11.11.1948
Neðri deild: 13. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1282 í B-deild Alþingistíðinda. (1582)

63. mál, lántaka handa ríkissjóði

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Engum blandast hugur um, að ríkisstj. er þörf á láni. Ég vil því stuðla að því, að ríkisstj. fái heimild til að taka þetta innanríkislán. Ég hefði samt sem áður talið heppilegra að fara aðra leið, t.d. með því að taka skyldulán eins og nýsköpunarstjórnin hafði í hyggju á sínum tíma, þar eð mikill auður er til í landinu og í fárra manna höndum. En fyrir því er enginn vilji í þinginu. Fé því, sem inn kemur af þessu láni, á svo að verja til að greiða lausaskuldir ríkissjóðs. Ég tel ekki rétt, að ríkissjóður leggi hart að sér til þess að greiða skuldir sínar við Landsbankann. Landsbankinn gengur hart eftir skuldum sínum, og ef mikið væri að því gert að afla fjár á þennan hátt, gæti það skert kaupgetu almennings, og er slíkt ekki heppilegt. Og þó að ríkið skuldi Landsbankanum nokkrar milljónir, voru 60–70 millj., en hefur lækkað allmikið, þá tel ég það engin ósköp, þegar þess er gætt, að þessi stofnun hefur grætt 30 millj. kr. síðustu 2 árin. Annars staðar væri stofnunin látin greiða mikinn hluta þessarar upphæðar til ríkissjóðs, og ef stofnunin væri í einkaeign, mundi hún vera látin greiða mjög háa skatta. Að minnsta kosti ætti ríkisstj. að tryggja sér, að bankinn væri viðráðanlegri með lánveitingar en nú er. Hvað snertir leið þá, sem valin hefur verið til lántökunnar, tel ég hana engan veginn heppilega, þó að háskólinn o. fl. hafi neyðzt til að nota hana. Og eru öll þessi happdrætti að verða hreinasta plága á almenningi, þó að menn í þessu tilfelli tapi ekki stofnfé sínu. Hins vegar vil ég vekja athygli ríkisstj. á því, að það er ekki viðkunnanlegt, þegar hafinn er áróður eins og í sumar, að koma fram með næstum blekkjandi fullyrðingar um gildi peninga, eins og komu fram a.m.k. í einu stjórnarblaðinu, Tímanum, þar sem verið er að segja fólki, að peningarnir verði meira virði eftir 15 ár heldur en nú. En þróunin hefur verið sú í 3 eða 4 síðustu aldirnar, að peningarnir hafa sífellt verið að lækka í verði, að vísu í bylgjum, en samt sem áður alltaf stefnt í lækkunarátt. Ég tel því ekki heppilegt að koma fram með neinar fullyrðingar í þessum efnum. Þá tel ég ekki heppilegt, að ríkið efli spilalöngun almennings til að hagnast á því. Hins vegar er ekki hægt að lá ríkinu, þó að þessa leið verði að velja. Ég mun því greiða frv. atkvæði, enda þótt ég hefði álitið aðra leið heppilegri. — Það er rétt að hraða málinu sem mest í gegnum þingið.