17.05.1949
Sameinað þing: 75. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1255 í B-deild Alþingistíðinda. (1572)

42. mál, fjárlög 1949

Ólafur Thors:

Hv. síðasti ræðumaður, einn af samstarfsmönnum mínum í þeirri ríkisstj., sem ég hafði þann heiður að veita forstöðu, var að deila á fyrrv. stj. Hann var eitthvað að tala um dýrtíðina, svo sem að vísitalan hafi aðeins aukizt um 11 stig á rúmum 2 árum. En niðurgreiðslur úr ríkissjóði hafa nú hækkað úr 1.6 millj. kr. upp í 56 millj. Ég get þessa, af því að þetta er svo mætur og glöggur maður, og ég vil láta sannleikann koma í ljós.

Hinn mikli þjóðskörungur og stjórnspekingur, Winston Churchill, segir frá því í endurminningum sínum, sem nú eru að koma út, að þegar hann tók við stjórnartaumunum árið 1940 og myndaði þjóðstjórn sína, hafi hann mælt eitthvað á þessa leið:

„Ef við förum nú að láta nútíðina dæma fortíðina, þá glötum við framtíðinni.“

Mjög svipuð ummæli viðhafði einn af þm. Sjálfstfl., er hæstv. núverandi ríkisstj. var mynduð. Með þessum orðum vildi hann láta í ljós það álít sitt, að hinnar nýju ríkisstj. biðu svo mörg og svo margþætt vandamál og svo sterk og óvægin andstaða, að ef stj. ætti að hafa nokkra skynsamlega von um að ganga með sigur af hólmi í þeirri viðureign, yrði stjórnarliðið að fella niður fyrri væringar og einbeina allri hugsun og orku að vandamálum framtíðarinnar.

Ég skal ekkert um það staðhæfa, hversu farið hefði, ef stj. og lið hennar hefðu frá öndverðu viðurkennt þetta höfuðsjónarmið og hegðað sér í samræmi við það. Hitt er staðreynd, að oft hefur meiri orku verið eytt í að rífast um fortíðina, deila hver á annan og sakfella hver annan, heldur en að snúast hart, einarðlega og með sameiginlegu átaki að úrlausn þess vanda, er að steðjaði eða fram undan beið, enda hefur margt farið miður, en vonir stóðu til.

Ég get vel leitt hjá mér að lýsa hér í kvöld sök á hendur þeim, sem ég tel öðrum fremur valda, að svona hefur til tekizt. Ég tel, nú eins og fyrr, að fortíðin eigi að víkja fyrir framtíðinni, og ég tel enn, sem fyrr, að stj. og lið hennar hafi engar sigurvonir, ef þetta sjónarmið verður ekki alls ráðandi í stjórnarherbúðunum.

Þjóðin er auk þess löngu leið á þessu eilífa stagli um það, hverjum þetta eða hitt sé að kenna. Það er viðfangsefni sagnfræðinganna, ef það þá þykir þess virði, að finna út, hvaða áhrif það hafði á dýrtíðarskriðuna, þegar losuð voru tengsl milli verðlags landbúnaðarafurða og kaupgjalds, eða hvernig stóð á því, að vísitalan rauk upp sumarið 1942, eða hverjar orðið hafa afleiðingar þeirra niðurgreiðslna á dýrtíðinni, er hófust haustið 1943, o.s.frv. Eða þá hins vegar, svo að tekin séu dæmi úr þessum umræðum, hvort sannara er, að arfurinn, sem núverandi stj. tók eftir fyrrverandi stj., sé jafnóglæsilegur sem sumir hæstv. ráðherrar gáfu í skyn, eða hitt, að það sé nú einmitt þessum arfi að þakka, að stj. og þjóðin enn þá hafa í sig og á; hvort það sé nýsköpuninni að kenna eða þakka, að andvirði útflutningsvöru okkar hækkaði um 150 millj. kr. á einu ári; hvort sannara sé, að núverandi stj. hafi tekið í arf frá fyrrverandi stj. 70–80 millj. kr. gjöld, sem hún beri enga ábyrgð á, eða hvort þessi tala eigi kannske ekki að vera 70–80 millj. kr., heldur alls enginn eyrir, — þ.e.a.s., hvort sú löggjöf, sem útgjöldin stafa af, hafi öll verið samþykkt gegn eða með samþykki núverandi stjórnarflokka, hvort sannara sé, að allur gjaldeyrir þjóðarinnar hafi verið uppétinn, þegar núverandi stj. tók við, eða hitt, að 1. jan. 1947 hafi verið í nýbyggingarsjóði 131 millj. kr., á frjálsum reikningi 93 millj. kr. og ávísað fyrir óinnfluttar vörur 46 millj. kr., eða þannig alls óeyddar 270 millj. kr. af þeim 478 millj. kr., er við áttum 1. jan. 1945; eða hvort búnaðarráð Péturs Magnússonar, skipað 25 öndvegisbændum hvaðanæva af landinu, hafi verið fjandsamlegt bændum, eða hins vegar sú bezta trygging, sem bændur nokkru sinni hafi öðlazt fyrir því, að hagsmuna þeirra væri í hvívetna gætt; hvort það sé satt, að í tíð fyrrv. stj. hafi ekkert verið gert fyrir landbúnaðinn, eða hitt, að aldrei hafi meira verið fyrir bændur gert. Þannig mætti lengi telja. Við, sem í þessu höfum staðið síðustu árin og áratugina, getum eilíflega rifizt um, hvað sé hverjum að kenna og hvað sé hverjum að þakka. Okkur kemur aldrei saman um það, a.m.k. ekki í áheyrn alþjóðar. Meðan svo er, veit þjóðin ekkert, hverjum hún á að trúa í þessum efnum, og má raunar segja, að það skipti ekki öllu.

En þjóðin veit annað, sem hún markar og metur. Hún veit, að Íslendingar eiga nú miklu fleiri og betri fiskiskip en nokkru sinni fyrr. Hún veit, að siglingaflotinn hefur margfaldazt undanfarin ár. Hún veit, að síldarverksmiðjur, frystihús, lýsisbræðslur og margvíslegur annar stóriðnaður hefur sprottið upp í landinu. Hún veit, að andvirði útfluttrar vöru hefur margfaldazt frá því fyrir stríð. Allt þetta veit þjóðin. Og af öllu þessu veit hún, að ef rétt er á haldið, á hún sér margfalt meiri og bjartari afkomuhorfur, en nokkru sinni fyrr, frá því landið byggðist.

En þjóðinni er líka farið að skiljast, að ekki er allt með felldu um hagi hennar og háttu. Hún sér, að fjárl. eru orðin geigvænlega há. Hún sér, að dýrtíðin er orðin uggvænleg. Hún finnur, að skattarnir eru orðnir drápsklyfjar. Hún sér, að mestur atvinnurekstur landsmanna er rekinn ýmist með ríkisstyrkjum eða beinum halla. Þjóðin skilur, að allt eru þetta einkenni hættulegs sjúkdóms, sem hún fyrir hvern mun vill forðast að verða að bráð. Enn þá skilja menn þó misjafnlega vel, hvað á seyði er, en flestir eru farnir að ugga að sér. Augu margra eru tekin að opnast fyrir því, að betra er að slá einhverju af því, sem flóðalda styrjaldaráranna færði okkur, heldur en að eiga á hættu, að boginn bresti og við taki fyrri fátækt, atvinnuleysi og þrengingar.

Ákaflega margir eru þó í rauninni áttavilltir. Menn líta til Alþ. og segja: Þið, sem á þingi sitjið, hafið boðizt til að stjórna förinni. Hættið tafarlaust að karpa um vegvillur farinnar slóðar, og vísið okkur leið út úr ógöngunum, helzt stytztu leiðina, helzt þá greiðgengustu, en um fram allt þá öruggustu.

Ég hef enga tilhneigingu til að fella þjóðina undan sök í þessum efnum í því skyni að gera hlut okkar, sem á þ. sitjum, verri en nauður rekur til. Og ég verð að viðurkenna, að það er að minnsta kosti ósannað mál, að enda þótt við, sem í stjórnarliðinu erum, leggjum allan okkar styrk saman og tækist með því að benda á rétta leið til úrbóta, að þjóðin mundi þá fáanleg til að færa þær augnabliksfórnir, sem krafizt er.

En þrátt fyrir þetta verður hiklaust að viðurkenna, að meðan við rífumst um, hverjum hin háu fjárl. séu að kenna, en hækkum þau síðan, í stað þess að lækka þau, meðan við bannfærum hver annan fyrir hina háu skatta, en hækkum þá svo, í stað þess að lækka þá, meðan við sakfellum hver annan fyrir sívaxandi dýrtíð, en hækkum hana svo, í stað þess að lækka hana, meðan við ekki bendum þjóðinni á neina leið og erum ekki sammála um neitt nema, að ásaka hver annan, þá erum það við, sem höfum svikið skyldu okkar gegn þjóðinni, en ekki þjóðin, sem hefur brugðizt okkur. Á þjóðina fellur sökin ekki fyrr en við höfum vísað veginn, en þjóðin hafnað leiðsögunni.

Enginn veit betur en ég, hvert djúp skilur Sjálfstfl., Alþfl. og Framsfl. varðandi jafnt stjórnmálaskoðanir sem baráttuaðferðir. En þrátt fyrir þetta á þjóðin kröfu á, að úr því að við í sameiningu tökum að okkur að stjórna landinu, þá gerum við einhvern tíma í sameiningu einhverjar tillögur um lausn vandans, aðra en þá að auka útgjöld ríkisins og leggja síðan á nýja skatta til þess að greiða þessi útgjöld og annað þess konar. Allir vita, að þetta er ekkert annað en deyfilyf, sem endist stutt og læknar ekkert mein. Allir vita því, að enn höfum við lítið aðhafzt annað en slá vandanum á frest, og margir óttast, og kannske ekki að ástæðulausu, að endirinn verði sá, að vandinn vaxi okkur yfir höfuð.

Einhver spyr nú kannske: Hvers vegna komið þið sjálfstæðismenn ekki með ykkar úrræði, hvað sem hinum líður?

Því er til að svara, að í fyrsta lagi vil ég ekki staðhæfa, að við teljum okkur ráða yfir óyggjandi úrræðum. Í öðru lagi, og það er í þessu sambandi aðalatriðið, hefur Sjálfstfl. ekkí tekið að sér að stjórna landinu einn, heldur ásamt tveim öðrum flokkum. Skyldan til að vísa þjóðinni til vegar hvílir því ekki á Sjálfstfl. sem slíkum, heldur á stjórnarliðinu sem heild. Um þetta verður ekki deilt. En þrátt fyrir það mundi Sjálfstfl. ekki hika við að leggja fram sínar till., ef hann teldi sig þjóna þjóðinni bezt á þann hátt. En svo er ekki, eins og sakir standa. Úrræði geta leitt til blessunar, ef nægilegur meiri hluti þjóðarinnar aðhyllist þau, en til bölvunar, ef andstaðan er of sterk. Beri Sjálfstfl. fram till., en hinir stjórnarflokkarnir láti sér fátt um finnast eða rísi gegn þeim, eru sigurvonir vissulega minni heldur en ef takast mætti að sameina stjórnarflokkana um sömu eða svipaðar till.

Þessi almennu sannindi eru fullnægjandi rök fyrir því, að Sjálfstfl. sem einn af þrem stjórnarflokkunum ber ekki fram sértill. fyrr en að undangengnum árangurslausum úrslitatilraunum innan stjórnarliðsins um önnur og haldbetri úrræði en enn hefur verið beitt.

Ætti það hins vegar síðar að verða hlutskipti Sjálfstfl. að taka einn á sig þunga stjórnarábyrgðarinnar, mundi hann að sjálfsögðu, eðli málsins samkv., leggja fram sínar till., berjast fyrir þeim og falla með þeim eða standa.

Það er erfitt að stjórna Íslandi, eins og nú er komið sökum. En það er líka til mikils að vinna, því að mikið er í húfi. Fátæk og fámenn þjóð, sem lengst af hefur búið við sult og seyru, lenti í ófriðnum í hringiðu, sem e.t.v. eru fá dæmi um í sögu veraldarinnar. Yfir hana streymdi fjárflóð, sem hana hafði aldrei dreymt um og af eðlilegum og óumflýjanlegum ástæðum hlaut að gerbreyta viðhorfi hennar í andlegum og veraldlegum efnum. Í kjölfar óvæntrar velmegunar sigldu vaxandi kröfur og þverrandi skilningur. Unga kynslóðin veit lítið um örðuga lífsbaráttu feðranna, en því meir um mikil lífsþægindi fyrir lítið erfiði og hefur því enga aðstöðu til að átta sig á, hvílíkt happ hinar risavöxnu framfarir eru og hvílík vá er fyrir dyrum, ef við af sjálfskaparvítum glötum því, er dáð og framtak forfeðranna og happ fjárflóðsins hefur fært okkur. Í þennan jarðveg hefur erlend öfgastefna sáð frækorni sínu og hlotið ríkulega uppskeru. Þessi stefna lætur stjórnast af annarlegum sjónarmiðum og erlendu valdboði. Um það er ekki lengur hægt að efast, jafnmargar og skýrar sannanir sem kommúnistaflokkar allra landa hafa fært fyrir þessu síðustu 2–3 árin. Þeir, sem þar ráða ríkjum, láta sig það eitt skipta að útbreiða trú sína, kommúnismann, en hirða hvergi, þótt einræðishöll þeirra verði reist á rústum íslenzks atvinnulífs. Þessir menn telja sig berjast fyrir hugsjón, svo helgri, að sigur hennar sé aldrei of dýru verði keyptur, hugsjón, sem samkv. fenginni reynslu annarra þjóða bezt verði rudd braut með atvinnuleysi og þrengingum almennings.

Það er að sönnu rétt, að flestir Íslendingar hafa viðurstyggð á einræði, þrælatökum og kúgun kommúnismans. En þrátt fyrir það hafa forustumenn þessarar stefnu hættulega sterka baráttuaðstöðu í þjóðfélaginu. Almenningur í landinu veit minnst um, hvað fyrir þeim vakir. Við augum þjóðarinnar blasir ekki einræðið, kúgunin og fangelsanir andstæðinganna, heldur fagurgali manna, sem þjálfaðir í baráttunni fara troðnar slóðir eftir föstum leikreglum erlendra fyrirmæla, manna, sem bjóða í senn hærra kaup, hærra verð landbúnaðarafurða og minni dýrtíð, manna, sem bjóða í senn fleiri vegi, stærri hafnir, betri brýr, reisulegri skóla og lægri skatta, manna, sem bjóða í senn að hækka útgjöld ríkisins, en lækka tekjurnar.

Meðan þessir menn stóðu að nýsköpun atvinnulífsins, lofuðu þeir, að þegar hin nýju tæki væru tekin til starfa, skyldu þeir taka þátt í að samræma kaupgjaldið burðarþoli atvinnurekstrarins. En nú, þegar verðlag framleiðslunnar fellur og taprekstur færist yfir allt atvinnulífið, spenna þeir kaupkröfur því hærra sem gjaldgetan verður minni og virðast ekki ætla að linna látum, fyrr en hrunið er fullkomnað, allt í þeirri von, að í öngþveitinu takist þeim að ná völdum. Þau völd, þótt skammvinn verði, hljóta þeir síðan að ætla að nota til þess að afhenda land sitt og þjóð þeirri alheimshugsjón, sem þeir berjast fyrir, en íslenzka þjóðin fyrirlítur. Aðra frambærilega skýringu á framferði þeirra verður ekki auga á komið.

Vafalaust má treysta því, að Íslendingar skilji margt af þessu. Að því stuðla jafnt viðburðirnir í ýmsum löndum Evrópu síðustu 2 árin sem stjórnmálabarátta íslenzku kommúnistadeildarinnar.

Tökum t.d. efnahagssamvinnu Vestur-Evrópuþjóðanna, Marshallhjálpina svo nefndu. Enda þótt Íslendingar fengju þar engan eyri sjálfir, ættu þeir þó alla sína afkomu undir því, að sú tilraun heppnist, þ.e.a.s., að fjárhagsleg aðstoð Bandaríkjanna reynist þess megnug að koma fótum undir nýtt og heilbrigt atvinnu- og fjármálalíf þessara þjóða. Með því og því eina móti geta Íslendingar selt sína framleiðsluvöru, þ.e.a.s. lifað sem sjálfstæð menningarþjóð. Svona nátengdir eru hagsmunir þessara þjóða og okkar. Samt sem áður berjast kommúnistar hatrammlega gegn þessari viðreisn og alveg jafnt gegn því fé, sem okkur er heitið til áframhaldandi nýsköpunar í landinu. Manni sýnist þetta ekki vera með felldu. Það er það heldur ekki. Það, sem á bak við býr, er, að herradómurinn í Moskva, húsbændur íslenzku kommúnistadeildarinnar, vilja ekki viðreisn Vestur-Evrópu, heldur það varnarleysi, sem bezt þróast í þrengingum og öngþveiti. Ég efast ekkert um, að út af fyrir sig vilja íslenzkir kommúnistar, að Íslendingar geti selt afurðir sínar, að við fáum fleiri ný skip og önnur tæki og yfirleitt þau gæði, sem Marshallhjálpin veitir. En þeir ráða ekki, Moskva skipar, — þeir hlýða.

Af alveg sömu rótum rann andstaðan gegn Norður-Atlantshafssáttmálanum, friðarsáttmálanum mikla, sem þegar er tekinn að sanna ágæti sitt í verkinu, sbr. lausn Berlínardeilunnar. Enginn þarf að ætla, að ýmsir hinna greindari og gegnari kommúnista hafi ekki skilið, að í þessum sáttmála fólst eina friðarvon mannkynsins. Enginn þarf að ætla, að þeim sé ekki jafnannt um líf sitt og ástvina sinna sem okkur hinum. En Moskva skipaði, og þá var að hlýða.

Hin æðisgengna árás, sem skríll kommúnista gerði á Alþ., þegar málið var afgr. hinn 30. marz s.l., sýnir og sannar, að kommúnistar muni einskis skirrast til að koma fram óskum húsbændanna. Líf og limir andstæðinganna sýnast þar engu skipta. Og þegar svo þessi meinleysislegi, hægláti og greindi bóndi, Ásmundur Sigurðsson, kemur hér í útvarpið og lýsir þessum viðbjóðslega skrílshætti, sem vel gat leitt til þess að svipta marga menn, einkum þá, er þingið vörðu, líf eða heilsu, — svona eins og hálfgerðum ólætisærslum, sem stj. hefði komið af stað, þá er ekki lengur hægt að láta blekkjast. Hér eru á ferð menn, sem hafa glatað sál sinni. Ekkert er þeim lengur heilagt, ekki hagsmunir þjóðarinnar, ekki virðing hennar, ekki frelsi lands og lýðs, ekki sannleikurinn, ekkert skiptir máli, ekkert nema hugsjónin, sem þeir eru búnir að sverja hollustu og eru nú að fleka aðra til fylgis við undir fölsku flaggi.

Ég ætla ekki að taka að mér að verja allar gerðir núverandi hæstv. ríkisstj. og enn síður aðgerðaleysi hennar. Hitt fullyrði ég, að engum skynbærum manni geti blandazt hugur um, að henni hefur farið margt ágætlega úr hendi, langbezt þó utanríkismálin, að mínu viti.

Hvenær hafa kommúnistar viðurkennt það með einu orði? Því fer svo fjarri. Heldur hafa þeir svívirt stj. fyrir hvert einasta mál, sem hún hefur farsællega leyst, og auðvitað þá mest fyrir það, sem hún hefur bezt unnið, þ.e.a.s. utanríkismálin.

Ég treysti því, að jafnpólitískt þroskuð þjóð sem Íslendingar eru sjái í gegnum mest af þeim lygavef. En ég treysti hinu miklu miður, að þjóðin hafi þroska til að standa gegn freistaranum, sem alltaf er að bjóða henni meiri og betri lífskjör og eykur fagurgalann því meir sem af minna er að taka.

Enginn þykist hafa úr of miklu að moða, og þeir, sem minnst bera úr býtum, hafa það heldur ekki. En einmitt þeim ríður mest á að gjalda varhuga við flærðinni, því að á þeim lenda þrengingarnar fyrst, harðast og lengst, ef atvinnulífið leggst í rúst.

En þessum mönnum, og raunar öllum, hættir við að trúa því, sem þeir vilja vera láta. Þess vegna er og verður barátta ábyrgra stjórnmálamanna gegn kommúnistum, eins og nú er háttað högum Íslendinga, erfið og hættuleg. Því verða stjórnarvöldin að gera sér ljóst, að það er þörf sterkrar forustu. Ekkert er jafnhættulegt sem athafnaleysið, úrræðaleysið, moðsuðan, þetta hæga andlát, sem verið er að búa velmegun þjóðarinnar, athafnafrelsi hennar, þrótti, áræði og framtaki.

Íslendingar eru nú ríkari en nokkru sinni fyrr frá landnámstíð. Velsældin er jafnari og almennari en áður eru dæmi um. Afkomuhorfur eru því að þessu leyti bjartari, en nokkru sinni áður. En samt sem áður erum við í mikilli hættu staddir. Ef ekki verður spyrnt öfluglega við fótum, ef áfram verður stefnt að því að færa æ meiri hallarekstur yfir æ fleiri og víðari svið atvinnulífsins, blasir glötunin við. Og það verður ekki eitt, sem glatast, heldur allt, fjármunir og frelsi, frelsi einstaklinganna og frelsi þjóðarinnar.

Gegn þessu ber að berjast af ósveigjanlegri hörku. Gegn þessu ber öllum að berjast, sem unna frelsi sínu og sjálfstæði þjóðar sinnar, hvað sem að öðru leyti ber á milli. Sú barátta er háð gegn kommúnistum og öllu þeirra fylgifé, hvort sem það leynist í hjáleigum kommúnista, eins og t.d. Þjóðvarnarhreyfingunni, eða innan sjálfra stjórnarherbúðanna.

Sú barátta er örðug, en endar með sigri, ef forustan er samhent og örugg.

Það er krafa þjóðarinnar til valdhafanna, að þeir geri sér fyllilega ljóst, hvernig sakir standa, við hvað og hverja er að etja, láta hendur standa fram úr ermum, veita leiðsögn og forustu. Þá standa enn vonir til, að þjóðin skilji sinn vitjunartíma, berjist og sigri.