04.11.1948
Efri deild: 8. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1285 í B-deild Alþingistíðinda. (1602)

46. mál, eyðing svartbaks

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Efni þessa frv. er ekki alveg nýtt, því að það er flutt til áréttingar eldra frv., sem upphaflega er frá því árið 1936, en var endurbætt 1942. Frv. lætur lítið yfir sér, en hefur þó mikið að segja, því að efni þess er um að halda við varpi æðarfuglsins, en það er einhver ánægjulegasti, skemmtilegasti og ef til vill tiltölulega tekjudrýgsti atvinnuvegur landsmanna. Þar er ekki stefnt að því að drepa alidýrin, heldur nytja þau þannig, að sem allra bezt sé með þau farið og að þeim hlúð, og áherzla lögð á að eyða varginum, sem ásækir hann. Hefði meiri áherzla verið lögð á það undanfarið að vernda æðarfuglinn og hirða varplöndin með nákvæmni, þá væri æðarvarpið margfalt meira og arðbærara, en raun ber vitni, en það hefur oft ríkt misskilningur um þetta mál, og þess vegna er nú æðarvarpið að ganga úr sér. Annars hafa þessi lög, sem nú á að framlengja með þessu frv., sýnt sig að hafa nokkur áhrif til að eyða vargi úr varplöndunum, en þau hafa þó ekki orðið nægileg, því að ýmsir landeigendur, sem ekkert varp hafa, eru skeytingarlausir um að eyða svartbaknum, sem fær þá að ala upp unga sína í friði og kemur svo með þá niður í varplöndin. Ýmsir telja hættu á því, að varpið eyðileggist alveg, og víst er um það, að það hefur ískyggilega minnkað. Ég tel því, að landbrn. eigi að sjá um það, að samin verði og sett lög til verndar þessum atvinnuvegi, og ég ítreka það, sem ég minnist lauslega á í grg., að ég tel það ekki vansalaust að eyða 25 þús. kr. til þeirra, sem um varpið eiga að annast, en láta ekki nokkurn hlut eftir sig liggja til gagns fyrir þessa atvinnugrein, og verði ekki nú þegar hafizt handa um þetta atriði og ég fái um það skýr svör, þá get ég ekki rétt upp höndina til þess að samþ. fjárveitingu sem þessa, þar sem mönnum e greidd laun fyrir störf, sem þeir ekki vinna.

Ég þarf svo ekki að orðlengja þetta frekar. Ég geri ráð fyrir, að hv. d. líti velviljuð á þetta frv. og greiði fyrir því eða að minnsta kosti vísi því til 2. umr. og hv. landbn. Ég hef ekki viljað koma fram með rækilegra frv., vegna þess að slíkt frv. hefur átt nokkurri mótstöðu að mæta, einkum í hv. Nd., og vildi ég þá heldur tryggja það, sem hægt var, þar sem ég tel líklegt, að þessi lög standi, þar til verulegar umbætur verða gerðar með nýjum lögum.