytja togaraflotann til bækistöðva í „amerískum höfnum“ hinn 21. apríl 1941. Þetta var á meðan setuliðsvinnan var enn talin „glæpsamleg“, í Þjóðviljanum (31. jan. 1941), og áður en það stefnufasta blað sagði 19. maí 1942: „Þeir, sem hamast nú gegn landvarnarvinnunni á Íslandi, eru að vinna í þágu Quislings og Hitlers“. Menn þekkja því hinn gamla fjandskaparbrag til Breta, og er ekki að kippa sér upp við hann.

Því er hins vegar ekki að leyna, að á undanförnum árum hefur verið erfitt að ná svo hagkvæmum samningi við Breta sem við þurftum á að halda. Síðustu tvö ár hefur samt tekizt að ná í Bretlandi ábyrgðarverði fyrir fiskinn. Að þetta tókst, var að þakka hinni miklu verðhækkun, sem orðið hafði á feitmeti. Af þeim sökum tókst að selja töluvert magn af hraðfrystum fiski fyrir ábyrgðarverð gegn því, að Bretar fengju tiltekið magn af síldarlýsi í staðinn fyrir ákveðið verð. Með þessu móti fékkst samanlagt hærra verð fyrir síldarlýsið og hraðfrysta fiskinn en fengizt hefði fyrir hvort um sig, ef samtengingin hefði ekki átt sér stað. Samningar þessir komu ekki að fullum not

um í þau tvö ár, sem þeir voru gerðir, vegna hins mikla aflabrests, sem þá varð.

Á síðustu mánuðum hefur hins vegar orðið mjög mikil verðlækkun á feitmeti. Hefur það fallið á heimsmarkaðinum sem svarar frá 20% og allt upp í 70% frá því, sem áður var. Að svo vöxnu máli var því ljóst, að ekki mundi unnt að tengja síldarlýsið við sölu á hraðfrystum fiski með sama hætti og áður var, enda þeir samningar reynzt miður en vonir stóðu til vegna aflaleysisins. Fyrir fram mátti því vita, að samningarnir á þessu ári yrðu örðugri og ekki með eins háu verði og undanfarið. Að því athuguðu má segja, að merkilega vel hafi til tekizt, og ber að þakka það öllum, sem þar áttu hlut að máli, brezkum stjórnarvöldum og íslenzkum samningsnefndarmönnum.

Í samræmi við venju varð að samkomulagi að birta ekki einstök atriði samningsins. En vegna mjög villandi frásagna tel ég óumflýjanlegt að skýra frá því, að Bretar samþykktu nú að kaupa allt að 14.500 tonn af hraðfrystum fiski, miðað við ákveðið hlutfall á milli tegunda, fyrir 10 pence pd. af þorskflökum. Ábyrgðarverð fæst aftur á móti fyrir ýsu og nokkurn hluta flatfisksins. Er verðið á þorskflökum að vísu lægra, en undanfarin ár var í sölum til Breta, meðan verðtengingin átti sér stað við lýsið, en bæði er magnið mun meira, en þangað seldist síðastl. ár og salan miklu öruggari en þá, vegna þess að hún er nú ekki háð óvissum síldarafla. Um verðið er það að segja, að það er svo að segja nákvæmlega hið sama og Rússar greiddu samkv. samningnum 1946 og aðalsamningnum 1947, en mun hærra, eða liðlega 11% hærra en verðið, er þeir greiddu í síðustu kaupum sínum á íslenzkum hraðfrystum fiski haustið 1947. Fyrir þá, sem miða allt ágæti við það, er hjá Rússum tíðkast, hlýtur samningurinn þess vegna ekki aðeins að verða talinn óaðfinnanlegur, heldur beinlínis ágætur. Auk þess var samið um sölu á 12.000 smál. af sumarlýsisframleiðslunni 1949, eða 50% af raunverulegri framleiðslu, ef heildarframleiðslan næði ekki 24.000 smál.

Auk þess eiga Íslendingar kost á að selja lýsi til Breta allt upp í 50.000 smál. samtals. Getur hvallýsisframleiðslan verið innifalin í því magni. Verðið er £ 90 fyrir tonn, eða rúmlega 5% lægra, en verð sumarlýsisframleiðslunnar 1948 var seld Bretum á. Feitmeti á heimsmarkaðinum hefur undanfarið fallið mjög í verði, eins og áður var sagt, og nemur verðlækkunin frá 20–70%, eftir því um hvers konar feitmeti er að ræða, og hefur hlutur okkar miðað við það orðið mjög góður.

Í þessum samningi er fólgin ómetanleg trygging fyrir sjávarútveginn, einkanlega í því ákvæði, að Íslendingar geta sjálfir ákveðið allt þangað til 31. október í haust, hvort þeir vilja selja stórkostlegt magn af síldarlýsi fyrir það verð, sem þarna um ræðir, eða ekki. Ef við eigum kost á hærra verði hjá öðrum, getum við þess vegna selt það. En þarna er trygging fyrir lágmarksverði, sem nær einstætt má heita í slíkum samningum. Þvílíku ákvæði, þótt þá væri um minna magn að ræða og ekki kæmi að gagni sökum aflabrestsins, fékk Ólafur Thors fyrst komið inn í samninga við Breta, er hann í umboði ríkisstj. lauk þeim um þetta atriði í maímánuði 1948.

Kommúnistar, sem í öðru orðinu segja, að íslenzka stj. þurfi ekki annað en að „ákveða“ verð framleiðsluvara sinna og selja það síðan samkvæmt því, þó að þeir í hinu orðinu segi, að „enginn heilvita maður“ geti haldið slíkri fjarstæðu fram, telja vafalaust, að verðið hafi nú verið of lágt „ákveðið“. En ef svo var, af hverju „ákvað“ Áki Jakobsson þá lýsisverðið í sinni stjórnartíð fyrra árið ekki nema £38 smálestina og seinna árið £621/2 ? Þegar þetta er borið saman við, að nú hafa náðst £ 90 ásamt hinni ómetanlegu sölutryggingu, sést, að allra sízt situr á kommúnistum að finna að þessum samningum. Hitt er vitað mál, að ef kommúnistar hefðu ráðið og Íslendingar til dæmis neitað að selja Bretum fisk, þegar verst stóð á fyrir þeim og þeir einir héldu uppi kyndli frelsisins hér í heimi, á árunum 1940 og 1941, þá mundu Bretar ekki hafa reynzt okkur svo vinsamlegir í samningum sem nú hefur orðið raun á. Það er vegna þess, að Bretar hafa á styrjaldarárunum lært, að þeir geta treyst Íslendingum og þurfa á framleiðslu þeirra að halda, sem þeir nú eru okkur eins vinveittir í samningum og þeir frekast geta verið.

Auk afurðasölunnar hefur Marshallaðstoðin einnig orðið okkur að margvíslegu gagni undanfarið. Þegar Íslendingar gerðust aðilar þeirra samninga, voru kommúnistar þeirri aðild mjög mótsnúnir. Nú orðið halda þeir því ekki svo mjög á lofti sem hinu, að breytzt hafi viðhorf okkar, sem ætíð höfum verið þessum samningum fylgjandi. Vitna þeir mjög í það, að ég hafði 1947 búizt við því að Íslendingar þyrftu ekki á beinni aðstoð að halda samkvæmt þessum samningi. Ég skal ekki fara að þræta út úr þessari tilvitnun í orð mín, þó að hún sé auðvitað sem annað rangfærð og slitin úr réttu samhengi af kommúnistum. Ég hef aldrei þótzt óskeikull og skammast mín ekki fyrir að breyta um skoðanir eftir því, sem staðreyndirnar færa mér heim sanninn, eða ég sé, að landi mínu og þjóð getur orðið eitthvað fleira að gagni, en ég áður hafði hugað. Það var meira að segja sú tíðin, að ég hafði trú á, að samvinna við kommúnista gæti orðið íslenzku þjóðinni til góðs. Þess vegna studdi ég þá í stjórn um tveggja ára bil. En lífið sjálft, staðreyndirnar, sýndu mér, að þarna hafði mér missýnzt. Kommúnistar dæmdu sjálfa sig úr leik, og engum þjóðhollum manni getur lengur komið til hugar, að þeir séu hæfir til stjórnarstarfa á Íslandi. Á sama veg sá ég eigi strax til hlítar, hverjir möguleikar væru fólgnir í áætluninni um viðreisn Evrópu til gagns fyrir Íslendinga. Ég skildi strax, að hún mundi verða okkur að gagni, en hitt er mér ánægja að játa, að hún hefur nú þegar orðið okkur að enn meira gagni en ég sá fyrir.

Það er að vísu rétt, að Ísland varð eigi fyrir beinum skemmdum í styrjöldinni á sama veg og aðrar þjóðir, þó að við að vísu megum ekki — og munum ekki — gleyma því, að mörg skip okkar voru skotin í kaf og líf margra okkar beztu sona tapaðist af þeim sökum. Þó að Ísland hafi þess vegna, sem betur fer, sloppið við jafngeigvænleg styrjaldarsár og ýmsar aðrar þjóðir hlutu, þá væri það fávís maður, sem héldi því fram, að Ísland væri í eðli sínu og með atvinnutækjum, byggingum og mannvirkjum ríkara hlutfallslega eða betur statt heldur en t.d. Danmörk eða Noregur, svo að aðeins séu tekin þau lönd, sem okkur eru kunnugust. Við vitum öll, að þrátt fyrir þann hörmulega skaða, sem þessar þjóðir biðu af styrjöldinni, þá eru þau bæði að landkostum, uppbyggingu, framleiðslutækjum og starfsmöguleikum öllum miklu auðugri en Íslendingar. Það vari því fullkomin blindni og heimska, ef Íslendingar hagnýttu sér ekki á sama veg og þessir frændur okkar og vinir þau hlunnindi, sem þeir eiga kost á samkvæmt viðreisnaráætluninni.

Jafnvel hin auðuga Svíþjóð hefur notfært sér í milljónatugum bæði lán og skilyrðisbundin framlög, sem hún hefur átt kost á. Og ef hinir ríku og voldugu Svíar telja sig ekki hafa efni á öðru, en að nota sér þessa aðstoð, því skyldu Íslendingar þá setja sig á svo háan hest?

Ekki var Írland heldur í styrjöldinni, og þó hefur það ekki skammazt sín fyrir að taka við stórum upphæðum og sækja ákaft um að fá lánum breytt í bein framlög.

Sumir eru nú að reyna að gera það tortryggilegt, að Íslendingar hafa fengið hlutfallslega meiri fjárhæðir samkv. endurreisnaráætluninni en flestar aðrar þjóðir. Það er engin tilviljun, að það landið, sem hefur fengið hlutfallslega mest, er borgarríkið Trieste, sem aðeins hefur 250 þús. íbúa. Þannig hlýtur ætið að fara, að þau ríki eða þjóðir, sem fámenn eru, hljóta við slík skipti að verða með hlutfallslega hærri upphæðir, en aðrar þjóðir, alveg eins og viðskipti Íslendinga út á við eru hlutfallslega miklu hærri, en annarra þjóða og útgjöld okkar til opinberra þarfa hærri og aðrar þvílíkar hlutfallstölur eftir því. Sérstöku þjóðfélagi svo fámennrar þjóðar yrði ekki haldið uppi, ef slíkar hlutfallstölur væru þar ekki hærri, en hjá hinum stærri þjóðum.

Fram að þessu hefur aðstoðin til okkar hins vegar að verulegu leyti verið lán til framkvæmda, sem enginn taldi varhugavert að taka með óhagstæðari kjörum hjá öðrum aðilum, jafnvel í Bandaríkjunum, en viðreisnarstofnuninni. En það var auðvitað beinn fengur að fá lánið með þeim hagkvæmu kjörum, sem náðust hjá þessari stofnun, og það viðurkenna allir aðrir en starblindir meðlimir hinnar kommúnistísku flokksdeildar hér á landi.

Að öðru leyti hefur hjálpin verið skilorðsbundið framlag, þ.e.a.s. einungis dollaragreiðsla fyrir vörur, sem við létum af hendi. Að vísu var söluverðið mun hærra, en unnt hefði verið að fá á frjálsum markaði á þeim sama tíma, svo að okkur var einnig að því leyti mikil stoð í þeim viðskiptum. Svíar, sem ekki tóku þátt í stríðinu og eru ólíkt ríkari en við, hafa ekki hikað við að nota sér hvort tveggja þá aðstoð, sem nú var talin.

Enn höfum við aðeins fengið ádrátt um tiltölulega lítið beint framlag, og þingið er fyrst nú að veita heimild til að taka á móti því. Ég skal játa, að í fyrstu hafði ég ekki búizt við, að við mundum um slíkt framlag sækja né okkur yrði gefinn kostur á því. En ég hika ekki við, með tilvísun til þess, sem ég sagði áður, og þegar sýnt er, að kjörin eru jafngóð og þau eru, að telja það sjálfsagt, að íslenzka ríkið noti sér þessi fríðindi, úr því að það á kost á þeim.

Kommúnistar höfðu að vísu haldið fram, að ýmsir afarkostir fylgdu þátttöku í þessum samtökum. En hvar eru bandarísku auðfélögin, sem áttu að hremma auðlindir landsins samkv. umsögn kommúnista, ef við gengjum að þessum samningum? Ekkert þeirra hefur birzt hér enn þá eftir nærri ár frá samningsgerðinni. Hvar eru eftirlitsmennirnir, sem áttu að gína yfir íslenzkum atvinnuvegum? Spyr sá, sem ekki hefur orðið þeirra var. Ekki voru vörurnar fagrar eða þarfar, sem við áttum að fá samkv. þessari aðstoð að sögn Þjóðviljans. Hann sagði t.d. 8. febr. 1948, að Bandaríkjastjórn mundi úthluta „tóbaki, bilum og fullunnum vörum.“ 14. apríl 1948 sagði Þjóðviljinn, að við mundum samkv. samningi þessum hleypa okkur í skuldir til að fá „tóbak og vindla.“ — 16. apríl s.l. sagði Þjóðviljinn, að við mundum með þessu móti fá „offramleiðslu“ Bandaríkjanna á „bilum, tóbaki, þurrkuðum ávöxtum, nylonsokkum o.s.frv.“ — 27. apríl s. á. sagði Þjóðviljinn, að Marshallaðstoðin mundi á árinu 1948 verða „700 vörubílar“, og annað eftir því.

Til hvers hefur nú viðreisnarfénu raunverulega verið varið — ekki í dálkum Þjóðviljans, heldur eftir bók staðreyndanna?

„Fyrir lánsféð fengust síldarvinnsluvélar, „Hæringur“ og síldarnætur. Fyrir skilorðsbundna framlagið hefur fengizt: hveiti, smurningsolíur og brennsluolíur, landbúnaðarvélar, vegheflar,jarðýtur og aðrar stórvirkar vinnuvélar, varahlutar til bifreiða og amerískra véla, tilbúinn áburður, pappír og pappi til fiskumbúða.

Yfirleitt eru þetta vörur, sem voru ófáanlegar nema gegn greiðslu í dollurum, og enginn getur haldið því fram, að þær hafi verið óþarfar eða á nokkurn hátt líkar þeim óhroða, sem hingað átti að koma samkv. sögn Þjóðviljans:

Af þessu sést, að lítið hefur orðið úr öllum þeim ógnum, sem áttu að vera samfara þátttöku Íslands í þessum samtökum.

Um Atlantshafssáttmálann þarf ekki að fjölyrða. Trúi því og hver sem vill, að allir ráðandi stjórnmálamenn í þeim hluta Evrópu, sem enn er frjáls, hafi gerzt landráðamenn, svo sem kommúnistar og ferðafélagar þeirra í „Þjóðvörn“ halda fram. En því minni ástæða er til að fjölyrða um þessa samningsgerð nú, sem hún þegar hefur í verkinu sannað ágæti sitt, þótt örskammt sé umliðið frá því, að samningurinn var undirritaður og hann sé enn ekki formlega genginn í gildi.

Engum blandazt hugur um, að þótt mikið vanti á, að að fullu horfi friðvænlega hér í álfu, þá sé nú eftir lausn Berlínardeilunnar

miklu friðsamlegra en verið hefur um langa hríð. Engum getur blandazt hugur um, að í þessu á Atlantshafssáttmálinn sinn mikla þátt. Hann hefur nú þegar verkað til að auka á friðarhorfurnar, að draga úr líkunum til þess, að ófriður brjótist út á ný.

Áhrif annars sáttmála, sem Þjóðviljinn var ólíkt hrifnari af, urðu töluvert önnur. Það var griðasáttmálinn milli Hitlers og Stalíns. Blekið af undirskrift hans var naumast þurrt orðið, þegar ófriðurinn brauzt út 1939.

Tilgangur Atlantshafssáttmálans var þvert á móti efling friðarins, og það mun verða Íslendingum til ævarandi lofs, að þeir hafa að sínum litla hluta tekið þátt í þessari friðarviðleitni.

En það mun verða kommúnistum til ævarandi ávirðingar, ekki aðeins, að þeir veittu friðarsáttmálanum jafnharðsnúna mótstöðu og þeir gerðu, heldur einnig hitt, að þeir reyndu að nota þetta efni til þess að „hindra Alþingi“ í löglegum störfum, eins og þeir berum orðum sögðu.

Öllum landslýð er nú þegar ljóst orðið, að það var áform kommúnista að nota samþykkt Atlantshafssamningsins til óeirða og til þess að sýna þingheimi í tvo heimana. Til þess höfðu þeir ekki aðeins egnt sitt eigið lið með langvarandi blaðaskrifum og margháttuðum ósannindum, stöðugum sellufundum og æsingasamkomum, þar sem tilkynnt var, að af tugþúsundum skyldi Alþingi verða ógnað, ef það dirfðist að taka réttmæta, þjóðholla ákvörðun, heldur höfðu þeir einnig af furðulegu fláræði stofnað til félagssamtaka annarra og reynt að beita þeim fyrir sig í þessum skemmdaráformum. Er þar einkum til að nefna „Þjóðvarnarfélagið“ svokallaða, sem Þjóðviljinn hafði hvað eftir annað kallað sér til hjálpar, sbr. t.d. grein Skúla Guðjónssonar 1. des. s.l., þar sem stórum stöfum er hrópað: „Hvar er Þjóðvarnarfélagið?“ Lét formaður þess, séra Sigurbjörn Einarsson, og ekki á sér standa, því að sama daginn flutti hann boðskap sinn um tortímingu hálfrar þjóðarinnar, ef að hans ráðum væri farið.

Það má vera kommúnistum nokkur huggun, að þeim hefur tekizt að endurvekja þann draug og blása honum í bili slíkum lífsanda í brjóst, að hann kallar sig nú „landsmálafélag“. En til þess að svo gæti orðið, hafa kommúnistar þurft að lána í þetta nýja „landsmálafélag“, ekki aðeins gamla kjósendur sína, sem þó hafa kallað sig annars flokks menn, eins og Hallgrím nokkurn Jónasson, heldur einnig forustumenn sína og bæjarfulltrúa, eins og herra hagfræðing Jónas Haralz. Það mannslán sýnir, að kommúnistum þykir mikils við þurfa og þeir vilja mikið í sölurnar leggja, til þess að draugurinn hverfi ekki strax til heimkynna hinna dauðu á ný.

Allt eru þetta þekkt herbrögð frá kommúnistum víðs vegar um heim. Aðferðirnar eru hvarvetna þær sömu. Einn þátturinn í þeim er sá að hafa á sínum snærum töluvert af fólki, helzt í öðrum flokkum og töluvert „fínt“, sem raunverulega fylgir þeim að málum, en afneitar þeim opinberlega. Við réttarhöldin um njósnarmálin miklu, kommúnístisku, í Kanada á árunum, sannaðist einmitt, að þetta var einn helzti þátturinn í baráttuaðferð kommúnista.

En á þennan sama veg er öllum áróðri kommúnista varið. Hann er hvergi í neinu samræmi við staðreyndir eða sannleika, heldur oftast hvoru tveggja algerlega andsnúinn.

Í kvöld gefst mér ekki tími til að nefna fleiri dæmi. En því miður væri hægt að hafa þau óteljandi. Sennilega gefst færi á að rifja upp fleiri síðar og þá einnig að skýra, af hverju þessi ósköp stafa, þau ósköp, sem ógna nú friði og frelsi alls mannkynsins og þar með einnig hamingju og sjálfstæði okkar litlu þjóðar.

Sú kynslóð, sem nú lifir, mun fyrst og fremst verða dæmd eftir því, hvort hún áttar sig á og bregzt til varnar gegn þessari hættu, sem gerir sig líklega til að eyða menningunni, en draga þjóðirnar á ný ofan í hyldýpi einræðis, skoðanakúgunar og miðaldamyrkurs.

Til eyðingar þessum voða verða öll minni háttar ágreiningsmál að hverfa. Allir góðviljaðir menn verða að taka saman höndum til að halda við frelsi og sjálfstæði íslenzku þjóðarinnar, menningu og frjálsræði einstaklinganna og hagsæld og auknum velfarnaði almennings.

Umr. frestað.

Á 75. fundi í Sþ., 17. maí, var enn fram haldið 3. umr. um frv. (alm. umr., útvarpsumr. og atkvgr. um frv.).

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson): Herra forseti. Ég hygg það rétt, sem fram kom í umræðunum hér á Alþingi í gær, að nefna stjórnartímabil núverandi stjórnar, sem nú hefur staðið nokkuð á þriðja ár, „viðnámstímabilið“, og gæti ég trúað, að það yrði nefnt því nafni síðar meir, er til þess er vitnað. Það hófst, er styrjaldartímabilinu var að mestu lokið með hinum skjótfengnu og fljóteyddu, ævintýralegu auðæfum þjóðfélagsins, sem varið hafði verið í óvenjulegar framkvæmdir, máske nokkuð á þann veg, er segir í vísunni: Sumt var gaman, sumt var þarft, sumt við ekki um tölum.

Ég ætla sem sé að leiða það hjá mér að þessu sinni að rekja þá sögu. Það hefur svo oft verið gert, að menn munu annaðhvort hafa skapað sér skoðun um það nú eða þeir gera það ekki héðan af.

Þessu tímabili fylgdi síaukin verðþensla og svo stórkostleg atvinnuröskun í þjóðfélaginu, að ekki á sinn líka í sögu þess. Öll þjóðfélagsbyggingin hafði raskazt eins og þegar holklaki lyftir húsi af grunni.

Næsta tímabil í stjórnmálasögunni hlýtur að verða mótað af því að koma húsinu aftur á fastan grunn. Spurningin verður þá: Hefur ekki þessu tímabili verið eytt í tilgangslaust strit eða verra en það? Ég veit, að sumir álíta það, og vel má vera, að sá reynist dómur sögunnar síðar meir. En það var trú þess þingmeirihluta, sem að þessum stjórnarsamtökum stóð á sínum tíma, að svo væri ekki, og það er skoðun okkar flestra enn, að þetta tímabil hafi verið óhjákvæmilegt.

Þegar þessi ríkisstj. var mynduð, hafði staðið yfir margra mánaða stjórnarkreppa. Það var miður vetur, og ógerningur að efna til kosninga til að láta þjóðina segja á þann hátt fyrir um vinnubrögð vegna hins breytta viðhorfs. Það voru mánuðir liðnir af árinu og engin samtök til um afgreiðslu fjárlaga. Vélbátaflotanum hafði að vísu verið komið úr höfn, en engin starfhæf stjórn til að annast samninga um sölu væntanlegra afurða, sem var orðið aðkallandi. Þjóðfélagið var álíka statt og skip, sem rak undan stormi og straumi. Þá var það, að allir flokkar þingsins, nema sá er stýrir eftir stjörnum, sem liggja utan við okkar sólkerfi, kommúnistaflokkurinn, hófu samstarf um að ráða fram úr vandanum með samstjórn þessara þriggja flokka, sem á margan hátt hafa gerólíkar skoðanir um það, hvernig heppilegast sé að stýra málefnum þjóðarinnar, og oft veigamiklum í einstökum atriðum, en eiga það sameiginlegt að vilja byggja þá stjórn á grundvelli hins vestræna þingræðis og lýðræðis. En því aðeins getur þjóðin treyst því stjórnskipulagi, að það sé starfhæft hvenær sem á reynir. Stjórnarflokkarnir gerðu þá með sér starfssamning — sem að vísu enginn þeirra var fyllilega ánægður með, en varð eðlilega eins konar meðalverð allra meðalverða af stefnu þeirra og skoðunum. Og þannig hefur stjórnarsamstarfið orðið.

Menn tala oft um það, hve samstjórn fleiri flokka sé óæskileg og óeðlileg. Það má vel vera, að svo sé. En ætli þeir sömu menn hefðu það ekki líka til að telja það síður en svo æskilegt, að einn flokkur, e.t.v. með litlum meiri hluta þjóðarinnar, næði hreinum meiri hluta á Alþingi og gæti einn mótað og ráðið stjórnmálastefnunni, ef það væri ekki þeirra eigin flokkar, er hrepptu það hnoss? Og væri ekki líklegt, að ýmsir kjósendur úr minnihlutaflokkunum óskuðu þá, að þeir og þeirra hagsmunir og hugðarmál ættu fulltrúa og hefðu einhver áhrif hjá þingmeirihluta og ríkisstj. — jafnvíðtækt vald sem þing og stjórn hefur yfir hvers manns hag í nútíma þjóðfélagi. Ég er hræddur um það. En annars virðist tómt mál að tala um það.

Á meðan háttvirtum kjósendum ekki þóknast að fela einum flokki meirihlutavald á Alþingi, verða þeir að sætta sig við samstjórn fleiri flokka á einhvern hátt, þó að þeir þannig geti ekki fengið jafnhreinar línur í framkvæmdum og ella.

Jæja, þegar stjórnin tók við völdum, var, eins og fyrr er sagt, hinum erlendu innstæðum að verða lokið. Hins vegar biðu fjöldamörg og mikil óleyst verkefni, sum nýhafin, önnur hálfgerð, mörg ófullgerð og önnur, sem ákvörðuð höfðu verið og nauðsynleg voru, en ekki hafin. Það rak því nauðir til að koma skipulagi á þessa fjárfestingu, til þess að sá gjaldeyrir, sem til félli, og þeir fjármunir, sem til voru, færu í það, sem nauðsynlegt var, til að forðast eyðileggingu verðmæta og að hin bráða nauðsyn yrði metin mest. Þetta viðnám var hafið með stofnun fjárhagsráðs og framkvæmd þeirra. laga. Og þó að menn nú kveini og kvarti yfir þeim höftum og ófrelsi, sem þetta hefur í för með sér, þá skilja það allir vitibornir menn, að hér var aðeins verið að taka af þjóðinni frelsið til að fara sér fjárhagslega að voða. Og þó að margvíslegar misfellur kunni að vera á því starfi sem öðrum verkum ófullkominna manna, er nú óhætt að fullyrða, að það hefur í aðalatriðum lánazt, eins og sannað hefur verið meðal annars í ræðum ráðherranna hér í gær.

Menn tala mikið um, hvað þetta skipulagsstarf hafi orðið kostnaðarsamt, og er það út af fyrir sig rétt. En það hefur þó ekki kostað þjóðina nema brot af því, sem það hefði kostað að láta þetta ógert.

Þá voru verkefnin í landbúnaðinum ekki síður aðkallandi, eins og menntmrh. gerði góð skil í ræðu sinni í gær. Fyrir rás viðburðanna stóð þessi annar undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar hallari fæti en nokkur önnur starfsgrein þjóðfélagsins eftir umrót styrjaldarinnar — og má segja, að svo sé enn, þótt nokkuð hafi verið úr bætt. Atvinnuuppgripin við sjávarsíðuna og sú óhemju fjárfesting þar, er þeim voru samfara, höfðu rótað til sín fólki úr öllum sveitum landsins, svo að víða lá við og liggur enn við landauðn.

Viðnám ríkisstj. gegn þessari þróun var eitt af fyrstu verkefnum hennar. Fyrsta sporið var að tryggja þeim, er að framleiðslustörfum í sveitinni vinna, starfslaun svipað því, sem aðrar alþýðustéttir landsins höfðu tryggt sér, og veita stéttarfélagsskap þeirra starfsrétt og aðstöðu, sem m.a. 8. landsk., Ásmundur Sigurðsson, hafði neitað þeim um á sínum velmektardögum. Annað var efling lánsstofnana landbúnaðarins, sem menntmrh. skýrði frá í gær.

Þá hefur verið reynt að bæta úr vanrækslu 2. þm. Reykv., Einars Olgeirssonar, þegar hann var „herra“ í nýbyggingarráði og varði miklu af fé því, er landbúnaðinum hafði verið heitið í vélakaup, til annarra hluta. Fjárfestingarstarfinu hefur aftur verið beint upp í sveitirnar, eftir því sem getan og gjaldeyririnn hefur leyft — og þyrfti þó sannarlega betur að gera.

Þá vil ég enn minna á eitt stórkostlegt nauðsynja- og áhugamál fólksins í dreifbýlinu. sem reynt hefur verið að þoka nokkuð áleiðis, en það eru raforkumál byggðanna. Þannig hefur verið unnið að línulagningum frá hinum stærri orkuverum um nærliggjandi byggðir, bæði sunnanlands og norðan, og nú í sumar eru fyrirhugaðar framkvæmdir í þessum efnum í Borgarfirði út frá Andakílsárvirkjuninni.

Þá hefur verið unnið að virkjun Sauðár í Skagafirði, sem nú er langt komin til raforkuframleiðslu, bæði fyrir Sauðárkrók og nærliggjandi byggðir. Undirbúningur hefur verið hafinn að virkjun Fossár í Snæfellsnessýslu, og verður byrjað á verkinu næsta sumar.

Nú er raforka Sogsins og Laxárvirkjunarinnar að heita má fullnýtt, og er undirbúningur hafinn að stækkun þeirra beggja, og standa vonir til, að þeim framkvæmdum verði hrundið áfram með aðstoð Marshallhjálparinnar. En frá þessum stóru virkjunum verður að leiða rafmagn út um byggðina langa vegu.

Hitt er mönnum ljóst, að vegna hins mikla strjálbýlis landsins er útilokað, að unnt verði að veita öllum býlum landsins raforku á þennan hátt í náinni framtíð. Þau úrræði, sem þar eru hugsuð, eru í fyrsta lagi smærri vatnsvirkjanir, þar sem vel hagar til, fyrir eitt býli eða fleiri saman, og að því slepptu raforkuframleiðsla frá dísilstöðvum. Til að greiða fyrir þessu, hefur ríkisstj. notað heimild í raforkulögunum til að lána ódýrt fé til hinna smærri virkjana, og hefur nú þegar verið lánað til allmargra slíkra framkvæmda, og eru margar nýjar í undirbúningi. Er mikill áhugi meðal bænda víða um land að hefja slíkar framkvæmdir, og hefur nú verið afráðið, að raforkustjórn ríkisins taki í þjónustu sína þegar á þessu ári sérstakan ráðunaut fyrir almenning til leiðbeininga og mælinga á þeim stöðum, er slíkar virkjanir koma til greina. Til þess svo að greiða fyrir öflun dísilrafstöðva þar, sem hin fyrrnefndu tvö úrræði koma ekki til greina, hefur stj. beitt sér fyrir því, að hafinn verði á þessu ári allverulegur innflutningur slíkra stöðva með tilheyrandi tækjum og jafnframt gerðar ráðstafanir til eftirlits og athugun á því, hverjar tegundir reynist bezt, svo að unnt verði að fá sem bezt öryggi í notkun þeirra í framtíðinni og hægara verði að tryggja nauðsynlega varahluti.

Heimild til hagkvæmra lána vegna þessara framkvæmda var sett í lög þau um ræktunarsjóð, er afgr. voru á þinginu 1947, og nú á þessu þingi hefur auk þess verið heimilað að lána úr raforkusjóði til þeirra með góðum kjörum. Hætt er þó við, ef verulegur skriður kemst á þessar framkvæmdir, að afla verði báðum þessum lánsstofnunum aukins fjár til þeirrar starfsemi. Ýmislegt fleira væri ástæða til að nefna, sem stj. hefur unnið að til að veita viðnám gegn fólksflóttanum úr sveitunum, sem hér er ekki tími til, — viðnám, sem einnig hér þarf að verða að öflugri sókn.

Ég vil þá með nokkrum orðum minnast á hinn aðalatvinnuveg þjóðarinnar, sjávarútveginn, og viðnám það, er ríkisstj. og þingmeirihluti hefur veitt þar gegn yfirvofandi hruni og þjóðarvoða. En þá er komið að sjálfum kjarnanum í dýrtíðarmálinu mikla. Öll verðbólgan botnfellist sem sé að lokum í kostnaðarverði útflutningsvörunnar, því að þar koma fram á einn eða annan hátt allar kröfur allra einstaklinga og stétta þjóðfélagsins, sem þær gera í þjóðarbúið um kaup og kjör. Allt hjálpast þetta að til að skapa kostnaðarverð útflutningsframleiðslunnar. Hið erlenda verðlag hefur þjóðin aftur á móti ekki á valdi sínu — og verður því að sætta sig við það, sem heimsmarkaðsverðið segir til um á hverjum tíma.

Nú hefur það verið staðreynd mörg undanfarin ár, að þeir, sem að útgerðinni standa, hafa ekki borið úr býtum á erlendum mörkuðum það, sem kostað hefur að framleiða ýmsa veigamikla útflutningsvöruflokka. Féð hefur því smám saman tapazt út úr útgerðarstarfseminni og hún staðið fjárhagslega hallara og hallara fæti með hverju árinu. Gegn þessu varð að snúast á einn eða annan hátt. Stjórnin setti sér það mark að spyrna fæti við hinni vaxandi verðbólgu, eftir því sem við yrði komið, og hefur tekizt það í sumum greinum, en mistekizt í öðru, því að það þurfti sterkari stíflugarð gegn þeim straumi, en máske hún og vafalaust þjóðin í heild gerði sér grein fyrir. Þó varð sá árangur af þessari viðleitni, eins og getið var um hér í gær, að á árinu 1948 hækkaði ekki framleiðslukostnaður útgerðarinnar, sem var nýjung um margra ára skeið. En þetta var ekki nóg. Hið áorðna misræmi verður að laga til fulls. Til þess eru þrjár aðalleiðir:

1. Að þjóðin í heild dragi nokkuð úr kröfum sínum, svo að framleiðslukostnaður útflutningsvörunnar lækki til samræmis við hið erlenda markaðsverð. Þetta hefur verið nefnd lækkunarleið.

2. Að erlenda verðlagið á útflutningsvörunni verði hækkað, án þess að innanlandskostnaðurinn hækki að sama skapi. Í því efni ráðum við ekki yfir annarri leið en gengislækkun með viðeigandi hliðarráðstöfunum.

Um hvoruga þessa leið hefur enn sem komið er verið unnt að fá nokkra samstöðu eða samtök með stéttum landsins né þingflokkum. Þá var ekki nema þriðja leiðin fyrir hendi, og hún var sú að kalla til baka nokkuð af því fé, sem þjóðin hafði til sin tekið umfram það, sem rekstur útgerðarinnar þoldi, og skila því aftur til útgerðarinnar, svo að hún flyti áfram og yrði starfrækt. Þetta hefur verið gert í formi skatta og tolla og útflutningsuppbóta. — Mér er ljóst, að þetta er aðeins viðnám, en engin framtíðarlausn. Nú eru raddirnar með þjóðinni alltaf að verða fleiri og hærri um það, að þetta sé tilgangslaust og eyðileggjandi fálm. Víst er þetta neyðarúrræði. Það er engum ljósara en þeim, sem í því hafa staðið. En hefur þing og þjóð verið viðbúið til þess að taka þessi mál öðrum tökum til þessa? Og eru þeir það nú? Gott, ef svo væri.

Ég veit, að alltaf hafa verið til einstakir menn, sem gerðu sér ljóst, hvert stefndi. En til þess að ráða fram úr jafnmiklum vanda og hér er fyrir dyrum þarf þjóðarskilning og þjóðarsamtök. Og ég er þeirrar skoðunar, að viðnámstímabil það, sem skapað hefur verið fyrir samtök núverandi stjórnar og stjórnarflokka, hafi verið óhjákvæmilegur áfangi, til þess að þjóðinni gefist kostur á að átta sig á málunum, að þreifa á því, hvar hún stendur, og skapa sér skoðanir um nauðsynleg úrræði. Geti hún það ekki nú, þá gat hún það ekki fyrir 2–3 árum. Það er oft svo, eins og skáldið segir, að nauðsynlegt reynist, að fyrst fari „ormurinn út úr skel“, svo að menn átti sig á, að hann var þar. Þetta viðnámstímabil hefur tekizt að forða þjóðinni frá stóráföllum og búa á ýmsan hátt í haginn fyrir atvinnulíf landsmanna, þrátt fyrir það að ýmislegt hafi mistekizt og margt sé ógert af því, sem mátt hefði laga.

Þó að ég hafi aðeins rætt hér um tvær af stéttum þjóðfélagsins, bændastéttina og sjómanna- og útgerðarstéttirnar, þá er það ekki af því, að mér sé ekki ljóst, að aðrar stéttir þjóðfélagsins hafi einnig sin vandamál við að stríða í sambandi við dýrtíðarástandið, sem líka er ástæða til að gefa gaum. En þegar ég ræði sérstaklega um þær, þá er það fyrir mér ekkert stéttarsjónarmið, heldur undirstöðuatriði þjóðmálanna, því að öll þjóðin á alla sína afkomu, — atvinnu og tekjur, undir því, að þessi starfsemi sé blómleg og þróttmikil, og takist það, standa vonir til, að annað veitist yður.

Ég hef nú leitt rök að því, að þetta svonefnda viðnámstímabil hafi á engan hátt verið jafntilgangslaust og margir vilja vera láta, þrátt fyrir það, sem miður hefur farið. En ég vil bæta hér á eftir við einu atriði enn, þar sem það hefur borið mikilsverðan árangur, þótt á öðru sviði sé, og það er meðfram að gefnu tilefni af ræðu hv. 8. landsk., Ásmundar Sigurðssonar, sem hér talaði í gær af hálfu kommúnista. Ýmsu af blekkingum hans og ósannindum mun ég fá tækifæri til að svara hér síðar í kvöld, en læt hjá liða að sinni. Þessi þingmaður æpti hér að ríkisstj. í gær, eftir því sem rödd hans leyfði, og var það þó ekki mikið hjá því, sem við eigum að venjast úr þeim herbúðum, — og þó einkum frá blaðabauli flokksins.

Ég fyrir mitt leyti er orðinn því svo vanur, að ég get ekki hugsað mér sannan kommúnista öðruvísi, en æpandi. Ég hef heyrt þá æpa — oft eins og vitstola menn — frá því að ég man fyrst eftir þeim, að öllu, sem ekki var eftir þeirra kokkabók, og þessu hafa þeir haldið áfram bæði í blöðum og á mannfundum ár eftir ár og dag eftir dag. Út yfir tók þó það tímabil í sögu þeirra hér á landi, þegar þeim var gefin aðstaða til beinna áhrifa á stjórn landsins og löggjöf — með þeim afleiðingum, að hvar sem þeir höfðu komið við, var engu líkara, þegar upp var staðið, en að fjandinn sjálfur hefði setið þar flötum beinum allan tímann, eins og karlinn sagði. Þá öskruðu þeir í kór jafnframt ópunum til andstæðinganna: „dýrðin, dýrðin“, og það var ljótur samsöngur. Því er nú sem betur fer lokið, en eftir það komst óp þeirra í algleyming — og í níði þeirra um núverandi ríkisstj. hafa þeir líklega náð hámarki í þessari iðju. Nú er líka svo komið, að öll illyrði, öll svívirðingarorð íslenzkrar tungu, sem þjóðin þó hefur notazt við í meira en þúsund ár, án þess að á þeim sæi, eru orðin bæði gatslitin og litlaus eftir þessi fáu ár, sem kommúnistar hafa sóðazt í þeim sýknt og hellagt. Þeim hefur tekizt að koma verðbólgu í fleira í þjóðfélaginu, en peningamyntina eina. Ég fæ ekki betur séð en að þeir neyðist til að fara að semja nýja orðabók með nýjum illyrðum í stað þeirra útslitnu, ef þeir eiga ekki að verða að gjalti í orðaræðum við andstæðinga sína, eftir þeim munnsöfnuði að dæma, sem þeir hafa tamið sér. Ætli að rússnesk tunga eigi ekki í fórum sínum eitthvað töluvert af slíku málskrauti til að gefa þeim? Hvernig væri fyrir þá að fá eitthvað af því lánað umbúðalaust og sjá, hvernig það verkaði á þá trúverðugu? Er nokkuð verra að fá lánuð þaðan orð heldur en skoðanir og stefnu, sál og sannfæringu auk hinna veraldlegu verðmæta, er þeim berast þaðan?

Annars er það okkur í ríkisstj. ekkert sérstakt undrunarefni, þó að þeir einbeini níði sínu í ræðu og riti gegn henni. Þegar þessi ríkisstj. var sett á laggirnar fyrir röskum tveim árum, var henni af mörgum ekki hugað langt líf. Einkum voru það vinir okkar — kommúnistarnir, er þá töldu sig vera búna að búa það í haginn, að þeir gætu haft í hendi sér líf hverrar þeirrar ríkisstj., sem ekki dansaði eftir þeirra pípu. — Þeir voru líka búnir að ákveða útför hennar upp á mánuð og jafnvel dag. Og það, sem þó verra var: Ýmsir rólegir og málsmetandi borgarar voru farnir að trúa því, að þetta væri staðreynd — að ekki yrði stjórnað í þessu landi eins og komið væri, nema í skjóli og með samþykki kommúnistanna. Þeir voru því farnir að haga seglum í stjórnmálunum eftir reglunni: Heiðra skaltu skálkinn, svo að hann skaði þig ekki. Þessi hugsunarháttur var að byrja að grafa undan trúnni á lýðræðislegt stjórnarfar og starfshætti þessa lands. Þetta hefur þó farið nokkuð á annan veg en kommúnistar ætluðust til. Þeir hafa þó engan veginn verið viðburðarlausir í fyrirætlunum sínum. Hvað eftir annað hafa þeir lagt til atlögu við ríkisstj. með verkföllum og margvíslegri skemmdarstarfsemi, þegar verst hefur gegnt, en jafnan orðið að láta undan síga að lokum án þess að valda höfuðtjóni. Síðasta áhlaup sitt undirbjuggu þeir og framkvæmdu eftir langvarandi æsingarstarfsemi í sambandi við samþykkt Atlantshafssáttmálans, þegar þeir með liðsafnaði við alþingishúsið og með grjóthríð á það ætluðu að hindra löggjafarsamkomu þjóðarinnar í að ljúka málinu á löglegan og þinglegan hátt að vilja yfirgnæfandi meiri hluta Alþingis. En aldrei hafa vopnin snúizt eins í höndum þessara auðnuleysingja eins og þá, því að á sama hátt og grjóthríð þeirra skaðaði líkamlega aðeins lítillega einn þeirra manna, skaðaði aðför þessi pólitískt þá sjálfa og í miklu ríkara mæli, því að eftir það stóðu þeir naktir fyrir alþjóð manna í ofbeldishug sínum og árásarfyrirætlunum. En rétt er að minnast þess, að áður en þetta skeði, hafði lýðræðisflokkunum með samtökum sínum tekizt að ná af kommúnistum meirihlutavaldi í landssamtökum verkamanna — Alþýðusambandi Íslands, er þeir höfðu áður sölsað undir sig með svikum og bolabrögðum. Sá sigur lýðræðisaflanna í landinu, sem er bein afleiðing af þeim stjórnmálasamtökum, er hafin voru við myndun núverandi. stj., er stórmerkur út af fyrir sig og hefur vafalaust haft sitt að segja um það, að ósigur kommúnista í atlögunni að þinghúsinu og þingræðinu hinn 30. marz varð jafnafgerandi og raun varð á.

En þrátt fyrir það að nú átti að vera búið að kveða niður þann ótta manna að íslenzka þjóðin væri þegar ofurseld yfirgangi kommúnista og yrði nauðug viljug að beygja sig undir hann, er jafnrík nauðsyn að fylgja á eftir unnum sigrum í þessari baráttu og kosta kapps um að þoka kommúnismanum sem fyrst út úr þjóðlífi og þjóðmálum landsins. Lýðræðisskipulagið annars vegar og kommúnisminn hins vegar eru tvær gerólíkar lífsstefnur og stjórnmálastefnur, sem enga samleið eiga. Þær þurfa hvor um sig að verða einvaldar innan þjóðfélagsins, ef þær eiga að njóta sín. Íslendingar verða að gera sér þess ljósa grein, hverja stefnuna þeir ætla að tileinka sér, og haga sér samkvæmt því. Og ég er ekki í nokkrum vafa um það, að langsamlega yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar kýs stjórnarkerfi lýðræðisins og mannfrelsisins fram yfir ofríkisstefnu hins kommúnistíska skipulags, ef þeir gefa sér tíma til að hugleiða þann reginmun, sem þar er á. Það væri sannarlega freistandi að gefa þjóðinni og ekki sízt hinum trúuðu kommúnistum tækifæri til að sannprófa ýmsar þær aðferðir, sem tíðkast í stjórnmálum þeirra landa, er hafa öðlazt blessun kommúnistískra yfirráða. Ég á ekki hér við hinar alræmdu fangabúðir og hinar hávísindalegu yfirheyrsluaðferðir, sem þar eru iðkaðar. Nei, sei sei nei. En við skulum segja, að við gerðum hér ofur saklausa tilraun með kosningafyrirkomulagið eftir þeirra fyrirmynd, sem þar er tíðkuð og nú síðast fyrir nokkrum dögum í Ungverjalandi. Hvernig væri að bjóða þeim hér upp á það t.d. við næstu kosningar, að ríkisstj. réði ein öllum frambjóðendum í landinu og svo fengi þjóðin að hafna og velja úr hópnum? Hvað halda menn, að hinir innfjálgu boðendur hins kommúnistíska fagnaðarerindis segðu, ef farið yrði að framkvæma þetta stefnuskráratriði þeirra hér mitt inni í hinu forhataða lýðræðisskipulagi? Ég er hræddur um, að þeir spýttu mórauðu. Og meir en það. Ég er sannfærður um, að hinir lýðræðissinnuðu íslenzku kjósendur mundu algerlega fordæma það, enda þótt þeir ættu von á því að losna á þann hátt við fulltrúa kommúnista af Alþingi, — sem þeir út af fyrir sig væru elskusáttir með. En þeir mundu ekki vilja vinna þetta til. En þetta er nú ekki nema barnaleikur meðal þeirra „lífsvenjubreytinga“, sem menn yrðu að sætta sig við, ef þeir einhvern morguninn vöknuðu við það, að þjóð þeirra hefði „hoppað“ inn í hið kommúnistíska skipulag, enda þótt það hefði gerzt „þegjandi og hljóðalaust.“

Nei, það þýðir ekki að ætla sér að blanda þessum tveim stjórnarkerfum saman, hvorki í hugsun né framkvæmd. Þess vegna er ekki um annað að ræða fyrir þá flokka, er byggja starf sitt og stefnu eftir meginlínum hins „vestræna lýðræðis“, en að reka af höndum sér öll áhrif kommúnistískrar kenningar og baráttuaðferða, — hvað sem líður ágreiningi og baráttu þeirra í millum í stefnumálum almennt. Ef það ekki tekst, mun reynast mjög örðugt að koma íslenzkum stjórnmálum og flokkaskiptum aftur á hreinan og eðlilegan grundvöll.

Í lýðræðislöndum á meðal frjálsra manna er og hlýtur alltaf að verða ágreiningur um stefnur og starfshætti. Menn deila um hið frjálsa framtak einstaklingsins, hversu lausan tauminn sé hyggilegt að gefa því og að hve miklu leyti sé nauðsynlegt að takmarka það með tilliti til hagsmuna heildarinnar. Menn deila um það, hversu víðtæku valdi ríkið eigi að beita í viðskiptum sínum við þegnana og í hve ríkum mæli það eigi að annast rekstur og framkvæmd einstakra þátta í athafna- og menningarlífi landsmanna. Menn deila um það, að hverju leyti sé hyggilegt og farsælt að fela hinum frjálsu samtökum landsmanna að leysa hin félagslegu verkefni þjóðarinnar fram yfir ríkið og reka hin meiri háttar fyrirtæki framar einstaklingunum. Um allt þetta er deilt og togazt á í lýðræðisþjóðfélögum, og reynslan kennir mönnum smám saman, hvað heppilegast er, og skoðanir hinna frjálsu þegna eiga að ráða þar úrslitum á hverjum tíma. Allt þetta þekkjum við Íslendingar, og við trúum því, að leikreglur lýðræðisins verði færastar að leysa úr þessum ágreiningsmálum á farsælan hátt. En jafnvíst er hitt, og af því höfum við orðið fulla reynslu, að hvar sem kommúnistaáróður og vinnubrögð ná nokkurri verulegri fótfestu í lýðfrjálsu þjóðfélagi, setur það allar starfsreglur þess úr skorðum, og því meir sem þeirra áhrifa gætir meir.

Þegar áhrif kommúnismans fara að ná tökum á lýðræðisþjóðfélagi, þá gerist þar hið sama, er segir frá í þjóðsögunni, þegar tveir tígulkóngarnir komu fram í spilinu. Þá fara allar leikreglur út um þúfur, og við taka upplausn og öngþveiti. Kommúnisminn er aðkomni tígulkóngurinn í samstarfi allra frjálsra þjóðfélaga — svikatromp, sem hefur upplausn og óhamingju í för með sér. Við þekkjum þessa svo mörg og óyggjandi dæmi úr okkar eigin stjórnmálasögu undanfarin ár og allt fram á þetta þing, sem nú er að enda. Þar geta aðflutt og annarleg sjónarmið komið til að hafa óvænt og óeðlileg áhrif á alíslenzk málefni, þegar minnst varir. Enginn hinna íslenzku delluaðila veit, hvenær hinu aðfengna svikatrompi verður laumað í hendi andstæðings hans. Þegar verkamennirnir bindast eðlilegum samtökum um að vinna að bættu kaupi og kjörum, þá eru kommúnistar óðar komnir í spilið og auka forustuna um enn hærri og harðari kröfur, ekki vegna þess, að þeim sé svo sérlega umhugað um hag verkamanna — það hafa þeir sýnt í þeim þjóðfélögum, sem þeir geta beitt valdi sínu óhindrað, heldur fyrst og fremst til að afla sér fjöldafylgis og um leið koma atvinnulífi landsins úr skorðum, efla verðbólgu, upplausn og erfiðleika.

Svo hafa þeir það til að taka upp jafnskelegga baráttu fyrir hagsmunum mestu hálaunamanna landsins. — Í vetur, þegar vinnustöðvunin var á togaraflotanum og útgerðarmenn með aðstoð ríkisvaldsins háðu langa og harða baráttu um að fá lækkað nokkuð kaup hæstlaunuðu starfsmanna flotans, sem vitanlegt var, að höfðu árslaun frá því um hundrað þúsund krónur og áfram upp í tvöfalt það — en útgerðin barðist í bökkum um afkomuna —, hófu kommúnistar æðisgengna árás á útgerðarmenn og ríkisstj. fyrir að láta þetta liðast og beittu öllum sínum áhrifum til að torvelda lausn deilunnar.

Enginn lætur sér nú detta í hug, að þetta hafi verið gert af ofurást á mestu stórtekjumönnum landsins, þó að gott væri að afla sér fylgis meðal þeirra í leiðinni, heldur fyrst og fremst til að koma í veg fyrir, að þessi afdrifaríki þáttur í atvinnulífi þjóðarinnar yrði rekinn á heilbrigðum fjárhagsgrundvelli — og auka þannig á erfiðleikana og glundroðann í þjóðfélaginu. Þegar stjórn og þing um áramótin stóðu í erfiðum og langvarandi samningum við útgerðarmenn vélbátaflotans til að fá viðunandi og viðráðanlega lausn á vandamálum hans; kepptust kommúnistar við yfirboð til útgerðarmanna, bæði um hækkaða lágmarkstryggingu á útflutningsverði fisksins og frjálsa ráðstöfun gjaldeyrisins, sem þó hlaut að hafa í för með sér skipulagslaust hrun gjaldeyrisins. Þegar svo þingið tók til meðferðar fjáröflun, til þess að standa undir þeim útgjöldum, er af útflutningsuppbótinni leiddi, börðust þeir með hnúum og hnefum gegn öllum tillögum, sem fram komu um það, og þar á meðal lúxusskatti á svartamarkaðssölu bifreiða. Tilgangur þeirrar baráttu er allur svo auðsær, að ekki þarf skýringar við. Söm var einnig afstaða þeirra við afgreiðslu fjárlaganna: Útgjaldahækkunartillögur um milljónir á milljónir ofan, en jafnframt hatrömm barátta gegn öllum fjáröflunartillögum til að sjá útgjöldunum farborða. Hér var heldur ekki til lítils að vinna, að geta auglýst sig sem hina einu sönnu velunnara útgerðarmanna og sjómanna, framfaramanna í landi og skattborgaranna, allra í senn. Hitt eru þeir ekki að útlista, hvernig svona pólitík og skrípalæti yrðu rekin til lengdar án þess að stefna málum ríkisins í bráðan voða.

Þá er enn eitt. Allir, sem nokkuð þekkja til stefnu og heimsskoðana kommúnismans, vita; að allir sannir kommúnistar utan Rússlands eru í hjarta sínu föðurlandslausastir allra föðurlandslausra manna og meta einskis tungu og þjóðerni, ef fyrirheitna landið, Rússland, og hagsmunir þess eru annars vegar, enda hafa foringjar þeirra víða um heim gerzt svo opinskáir að lýsa yfir því, að þeir mundu berjast með Rússum og á móti þeirra eigin þjóð, eftir átaka kæmi á milli þeirra. — En viti menn! Þegar hafin er gagnrýni af þjóðernislegum ástæðum á hinu alkunna Atlantshafsbandalagi og barátta gegn því, blossar ættjarðarástin upp í kommúnistum um allan heim — og á svipstundu eru þeir orðnir skeleggustu forsvarsmenn þjóðernis, þjóðfrelsis og friðar í heiminum. Þeir taka það náttúrlega trúanlegt, sem vilja, að hin hatramma barátta þeirra gegn Atlantshafsbandalagssáttmálanum sé fremur sprottin af þjóðernis- og ættjarðarást þeirra en hinu, að til bandalagsins var efnt til varnar útþenslustefnu Rússa og yfirgangi í Evrópu undanfarin ár. En það var ekki ónýtt að geta auglýst sig hina einu sönnu Íslendinga við hlið nokkurra útvaldra.

Á öndverðu þessu þingi fluttu framsóknarmenn frv. til umbóta á skömmtunar- og innflutningskerfi fjárhagsráðslaganna, og hafa að vísu hlotið við það eindregið fylgi kommúnista. En um svipað leyti báru sjálfstæðismenn fram frv., sem fól í sér þá breyt. á sömu lögum að létta af ákvæðum, sem fólu í sér allstrangt eftirlit með gjaldeyrisnotkun til ferðalaga til að reyna að draga úr misnotkun hans og svartamarkaðsbraski með hann. Þetta frv. fékk sama fylgi kommúnista og er nú orðið að lögum, með þeim afleiðingum, að svartamarkaðsgjaldeyrisbrall hefur enn færzt í auka og ýmisleg misnotkun hans. Þetta eru mjög sláandi dæmi um vinnubrögð þessara manna. Þeim virðist standa nokkurn veginn á sama, hvort þeir afla sér fylgis fyrir stuðning við góð mál eða gölluð — og verður ekki annað séð en að það hafi eitt vakað fyrir þeim að stuðla að erfiðleikum í samstarfi stjórnarflokkanna.

En svona eru öll þeirra vinnubrögð. Enginn botnar í þeim hundakúnstum, og enginn veit, hvar þeim kann að skjóta upp hverju sinni, vegna þess að þeir hugsa og álykta eftir allt öðrum forsendum en venjulegir Íslendingar og í allt öðrum tilgangi. Það er því fyrir lýðræðisþjóðfélag, sem hefur stóran kommúnistaflokk innan vébanda sinna, eins ástatt og fyrir skipi, sem siglir með mikinn lausan sjó innanborðs.

Það er sá allra hættulegasti farmur, sem til er, því að hann leggst á með þunga sínum þar, sem sízt skyldi, þegar verst gegnir og fyrir það hefur margur kollsiglt sig. En eitt það allra ömurlegasta við kommúnistafaraldurinn er það, hve marga af þeim mönnum, sem öll efni stóðu til, að gætu orðið gagnlegir menn í umbóta- og félagsmálum þjóðarinnar, hann gerir óvirka þegar á unga aldri. Manni, sem búinn er að taka þessa andlegu pest, getur ekkert lýðræðisþjóðfélag treyst í stjórnmála- og félagsmálabaráttu sinni. Þeir eru þar eins og farlama menn, þó að þeir kunni að vera dugandi í ýmsum almennum starfsgreinum, og þeir verða það alltaf, á meðan þeir ekki læknast algerlega af þessari póltísku flogaveiki. Og þetta er út af fyrir sig stórkostlegt áfall hverju þjóðfélagi, sem fyrir því verður. Það verður því aldrei of vel brýnt fyrir þeim, sem í einlægni vilja að því vinna, að hér megi lifa og dafna farsælt þjóðfélag frjálsra manna, að ganga fram í því að þurrka úr þjóðfélaginu áhrif þessara erlendu ofbeldis- og ofstækismanna, hvar í flokki sem þeir standa. Í því starfi þarf margs að gæta. Það þarf að upplýsa menn um eðli kommúnismans, starfsaðferðir og stjórnarhætti, þar sem hann er alls ráðandi. En það þarf jafnframt, og það má aldrei gleymast, að skapa og viðhalda eftir mætti réttláta stjórnarhætti, alhliða umbætur og sem jafnasta aðstöðu landsins barna til þroskavænlegs uppeldis og til að afla sér þeirra lífsgæða, er landið og þjóðfélagið eru umkomin að veita. Í þeim efnum eru mörg og óleyst verkefni fyrir höndum í félagsmála- og stjórnmálastarfseminni, er bíða eftir því m.a., að ungir og röskir menn komi til samstarfs við þá frjálshuga umbótamenn, sem fyrir eru, og kasti af sér álagaham hinnar erlendu ofstækis-og ofbeldisstefnu.

Hitt er svo rétt að gera sér ljóst, að sjálfur kommúnisminn, eins og hann lýsir sér í orðum og athöfnum postulanna, verður aldrei svæfður með neinni rauðakrossstarfsemi. Hann hefur þegar sýnt það, eins og hálfbróðir hans nazisminn, að það er annað mál, sem hann skilur betur, hvort heldur það er innan þjóðfélagsins eða í viðskiptum hans við umheiminn. Honum er því nauðsynlegt að mæta með fullkominni tortryggni og hlífðarlausri andstöðu í hvívetna.