18.10.1948
Neðri deild: 5. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1295 í B-deild Alþingistíðinda. (1623)

5. mál, niðursoðin mjólk

Flm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Þau lög, sem hér er farið fram á að breyta, lögin um innflutning á niðursoðinni mjólk, eru búin að gilda í 15 ár, og það er fyrst nú, sem ég heyri það hjá hæstv. viðskmrh., að það sé hættulegt að láta þau gilda áfram. Varðandi þurrmjólkina er, eins og áður er tekið fram, ekki nokkur ástæða til, að um hana gildi önnur ákvæði, en um niðursoðna mjólk. Það eina, sem hér um ræðir af því, sem hæstv. viðskmrh. benti á, er það, að vélar bili hjá fyrirtæki, er framleiðir þessa vöru. Það getur komið fyrir undir þeim kringumstæðum, að landbrh. eða viðskmrh. veiti undanþágu, að vélar bili og sú bilun orsaki langa stöðvun.

Þar sem hæstv. viðskmrh. var að reyna að verja þær ráðstafanir, sem hér hafa verið framkvæmdar með innflutningi á þessari þurrmjólk, þá þykir mér leitt, að svo merkur maður skyldi vilja taka að sér að verja þetta, því að það er óverjandi. Frammistaðan er óverjandi. Hvers vegna var ekki leitað álits þeirra aðila, sem hlut eiga að máli? Hvers vegna var ekki beðið um vöruna hjá því fyrirtæki, sem framleiddi hana? Það hefur verið tekið fram, að það er gengið fram hjá framleiðsluráði landbúnaðarins og landbrh. og varan er flutt inn til þess að spilla fyrir markaði hjá hinu nýja fyrirtæki, sem sett er upp til þess að fullnægja þeirri þörf, sem skapazt hefur í landinu hjá efnagerðum, fyrir þessa vöru. Ég vænti þess vegna, að þær mótbárur, sem fram hafa komið gegn þessu frv., verði ekki til þess, að það fái ekki greiðan gang gegnum hæstv. Alþingi.