18.10.1948
Neðri deild: 5. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1289 í B-deild Alþingistíðinda. (1619)

5. mál, niðursoðin mjólk

Pétur Ottesen:

Ég vil út af því, sem hæstv. viðskmrh. sagði um, að slakað yrði á aðflutningsbanninu á niðursoðinni mjólk, sem verið hefur í gildi alllengi, segja það, að það kann að hafa átt sér stað, að skortur hafi verið á niðursoðinni mjólk örstuttan tíma. Hitt er þó vitað, að búið hefur nú mjög bætt aðstöðu sína til þess að birgja landið fullkomlega. Eins og nú er komið, held ég, að ekki þurfi að verða skortur á þessari vöru. Það ætti ekki heldur að verða skortur á mjólkuraðflutningum til búsins, því að það svæði, sem flytur mjólk til búsins, hefur verið flutt út.

Það leiðir af sjálfu sér, að ef l. eru sett um aðflutningsbann, verður að tryggja það, að innlenda framleiðslan nægi. Ég vil taka undir það með hæstv. ráðh. En ég vildi benda á það, að þó að það hafi áður hent, að skortur hafi verið á niðursoðinni mjólk, er ekki ástæða til að ætla, að það verði nú, eins og búið er að búa í haginn um þetta. Ég vil gefa þessar upplýsingar um leið og ég legg áherzlu á það, að l. varðandi þetta verði ekki breytt.