17.05.1949
Sameinað þing: 75. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í B-deild Alþingistíðinda. (1573)

42. mál, fjárlög 1949

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þið heyrðuð í gærkvöld ráð stjórnarfl. við áhyggjum, sem þjaka ykkur vegna launaránsins, atvinnuleysisins og vaxandi dýrtíðar. Ráðið er meiri kaupskerðing, gengislækkun eða annað form fyrir kjararýrnun. Alþfl. er að vísu dálítið feiminn að viðurkenna gengislækkun fyrir kosningar, en verður ófeiminn við það eftir kosningar. Það er sama gamla ráðið, eina ráðið, sem þessir þrír flokkar sjá, hvenær sem þeir mynda samsærisstjórn gegn alþýðu Íslands. Það hét gengislækkun einu sinni, kaupbinding 1939, gerðardómslög 1942, tilraun til lögþvingaðrar kauplækkunar 1944 og vísitölubinding 1947.

Sannleikurinn er, að hvernig sem á hefur staðið á Íslandi, hvort landið hefur verið fátækt eða ríkt, hvort sem við skulduðum erlendis eða áttum þar inni 580 millj., hvort sem vísitalan var 100 eða 300 stig og hvort sem kaupgjaldið var kr. 1.45 eða kr. 8.00 um tímann, þá hafa þessir flokkar aldrei séð nema eitt ráð: kauplækkun, kjaraskerðingu hjá alþýðu manna. Af hverju? Af því að þeir eru fulltrúar auðmannastéttarinnar í þessu þjóðfélagi, ýmist leynt eða ljóst, ýmist vitandi vits eða slegnir blindu, sakir þröngsýnis og ofstækis. Og nú boða þeir þennan boðskap sinn enn og segja, að allir, sem vinni gegn þeim þegnskap að svelta sig og fjölskyldur sínar, séu erindrekar frá Moskvu. Og hvernig er þjóðfélagsástandið nú? Er þá íslenzkt þjóðfélag og íslenzkt auðvald svona á heljarþröminni eins og þessir ráðherrar vilja vera láta? Hvað segja skattskýrslurnar? Árið 1947 eru heildartekjur Íslendinga yfir 2.000 millj. kr. Það þýðir að meðaltali rúml. 36 þús. kr. á 5 manna fjölskyldu. Á þeim tíma býr þorri allra launþega í Rvík við árstekjur, sem eru um 20 þús. kr. og þar undir, og vinnandi fólk úti um land við enn lakari kjör. Af því má sjá, hve gífurlegar tekjur auðstéttarinnar eru, enda voru meðaltekjur 200 tekjuhæstu manna og félaga í Rvík þá 250 þús. kr. að meðaltali. Misskipting teknanna hefur aldrei verið eins ægileg í íslenzku þjóðfélagi og nú. En hvað hefur þessi „umbótastjórn“, sem taldi sig vera a.m.k., þegar hún var stofnuð, gert til þess að laga þetta ranglæti? Hún hefur ráðizt á þá fátækustu, lækkað laun almennings með vísitölubindingu og dýrtíðaraukningu, rýrt tekjur launþega með minnkandi vinnu, skapað öryggisleysi með því að leiða vágest atvinnuleysisins aftur inn á íslenzk alþýðuheimili, þveröfugt við það, sem Stefán Jóh. Stefánsson hafði lofað. Hann þekkir auðsjáanlega ekki þann vágest atvinnuleysisins, sem níst hefur alþýðufjölskyldurnar út um allt land í vetur. Nálægt kjötkötlum stj. þekkist hann ekki, vágestur sá. En hvernig hefur svo þessi stj. búið að auðvaldi Íslands, meðan hún heimtaði og heimtar enn fórnir að alþýðunni og tekur þær með valdi, þegar þær eru ekki látnar með góðu? Auðmannastétt Íslands hefur aldrei verið ríkari en nú, sérhagsmunir hennar aldrei betur tryggðir, en nú af fyrstu stj. Alþfl. á Íslandi, og ágengni þessara auðmanna gagnvart alþýðu aldrei meiri en nú, eins og gerðir þessarar stj. sýna.

200 ríkustu auðmenn og auðfélög Rvíkur eiga 500 millj. kr. í skuldlausum eignum. Það eru 200 milljónamæringar í Rvík, meðan ekki eru nema 400 milljónamæringar í allri Danmörku. Íslenzk alþýða ber á baki sér eitt ríkasta auðvald heimsins miðað við fólksfjölda, og það er því ekki nema von, að ganga hennar veitist stundum þung. Það vantar að vísu ekki að auðvald þetta og ráðh. þess segist allt vilja fyrir alþýðuna gera — allt, lækna fyrir hana dýrtíðina, losa hana við ótætis kommúnistana, koma henni bæði í Marshall og Atlantshafsbandalagið, allt nema fara af baki. En það er einmitt það, sem hún þarfnast.

Það er peningavald hinna 200 milljónamæringa, sem á þessa ríkisstj., og það með húð og hári, hefur tekið Alþfl. á próventu og svínbeygir Framsókn undir sérréttindaok sitt, þó að það hrikti í hryggjum sumra íslenzkra bænda og bændaforingja við að verða að bukta sig svo djúpt fyrir peningaaðli Rvíkur. Það er þetta peningavald Rvíkur, sem er leynistjórn vors lands. — En þið hafið sjálfir unnið með þessu auðvaldi, sósíalistar, mundi Eysteinn vilja segja. Já, við sósíalistar höfum unnið með þessari auðmannastétt. En við fengum hana til þess að vinna með okkur hið mesta stórvirki, sem unnið hefur verið í íslenzku athafnalífi, einmitt þegar Framsókn og Alþfl, sáu ekkert nema hrunið fram undan. Og á því stórvirki í nýsköpun atvinnuveganna, sem við unnum þá, tórir þessi hrunstjórn enn, eins og gjaldeyrisöflun nýsköpunartogaranna bezt sýnir. Og ekki nóg með það. Við sósíalistar fengum þessa auðmannastétt til þess að samþ. stórfenglegustu umbótalöggjöf, sem samþ. hefur verið á svo skömmum tíma á Íslandi, eins og alþýðutryggingarnar, skólalöggjöfin, lög um útrýmingu heilsuspillandi íbúða, stofnlánadeildarlögin, launalögin fyrir opinbera starfsmenn og fleira því líkt ber vott um. En hvað hefur svo þessi stj. gert, sem aldrei þreytist á að kenna sig við umbætur? Þessi stjórn hefur skorið niður umbætur nýsköpunartímabilsins hverja af annarri. Hún hefur frestað framkvæmd aðalumbótanna á alþýðutryggingunum. Hún hefur stöðvað framkvæmd laganna um útrýmingu heilsuspillandi íbúða. Hún hefur gert mönnum erfiðara fyrir að byggja, bæði með skriffinnskunni og lánsfjárkreppunni, sem valdhafarnir hafa skapað vitandi vits til að féfletta almenning. Hún hefur eyðilagt réttarbætur opinberra starfsmanna, sem þeir fengu 1945, með vaxandi dýrtíð, vísitölufölsun og vísitölubindingu, og rýrt kjör alls verkalýðs með sömu ráðstöfunum. Og af hverju hafa þessir hræsnisflokkar, sem kenna sig við umbætur, verið að skera niður allar umbætur nýsköpunaráranna og íþyngt fólkinu samtímis með drápsklyfjum álaganna? Af því að þeir hvorki þora, vilja né geta lagt álögurnar á auðmannastétt Rvíkur, og þá heildsalana fyrst og fremst. Það er aðeins eitt vald til hjá þjóð vorri, sem hefur í fullu tré við þessa auðmannastétt. Það er sósíalistísk verkalýðshreyfing Íslands. Sósíalistaflokkurinn og verkalýðsfélögin, það er það afl íslenzku þjóðarinnar; sem afturhaldið óttast og hatar. Þess vegna er söngurinn um Moskvu sunginn af trúðunum, sem töluðu hér í gær, gamli falski söngurinn, sem Hitler brjálaði Evrópu á, söngurinn, sem pólitískt gjaldþrota auðvald alltaf grípur til í örþrifaæði sínu. En íslenzk alþýða veit, að þegar þessir trúðar, eins og Bjarni Ásgeirsson hér áðan, steyta hnefann gegn Moskvu, þá meina þeir vald verkalýðsfélaganna. Þegar þeir bölsótast yfir austrænu einveldi, þá meina þeir verkfallsrétt verkamanna, þá meina þeir, áð þeir eigi í friði að fá að koma á vísitölubindingu; gerðardómi, gengislækkun og öllu, sem auðvaldinu megi til gagns verða og alþýðunni til bölvunar. En íslenzk alþýða lætur ekki bjóða sér þetta rán ríkisstj., og þess vegna hefur hún nú ákveðið að leggja út í baráttu til þess að fá bætta þá kjaraskerðingu, sem þessi afturhaldsstjórn hefur valdið henni. Dagsbrún hefur sagt upp samningum með 1296:217 atkv., en árið 1947 var samningunum sagt upp með 937:770 atkv. Svona einróma er fordæmingin orðin á pólitík ríkisstj: á þessum tveimur árum, þar sem tæp 800 verkamanna voru á móti uppsögn fyrir 2 árum, eru nú aðeins rúm 200 á móti uppsögninni. Svona eindreginn er sigurvilji íslenzkrar alþýðu.

Þessir flokkar, eins og bezt heyrðist á ræðu Bjarna Ásgeirssonar, dirfast að kenna sig við lýðræði og þingræði hér í útvarpinu í gærkvöld og nú bera Sósfl. það á brýn, að hann vildi ekki halda leikreglur lýðræðisins, en stjórnarflokkarnir væru þeir einu, sem þær héldu. Hvað segir reynsla íslenzku þjóðarinnar um þetta? Sósfl. er eini þingflokkurinn, sem alltaf hefur starfað á grundvelli lýðræðis og þingræðis. En þessir þrír núverandi stjórnarflokkar hafa, þegar þeim hefur þótt sér henta, brotið þingræðið og stjórnarskrána. 1941 voru það þessir flokkar, sem með skýlausu stjórnarskrárbroti frestuðu lögboðnum þingkosningum um eitt ár, til þess sjálfir að geta setið lengur í stjórn. Þið heyrðuð fagurgala Ólafs Thors hér áðan gegn sósíalistum, en út yfir tók þó, þegar hann bar sósíalistum ofbeldi á brýn, þetta íhald, sem alltaf hefur beitt verkalýðshreyfinguna ofbeldi, meðan hún var nógu veik og íhaldið nógu sterkt til þess, að það þyrði að níðast á henni. Eða hverjir voru það, sem fluttu forðum formann verkalýðsfélagsins í Keflavík, Axel Björnsson, með ofbeldi til Rvíkur? Íhaldsforkólfarnir. Eða hverjir voru það, sem fluttu Hannibal Valdimarsson með ofbeldi frá Bolungavík til Ísafjarðar 1931? Íhaldsforkólfarnir. Og hver var það, sem ætlaði að fangelsa alla verkalýðshreyfingu Rvíkur eftir 9. nóv. 1932 og gera sundhöllina að fangageymslu, en varð að hætta við það, af því að lögreglustjórinn í Rvík neitaði að hlýða. Það var maðurinn, sem talaði hér áðan um mannhelgi og lýðræði, það var þáverandi dómsmrh., Ólafur Thors. Og hverjir voru það, sem ætluðu eftir fordæmi fyrirmyndar sinnar í baráttunni gegn kommúnistum, Hitlers, að skapa sér þinghúsbrunaátyllu eins og hann til ofsóknar gegn alþýðu Íslands með ofbeldinu, kylfuhöggunum og eiturgasinu 30. marz? Var það ekki íhaldið í einingu andans við Framsókn og Alþýðuflokkinn, með Heimdallarskríllnn í herbergjum Framsóknar og nazistaleiðtogann í lögreglustjóraembættinu sem pólitískt sameiningartákn þessarar þokkalegu þrenningar? Svo dirfast þessir hræsnarar að bera alþýðunni, sem þeir berja til óbóta, ofbeldi á brýn. Fyrr má nú rota en dauðrota.

Stefán Jóh. Stefánsson sagði í gærkvöld, að við sósíalistar hefðum ekki notað rök í þinginu 30. marz. Hverjir voru það, sem kröfðust þess að fá að rökræða Atlantshafssamninginn á Alþingi 30. marz? Það vorum við sósíalistar. Hverjir neituðu um leyfi til að rökræða málið? Ríkisstjórnin. Það var beitt algeru ofbeldi við alþingismenn 29. og 30. marz. Öll þingsköp og þingvenjur voru þverbrotnar. Þm. voru sviptir málfrelsi. Þegar ég t.d. morguninn 30. marz

krafðist málfrelsis og rökræðna, trylltust ráðherrar Alþfl., Stefán Jóh. Stefánsson sérstaklega, og grenjuðu: Kastið honum út. Afgreiðsla Atlantshafssamningsins var alger lögleysa og ofbeldi gagnvart Alþingi Íslendinga. Sjálfur fyrrverandi fors.- og dómsmrh. Íslands, Hermann Jónasson, lýsti því yfir í greinargerð sinni um málið, að meðferð þess öll væri lögleysa. Og svo kemur forsrh., Stefán Jóh. Stefánsson, eftir að hafa framið þessi ofbeldisverk gagnvart Alþingi, neitað stjórnarandstöðunni um málfrelsi og rökræður, og hrópar út yfir landsbyggðina: „Kommúnistar notuðu ekki rök.“ Finnst ykkur ekki, hlustendur góðir, að það þurfi meira en meðalbrjóstheilindi til svona framferðis. Svona tala mennirnir, sem óttuðust og bönnuðu rökræður, óttuðust og neituðu þjóðaratkvæðagreiðslu og óttast nú og skjálfa fyrir þjóðardómi. Þeir vita, að sá dómur verður pólitískur dauðadómur þessara stjórnarherra, sem nú hafa gengið sér til húðar fyrir ameríska og íslenzka auðvaldið.

Stefán Jóh. Stefánsson svívirti borgara Rvíkur, sem hann lét berja og kasta gasbombum á 30. marz, með því að kalla þá skríl hér í gærkvöld. Hann kvað fólkið, sem hann lét hvítliðaskríl sinn berja til óbóta, hafa hrópað að sér að grýta hann. Stefán Jóh. Stefánsson fékk þann kinnhest, sem honum hæfði, frá íslenzkri þjóðarsál fyrir þjóðsvikin 30. marz. En hver á svo að trúa, að forsrh., svo hræddur sem hann þá var, hafi frekar sagt satt í gærkvöld en þegar hann var staðinn að þeim ósannindum hér í þinginu að segja, að stj. hefði ekki Atlantshafssamninginn, daginn eftir að einn ráðherranna las samninginn upp fyrir einum þingmanni flokks síns? Það er víst allt svipaður sannleikur, sem Stefán Jóh. Stefánsson segir, og í gærkvöld, þegar hann sagði, að nýju síldarverksmiðjurnar hefðu verið áætlaðar á 16 millj., en sannleikurinn er, að það var aðeins önnur áætluð á 16 millj. Það er alltaf beitt sömu rökvísinni.

Stjórnarliðið kveinkar sér út af 30. marz, ekki aðeins út af hinum þunga dómi þjóðarinnar, sem ríkisstj. þegar hefur fengið út af þjóðsvikunum þann dag heldur líka út af hugsanlegum möguleikum á alhliða rannsókn þess máls. Við sósíalistar höfum lagt fram þáltill. í Nd. um skipan 5 manna rannsóknarnefndar samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til að rannsaka tildrög óeirðanna. Stjórnarflokkarnir mundu hafa 4 menn, en við aðeins einn í slíkri nefnd. Samt þora þeir ekki að skipa hana. Það á að kæfa og hindra alla hlutlausa rannsókn þess máls og stinga sönnunargögnunum um sekt ríkisstj. undir stól.

Bæði Stefán Jóh. Stefánsson og Bjarni Benediktsson gáfu hér mjög skemmtilega yfirlýsingu í gærkvöld. Hátíðlega mæltu þeir: Aldrei, aldrei að eilífu skulum við hafa samstarf við ótætis kommúnistana. Við skiljum, hvað þeir meina. Þeir eru að fullvissa stólkonunginn í Miklagarði nútímans, Washington, um órjúfandi tryggð litla lénsmannsins hér á Íslandi við lénsdrottin sinn í krossferð auðvaldsins gegn sósíalisma, verkalýðshreyfingunni og þjóðfrelsi heimsins. Það má vel vera, að þeim takist að svíkja út nokkrar Marshall-milljónir út á svona yfirlýsingar. En fyrir okkur Íslendinga, sem höfum fylgzt með í stjórnmálabaráttu síðustu áratuga, eru slíkar yfirlýsingar Alþfl. og Íhaldsins hlægilegar.

1936 samþykkti Alþfl, á þingi sínu hátíðlega: Aldrei að eilífu samfylkingu við kommúnista. — Tveimur árum síðar var Alþfl. klofnaður og allir beztu menn hans, forustan úr sterkustu verkalýðsfélögum landsins, höfðu skapað þau órjúfandi samtök sósíalista á Íslandi, sem nú er Sósíalistaflokkurinn. Íhaldið gaf rétt fyrir nýár 1940 hátíðlega bannfæringu á Sósfl., hann skyldi vera óalandi og óferjandi, enginn mætti hafa samstarf við svona venda menn. Síðan liðu rúm tvö ár, og þá var það Íhaldið, sem var komið í samstarf við sósíalista um gerbreytingu kjördæmaskipunarinnar og varð að samþykkja lögin um að afnema eigið afkvæmi, gerðardómslögin, í ágúst 1942. Hvaða lifandi maður tekur mark á þessum flokkum? Alþýða Íslands hlær að yfirlýsingum þeirra. Hún dæmir þá af reynslunni. En oss sósíalistum þætti vænt um, að yfirlýsingar þeirra væru teknar alvarlega, því að sá flokkur, sem ekki vill vinna með íslenzkum sósíalistum, er dauðadæmdur af íslenzkum kjósendum. Þjóðin hefur þá reynslu af síðustu árum, að í eina skiptíð, sem hægt hefur verið að láta Íhaldið vinna þjóðnytjastarf, það var í samstarfi við sósíalista. Og í eina skiptið, sem Alþfl. sveik ekki allt, sem hann lofaði, það var þegar hann var dreginn á hárinu til samstarfs við sósíalista og neyddur til að vinna að umbótum, sem ríkisstj. Afþfl. er nú að eyðileggja. Svo hótar Stefán Jóh. Stefánsson að reka og reka alla hina óþægu, öll handbendi kommúnista, eins og hann orðar það. Stefán Jóhann er auðsjáanlega búinn að gleyma, hvað gerðist, eftir að hann rak Héðin Valdimarsson á árunum, — þá rak hann Reykvíkinga frá Alþfl. Nú ætlar hann að reka Hannibal Valdimarsson. Við óskum honum til hamingju með að reka Ísafjörð og Vestfirði frá Alþfl. Ég vil þó taka það fram til að fyrirbyggja misskilning, að Stefán Jóhann er ekki gerður út af okkur til að eyðileggja Alþfl. Hann tekur þetta upp hjá sjálfum sér. Þá, sem guðirnir vilja tortíma, svipta þeir vitinu. Ofstæki mannsins og ill samvizka, eitt af svikunum við fólkið, valda þessu sjálfskaparvíti.

Emil Jónsson sagði um fjárfestinguna á nýbyggingarreikningi, að Alþfl. hefði sett skilyrði um 300 millj. og eins hefði Sósfl. getað sett skilyrði um 500 millj. Hver er sannleikurinn um þetta? Sósfl. var búinn að semja við Sjálfstfl. um, að allar inneignirnar, 580 millj., yrðu lagðar á nýbyggingarreikning. En það var ekki hægt að mynda þá stjórn, nema Alþfl. yrði með, og hann gerði það að skilyrði, að nýbyggingarféð væri minnkað niður í 300 millj., og að því varð að ganga eða sleppa stjórnarmyndun og glata öllum þeim nýsköpunartækifærum, er þá voru.

Það, sem mest hefur borið á í ræðum stjórnarsinnanna í þessum umr., er uppgjöfin, uppgjöfin við að stjórna þessu landi. Þegar við Íslendingar loksins eftir 7 alda erlenda kúgun höfum aftur náð valdinu til þess að stjórna einir landi voru, þá koma þessir menn og hrópa: Við getum ekki selt ísfisk, við getum ekki selt freðfisk til Englands, nema ofurselja landið undir vald engilsaxnesku auðhringanna, sem fláðu okkur og féflettu fyrir stríðið. Þeir gefast upp á að stjórna þessu landi, þegar það er betur búið stórvirkum tækjum og auðugra að öllu en nokkru sinni fyrr í sögu þess. Þeir segja: Við verðum að fá ölmusu frá Ameríku til þess að geta lafað við völd. Og þeir hafa gert Íslendinga að styrkþegum, sett Ísland á ameríska hreppinn, og sjálfir eru þeir nú sem hreppstjórar, sem vægðarlaust beita kylfunum gegn öllum þeim, sem ekki vilja Ísland sem herstöð fyrir ameríska auðkýfinga og íslenzku þjóðina sem skákpeð fyrir auðkónga Wall Street.